Morgunblaðið - 27.03.1979, Síða 12

Morgunblaðið - 27.03.1979, Síða 12
12 MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 27. MARZ 1979 Valtýr Pétursson listmálari sextugur Ljósm. Guðmundur Ingólfsson Afmæliskveðja til Valtýs Nestor íslenskra myndlistar- gagnrýnenda, Valtýr Pétursson, verður sextugur í dag. Svona líður tíminn hratt. Ekki þykur undirrit- uðum ýkja langt síðan Valtýr var í eldlínunni og hjó stórum á báða bóga svo sem ungum fullhugum er tamt. Hann er þá einn af framúr- stefnumönnum tímanna, boðberi nýrra viðhorfa, nýs sannleika og ómyrkur í máli um fánýti eldri viðhorfa. Valtýr var umdeildur mjög sem málari og listrýnir og er enn, því að hann hefur ekki látið deigan síga í meðhöndlun pent- skúfsins og skriffæranna. Valtýr hefur sýnt ótrúlega og lofsverða þrautseigju við að haida upp myndlistarrökræðu með skrifum sínum um sýningar og myndlist almennt. Hér á hann met, sem seint verður slegið, en það múnu vera liðin 27 ár, frá því að hann tók að sér þetta erfiða og vanþakk- láta starf. Oft hefur verið á hann ráðist á opinberum vettvangi og hugarfarið til gagnrýnenda var um eitt skeið slíkt, og er um margt ennþa, og er um margt ennþá, að öruggast væri að ganga í skot- heldu vesti og helst halda lífvörð! En Valtýr hefur *ekið þessu msð stóiskri ró og brýnir fyrir okkur yngri grænjöxlunum að svara ekki slíkum skeytum frá hneyksluðum borgurum eða jafnvel þolendum skrifa okkar. Öfundsvert er starfið ekki, eins og vel menntuð listakona sagði í ágætu viðtali í Lesbók um helgina. Hins vegar er myndlistar- rökræða á opinberum vettvangi lífsnauðsynleg, þar sem myndlist er á annað borð stunduð af alvöru og mætti vera almennari en hún er. Fordómar gagnvart listrýni eru, svo sem flestir vita, sérdeilis miklir hér norður við Dumbshaf og jafnvel halda margir, að menn taki að sér starfið fyrir stráksskap og til að klekkja á náunganum! Valtýr hefur lifað skeið meiri og hraðari breytinga á sviði mynd- listar en nokkurn tíma hefur áður gerst í listasögunni, og það gefur auga leið, að ekki hefur verið heiglum hent að vera listrýnir á þessu tímabili. Eldri listgildum hefur verið kollvarpað og ný gildi rutt sér rúms, þeim hefur sömu- leiðis fljótlega verið varpað fyrir róða, sem óalandi og óferjandi. Því vissari, sem menn hafa verið um að loks hafi þeir höndlað hið eina og rétta, þeim mun skemur hefur það staðið við! Skoðanir gagnrýnenda breytast svo sem skoðanir annarra, slíkt er óhjákvæmilegt og víst er, að Val- týr hefur sjóast á þessu umbrota- skeiði og orðið reynslunni ríkari. Ekki hafa skoðanir okkar alla tíð farið saman, og höfum við ýmsa hildi háð hér á síðum blaðs- ins, eins og lesendum mun kunn- ugt. Þá er þjóðinni skemmt, er gagnrýnendur gagnrýna hver ann- an. En ég tel þetta einmitt mjög heilbrigt og sönnun þess, að ekki er um einstefnu að ræða í mynd- listarskrifum blaðsins og þá síður tilbúnar skoðanir. Gagnrýnendur eru öðru fremur undir smásjá almennings. Haldi þeir staðfastlega við skoðanir sín- ar, nefnist það iðulega íhaldsemi, en breytist þær, heitir það óstöðugleiki! Hvað um það, aðal- atriðið er að hafa einhverjar skoð- anir og halda þeim einarðlega fram, og það álít ég Valtý hafa gert í gegnum tíðina. og enginn getur frýjað honum þess, að hann hafi ekki verið sjálfum sér sam- kvæmur. Valtýr var um langt skeið í fylkingarbroddi í samtökum myndlistarmanna og þar var hann fastur fyrir og fylginn sér ekki síður en á ritvellinum. Mættu þau minnast starfa hans á þessum tímamótum og gjarnan endur- vekja gamla og góða hefð um sýningarhald í tilefni tímamóta í lífi félagsmanna. Víst er það að- kallandi, að haldin verði myndar- leg yfirlitssýning á verkum Valtýs Péturssonar, svo að menn fái rétta mynd af hónum sem listamanni, en hann hefur margt brallað á myndlistarsviðinu og mun m.a. hafa gert fyrstu geometrísku myndina, er máluð var á íslandi og þarmeð innleitt þennan myndstíl, sem um langt skeið var allsráð- andi sem framúrstefna hérlendis. Hann hefur alla tið verið virkur og afkastamikill myndlistarmað- ur, haldið fjölda einkasýninga heima og erlendis og tekið þátt í ótal samsýningum vítt um heims- byggðina. Listamaðurinn er m.a. \nýkom- inn frá Frankfurt am Main, þar sem hann sýndi nokkur málverk í virtum sýningarsal og gerði góða för. Valtýr var í mörg ár fararstjóri í kynnisferðum til Kulusuk í Grænlandi, og þótt slíkar ferðir taki ekki nema hálfan dag, eru þær með því ævintýralegra, er menn upplifa. Aðallega eru það útlendingar, sem fara í þessar ferðir, og koma sér þar vel hin ágæta málakunnátta Valtýs og reynsla hans við að umgangast ólíkar manngerðir, en hann hefur víða farið og margt reynt. Hann tók mig óvænt og óverðskuldað í eina slíka ferð fyrir 10 árum, og er sá dagur einhvern veginn svo fast greyptur í hugskoti mínu, að mér finnst sem þetta hafi gerst í gær. Þetta var fallegur og skinandi bjartur dagur og litla þorpið Kulusuk og umhverfi skartaði sínu fegursta. Ég tel, að kynni Valtýs af hinum frumstæðu íbúum þorpsins og hinni upprunalegu menningu Grænlendinga hafi haft djúp áhrif á hann og um leið þróun listar hans. Hann hefur sankað að sér völdu safni af grænlenskum gripum og er djúpt snortinn af handverki þeirra. Þennan dag kynntist ég nýrri hlið á Valtý, — ferðamanninum og náttúruskoðar- anum og mat það mikils og var honum mjög þakklátur. Valtýr er margbrotinn presónuleiki, en hann er seintekinn, flíkar ekki tilfinn- ingum sínum og því gera margir sér vísast ranga mynd af honum, hef ég greinilega orðið var við það meðal listamanna einkum af yngri kynslóð, sem gera sér ekki nægi- lega ljóst, að hér fer einn af brautryðjendum fyrri ára, og því er yfirlitssýning verka hans mjög tímabær. Það ber mjög að virða og þakka seiglu hans á ritvellinum, þar sem hann var oft einn á báti, því að fáir ef nokkrir fengust til að skrifa listrýni. Margir listamenn hafa þó reynt hér fyrir sér, en hætt skjót- lega, er þeir kynntust af eigin raun, hve krefjandi þetta starf er, en þeir urðu reynslunni ríkari, því að víst er, að viðhorf manna til gagnrýni gjörbreytist, er þeir sjálfir þurfa að taka afstöðu á opinberum vettvangi. Er ritstjórar blaðsins, þeir Matthías og Styrmir, fréttu, að ég hyggðist rita fáeinar línur í tilefni þessara tímamóta í lífi Valtýs Péturssonar, báðu þeir mig um að senda honum kveðjur sínar og þakkir fyrir störf hans og tryggð við blaðið. Er því hér komið á framfæri. Sjálfur þakka ég honum fyrir að hafa att mér út á ritvöllinn á sínum tíma, því að þetta hefur verið mér hollur og góður skóli, jafnframt þakka ég fyrir súrt og sætt og óska honum endurnýjaðr- ar heilsu og langlífis.^ Bragi Ásgeirsson. Sú ráðstöfun fyrri tíma yfir- valda að skipa austanverðri strandlengju Eyjafjarðar til Þing- eyjarsýslu er ofar mínum skilningi. Þannig hafa blíðar og broshýrar öldur Eyjafjarðar gjálfrað við „þingeyskan" fjöru- sandinn í Höfðahverfi um aldir, þar sem listmálarinn Valtýr Pétursson leit dagsins ljós fyrir 60 árum í dag. Ég hélt, að Þingeying- ar ættu nóg af snillingum og stórmennum þó að þeir væru ekki að eigna sér vin vorn Valla. Slíkum bita óréttlætis eiga nú eflaust margir metnaðargjarnir Eyfirð- ingar erfitt með að kyngja. En Það stoðar ekki að malda í móinn. Hvenær hefir Þingeyingur haft á röngu að standa? Þegar betur er að gáð liggja allar ættarrætur afmælisbarnsins lengra eða skemmra inn í sjálfan gáfnageym- inn, Þingeyjarþing. Offramleiðsla listmálara hefir ekki að ráði náð að þrúga Eyfirðinga ennþá, eins og sum byggðarlög landsins, þrátt fyrir lúxusskattinn nýja á allt hráefni listmálara. Aftur á móti hefir Eyfirðingum aldrei orðið skálda vant. Upp úr miðri síðustu öld hefjast mikil og óvænt athafnaumbrot og stórstígar framkvæmdir í hákarla- útgerð Höfðhverfinga svo að aldrei fyrr hafði meiri og skjótfengnari gróði borizt nokkru byggðarlagi hér við land. Grýtubakkahreppur, þar sem menn höfðu áður önglað sér í soðið, hlaupið fyrir skjátur og raulað rímtw, varð allt í einu orðinn einskonar Kuwait íslands og það í æ ríkara mæli en Siglu- fjörður síðar miðað við höfðatölu. Sóknin var hörð í þann gráa og gullinu bókstaflega rigndi yfir, en ótalin eru þau mörgu mannslíf, sem týndust í hafi. Hvergi var kappið, stórhugurinn og umsvifin meiri en þar. Þá spruttu upp „olíufurstar" í hákarlalýsi með þá Tryggva Gunnarsson síðar banka- stjóra og gáfnafálkann Einar Ásmundsson í Nesi í fararbroddi auk ótal annarra djarfhuga dólp- unga. Ekki nóg með það, heldur höfðu þessar horfnu hetjur í Höfðahverfi fyrstir allra djörfung og dug til að skjóta kaupmanna- veldinu danska á Akureyri skelk í bringu svo að um munaði og var upphaf að endalokum þess alda- gamla kúgunarveldis. Úr þessum gamla umbrota jarð- vegi óx Valtýr Pétursson úr grasi. Hann leitaði sér síðar menntunar í framkvæmdum og fésýslu. Fyrst við Verzlunarskóla Islands og síð- ar í Ameríku jafnframt lístnámi. Málaralistin réði úrslitum um ævistarf hans. Það sem eftir var af öldufaldi þessarar rismiklu norð- lenzku umsvifabylgju nægði til að fleyta þessum upplitsdjarfa strák úr Grenivík í Höfðahverfi upp í mestu veldisstóla í félagssamtök- um íslenzkra listmálara, og sitja þar lengur en allar hákarlsvertiðir samanlagðar við Eyjafjörð. Af prestsetrinu í Grenivík flaug þessi framgjarni förusveinn snemma til Akureyrar „með fjaðraþyt og söng". Þar bar fund- um okkar fljótt saman á útskurð- arnámskeiði hjá öðlingnum Geir Þormar tréskurðarmeistara, sérfræðings í rósablaðaflúri. Þetta var eini listaskóli staðarins. Brátt reyndist þessari Akureyrsku kúnstkademíu of þröngur stakkur sniðinn til að listmennta slíka tvo höfuðsnillinga samtímis, auk hestamálarans fræga, Stefáns frá Möðrudal, sem málaði „vorleik" Burstafells-Blesa af hvað mestri líst og innlifun síðar. Snemma skapaðist mikil spenna, keppni og listræn afbrýðisemi milli okkar Valla, sem endaði stundum í líflegu tuski og slagsmálum. Þá flugu kúnstverk hvors annars iðu- lega um sali og gólf, sem splundr- uðust í þúsund mola. Við þau skjótu endalok varð akureyrsk listsaga mörgum listaverkunum fátækari, sem sízt mátti við slík- um skakkaföllum. Það er eins og sú heilbrigða afbrýði-samkeppni sé nú illu heilli for bí í listheimum, þar sem hver reynir sitt ýtrasta til að ná feti framar en keppinautur- inn. Nú virðist boðorðið vera að sem flestir vinni í sameiningu að sama listaverkinu í einhverjum kærleiksanda samhjálpar og sam- nýtingar. Slíkt er skiljanlegt í tölvustýrðum og margslungnum völundarhúsum vísindanna. En ég hélt, að listin væri eina sviðið, sem eftir væri í veröldinni, þar sem sköpunargáfa einfarans og einleik- arans fengi að njóta sín. Hvernig má það vera, að 10—20 menn, konur og karlar, frumskapi í sátt og samlyndi sameiginlegt lista- verk eins og t.d. leikrit(texta), útlit nýbygginga o.s.f. eins og nú er farið að tíðkast? Hvað um það, það getur verið notalegt að hafa aðstoð við að hreinsa pensla og strekkja striga. Akureyri varð skjótt of lítill staður fyrir Valtý. Hann hvarf snemma af „akademíunni" og sigldi sinn sjó suður til Reykjavík- ur með fullorðna fólkinu. Það var eins og að doði og leiði færðist yfir „listalífið" við brottför hans og einir stóðum við þöglir eftir, við Stefán frá Möðrudal. Ég gafst upp við allar kúnstlægar krússidúllur á námskeiðinu. Járnið sem bar að hamra kólnaði brátt á steðjanum. Var að furða, þegar sjálfur físi- belgurinn, ærslakálfurinn káti úr Grenivík, var floginn suður, þar sem hans beið síðar veigameira verkefni, eða að blása, svo um munaði, að glæðum afstraktlistar í landinu. Við Stefán minn frá Möðrudal áttum enn einu sinni eftir að standa álengdar og horfa á býsnin, tilburði og tilfæringar Týra við guðsútvalda hirð listgyðj- unnar, dolfallnir í forundrun. Síð- an mælti málarinn frá Möðrudal mæðulega:„Það var sorglegt með hann Týra-Valla, blessaðan, hvað honum var alltaf ósýnt um krússi- dúllurnar fyrir norðan hjá honum Þormar sáluga", og síðan bætti hann við: „Hugsaðu þér, Vorleik- urinn minn er kominn alla leið til Chicagó“. Eins og að framan greinir fékk Valtýr ungur.byr í seglin þegar hann, þessi tannhvassi, djarfmælti og fyrirferðamikli hákarl úr Höfðahverfi svamlaði inn tiltölu- lega lygn vötn íslenzkra listmál- arasamtaka með miklum sporðaköstum og bægslagangi svo að kolmórauðar vatnssúlurnar námu við sjálfa himinfestinguna. Þá léku jafnan 12 vindstig um Ljósm. Guðmundur Ingólfsson

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.