Morgunblaðið - 15.06.1982, Side 35
MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 15. JÚNÍ 1982
35
grannur, ljós yfirlitum, sterklegur
og spengilegur.
Þegar Halldór gekk að eiga
systur mína 1951, urðu samskipti
okkar nánari og kunningsskapur-
inn breyttist fljótlega í vináttu,
sem aldrei hefur fallið skuggi á
allar götur síðan, og hefur hún
eflst með ári hverju með sterkum
fjölskylduböndum og tíðum sam-
gangi. Svo hagaði til, að við vorum
samtímis í Svíþjóð um nokkurt
skeið, er hann var læknir í Vest-
erás í tvö ár 1956—1958 og ég lekt-
or í Uppsölum, og var þá ekki talið
eftir sér að skreppa á milli bæja.
Er skemmst af að segja, að á und-
anförnum þremur áratugum höf-
um við farið margar ferðir saman
með konum okkar bæði utanlands
og innan og átt ótal samveru- og
ánægjustundir bæði á sólríkum
sumardögum og löngum vetrar-
kvöldum. Halldór var félagslynd-
ur og glaðsinna, léttur og kíminn í
tali, og blessunarlega hafinn yfir
hversdagsþref og smámunasemi.
Það var því notalegt að vera í ná-
vist hans og hafa samfylgd hans.
Hann var einstaklega greiðvikinn
og mikill vinur vina sinna. Heimili
þeirra Gerðar og Halldórs mótað-
ist af myndarskap og smekkvísi.
Þau voru frændrækin og gestrisin
með afbrigðum. Heimili þeirra var
samkomustaður allrar fjölskyld-
unnar, og þau héldu henni saman
öllum öðrum fremur. Á þessari
stundu vil ég fyrir mína hönd,
systkina minna, maka og barna
þakka þeim hjónum fyrir þá rausn
og viðtökur, sem við höfum notið á
heimili þeirra hjóna bæði fyrr og
síðar.
Síðustu árin mátti sjá þess
merki, að Halldór gekk ekki heill
til skógar, og vissi hann það best
sjálfur af þekkingu sinni, að kallið
gæti komið, þegar minnst varði.
Engu að síður kom hið sviplega
fráfall hans sem reiðarslag, enda
var hann aðeins 55 ára, þegar
hann lést og á miðjum aldri. Og ég
taldi enga ástæðu til að ætla ann-
að en hann ætti eftir mörg starfs-
ár ólifuð og mundi líta augum
mörg vor og njóta enn um sinn
unaðar margra bjartra sumar-
daga með fjölskyldu sinni og vin-
um. En það fór á annan veg.
Með Halldóri er genginn góður
drengur, og syrgja hann margir og
þeir mest, sem þekktu hann best.
En mestur harmur er kveðinn að
Gerði, systur minni, og börnum
þeirra Halldórs, Jónínu Margréti,
Kristjáni og Guðna og tengda-
börnum og bróður hans, Ragnari.
Megi sá, er sólina skóp, halda
verndarhendi sinni yfir þeim og
veita þeim styrk.
Ekki verður undan þvi vikist, að
eitt sinn skal hver deyja, en sorgin
er líka staðreynd við ástvinamissi
og eftirsjáin. Og hvernig má lifa
við þennan harm? Halldór mágur
hefði haft svar á reiðum höndum:
Við skulum gleðjast og gleðja
aðra, meðan sól er á lofti.
Bjarni Guðnason
Genginn er góður drengur. Hall-
dór Arinbjarnar læknir lést á
ferðalagi erlendis föstudaginn 4.
júní sl. Hann kvaddi mig glaður og
reifur daginn áður en hann lagði
af stað í sína hinztu för, og þótt
mér hefði verið það ljóst um tíma
að hann gengi ekki heill til skógar,
var ég grunlaus um að svo stutt
væri eftir.
Kynni mín af Halldóri hófust að
afloknu stúdentsprófi beggja.
Hann hafði verið bekkjarbróðir og
skólafélagi konu minnar tilvon-
andi frá því í barnaskóla og
kvæntist síðar góðri vinkonu
hennar. Tókst snemma með okkur
góð vinátta sem hélzt og efldist æ
síðan. Jafnframt því að vera einn
okkar bezti heimilisvinur, var
hann læknir okkar alla tíð, utan
þeirra ára sem hann gegndi lækn-
isstörfum úti á landi og erlendis.
Halldór Arinbjarnar var ein-
stakur maður, ástsæll með af-
brigðum, og svo trúr og tryggur
vinum sínum og sjúklingum að
með fádæmum var. Eins og sumra
lækna er siður, gat hann verið
hrjúfur á yfirborðinu og hann bar
ekki tilfinningar sínar á torg, en
undir niðri sló viðkvæmt hjarta
sem ekkert aumt mátti sjá. Oft
fannst mér með ólíkindum hvað
hann lagði á sig, óumbeðinn, til að
fylgjast með sjúklingum sínum og
gera þeim lífið bærilegra.
Margt kemur fram í hugann á
þessum degi, en efst er þakklæti
fyrir allt sem Halldór vinur minn
gerði fyrir mig og mína, svo og
fyrir að hafa kynnst jafn miklum
mannkostamanni. Eftirsjáin er
sár.
Ég og mitt fólk sendum Gerði,
Nínu, Kristjáni og Guðna og ást-
vinum þeirra okkar innilegustu
samúðarkveðjur og biðjum Guð að
blessa þau nú og ævinlega.
Fari vinur minn í friði.
Guðni
Sunnudagsmorguninn þ. 4. júní
barst mér fregn um, að Halldór
vinur minn og heimilislæknir væri
látinn. Ég trúði þessu naumast, en
varð harmi lostin. Þó fylgdi það
fregninni, að hann hefði orðið
bráðkvaddur um borð í skipi, er
sigldi um Miðjarðarhaf. Lífið er
margslungið, og alltaf rekur mað-
ur sig á sönnur þess, að enginn
ræður sínum næturstað.
Ekki var langt um liðið, að Hall-
dór vitjaði mín og staldraði við
stundarkorn, glaður og reifur að
vanda. Margt bar á góma, en þó
var ýmislegt vantalað, og svo kom
fregnin um, að hann væri allur, og
engu yrði um þokað; mér fannst
það skelfilegt.
Halldór Arinbjarnar fæddist að
Gunnfríðarstöðum á Ásum í
Austur-Húnavatnssýslu 4. sept-
ember 1926. Sem kornabarn missti
hann móður sína. Tóku þá lækn-
ishjónin á Blönduósi litla móður-
lausa drengnum opnum örmum,
og varð hann strax sólargeisli á
heimilinu. Læknir á Blönduósi var
þá Kristján Arinbjarnar af
Laugavegsættinni í Reykjavík
eins og hann sagði sjálfur frá,
þegar Húnvetningar létu sér dátt
yfir að rekja ættir til Björns
Bólstaðarhlíðarklerks, Blöndala
eða annarra höfðingja í héraðinu,
en Kristján var allra manna
spaugsamastur. Guðrún kona
Kristjáns var dóttir Otto Tulinius,
kaupmanns og útgerðarmanns á
Akureyri, sem gat svo sannarlega
státað af göfugu ætterni, þó hún
gerði það ekki: Heyrði ég oft
minnst á það, er við vorum smá-
stelpur á Akureyri, að hún líktist
mjög nöfnu sinni og föðurömmu,
prestsdótturinni frá Hofi í Álfta-
firði, en hún hafði viljað öllum
gott gera og var annáluð fyrir
gleði og hjartagæsku. Sama mátti
segja um læknisfrúna á Blönduósi,
það vissu þeir best, er gerst
þekktu.
Læknisheimilið á Blönduósi var
þá um margt frábrugðið því sem
gerðist þar um slóðir. Þau lækn-
ishjónin höfðu flutt til Blönduóss
snemma sumars 1922, þá var
Blönduós lítið þorp, sem hafði
staðið í stað um áraraðir. Mikil
kyrrstaða ríkti þar, eina tilbreyt-
ingin var vor og haust, þegar
sveitafólk kom í kaupstaðinn og
gerði sér dagamun. Svo má einnig
geta þess, að Blönduós hafði það
fram yfir mörg þorpin, að norðan
við Blöndu var stórt skólahús, þar
sem tugir námsmeyja komu á
hverju hausti, og setti sinn svip á
umhverfið.
Mikil fátækt og umkomuleysi
ríkti meðal almennings og at-
vinnuleysi langa vetur, eymdin
setti sinn svip á fátæka fólkið í
torfbæjunum í kvosinni undir
brekkunum. Þó leyndust þar
margir hæfileikamenn, iðnaðar-
menn svo ég tali nú ekki um söng-
menn og hagyrðinga, en það þurfti
eitthvað að gera fyrir þetta fólk,
og það vildu læknishjónin gera.
Þau læknishjón voru mjög fé-
lagslynd og hjá þeim var oft fullt
hús af gestum. Læknirinn vildi
gera meira en sinna sjúkum; hann
sá naúðsyn þess að vekja nýjar
vonir hjá þessu blessaða fólki, sem
sat heima á stokki og beið þess, að
vorið kæmi og til þess yrði kallað
til vinnu.
Veit ég ekki betur en Kristján
læknir ætti sinn stóra hlut í því að
stofnað var til félagsskapar með
þessu snauða fólki í þorpinu, og
það fór að rofa til.
Hann var hvatamaður þess, að
samkomuhúsið gamla var byggt;
menn þurftu að geta kallað saman
til fundar og rætt áhugamálin
hverju sinni, einnig að geta tekið á
móti gestum, sem vildu láta ljós
sitt skina. Gamla samkomuhúsið á
Blönduósi þykir víst ekki merki-
legt í dag, en það stóð fyrir sínu á
meðan það var og hét. Þar voru
haldnir margir skemmtilegir
fundir, leiksýningar og söng-
skemmtanir, að ég nú ekki tali um
Húnavökuna, sem þar hóf göngu
sína. Efast ég um að Húnavöku-
gestir seinni tima eigi sér
skemmtilegri endurminningar frá
Vökunni en við, sem nutum henn-
ar í gamla samkomuhúsinu innan
við ána, þó húsakynnin séu nú
glæsilegri.
Þá þurfti að lappa upp á sjúkra-
skýlið, sem byggt var við lækna-
bústaðinn. Nú var kominn læknir í
héraðið, sem gat gert skurðað-
gerðir ef í harðbakka sló, svo ekki
þurfti lengur að senda sjúklingana
suður.
Þá kunnu læknishjónin manna
best að fagna gestum, ég hygg að
fáir hafi farið þar um, án þess að
koma við, öllum leið vel undir
þeirra þaki. — Við Guðrún erum
bernskuvinkonur frá Akureyri.
Naut ég þess í ríkum mæli, eftir
að ég flutti í Húnavatnssýslu.
Henni fannst aldrei neitt ofgert,
ef vinir hennar áttu í hlut. Ef
sjaldséðir gestir voru á ferð, lista-
menn eða sameiginlegir vinir að
norðan, fannst henni sjálfsagt að
gera mér boð inn að Þingeyrum og
sagði mér að koma strax. Ékki var
þó auðvelt að koma boðum milli
manna; enginn sími á bæjum,
hvað þá útvarp né önnur sendi-
tæki. En læknisfrúin á Blönduósi
gerði sér lítið fyrir og lét söðla
Dreyra sinn og reið sjálf eða fékk
sendimann til að ríða einn að
Þingeyrum með skilaboðin. Ef far-
in var stysta leið voru það 15 km,
en að næstu símstöð voru 6 km.
Þessum myndum er aðeins
brugðið upp til að sýna í hvaða
umhverfi og andrúmslofti Halldór
sleit barnsskónum og hvernig hin
jákvæðu viðhorf foreldranna urðu
til að móta hann. Gleðin, hjálp-
semin og hjartahlýjan fylgdu hon-
um til æviloka.
Því miður nutum við Húnvetn-
ingar þessara góðu hjóna skemur
en skyldi. Eftir að hafa þjónað
héraðinu allt að 10 ár, var Krist-
jáni lækni veitt héraðslæknisem-
bættið á ísafirði, og flutti hann
þangað vestur með fjölskyldu
sína. Þá voru drengirnir tveir,
Ragnar sonur þeirra bættist í hóp-
inn 12. júlí 1929. Húnvetningar
söknuðu mjög þeirra hjóna, því
þau höfðu notið þar almennra
vinsælda. Öðru hvoru komu til
okkar fréttir að vestan og vinátta
okkar hélst, þó vík væri milli vina.
Sumarið 1939 var Halldór hjá
okkur á Þingeyrum. Hann var
elskulegur unglingur glaður og
samviskusamur við öll störf, er
honum voru falin. Meðal annarra
starfa átti hann að aka vatni í bæ-
inn. Vafalaust kemur það mörgum
spánskt fyrir sjónir, því óvíða þarf
nú annað en skrúfa frá krana inn-
andyra, þá streymir blessað vatn-
ið.
En öðru máli gegndi á Þingeyr-
inni, þar þurfti að sækja allt vatn
í lind, sem var all fjarri bænum og
þurfti að gæta varúðar við þann
flutning, en þetta starf rækti ungi
drengurinn af mikilli alúð og sam-
viskusemi, sem lengi var í minn-
um höfð. Þegar Halldór kvaddi
okkur um haustið, söknuðu hans
allir á bænum og vonuðu að sjá
hann aftur með næstu vordögum.
Þegar hernámið fór fram vorið
1940 hafði Guðrún verið í Reykja-
vík í tvo vetur með drengina sína,
sem gengu þar í skóla. Miklar
blikur voru á lofti, þegar hernám-
ið skall yfir. Guðrún fór með báða
syni sína heim til ísafjarðar, það
mátti ekki slíta hópinn á ískyggi-
legum tíma. Varð því ekkert úr því
að Halldór kæmi norður til okkar
um sumarið og urðum við fyrir
rniklum vonbrigðum, höfðum
Tilakkað til að fá hann. — Ekki var
Kristján lengi á ísafirði, sumarið
1941 var honum veitt héraðslækn-
isembættið í Hafnarfirði og gegn-
di hann því embætti til dauða-
dags, en hann andaðist langt fyrir
aldur fram, þann 5. mars 1947. —
Nú stóð Guðrún vinkona mín ein
eftir með drengina sína tvo, Hall-
dór og Ragnar. Ári áður hafði
Halldór lokið stúdentsprófi við
Menntaskólann í Reykjavík og því
næst lá leiðin í læknadeild Há-
skóla Islands. Þar lauk hann námi
með miklum sóma. Halldór sinnti
um tíma héraðslæknisstörfum í
Árneshéraði á Ströndum, og eitt
ár var hann héraðslæknir í Höfða-
kaupstað á Skagaströnd. Þótti
Skagstrendingum þeir hafa himin
höndum tekið þegar Halldór kom
til þeirra, og varð hann brátt mjög
vinsæll í gamla læknishéraði föð-
ur síns.
Eigi varð hann þó rótgróinn
þar, sem varla var von, þar sem
um lítið útkjálkahérað var að
ræða, en hann ungur og athafna-
samur læknir.
Halldór hvarf aftur suður og fór
síðan utan til framhaldsnáms.
Varð sérfræðingur í handlækning-
um, í kvensjúkdómum og fæð-
ingarhjálp. Var um tíma aðstoðar-
og deildarlæknir við handlækn-
ingadeild Landspítalans í Reykja-
vík, en sjálfsagt kunna aðrir betur
en ég skil á læknisferli hans. En
eitt veit ég með vissu, að hvar sem
hann fór, reyndist hann duglegur
námsmaður og drengur góður.
Þann 30. júní 1951 kvæntist
Halldór Gerði Guðnadóttur pró-
fessors í Reykjavík Jónssonar,
hinni ágætustu konu, var það
beggja gæfa.
Þau hjón virtust lík um margt,
glaðleg og viðmótsþýð, hvort held-
ur var heima fyrir eða á förnum
vegi. Áttu þau fallegt heimili að
Bjarnarlandi 20 í Fossvogi, þar
sem gott var að koma. Börnin
þeirra voru þrjú, Jónína Margrét,
Kristján og Guðni.
Síðustu árin hefur Halldór
stundað heimilislækningar auk
þess sem hann hefur haft lækn-
ingastofu að Klapparstíg 25—27.
Ég var svo lánsöm að eiga hann
fyrir heimilislækni nokkur undan-
farin ár. Það var sama, hvenær ég
kvakaði til hans, viðbrögðin voru
ætíð jafn ljúfmannleg.
Mér varð það fyllilega ljóst, að
starfi hans fylgdi mikill erill. Sí-
fellt kvabb seint og snemma hlaut
að vera þreytandi, því erfitt
reyndist að gera öllum til hæfis.
Sem betur fór, þurfti ég ekki oft
að leita til hans sem læknis fyrstu
árin, en það var mikið öryggi að
eiga þar hauk í horni, sem hann
var. Síðastliðinn vetur, er heilsu
minni tók að hraka, hef ég oft leit-
að til læknis míns og fann þá hve
dýrmætt það var að eiga hann að.
— En nú er hann allur og ég sakna
vinar í stað.
Með þessum fáu línum langar
mig til að færa þessum ljúfa vini
mínum kveðjur og þakkir fyrir
frábæra umhyggju, og jafnframt
votta konu hans, börnum og
einkabróður hans, Ragnari, inni-
lega samúð mína.
I Guðs friði.
Hulda Á. Stefánsdóttir
Kveðjustund. Halldór mágur og
Gerður systir mín voru á leið í
ferðalag um framandi lönd. Nú
skyldi loks rætast gamall draum-
ur um að skoða og sjá með eigin
augum allt það sem hinar fornu
menningarþjóðir við botn Mið-
jarðarhafs höfðu eftirlátið síðari
kynslóðum. Kveðjuhandtakinu
fylgdi vinarkoss á vanga og í svip
mágs míns var sama hlýjan og
ævinlega í minn garð. Kannski var
tilhlökkunin blandin örlitlum
kvíða því að ferðaáætlunin var
ekki aðeins fjölbreytileg og
skemmtileg heldur líka æði
strembin, en við brostum öll og
væntum góðra endurfunda að
þremur vikum liðnum.
En það fór á annan veg. í Kairó
kom kallið og skemmtiferðin lang-
þráða hafði á einu andartaki snú-
ist í för á vit dauða og sorgar. Það
er oft erfitt að una hinum endan-
lega dómi þess sem öllu ræður og
svo er vissulega nú þegar Halldór
mágur er allur, aðeins 55 ára gam-
all. Sárast er það þeim sem næst
honum stóðu, konunni hans og
börnunum þremur, en líka okkur
tengdafólki hans sem alltaf áttum
vísan vin þar sem Halldór var,
vorum alltaf svo velkomin, hvort
sem skroppið var í Bjarmaland í
stutta fjölskyiduheimsókn, í fjöl-
mennar veislur eða til að þiggja
læknisráð.
Vegna aldursmunar okkar leit
Halldór gjarnan á mig sem hálf-
gildingsdóttur sína og þess naut
ég alla tíð, allt frá því ég sem smá-
krakki tók að venja komur mínar
á fyrsta heimili þeirra Gerðar.
Halldór var einstaklega barngóð-
ur og hafði yndi af að sprella með
krökkum. Honum tókst að leika á
mér töfrabrögð sem ég hef ekki
komist til botns í enn þann dag í
dag. Ég á margar dýrmætar minn-
ingar sem tengjast Halldóri og
Gerði því að hjá þeim hef ég alltaf
átt eins konar annað heimili;
sumarlangt á Skagaströnd þar
sem Halldór var héraðslæknir að
loknu læknanámi og tvívegis í
Vasterás i Svíþjóð, en þar stund-
aði hann sérnám sitt.
Langdvalir á heimili þeirra urðu
til þess að ég bast því á alveg sér-
stakan hátt og þegar ég hafði sjálf
eignast minn förunaut reyndist
heimili Gerðar og Halldórs okkur
hjónum jafn opið og mér áður. í
tímabundnu húsnæðisleysi buðu
þau okkur að búa með fjölskyld-
una sem reyndar stækkaði einmitt
í húsi þeirra. Alltaf var Halldór sá
bakhjarl sem við gátum treyst
þegar á þurfti að halda. Á yfir-
borði gat hann virst hrjúfur á
stundum en það þurfti ekki löng
kynni til að komast að því hversu
þunn sú skel var og að inni fyrir
bjuggu sterkar tilfinningar og
hlýtt hjarta. Það fengum við að
reyna mest sem þekktum hann
best.
Þegar við nú kveðjum hann
hinsta sinni í dag virðist svo ótrú-
legt og erfitt að fella sig við til-
hugsunina um að eiga aldrei eftir
að hitta hann fyrir með kankvisa,
hlýja brosið, en minningin mun
geymast og ylja um ókomin ár.
Með þessum fáu kveðjuorðum
vil ég votta Halldóri mági mínum
þakklæti fyrir það sem hann gaf
mér og fjölskyldu minni af vinar-
þeli og tryggð alla tíð. Blessuð sé
minning hans.
Nína
Halldór Arinbjarnar, læknir,
lést á ferðalagi erlendis þann 4.
þ.m. 55 ára að aldri.
Það eru orðin 38 ár, telst mér,
síðan ég kynntist Halldóri, þegar
við urðum bekkjarbræður í 5. bekk
Menntaskólans í Reykjavík. Mér
stóð nokkur beygur af honum í
fyrstu. Hann var þá tröllaukinn
handboltakappi og skaut þrumu-
skotum sínum í markið, þar sem
ég stóð sem skotskífa, hræddur
mjög um nef mitt og fleiri við-
kvæma líkamshluta. Fljótlega
kynntist ég honum einnig sem
vöskum liðsmanni við umsjónar-
mannsstörfin, sem gátu orðið
háskafull í löngu frímínútunum
þegar baldnir skólabræður reyndu
að gera okkur „útkösturum" lífið
leitt. Það vinarþel, sem skapaðist
með okkur skólabræðrunum á
menntaskólaárunum, hélst
óbreytt alla tíð.
Halldór átti góðan hlut að upp-
byggingu lækningamiðstöðvar að
Klapparstíg 25—27 hér í bæ, 1961.
Um allmörg ár var sú miðstöð
dágott dæmi um samstarfsvett-
vang lækna í ýmsum sérgreinum
læknisfræðinnar. Þótt ég væri
ekki í samstarfshópnum nema
3—4 ár, finnst mér ég hafi öðlast í
honum verðmæta reynslu og gott
veganesti. Það hef ég alltaf þakk-
að Halldóri öðrum fremur.
Við, sem útskrifuðumst úr MR
1946, áttum þess kost að heyra eitt
kröftugasta „Valete Studia“, sem
heyrst hefur af tröppum skólans.
Á 100 ára afmæli MR voru þeir
Pétur Jónsson, óperusöngvari, og
Árni frá Múla meðal jubilantes og
drógu ekkert af sér í söngnum
þann dag. Þegar sungið var með
Halldóri á bekkjarskemmtunum á
umliðnum árum fannst mér ég
alltaf upplifa stemmninguna
miklu frá 1946.
Ólafur Jensson
Fréttin um hið skyndilega and-
lát Halldórs kom eins og reiðar-
slag yfir mig sem og aðra vini
hans og venslamenn. Slík frétt
lamar mann í fyrstu og maður
SJÁ NÆSTU SÍÐU