Morgunblaðið - 25.04.1981, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - 25.04.1981, Blaðsíða 10
10 MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 25. APRÍL 1981 Bragi Ásgeirsson: „Það er eins og að lýsa tónlist fyrir heyrnarlausum manni“ í Helgarpóstinum 15. apríl sl. birtist mikil grein undir fyrir- sögninni „Hvert förum við?“, og fjallaði um eilífðarmáiin og hvað taki við eftir dauðann. A forsíðu er sérstaklega skírskot- að til ofannefndra ummæla eins þeirra, er tóku að sér að svara spurningunni. Til þess að gera mál sitt auðskildara vitnar hann m.a. til tveggja hópa fatlaðra, þ.e. heyrnarlausra og blindra. Ég hrökk við, er ég las þessa fáfræði, en álasa mannin- um ekki minnstu vitund fyrir annað en fljótfærni, því að líkast til hugsa 80 til 90% alls almennings á svipaðan hátt. — Þetta kom illa við mig á ári fatlaðra, og ég var strax ákveðinn í því að nota gott tækifæri til að upplýsa fólk ofurlítið nánar um þessi atriði, svo menn geti sjálfir dæmt um dýpt þessarar vizku, er hér kom fram. í raun eru allar tilvitnan- irnar rangar í eðli sínu og skal hér gerð grein fyrir því lið fyrir lið. Hér skal það einnig koma fram, sem er sérstaklega mikil- vægt til umfjöllunar á ári fatlaðra, að vanmat og van- þekking á eðli fötlunar er ósjaldan erfiðari kross að bera en fötlunin sjálf og veldur þolandanum meiri sálarkvölum og hugarangri en það, sem horfið er og ekki verður bætt. Þá hljóta allir, sem fylgzt hafa með gangi mála á ári fatlaðra, að hafa tekið eftir því, að mun meira ber á umfjöllun um þá, sem hafa sýnilega fötlun, en þá, er enginn fær uppgötvað í fljótu bragði, og er hér t.d. heyrnar- leysið mjög ofarlega á blaði. Ég vísa einnig til þess og árétta, að ritstjórn blaðsins hefur þótt tilvitnunin til þeirra heyrnar- lausu svo snjöll að ástæða væri til að skírskota til hennar sérstaklega á forsíðu. Þykir mér hér full stíft drukkið af kaleik fáfræðinnar um þessi atriði og mál að slíkum veizluglaumi linni að nokkru. — Fyrst vil ég taka fram, að það er álitamál og næsta af- stætt hugtak að tala um sjón og heyrn, — menn heyra ekki með eyrunum né sjá með augunum heldur bera þau skilaboð tíl innri skilningarvita. Vil líka minna á, að á sama hátt og menn þurfa að læra stafrófið til að geta lesið, þurfa þeir er ganga í tónlistarskóla, að læra að beita heyrninni rétt og þeir, er ganga í myndlistarskóla, þurfa á sama hátt að læra að beita sjóninni, að sjá og upplifa. Þannig er einnig til stafróf heyrnar og sjónar. Ég get í seinna fallinu trútt um talað eftir að hafa verið viðloðandi myndlistarkennslu í aldarfjórð- ung. Sjón og heyrn eru þannig einungis tæki, sem gefa þó mönnum óþrjótandi möguleika til að beita skilningarvitunum. Og satt að segja fara flestir illa með þessa möguleika, sbr. um- mæli hinnar heimsþekktu Hel- cn Keller, sem var blind og heyrnarlaus frá öðru ári en náði þó að verða hámenntuð og tala 4 tungumál. Henni fórust svo orð: „Ég hef umgengist fólk sem hefur augu, sem voru full af birtu, en sá samt sem áður ekkert í hafi né hauðri, í götum borganna eða í bókum. Það mun vera betra að ganga í gegnum eilíft myrkur blindunnar með vakandi skilningarvit, tilfinn- ingar og opinn huga, en að gera sig ánægðan með það eitt að hafa sjón. Hið einasta myrkur án ljóss er náttmyrkur fáfræði og tilfinningaleysis." — Þetta var nú einungis sett fram til skilningsauka, en snertir þó kjarna málsins. Til að hafa allt á hreinu vil ég gera athugasemdir við allar fjórar tilvitnanirnar, og verð ég því að koma hér með fram með alla málsgreinina sem skírskot- að er til í Helgarpóstinum. - O - „Lýsingar á þeim heimi, sem við tekur, eru að sjálfsögðu óljósar. Þær eru oftast í lik- ingarmáii, þvi okkur vantar viðmiðun. Þegar fólk fyrir handan er að lýsa þvi, sem það upplifir, er það eins og að lýsa fyrir barni einhverjum híut, sem það hefur aldrei séð. Eða hvernig ætlar þú að lýsa eldi fyrir manni, sem hefir aldrei séð hann? Eða útskýra tónlist fyrir heyrnarlausum manni eða málverk fyrir blindum manni?“ - O - — Nú skal ég fúslega viður- kenna gildi slikra skírskotana, en menn skyldu varast, hvort heldur sé í nafni lifenda, fólks að handan, eða endurholdgaðra á öðrum tilverustigum að gera það með vísun til ímyndaðs skilnings síns á heyrnarleysi og blindu. Er ekki einnig erfitt að lýsa t.d. æðri tónlist fyrir heyrandi, svo að þeir skilji, eða t.d. myndlist fyrir þeim, er hafa sjón? Það skiptir hér þó megin- máli, að menn hreyki sér ekki af vizku sinni og heilbrigðum skilningarvitum á kostnað þeirra er eitthvert þeirra hafa misst. — Spyrja má gjarnan, hvar mannlíf þróist yfirleitt, þar sem eldar eru ekki til?, — og ég veit e|cki betur en að börn séu stórum næmari fyrir óséðum hlutum en fullorðnir, þeirra er forvitnin og þau hafa meira gaman af því að láta leiða sig inn í furðuveraldir ævintýra en hinir fullorðnu. — Þá vil ég halda því fram og þykist raunar vera þess fullviss, að heyrnarlausir séu ekki síður gæddir innri tilfinningum fyrir tónlist en þeir, er heyra, og kemur það fram á margan hátt og þykir enda margsannað. Æt.ti því að vera hægt að útskýra tónlist fyrir þeim. Margir skilja reyndar þessi atriði svo vel, að þeim líður máski viðlíka illa og sjáandi mönnum í myrkri, er fá ekki notið 3jónarinnar. Heymarlausir finna titring- inn frá tónlistinni (vibrasjón- ina), einkum ef mikið er af náttúruvið í húsinu, þar sem spilað er, í steinhúsum er hins vegar nær öll vibrasjón ein- angruð, en getur borist í ýmsar tegundir hægindastóla. Og til munu jafnvel stólar, sem eru sérstaklega hannaðir fyrir heyrnarlausa og sem eru tengd- ir hljómflutningstækjum. — Spurningin er einnig sú, hvort tónlist sé ekki allsstaðar í kring um okkur, þarf kannski ekki að semja hana, áður en hún er leikin? Tónskáldin vita vafa- laust, að ýmis hughrif og stemmningar í náttúrunni framkalla hjá þeim hugmyndir og innblástur, og sá sem sér en heyrir ekki, hann getur nátt- úrulega einnig upplifað slíkar stemningar og í sumum tilvik- um jafnvel í enn ríkari mæli en sá, er heyrir. Beethoven sagði líka eitt sinn: „að þögnin væri mikilvægasti tónninn í hljóð- færinu". Hér skilst, hvað átt er við, og þetta held ég, að hann hafi sagt löngu áður en hann missti sjálfur heyrnina, — og var ekki einmitt svo, að hann samdi níundu sinfóníu sína (um litla tóninn, er smám saman yfirgnæfir þá voldugu) þá er hann var orðinn fullkomlega heyrnarlaus? Tónlistin kemur þannig ótví- rætt ekki siður innan frá, þar eru a.m.k. móttökutækin og það mun víst vera mál okkar heyrn- arlausra að uppfræða hina heyrandi á þeirri staðreynd. Allt annað mál er, að hin ytri heyrn er farin veg allrar ver- aldar, en við höfum tilfinn- ingarnar eftir, vitum einnig að næm fegurðartilfinning fæðir af sér fegurðarþrá og kærum okkur engan vegin um að þær tilfinningar séu teknar frá okkur. — Svo langt hefur misskiln- ingurinn gengið um þá heyrn- arlausu að jafnvel í hinu fræga riti „Bókin um manninn" eftir Fritz Kahn, (Helgafell 1946) stendur á einum stað, „að heyrnarlausir tapi vissu jafn- vægisskyni og geti því ekki kafað í vatni"! Aldrei hef ég orðið var við slíkt hjá nokkrum, en það er þó rétt að hluta, að þeir tapa vissu jafnvægisskyni, verða t.d. nær aldrei bíl-, flug- né sjóveikir. — I beinu framhaldi af þessu mætti einnig spyrja, hvort ekki megi álíta það fjarska erfitt að útskýra eðli efnafræði fyrir heyrnarlausum? — Því er til að svara, að dr. John Warcup Cornforth er hlaut Nóbelsverð- launin í efnafræði árið 1975, er heyrnarlaus, — missti heyrnina á unga aldri. Hann er nú yfirmaður efnarannsókna við tilraunastofnun í ensku borg- inni Sittingbourne. - O - — Og svo eru það hinir blindu og þá langar mig til að segja frá merkilegri upplifun, er ég varð fyrir á flakki í útlandinu árið 1978. Greinarhöfundur i strikum Victors Brockdorff. — Alfred og Erna Manns frá Bæjaralandi voru samferðar- menn mínir og örfárra annarra í listskoðunarferð til Leningrad. Þau hjónin, er voru á sextugs- aldri, höfðu víða farið og margt séð, sem þó er ekki i frásögur færandi nú á dögum, ef ekki kæmi það til, að Alfred var steinblindur — hlaut þann sjúkdóm á yngri árum, er „græna stjarnan" nefnist og engin lækning var gegn til skamms tíma. Alfred var þó e.t.v. líflegasti maðurinn í hópnum — Ijómaði af frásagn- argleði og ræddi mikið um það, „sem fyrir augu bar“ — þ.e. hann sá með augum konu sinn- ar, er var óþreytandi við að lýsa umhverfinu fyrir honum. Hin geðuga Freyja hans virtist í einu og öllu leysa það hlutverk frábærlega vel af hendi. Alfred var í engu feiminn við að svara nærgöngulum spurningum — hann kvaðst m.a. hafa mikla ánægju af að fara á listasöfn, einkum ef hann fengi að þreifa á höggmyndum, en til þess þyrfti hann ósjaldan leyfi for- stöðumanna viðkomandi safna, og færi hann hiklaust á fund þeirra. Það var drjúg lífs- reynsla að vera samvistum við þessi hjón, reynsla, sem ekki gleymist. Ekkert var skilið út- undan á Eremitage-safninu, hvorki málverk, fágætir munir og enn síður höggmyndir. Það var alveg einstakt að sjá ein- beitingarsvipinn, er Alfred hlustaði á útskýringar leiðsögu- konunnar, hvernig heyrnin, út- vörður skilningarvitanna, var þanin til hins ýtrasta. (Útdrátt- ur úr grein í Mbl. 1. okt. 1978.) Loks skal svo vikið að hinum blindu og heyrnarlausu og at- huga, hvort þeir hafi ekki síður tilfinningar, kenndir og þrár. Það þarf vissulega mikla næmni, ríkar kenndir, metnað og dug til þess að ná jafn langt og margir þeirra hafa gert, er misst hafa bæði sjón og heyrn. Mætti segja hér margar furðu- sögur, og dæmi um ótrúlega næmni sumra þeirra má marka af því, að er þeir, sem lengst hafa náð, leggja þumalfingur annarrar handar á varir manna en visifingur, löngutöng og baugfingu.r sömu handar á barkann, skilja þeir ekki aðeins flest það, er menn segja, í gegnum vibrasjónina og vara- hreyfingarnar, heldur er og fullyrt, að sumir þeirra geti greint blæbrigði hreims við- komandi, þ.e. hvort hann er innlendur eða útlendur. Hljóta þá þessir menn ekki að hafa tilfinningar fyrir tónrænni hrynjandi? - O - Fallegar sögur koma einnig fram varðandi samskipti heil- brigðra og fatlaðra og langar mig til að koma hér fram með eina. Skyldu margir vita það, að menn eiga uppfinningu talsím- ans að þakka heyrnarlausri eiginkonu Alexander Graham Bells, er hann unni hugástum? Alexander Graham Bell, sem nefndur hefur verið Leonardo da Vinci seinni tíma, var út- lærður kennari daufdumbra, með þá sérgrein að kenna þeim að mynda hljóð. Faðir hans, Alexander Melville Bell, kenn- ari í mælskulist við Lundúna- háskóla, var höfundur hins fræga verks „Visible Speech" (Sjónrænt mál), sem var eins konar hljóðskrift, þar sem tákn- in sýndu þá meðferð vara og hreyfingar þeirra, sem voru í samræmi við eðlilegan tón hverju sinni. Þetta var kerfið, sem átti að kenna hinum heyrn- arvana að mynda rétt hljóð og tala eðlilega. Melville Bell hafði eignazt þrjá sonu, en misst tvo þeirra úr berklum. Sá þriðji, Alexander Graham, var einnig haldinn tæringu og læknar töldu, að hann ætti skammt eftir ólifað. Prófessor Bell brá þá á það ráð að yfirgefa Lund- únir, prófessorsembætti sitt og góða afkomu, en fluttist til þorpsins Bradford í Ontario- fylki í Kanada, ef það mætti verða til að bjarga lífi þessa sonar hans í heilnæmara lofts- lagi þar, — og kraftaverkið gerðist. Alexander Graham Bell er höfundur ótal uppfinninga. — Hann var einn af brautryðjend- um flugsins, — hann teiknaði fyrsta vatnsaflsbátinn og hann gerði margar merkar uppfinn- ingar á sviði læknavísinda, m.a. fann hann upp tæki til leita að málmflísum í líkama manna og hannaði undanfara stállungans. Þá vann hann drykkjarvatn úr söltum sjó. Þó að vísindin tækju hug hans allan, þá gleymdi hann aldrei hinu lífræna og hafði áhuga á kvikfjárrækt og stundaði lengi. En alla tíð hélt hann þó áfram að kenna hinum daufdumbu að lesa og skrifa. Takmarkið var að aðhæfa þá venjulegum störfum á hverju sviði, og það var hann, sem skipulagði nám hinnar víð- þekktu Helen Keller, er fyrr segir frá, og sem sýndi og sannaði fyrir umheiminum, hve langt væri hægt að ná í lífinu þrátt fyrir áföll blindu og heyrnarleysis frá frumbernsku. — Það hefur haft mikil áhrif á þetta allt, að hann lifði alla tíð í mjög hamingjusömu hjónabandi með hinni ágætu en heyrnarlausu eiginkonu Mabel Hubbard og eftir því var tekið að væru þau fjarvistum, þó ekki væri nema fáeina daga, skrif- uðu þau hvort öðru eldheit ástarbréf. Mikilmennið lét ekki áfall konu sinnar hafa áhrif á sig né fordóma gróma tilfinn- ingar sínar. Mabel hafði misst heyrnina tveggja ára gömul og allt líf Alexanders var leit að þráð- lausu sambandi við þennan samferðarmann sinn og það varð m.a. til þess, að hann fann upp talsímann! Væri mikilmennið Alexander Graham Bell, frumkvöðull risa- fyrirtækisins bandaríska „Bell Telephone System“, spurður að því af ókunnugum, hvert væri starf hans, svaraði hann spurn- ingunni á þessa leið með stolti: „Ég er kennari heyrnarlausra." (í Dymbilviku 1981.) Nokkrar ábendingar með skírskotun til almennrar fáfræði

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.