Fréttablaðið - 25.04.2004, Blaðsíða 29

Fréttablaðið - 25.04.2004, Blaðsíða 29
22 25. apríl 2004 SUNNUDAGUR Við hjónin kunnum stórkost-lega við okkur í Svíþjóð. Land- ið er fallegt og skemmtilegt og Svíar taka vel á móti Íslending- um,“ segir Svavar Gestsson, sendiherra Íslands í Svíþjóð. Hann neitar því ekki að hann sakni þess einstaka sinnum að vera ekki virkur á hinum pólitíska vettvangi en hyggur ekki á endur- komu í íslenska pólitík. „Sendiherrastarfið er ekki svo ólíkt hinu pólitíska starfi og þetta er minni breyting en margir halda,“ segir Svavar. „Það að vera stjórnmálamaður snýst ekki bara um það að standa í ræðustól og vera í sjónvarpi. Það að vera stjórnmálamaður er að vinna með fólki, skapa hreyfingu og skipu- leggja atburði. Það er ég að gera í þessu starfi.“ Menning og viðskipti Svavar segir tvennt standa upp úr á þessu ári er varðar samskipti Íslands og Svíþjóðar. „Annars vegar eru það menningaratburðir. Sá stærsti var á dögunum þegar Guðbergur Bergsson fékk Nor- rænu bókmenntaverðlaunin frá sænsku akademíunni. Það var stór stund fyrir Ísland og vekur áhuga á bókum Guðbergs um all- an heim. Þetta er í þriðja sinn sem sænska akademían veitir Íslend- ingi bókmenntaverðlaun. Þau fyrstu voru Nóbelsverðlaunin til Halldórs Laxness en síðan fékk Thor Vilhjálmsson norræn bók- menntaverðlaun akademíunanr 1992 og nú Guðbergur. Framund- an eru heimsóknir margra rithöf- unda: Sjón er á leið hingað því inn- an skamms kemur út á sænsku bók hans, Með titrandi tár, og sér- stök kynning verður á bókinni. Er líður á sumarið kemur Steinunn Sigurðardóttir. Seinna á árinu mun síðan Vigdís Grímsdóttir koma og kynna bækur sínar. Og svo kemur Einar Már hingað með haustinu en hann á mikinn fjölda sænskra aðdáenda. Annað sem verður að nefna er starf okkar að viðskiptamálum og sérstaklega opnun íslenska við- skiptanetsins í Svíþjóð. Með því er skapaður samstarfsvettvangur fyrir íslensk og íslensk-tengd fyrirtæki í Svíþjóð, þeim opnuð leið hvert að öðru og möguleikar skapaðir á því að sendiráðið að- stoði þau ef þörf krefur. Auðvitað skiptir það máli fyrir fyrirtæki, alveg eins og einstaklinga, að sendiráðið sé lifandi, áhugasamt og kraftmikið. Tilgangurinn með sendiráði í Svíþjóð er að skapa hreyfingu í samskiptum Íslands og Svíþjóðar. Stór og ný íslensk fyrirtæki hafa haslað sér völl hér í Svíþjóð; Kaupþing Baugur, Össur, Bakkavör. Þessi fyrirtæki velja Svíþjóð fremur en ýmis önnur lönd af einhverjum ástæðum. Hér er stærsta kauphöll á Norðurlönd- um sem er jafnstór og samanlagð- ar kauphallir allra hinna Norður- landanna. Efnahagslegur styrkur Svíþjóðar kemur meðal annars fram í þessu.“ Hef yndi af sænskri um- ræðuhefð Í augum vinstri manna hefur Svíþjóð lengi verið eins konar fyrirmyndarríki. „Það er margt gott í sænsku þjóðfélagi,“ segir Svavar, „en maður sér vandamál í efnahagskerfinu. Svíar eiga við hagvaxtarerfiðleika að stríða. Þeir hafa ákveðið að skera niður kjarnorkuverin og á sama tíma er ekki alveg ljóst hvað á að koma í staðinn. Þannig að menn eru að glíma við flókin viðfangsefni í sænsku efnahagslífi. Jafnaðar- mannaflokkurinn er stóri flokkur- inn í Svíþjóð og sterki stjórnmála- maðurinn er Göran Persson, for- maður jafnaðarmannaflokksins. Stóri stjórnmálaflokkurinn á Ís- landi hefur löngum verið Sjálf- stæðisflokkurinn og sterkur leið- togi hans er Davíð Oddsson. Það er ekki hægt að neita því að mað- ur sér ýmislegt líkt í nálgun og efnistökum þessara flokka þótt pólitík þeirra sé auðvitað ólík. Fyrir mig sem fyrrverandi stjórnmálamann er skemmtilegt að fylgjast með sænskri umræðu- hefð. Fólk hefur gaman af að ræða hlutina, spyrja erfiðra spurninga og brjóta hluti miskunnarlaust til mergjar. Ég hef yndi af að taka þátt í slíkri umræðu, hvort sem hún er um pólitík, menningarmál eða annað. Þessi kúltúr í sænsku þjóðfélagi er mjög áhugaverður og skemmtilegur. Svavar segir Svía hafa fölskvalausan og einlægan áhuga á Íslandi og íslenskri menningu og segir Snorra Sturluson vera fræg- asta Íslendinginn í Svíþjóð og hann sé oftar nefndur á nafn þar en á Íslandi. „Það er mikill áhugi hér í Svíþjóð á Íslandi og fyrir- varalaus velvilji gagnvart land- inu. Þeir Svíar sem maður þekkir og hafa ekki farið til Íslands segj- ast verða að koma þangað áður en þeir deyi. Það er næstum eins og þeim finnist að þar séu ræturnar. Samskiptin milli Íslands og Sví- þjóðar eru glettilega mikil. Sakna Íslands Það kom mörgum á óvart þeg- ar Svavar sneri við blaðinu og hætti í stjórnmálum til að gerast sendiherra. Þegar hann er spurð- ur um ástæðuna segir hann: „Það var ósköp einfaldlega þannig að félagar mínir í Alþýðubandalag- inu fóru í tvær áttir og ég ákvað að taka ekki þátt í að vega að öðr- um frekar en hinum. Þetta var pólitísk ákvörðun sem ég var mjög sáttur við. Ég var búinn að halda Alþýðubandalaginu saman af mikilli hörku í um fimmtán ár. Svavar Gestsson, sendiherra Íslands í Svíþjóð, hyggur ekki á endurkomu í pólitík. Hann unir hag sínum vel í Stokkhólmi þótt hann sakni Íslands. Hann er byrjaður að skrifa og safna gögnum fyrir pólitíska ævisögu sína. Svavar gerir upp pólitíkina SVAVAR GESTSSON „Maður kynnist ýmsu í lífinu sem breytir manni. Skoðanir mínar hafa samt ekki breyst í grundvall- aratriðum. Mótorinn innan í manni er sá sami: Jafnrétti, lýðræði, Ísland. Þetta þrennt í einhverjum hlutföllum. Þetta er fínn mótor fyrir sendiherra.“ Innanflokksátökin í Alþýðubandalaginu voru þreytandi en ég er frek- ar þolinmóður pólitískt að minnsta kosti og það er kannski ein ástæða þess að ég get verið sendiherra, því þolinmæði er eiginleiki sem ekki er verra að hafa ætli menn sér að starfa í utanrík- isþjónustunni. Ég er hins vegar ekki þolinmóður í verkum mínum frá degi til dags svo ég lýsi því ekki nánar. Ég var ekki orðinn þreyttur á innanflokksátök- unum í Alþýðubandalaginu en aðrir voru það og átökin voru oft leiðinleg af því þau voru persónuleg og beinlínis slítandi. ,,

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.