Dagblaðið Vísir - DV - 16.12.2016, Blaðsíða 40

Dagblaðið Vísir - DV - 16.12.2016, Blaðsíða 40
Helgarblað 16.–19. desember 201632 Menning Hinn eftirminnilegi Stormur Einar Kárason segist vera búinn að kveðja Storm, allavega í bili, með skáldsögunni Passíusálmarnir Í Passíusálmunum, nýjustu skáld- sögu sinni, heldur Einar Kárason áfram að segja frá Stormi sem við kynntumst í samnefndri bók. Í Passíusálmunum sér Stormur ástæðu til að leiðrétta ýmislegt sem fram kom í Stormi og höfundurinn, Einar Kárason, og fleiri skjóta inn sín- um sjónarmiðum. Passíusálmarnir eru, líkt og Stormur, stórskemmtileg bók, sannur skemmtilestur. Ýmislegt í Passíusálmunum fram- kallar minningar um félaga Einars, Þórarin Óskar Þórarinsson, Agga, sem sagðist eitt sinn hafa skapað persónur Djöflaeyjunnar, hinnar víðkunnu skáldsögu Einars. Einar er spurður hvort það liggi ekki í augum uppi að Aggi sé fyrirmyndin að Stormi. „Það er heilmikið af sjálfum mér í persónum þessara tveggja bóka og sömuleiðis ýmsum vinum mínum, þar á meðal þeim sem þú nefnir. En það er ekki þar með sagt að það sem hafi komið fyrir Storm hafi nokkurn tímann komið fyrir hann. Eða að hann hafi sagt það sem þar er.“ Hefur Aggi lesið Storm og Passíu- sálmana? „Já, hann er mjög sáttur. Honum þykja svona bækur skemmtilegar. Að sumu leyti er frásagnartónn bókanna innblásinn af höfundi sem okkur finnst báðum mjög skemmtilegur, sem er Charles Bukowski. Þegar ég byrjaði að skrifa Storm langaði mig til að hafa bókina dálítið í hans kald- hæðna stíl.“ Stormur er mjög eftirminnileg að- alpersóna og á sannarlega sína aðdá- endur. Heldurðu að þriðja bókin um hann eigi eftir að líta dagsins ljós? „Stundum er það þannig að höf- undur er búinn að skrifa eina bók um ákveðið fólk og sér svo að það vantar aðra bók. Í þessu sambandi hef ég vitnað í Jennu og Hreiðar með Öddu- bækurnar. Mér dettur líka í hug Stef- án Jónsson, þegar hann var búinn að skrifa Sumar í Sóltúni, þá beið eftir honum bókin Vetur í Vindheimum. Einhvern tímann seinna getur vel verið að það liggi beint við að skrifa þriðju bókina um ævintýri Storms og okkar hinna sem þar koma fram. En þessu er lokið í bili.“ Stolið frá Göbbels Passíusálmarnir er margradda saga eins og Stormur og Sturlungabækur þínar. Hvað finnst þér svo heillandi við það að láta persónur skiptast á að segja söguna? „Ég hafði verið að hugsa um að skrifa bók um karakter eins og Storm alveg frá því ég lauk við Djöflaeyju- þríleikinn en vissi ekki hvaða form hentaði slíkri sögu. Um þetta leyti, í kringum aldamótin, kom út bók eftir Graham Swift, enskan höfund, Last Orders, Hestaskál. Höfundurinn fylgdi því formi sem William Faulkner gerði frægt, að hoppa á milli persóna. Ég var að byrja að skrifa um Storm og ákvað að nota þetta form. Af ýms- um ástæðum ákvað ég svo að það væri ekki rétti tíminn til að skrifa um Storm. Ég var með drög að öðru verki sem var sagan um Þórð kakala og ákvað að prófa þetta margradda form þar og sá að það hentaði frábærlega. Þegar ég tók svo aftur upp þráð- inn með Storm þá leitaði ég að hent- ugu formi. Hinar tvær klassísku frá- sagnaraðferðir eru fyrstu persónu frásögn þar sem aðalpersónan hefur orðið allan tímann og þriðju persónu frásögn þar sem alvitur höfundur horfir ofan af. Ég vildi láta rödd Storms heyrast en vildi samt ekki að það væri eina röddin sem heyrðist því sú rödd hefði orðið of yfirþyrm- andi. Ef ég hefði haft verkið í þriðju persónu þá hefði ég um leið misst rödd Storms og sýn hans á fólk og að- stæður. Ég ákvað að nota margradda frásögn. Stormur og Passíusálmarnir eru náskyldar og það er algjörlega lógískt að það sé sama form á þeim, rétt eins og Enid Blyton hefði ekki farið að hringla með formið á ævin- týrabókunum.“ Það hlýtur að vera nokkur kúnst að gefa mörgum persónum ólíka rödd og finna þeim sérkenni. „Það var áskorunin og mesta vinn- an sem fólst einmitt í þessu. Þegar ég skrifaði Ofsa var ég með mann sem hegðar sér mjög órökrænt, sem er Eyjólfur ofsi. Ég var mjög lengi að finna karakterinn. Það gerðist ekki fyrr en ég las í bandarísku tímariti endursagnir á dagbókum Joseph Göbbels. Þar fann ég röddina fyrir Eyjólf ofsa. Svona finnur maður alltaf eitthvað, þó að maður þurfi að stela því frá Göbbels.“ Ánægjulegar návistir Þessi bók einkennist, eins og lang- flestar bækur þínar, af mikilli frá- sagnargleði. Líður þér yfirleitt vel þegar þú ert að skrifa? „Ég sest niður til að skrifa þegar ég finn að ég muni hafa gaman af því. Mjög margir höfundar segjast sitja við marga klukkutíma á dag, jafnvel þótt ekkert sé að gerast. Ég hef allt aðra aðferð við þetta. Ég undirbý mig mjög vel og allt kvöldið og allan næsta morgun er ég að forma það sem ég ætla að gera. Í raun er þetta ekkert ósvipað því þegar fólk veit að það á að halda tækifærisræðu. Maður veit um miðja viku að maður á að halda tæki- færisræðu á laugardagskvöldi. Fram að því er maður með þetta í hausnum: hvernig á að byrja, hvernig á að enda, hvað á að segja. Maður getur sagt að það sé fjögurra til fimm daga vinna að semja tækisfærisræðu ef hún á að vera góð en hins vegar er maður ekki nema korter til tuttugu mínútur að flytja hana. Þegar ég er tilbúinn sest ég niður og skrifa. Þá er ég kominn í gott form og hef mjög gaman af þessu. Þegar maður er kominn á skrið þá fer yfir- leitt eitthvað að gerast, þá flýtur eitt- hvað með sem maður hafði ekki hugsað út í áður. Þegar ég byrjaði á Passíusálmunum vissi ég að ég myndi hafa mjög gaman af því. Ég hef ánægju af því að vera í návistum við þetta fólk. Þannig að þú hefur rétt fyrir þér þar.“ n Einar Kárason „Ég hafði verið að hugsa um að skrifa bók um karakter eins og Storm alveg frá því ég lauk við Djöflaeyju-þríleikinn.“ Mynd SiGtryGGur Ari „Þegar ég byrjaði á Passíusálmunum vissi ég að ég myndi hafa mjög gaman af því. Kolbrún Bergþórsdóttir kolbrun@dv.is

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.