Morgunblaðið - 19.02.1977, Page 15

Morgunblaðið - 19.02.1977, Page 15
MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 19. FEBRUAR 1977 15 Hvers vegna hlutafélög? „Samvinnumenn hafa oft á orði, að það sem skilji samvinnufélagsformið frá hlutafélagaforminu sé að fjármagnið ráði atkvæðamagni i hlutafélögunum — eða eins og Jónas Jónsson frá Hriflu orðaði það: „Hlutafélögin verða gulltáknið, sem menn mæna á, félagsform efnahagslegrar stigamennsku'*. Nú á Samband íslenzkra samvinnufélaga eigaraðild að nokkrum hlutafélögum, svo sem Dráttarvélum h.f., Meitlinum h.f. í Þorlákshöfn, Ölíufélaginu h.f., Samvinnubankanum h.f. og Samvinnuferðum h.f. Tel- ur þú slíka þátttöku samvinnuhreyfingarinnar sam- rýmast hugsjónum hennar?" „Varðandi ummæli Jónasar frá Hriflu, held ég að hafa ætti orðið stigamennska innan gæsalappa. Menn láta ýmis orð falla i hita baráttunnar og hægt er að finna ýmsar tilvitnanir í garð samvinnuhreyfingarinn- ar, sem ekki eru fallegar. Látum því tilvitnun í orð Jónasar liggja milli hluta, en ræðum kjarna spurningarinnar. Það hefur af sa.nvinnumönnum ver- ið talið nauðsynlegt að koma ákveðinni starfsemi fyrir í hlutafélagsformi og má í því sambandi benda á, að þetta er ekkert einsdæmi hér á landi. Sænska sam- vinnuhreyfingin, sem talin er til fyrirmyndar að mörgu leyti, hefur með hendi ýmsa starfsemi sem rekin er í hlutafélögum. Þegar Samvinnubankinn var settur á stofn var t.d. hlutafélagaformið talið heppi- legra og hentaði bezt, þar sem nauðsynlegt var talið að bankinn gæti komið sér upp eigin fé til tryggingar starfseminni. Það var talið auðveldara í formi hluta- félags. Starfsemi bankans gekk vel á siðasta ári og nú hefur verið auglýstur aðalfundur og þar verður borin fram tillaga um útgáfu jöfnunarhlutabréfa og aukn- ingu á hlutafé bankans. Verður almenningi þá væntanlega gefinn kostur á að auka kaup hlutabréfa í bankanum. Um Olíufélagið h.f. er það að segja, að á sínum tíma, þegar það var stofnað, var talið æski- legt að fá til samstarfs aðila utan samvinnu- hreyfingarinnar, þ.á m. frá olíusamlögum, út- gerðarfélögum og sveitarfélögum. Ég hef þá skoðun að samvinnu- hreyfingin eigi alls ekki að útiloka samstarf við aðra aðila. t kaupfélog- unum hefur samstarf við aðra aðila gefizt vel m.a. um fiskvinnslu- fyrirtæki. Þannig er t.d. háttað um Fiskiðjuna á Húsavík, þótt Kaup- félag Þingeyinga sé þar að vísu stærsti hluthaf- inn. Þar eru útgerðar- aðilar einnig eigendur fyrirtækisins. Við höf- um einnig dæmi um samstarf kaupfélags, hreppsfélags og verka- lýðsfélags í hlutafélagi, sem rekið hefur frysti- hús og fiskvinnslustöð. Þess ber og að gæta, að hlutafélagaíormið þarf ekki að koma í veg fyrir að ekki sé unnt að veita afslætti til við- skiptamannanna, enda hefur það verið gert. Fiskiðjan á Húsavík hefur veitt verðbætur til sjómanna, þegar rekstur hennar hefur gengið vel. Munurinn á hluta- félögum og samvinnufélögum er hins vegar sá, að í samvinnufélögum hafa menn — eins og ég sagði áður — atkvæði án tillits til eignarhluta. Tekjuafgangi er síðan úthlutað i hlutfalli við gerð viðskipti, en ekki í hlutfalli við eignaraðild. Ég fer ekki dult með þá skoðun mína, að starfsemi Sambands íslenzkra sam- vinnufélaga og samvinnuhreyfingin í heild er nauð- synlegur þáttur í þjóðarbúskap íslendinga á sama hátt og starfsemi samvinnufélaga í nágrannaþjóðfélögum okkar er. Til Norðurlandanna hafa íslendingar sótt marga fyrirmynd, enda ísland eitt þeirra. Á öllum Norðurlöndunum er samvinnuhreyfingin mjög öflug og eflir samkeppni við einkaframtak og ríkisrekstur.“ Lög gegn hringamyndun? „En er slík fyrirtækjasamsteypa sem Sambandið er hér á landi ásamt öllum samstarfsfélögum þess ekki orðin það stór, að t.d. í Bandaríkjunum mundi hún falla undir svokölluð ,,antitrust“-lög og verða þar með leyst upp?“ „Að mínu mati alls ekki,“ sagði Erlendur Einarsson. „Það er ekkert sambærilegt við þetta. Gera verður greinarmun á eðli fyrirtækja. Samvinnufélög í Banda- rikjunum eru einnig undanþegin þessum lögum þar. Um samvinnufélög gilda i Bandaríkjunum sérstök lög frá 1922. Einn megintilgangur anti-trustlaganna er að koma i veg fyrir einokun i verðmyndun. Stór fjöl- þjóðafyrirtæki eru stofnuð I þvi augnamiði að afla fjár og fólk er fengið til þess að leggja fé i þau til þess að ávaxta það. í samvinnufélögum er hagnaður endur- greiddur i hlutfalli við viðskipti, en ekki í hlutfalli við eignaraðild." „Endurgreiða samvinnufélögin tekjuafgang?" „Þegar svara á þessari spurningu verður að fara allt aftur til ársins 1844, þegar vefararnir í Rochdale á Englandi stofnuðu fyrsta kaupfélagið með hinum svo- nefndu Rochdale-reglum, sem hafa verið grundvallar- reglur í starfsemi samvinnufélaga fram á þennan dag. Eitt atriðið í þessum reglum er það, að vörur eru seldar á gangverði, en tekjuafgangurinn síðan endur- greiddur i lok hvers árs — ef hann er þá fyrir hendi. M.ö.o., það átti að skila til baka hluta af söluverði,i varanna, því sem fram yfir reyndist vera, þegar greiddur hafði verið kostnaður og lagt hafði verið í sjóði. íslenzku kaupfélögin tóku upp þetta fyri- komulag, opnuðu sölubúð, seldu á gangverði og skiluðu síðan tekjuafganginum til baka. Árið 1906 reið Hallgrímur Kristinsson, þáverandi kaupfélagsstjóri Kaupfélags Eyfirðinga, á vaðið í þessu efni og önnur félög fylgdu á eftir. Fram á þennan dag hefur þessi Rochdale-regla verið viðhöfð innan samvinnu- hreyfingarinnar. Þróunin undanfarin ár hefur þó orðið sú, að minna hefur verið um endurgreiðslur i kaupfélögunum, m.a. vegna þess að verðbólgan og strangar verðlagsreglur hafa stuðlað að því að lítið eða ekkert var til endurgreiðslu. Þá hafa kaupfélögin og í ríkari mæli farið inn á þá braut að veita félags- mönnum sínum afslátt út á svokölluð afsláttarkort, sem raunverulega hefur þýtt lægra vöruverð. Hvað varðar Sambandið hefur það veitt kaupfélögunum endurgreiðslu og þar með fyigt Rochdale-reglunni. Endurgreiðslan hefur verið í formi afsláttar í hlutfalli við vörukaup og einnig endurgreiðsla á tekjuafgangi. Auk þess hefur Sambandið veitt kaupfélögunum vaxtalausan greiðslufrest á vörukaupum að vissu marki.“ Og Erlendur Einarsson heldur áfram: „Samvinnufélög erlendis hafa flest reynt að halda sig við Rochdale-regluna, þ.e.a.s. að endurgreiða tekju- afgang, en verulegar breytingar hafa orðið á því á síðustu árum, m.a. vegna samkeppninnar, en vegna hennar hefur verið talið nauðsynlegt að lækka útsölu- verðið í stað þess að endurgreiða tekjuafgang. Mér þykir rétt að vekja athygli á þeirri staðreynd, að ekki er rekstrargrundvöllur fyrir verzlun með nauðsynja- vörur í dreifbýli eins og nú er komið. i þessu sambandi má minna á, að 17 kaupfélög voru á árinu 1975 rekin með halla. Samtals nam þessi halli 89 milljónum króna. Þessi halli hefði orðið meiri, ef ekki hefðu komið til endurgreiðslur frá Sambandinu. Til þess að fá rétta mynd ber að hafa í huga að eitt kaupfélaganna, sem er meðal þessara hallareknu félaga, stóð í miklum framkvæmdum í sjávarútvegi og nam halli þess 32 milljónum króna. Samtals voru endurgreiðslur Sambandsins fyrir árið 1975 147,5 milljónir króna.“ „Hvers vegna telja samvinnumenn skattfríðindi samvinnufélaga réttlætanleg? Rýra þessi skattfríðindi ekki samkeppnisaðstöðu annarra félagsforma, svo sem einkareksturs og hlutafélaga, sem eiga í beinni sam- keppni við samvinnurekstur? „Samvinnufélög hafa ekki skattfríðindi eins og skattalög eru i dag,“ sagði Erlendur Einarsson, og hann útskýrði það nánar: „Samvinnufélög borga sömu skatta og t.d. hlutafélög af öllum gjaldstofnum, nema af tekjuskattstofni. Það er eðli samvinnufélaga að endurgreiða tekjuafgang, sem þá er talinn til sparn- aðar félagsmanna. Það er ekkert sem mælir á móti því, að hlutafélög veiti afslátt til sinna viðskiptamanna, sem er þá skattfrjáls á sama hátt og endurgreiðsla til samvinnufélaga. Varðandi það atriði að endurgreiða tekjuafgang í stofnsjóð, sem afslátt af viðskiptum, er talinn hefur verið sparnaður félagsmanna og að greiða vexti af slíkri stofnsjóðsinnstæðu, sem frádráttar- bærir eru, þá er rétt að vekja athygli á því, að hlutafélög hafa haft möguleika á að gefa út jöfnunar- hlutabréf til eigenda sinna. Þannig hafa eigendur hlutafélaga getað fengið skattfrjálsa eign út úr rekstri félagsins og arðgreiðsla, sem er frádráttarbær að vissu marki, hefur getað vaxið með útgáfu jöfnunarhlutabréfa. Þannig hafa hlutafjáreigendur getað fengið skattfrjálsar eignir ekki sízt í mikilli verðbólgu." Styður SÍS framsóknarblöðin? „Hvernig var háttað stofnframlögum Sambandsins og kaupfélaganna til Tímans og Dags á Akureyri. Fá þessi blöð einhverja fjárhagslega fyrirgreiðslu frá þessum fyrirtækjum nú?“ „Mér er ekki kunnugt um það, hvort Sambandið hafi lagt fram stofnframlag til þessara blaða fyrir 60 árurn," sagði Erlendur Einarsson. „Það eru mörg ár frá því er þessi blöð voru stofnuð, en hitt mun rétt, að þessi blöð hafa verið baráttutæki samvinnu- hreyfingarinnar lengst af og tekið upp málstað hennar. Það mun og hafa viðgengizt að samvinnu- fyrirtæki auglýstu í þessum blöðum sem og í öðrum blöðum, t.d. i Morgunblaðinu. Ég tel slíkt ekki beina styrki. Það er eðlilegt að samvinnufélög auglýsi i þessum blöðum. Þau eru mikið lesin af félagsmönnum samvinnuhreyfingarinnar." Hugsjónatengsl „Hver eru tengsl Sambands íslenzkra samvinnufélaga og- Framsóknarflokksins?" „Það eru engin tengsl rnilli Sambandsins og Framsóknarflokksins önnur en þá hugsjóna- tengsl. Framsóknar- flokkurinn hefur haft samvinnustefnu á stefnuskrá sinni frá því hann var stofnaður og margir Framsóknar- ntenn eru samvinnu- menn. Önnur tengsl eru ekki.“ „Eru ekki eingöngu framsóknarmenn í stjórn SÍS?" „Það var sú tíð að svo var, en hún er liðin. Al' 9 stjórnarmönnum Sam- bandsins eru 2 full- trúar, sem tilheyra ekki Framsóknarflokknum. Á hinn bóginn er það kannski ekki öeðlilegt að framsóknarmenn sitji i stjórn Sambands- ins á santa hátt og meg- inþorri manna i stjórn Verzlunarráðs íslands eru sjálfstæðismenn og að i stjórn Alþýðusam- bands íslands sitji að mestu fulltrúar Alþýðu- bandalagsins og Al- þýðuflokksins. Annars eru stjórnmál ekki rædd í stjórn Sambandsins. Þar fara aðeins fram málefnalegar umræður um stjórn fyrirtækisins og samvinnuhreyfinguna. Það er skoðun mín, að þeir menn, sem áhuga hafa á sam- vinnumálum og sýna það i verki, eigi kost á að komast til áhrifa í kaupfélögunum og Sambandinu án tillits til stjórnmálaskoðaná.“ „Nú er starfið innan samvinnuhreyfingarinnar tví- þætt. Annars vegar viðskiptalegur þáttur og hins vegar félagslegur. Er ekki félagsleg deyfð í samvinnu- hreyfingunni?" „Félagsmálaáhugi er ekki eins mikill og æskilegt væri og ekkert í líkingu við það sem áður var, þegar menn voru að brjótast úr sárri fátækt með samvinnu- starfi, á tímum, þegar lífió snerist um brauðstrit öðru fremur. Velmegun og efnishyggjan hafa deyft félags- málaáhuga bæði í samvinnuhreyfingunni og öðrum félagasamtökum. Þó ber þess að geta að fundarsókn er víða góð, þegar deildafundir eru haldnir eða þegar rædd eru sérstök málefni bændanna. Það er hins vegar erfiðast að fá fólk til að sækja fundi í þéttbýl- inu. Stjórn Sambandsins vill gjarnan stuðla að þvi að auka þátttöku félagsmanna í samvinnustarfi og þess vegna ákvað hún, að næsti aðalfundur Sambandsins, sem haldinn verður í Reykjavík dagana 14. og 15. júni, yrði sérstaklega helgaður félagsmálum samvinnu- hreyfingarinnar um leið og 75 ára afmælisins verður minnzt. Um þetta hefur þegar verið samin ýtarleg greinargerð, sem send hefur verið kaupfélögunum, þar sem málin verða rædd og tillögur gerðar, sem koma eiga að notum við umræður á aðalfundinum.“ Framhald á bls. 27

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.