Morgunblaðið - 10.12.1982, Síða 35

Morgunblaðið - 10.12.1982, Síða 35
MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 10. DESEMBER 1982 35 Fljótlega kynntist ég, hve áhugamál Hrólfs voru mörg og fjölbreytileg. Hann var ágætlega hagmæltur og átti það til að yrkja fyrirhafnarlítið undir dýrum bragarháttum. Hann fylgdist náið með öllu, er laut að kveðskap og út kom á prenti, og eignaðist mikið og vandað safn kvæðabóka. Hrólf- ur kunni býsnin öll af vísum og kvæðum og var með ólíkindum hve minnisgáfa hans var mikil jafnt á bundið, óbundið og talað mál. Enda þótt kveðskapurinn væri Hrólfi einkar hugleikinn, gerði hann sér ekki síður far um að fylgjast með öllu því markverð- asta sem gerðist í íslenskum bókmenntum, í óbundnu máli, hvort sem um var að ræða skáldskap eða þjóðlífslýsingar. Sóttist hann eftir að ræða við aðra efni þeirra bóka sem hann las og var augljóst, að hann gaf sér tíma til að hugleiða vel efni þeirra. Á unga aldri fékk Hrólfur til- sögn í fiðluleik í heimasveit sinni og hefur það eflaust stuðlað að því, að hann lærði að meta klass- íska og sérstaklega léttklassíska tónlist. Þá var Hrólfur skemmti- legur og hugmyndaríkur skák- maður. Var hann ár eftir ár valinn í skáksveit Stjórnarráðsins, sem þátt tók í fyrirtækjakeppnum á vegum Skáksambands íslands. Virtist sem honum væri það ekki ævinlega kappsmál að vinna skák- ir, heldur að koma því við að „flétta“, þegar tækifæri gafst og njóta þanþols stöðunnar og áhættusamra leikjaraða. í veikindum sínum tók Hrólfur meira en áður að gefa sig að ætt- fræði og kannaði hann meðal ann- ars rækilega föður- og móðurætt sína. Samdi hann og gaf út á prenti — í takmörkuðum upplög- um — tvö kver, þar sem hann ekki aðeins rekur ættleggi sína ættlið fram að ættlið, heldur einnig sam- an æviágrip einstakra ættmenna sinna, sem honum þykja sérstak- lega eftirminnilegir. Sem dæmi um þrek og eljusemi Hrólfs má nefna, að eftir að hann veiktist réðst hann í að láta byggja bílageymslu fyrir utan húsið hjá sér og síðar að láta reisa veglegan sumarbústað í Mýrdaln- um á heimaslóð Guðrúnar eigin- konu sinnar. Lagði hann sjálfur gjörva hönd á ýmsa þætti þeirra framkvæmda. I þessu sambandi má geta þess, að Hrólfur varð fyrir þeirri þungu raun að lamast á báðum fótleggjum í mænusótt árið 1945. Með þrautseigju og langvinnri endurhæfingu tókst honum að öðlast það mikinn mátt í fæturna, að þeir nýttust honum vel með notkun göngustafs. Hafði ég aldrei annað á tilfinningunni, en að hann kæmist sinna ferða hjálparlaust, þótt á stundum hafi ef til vill gætt meira vilja en mátt- ar. Um þetta leyti í fyrra höfðu veikindi Hrólfs ágerst svo, að hann þurfti að gangast undir sér- staka lyfjameðferð reglulega á tveggja til þriggja vikna fresti. Þegar bráði af honum kom hann á Hagstofuna og vann vandasöm og ábyrgðarmikil störf, sem voru í hans verkahring og aðrir kunnu lítil skil á. í hvert skipti sem hann kom fannst okkur starfsfélögun- um, sem hefðum við hann úr helju heimt. Var þá stundum rætt ým- islegt sem gerst hafði meðan hann var frá vinnu. Af augljósum ást- æðum fylgdist Hrólfur náið með gangi þjóðmála, enda má segja, að hann hafi haldið um slagæð efna- hagskerfisins, þar sem hans aðal- starf á Hagstofunni var að reikna út framfærsluvísitöluna, verð- bótavísitölu launa, byggingarvísi- tölu og að annast hliðstæð og vandasöm viðfangsefni. Þrátt fyrir ofangreind áföll í lífi Hrólfs átti hann miklu lífsláni að fagna. Hann ólst upp hjá góðum og umhyggjusömum foreldrum og í stórum, samrýndum systkina- hópi, eignaðist fjögur mannvæn- leg börn og kjörson, sem hann gekk í föðurstað. Hinn 25. maí 1960 kvæntist Hrólfur eftirlifandi eiginkonu sinni, Guðrúnu Sveinsdóttur, hjúkrunarfræðingi, mikilli mann- kostakonu, sem hjúkraði eigin- manni sínum af einstakri alúð og umönnun í veikindum hans, enda kaus hann að liggja sína sjúk- dómslegu sem mest heima í návist Guðrúnar og dætranna. Ég er þakklátur forsjóninni fyrir að hafa orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa átt Hrólf fyrir vin og starfsfélaga. Sendi ég Guðrúnu, börnunum, aldraðri móður Hrólfs og öðrum aðstandendum hugheilar samúð- arkveðjur. Starfsfólk Hagstofunnar kveður góðan félaga og samstarfsmann og sendir fjölskyldu hans innileg- ar samúðarkveðjur. Högni T. ísleifsson Að kynnast Hrólfi Ásvaldssyni varein sú mesta lífsfylling sem hægt er að öðlast. Undirritaður varð þeirrar gæfu aðnjótandi; að vísu aðeins sl. 6—7 ár og aðallega vegna starfa beggja, hans sem for- manns Lyfjaverðlagsnefndar og ritarastarfs míns fyrir þá nefnd. Ég mun hér ekki fjalla um ævi- feril Hrólfs, enda veit ég að það mun gert af öðrum mér færari. Þau fátæklegu orð sem hér eru skrifuð eru fyrst og fremst ætluð sem þakkir til látins vinar og vinnufélaga fyrir samfylgd, sem varð alltof stutt. En enginn má sköpum renna og enginn veit raunar heldur hver verður næstur. Því ber ætíð að þakka það sem varð eða náðist; það er huggun harmi gegn þegar hið óviðráðan- lega á í hlut. I iðu lífsins standa sem betur fer nokkrir einstakir menn eins og klettar upp úr straumnum vegna kosta sinna og Hrólfur heitinn til- heyrði einmitt þessari kjölfestu. Viðmót hans og starf einkenndist af réttsýni, skerpu, öryggi og óvenjulegum vinnuhraða. Þessir eiginleikar komu honum að góðu haldi hvar sem var og ekki síst við starfið í LyfjaverðlagSnefnd, sem hlýtur að teljast vandasamt og erfitt að mörgu leyti. í því efni tel ég hiklaust að enginn sæmilega skynsamur maður hafi nokkru sinni efast um réttsýni hans. Hrólfur var mjög fróður og skemmtilegur maður, sem óhikað lét skoðanir sínar í ljós, stundum á afar litríkan hátt. Skerpan var líka svo geysileg; ég held ég hafi aldrei átt styttri og hnitmiðaðri samtö) við nokkurn mann þegar því var að skipta. Það þurfti held- ur ekki að segja honum neitt tvisvar og siglingin milli auka- atriða og aðalatriða var honum leikur einn. Hrólfur var talsvert fatlaður líkamlega frá unglingsárum vegna lömunarveiki, en kjarkurinn og lífsgleðin báru þess samt engin merki. Síðustu fimm árin barðist hann við krabbameinið, þennan meinvætt sem enn er illlæknan- legur þrátt fyrir þrotlaust erfiði færustu manna um allan heim. Hrólfur háði hildi þessa af mikilli karlmennsku eins og hans var von og vísa. Hygg ég því, að við sem til þekktum, höfum alltaf ofmetið stöðuna í þeirri viðureign, jafnvel haldið lengst af, að um varanlegan bata yrði að ræða. Eiginkonu, börnum og vensla- fólki öllu flyt ég mína innilegustu samúð. Hrólf kveð ég með þökkum fyrir allt. Reynir Eyjólfsson Haustið 1945 var hópur glaðrt unglinga saman kominn að hér aðsskólanum á Laugum í Reykja dal. Ætlunin var að afla séi menntunar á komandi vetri, Of mörgum varð veran þar upphaJ annarrar og meiri skólagöngu Veður voru tíðum góð þetta haust og Reykjadalurinn skartaði haust- litum sínum fagurlega. Þegar skólastjórinn, séra Her- mann Hjartarson, lýsti skólastarfi vetrarins fyrir okkur, lét hann þess getið, að skólinn væri að þessu sinni settur síðar en venju- lega, og hann sagði að við mynd- um vita ástæðuna. Lömunarveiki hefði gengið þar og í nærliggjandi sveitum, — og sagði hann: Hér, í næsta nágrenni skólans, veiktust tveir piltar alvarlega. Annar þess- ara pilta er dáinn núna, en hinn var fyrir skömmu fluttur suður til Reykjavíkur, mikið lamaður. Sá bróðirinn, sem lamaðist, en lifði þó, er Hrólfur Ásvaldsson, og það er hann, sem við erum að kveðja í dag með söknuði og trega. Það er sagt, að við sjáum lítið aftur, en ekkert fram. Þegar þess- ir atburðir gerðust, fyrir tæpum fjörutíu árum, var ég ekkert ann- að en óþroskaður unglingur, enda datt mér það auðvitað sizt í hug þá, að ég ætti eftir að kynnast Hrólfi Ásvaldssyni eins lengi og náið og raun varð á. Það liðu saut- ján ár. Þá var það í desember 1962, fyrir réttum tuttugu árum, að leiðir okkar Hrólfs lágu saman hér suður í Reykjavík. Við bund- umst þá nánum tengda- og vin- áttuböndum, sem hafa æ síðan orðið mér því dýrmætari sem lengra hefur liðið. Ég hef oft sagt, og get vel endurtekið það einu sinni enn hér, að mér finnst ég fáum mönnum hafa kynnzt eins vel úr garði gerðum frá náttúr- unnar hendi og Hrólfi Ásvalds- syni. Gáfur hans voru óvenjumikl- ar og fjölbreyttar, og birtust með- al annars í geysilega yfirgripsmik- illi þekkingu hans. Hann var for- kunnargóður stærðfræðingur, við- skiptafræðingur að mennt, tungu- málamaður ágætur og mikill unn- andi fagurra bókmennta, enda prýðisvel ritfær sjálfur, eins og m.a. sést á bók hans Auðnahjón, sem hann skrifaði til minningar um hjónin Hildi Benediktsdóttur og Jón Pétursson á Auðnum í Lax- árdal i Suður-Þingeyjarsýslu. Sú bók kom út haustið 1979. Auk ann arrar ritleikni var Hrólfur einnig vel hagmæltur og hafði feiknar- legt yndi af góðum lausavísum. — Þegar minnzt er á gáfur Hrólfs, koma mér í hug ummæli þjóð- kunns rithöfundar og mennta- manns, er hann mælti við mig í fyrravetur. Hann hringdi heim til mín og spurði um líðan Hrólfs og síðan röbbuðum við saman stund- arkorn. Þá sagði hann, og lagði þunga áherzlu á orð sín: „Já, Hrólfur er óvenju skemmtilega gáfaður maður.“ Þarna hitti þessi ágæti maður naglann á höfuðið, eins og svo oft endranær. Hrólfur var einmitt óvenju skemmtilega gáfaður. Þrátt fyrir sérþekkingu sína — sem enginn dró í efa — var hann svo fjarri því sem hugsazt gat að vera einskorðaður við til- tekið fræðasvið. Hann virtist vera alls staðar heima. Mér fannst oft, að eiginlega mætti einu gilda, úr hvaða átt maður kæmi að honum, skilningurinn var alltaf til staðar. En gáfur manna, þótt góðar séu, eru þó ekki nema einn þáttur af mörgum, sem skapa persónuna. Og hér er eftir að minnast á ann- an þátt, eigi síður gildan, í per- sónu Hrólfs Ásvaldssonar. Það eru mannkostirnir. Hann var það, sem forfeður okkar kölluðu að vera drengur góður. Hann var ein- lægur, sannorður og vinfastur. Greiðugur var hann og hjálpfús svo að af bar, eigingirni var ekki til í fari hans. Það eru harðir kostir fyrir tápmikinn, hraustan og lífsglaðan mann að vera lamaður í fótum frá átján ára aldri. Þá raun bar Hrólfur með mikilli hugprýði. Þó varð honum það fyrir, um eitt skeið ævinnar, að grípa til þeirrar dægrastyttingar, eða eigum við heldur að segja svalalindar, sem engum er holl og allra sízt í mikl- um mæli. Þetta mega þeir lá hon- um, sem telja sig þess um komna, en ekki tek ég undir það. Ég er ekki farinn að sjá, að ég og ýmsir aðrir hefðum staðið okkur neitt betur, ef við hefðum verið í spor- unum hans. En fyrst á þetta er minnzt, þá má hitt ekki heldur gleymast, að einmitt á þessum vettvangi vann Hrólfur glæsilegan sigur, sem vakti aðdáun þeirra er til þekktu, og gæti verið mörgum manni þörf lexía. Nú, þegar götur greinast um sinn, langar mig að þakka Hrólfi Ásvaldssyni mjög vel ánægjulega samfylgd, sem hefur nú staðið í full tuttugu ár. Við áttum að sönnu sitt heimilið hvor, en þó vorum við iðulega öll eins og ein fjölskylda, þó að nokkrar hús- lengdir væru reyndar á milli. Stórt skarð hefur nú verið höggvið í hópinn okkar, en sárastur harm- ur er kveðinn að börnum Hrólfs og eiginkonu hans, Guðrúnu Sveins- dóttur, sem stóð við hlið hans af dæmafáu þreki, í langvarandi og þungbærum veikindum, unz yfir lauk. Það er mikil hamingja að hafa fengið að kynnast slíkum manni sem Hrólfi, og minningin um hann, og sömuleiðis allt það sem ég lærði af honum, mun fylgja mér fram á veginn. Hins vegar finnst mér það í meira lagi hart aðgöngu, að hann skyldi ekki fá nema tæp 56 ár til ráðstöfunar hér í heimi. Lögmál lífs og dauða er strangt, en lífsþrá mannsins og lífið sjálft eru þó sterkust alls. Síðasta kvöld- ið, sem Njáll á Bergþórshvoli lifði, sagði hann heimafólki sínu, að dauði sinn og annarra, sem létu þá líf sitt þar á bæ, myndi aðeins vera „él eitt“. Ég held, að hann hafi haft rétt fyrir sér. Og ef svo er, sem mig grunar, þá munum við Hrólfur hittast síðar, þegar röðin kemur að mér að flytja mig um set í tilverunni. Ég hlakka til þeirra endurfunda. Valgeir Sigurðsson qr.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.