Morgunblaðið - 02.02.1983, Blaðsíða 24

Morgunblaðið - 02.02.1983, Blaðsíða 24
24 MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 2. FEBRÚAR 1983 Tímaskekkja í stjórnskipun eftir Pétur Kr. Ilafstein Endurskoðun stjórnarskrárinn- ar má líkja við lestarferð. Það var lagt upp í dögun lýðveldis á ís- landi, og nú virðist koirtið nærri náttmálum. Leiðin hefur verið torsótt og seinfarin. En hvernig er svo það farteski, sem komið er með á klakknum í áfangastað? Þau drög að nýrri stjórnarskrá, sem stjórnarskrárnefnd hefur lát- ið frá sér fara, bera þess ótvíræð merki, að þar hafa engir bylt- ingarmenn um vélað. Að vísu er flas hvergi til fagnaðar, og allra sízt eiga stjórnlög ríkis að vera byltingum undirorpin. Hins vegar hefði mátt ætla, að reynsla í lýð- veldi, sem komið er nær fertugu og byggt var á grunni úr kon- ungsríki, hefði alið af sér burð- ugra afkvæmi en nú hefur séð dagsins ljós. Sjálfsagðir hlutir Einkenni þeirra tillagna, sem frá stjórnarskrárnefnd eru komn- ar, má í stórum dráttum fella und- ir orðin sjálfsagðir hlutir. Af mörgu er að taka, en sem dæmi má nefna meðferðina á þingræðishugtakinu. { 1. gr. tillagnanna er tekið fram, að þingræði sé meðal grundvall- arreglna stjórnarskipunar ís- lands, og er það engin breyting frá ákvæði núgildandi stjórnarskrár um þingbundna stjórn. Hins vegar gerir stjórnarskrárnefndin tæpast ráð fyrir því, að nokkur maður skilji, hvað í þingræðishugtakinu felst. Þannig segir til dæmis í 13. gr-: „Ríkisstjórn skal njóta stuðn- ings meiri hluta Alþingis eða hlutleysis. Hún skal því aðeins mynduð, að forseti hafi gengið úr skugga um, að meiri hluti Al- þingis sé henni ekki andvíg- ur ... Ríkisstjórn skal láta af störfum, ef meiri hluti Alþingis lýsir yfir vantrausti á henni." Hér er greinilegur ofvöxtur hlaupinn í þá áráttu að tíunda sjálfsagða hluti, svo að úr verða staglkenndar endurtekningar. Sama má segja um skilgreiningu á valdsviði forseta íslands annars vegar og ríkisstjórnarinnar hins vegar, sem raunar er óbreytt að efni til frá því, sem nú er. í 11. gr. segir, að forseti beri ekki ábyrgð á stjórnarathöfnum, en samkvæmt 15. gr. fara ráðherrar með vald forseta. Síðan er staglast á þess- um sjálfsagða hlut í fjölmörgum greinum, þar sem tiltekið er, að forseti geri hitt og þetta að tillögu ráðherra, svo sem að stefna saman Alþingi, fresta því og slíta, gefa út bráðabirgðalög eða náða menn og veita almenna uppgjöf saka. í greinargerð er á einum stað fram tekið, að því sé bætt við, að forseti vinni umgetin störf að tillögu ráðherra, „svo að ekki verði um misskilning í því efni að ræða". Stjórnarskrárnefndin virðist þannig ekki telja nægjanlegt að tiltaka meginregluna, heldur þurfi að skýra hana sérstaklega í hvert sinn, sem á hana reynir. Þetta dregur að mínu áliti mjög úr nauðsynlegum einfaldleik stjórn- laga, þar sem einungis meginregl- ur eiga að koma fram. Sama má raunar segja um þá aðferð að til- taka sérstaklega hin sjálfsögðustu réttindi borgaranna, svo sem prentfrelsi og félagafrelsi, en láta ekki nægja að greina takmörk þeirra og ganga þá út frá því, að slík réttindi séu óafmáanlega fyrir hendi með frjálsum mönnum. Þrígreining ríkisvaldsins íslenzk stjórnskipun á í orði kveðnu að byggjast á þrígreiningu ríkisvaldsins. Engin alvarleg til- raun er til þess gerð í þessum stjórnarskrárdrögum að skerpa skil milli hinna þriggja greina þess, löggjafarvalds, fram- kvæmdavalds og dómsvalds. Skoð- anir eru að vísu skiptar um það, með hverjum hætti væri hentast að ná slíkri aðgreiningu í raun, sem allir vita, að enn er víðs fjarri því að vera sú, sem ætlað er.' Þannig hefur til dæmis Bandalag jafnaðarmanna lagt fram ítarleg- ar hugmyndir um aðgreiningu löggjafarvalds og framkvæmda- valds. Þar er lagt til, að forsætis- ráðherra verði kosinn beinni kosn- ingu um landið allt til fjögurra ára í senn. Þannig kjörinn forsæt- isráðherra skipi með sér ríkis- stjórn og fari ráðherrarnir með framkvæmdavaldið. Verði þing- maður ráðherra, taki varamaður hans sæti á Alþingi. Þingrofsrétt- ur verði afnuminn. Alþingi fari með fjárveitingarvald, löggjafar- vald og strangt eftirlitsvald með framkvæmd löggjafar, en þing- mönnum verði óheimilt að sinna framkvæmdavaldsstörfum. Hér er vissulega lögð til gagn- ger umbreyting á stjórnskipun landsins í því skyni að ná þeim markmiðum, sem í orði kveðnu eru fram sett í núgildandi stjórn- lögum og tillögum stjórnarskrár- nefndar. Af einhverjum óskýrðum ástæðum hefur sjálft löggjafar- valdið, Alþingi, fram til þessa vik- ið sér með einum eða öðrum hætti undan þessu stjórnarskrárbundna markmiði, og svo virðist enn eiga að gera. Hitt er þó mála sannast, að aðgreiningu ríkisvaldsins væri unnt að ná fram í raun án þess að umbylta stjórnskipuninni svo mjög, er felst í tillögum Bandalags jafnaðarmanna um sérstaka kosn- ingu forsætisráðherra. Til þess að svo megi verða, þarf í fyrsta lagi að taka fyrir hömlulítið framsal löggjafans á valdi sínu í hendur framkvæmdavaldsins. f öðru lagi þarf að afnema þingrofsrétt eða takmarka hann við áskilnað um Pétur Kr. Hafstein „Heimildin til útgáfu bráðabirgðalaga er ekki aðeins úr tengslum við raunveruleikann og tímaskekkja í stjórn- skipun lýðræðisríkis. Hún er einnig í ósætt- anlegri mótsögn við meginmarkmið ís- lenzkrar stjórnskipunar um þrígreiningu ríkis- valdsins.“ samþykki Alþingis, eins og stjórn- arskrárnefnd leggur nú til. f þriðja lagi þarf að reisa ótvíræðar skorður við hvers kyns störfum al- þingismanna á sviði fram- kvæmdavaldsins og taka upp þann hátt, sem í Noregi er, að verði þingmaður ráðherra, skuli vara- maður hans taka sæti á Alþingi, á meðan svo varir. í fjórða lagi þarf að ætla löggjafanum skilorðslaust eftirlit með framkvæmd laga og trygKja framgang þess til dæmis með óheftu rannsóknar- og eftir- litsvaldi fastanefnda Alþingis. Þótt margt fleira mætti tína til, vil ég aðeins til viðbótar nefna það, sem að minni hyggju skiptir ekki minnstu máli. Það er algjört afnám heimildar til útgáfu bráða- birgðalaga. Afnám bráðabirgðalaga í 28. gr. núgildandi stjórnar- skrár er að finna heimild til út- gáfu bráðabirgðalaga milli þinga, þegar brýna nauðsyn ber til. Dóm- stólar hafa tekið af öll tvímæli um það, að framkvæmdavaldið, ríkis- stjórn á hverjum tíma, er talið eiga endanlegt mat á því, hvenær sú brýna nauðsyn verður talin vera fyrir hendi. í tillögum meiri- hluta stjórnarskrárnefndar er svofellt ákvæðií 26. gr.: „Þegar brýna nauðsyn ber til, getur forseti að tillögu ráðherra gefið út bráðabirgðalög milli þinga, en efni þeirra skal áður kynnt fyrir viðkomandi þing- nefnd. Ekki mega þau þó brjóta í bág við stjórnarskrána. Ætíð skulu þau lögð fyrir næsta Al- þingi í upphafi þings. Nú hefur Alþingi ekki samþykkt bráða- birgðalög 3 mánuðum eftir að þing er sett, og falla þau þá úr gildi-“ Fulltrúar Alþýðuflokksins í stjórnarskrárnefnd leggja til, að greinin falli niður og þessi heimild þar með að öllu leyti afnumin. Meirihluti nefndarinnar segir hins vegar í greinargerð sinni: „Hér hefur vald ríkisstjórnar til útgáfu bráðabirgðalaga verið verulega þrengt, en ekki þótti rétt að afnema ákvæðið með öllu. Gert er að skilyrði að bráðabirgðalög verði ætíð lögð fyrir þing í upphafi þings. Og hafi Alþingi ekki sam- þykkt þau innan 3 mánaða falla þau sjálfkrafa úr gildi. Er hér um nýjar takmarkanir á valdi ríkis- stjórnar að ræða, auk þess sem nú skal kynna efni bráðabirgðalag- anna fyrir viðkomandi þingnefnd áður en þau eru sett. Gefur það m.a. stjórnarandstöðunni tæki- færi til að taka afstöðu til laganna áður en gildistaka þeirra á sér stað.“ Þegar betur er að gætt, er ljóst, að hér er engan vegínn um að ræða jafnmikla takmörkun á heimild til útgáfu bráðabirgða- laga og stjórnarskrárnefnd vill vera láta. Alþingi kemur að jafn- aði saman um 10. október ár hvert og stendur fram undir jól eða í um það bil tvo og hálfan mánuð. Jóla- leyfi Alþingis stendur oftast fram undir janúarlok. Það hefur verið talið og staðfest af dómstólum, að orðin milli þinga í stjórnarskrár- ákvæðinu standi ekki í vegi fyrir útgáfu bráðabirgðalaga, þótt í rauninni sé aðeins um frestun eins og sama þings að ræða. Þótt ekki sé að vísu við því að búast, að nýr þriggja mánaða frestur verði talinn byrja að líða, er Alþingi kemur aftur saman eft- ir jólaleyfi, má hins vegar ætla, að ríkisstjórnir freistist til þess að setja ný bráðabirgðalög um sama eða svipað efni í jólaleyfi þingsins. Það virðist því lítið vera því til fyrirstöðu, að bráðabirgðaráðstaf- anir frá sumri eða hausti geti í raun eða að efni til haldið gildi sínu fram á næsta vor, þótt þær hljóti ekki afgreiðslu og samþykki þingsins. Litlu sem engu skiptir það heldur í reynd, þótt þing- nefndum og stjórnarandstöðu gef- ist kostur á að kynna sér efni fyrirhugaðra bráðabirgðalaga. Ef til skarar verður látið skríða gegn vilja þessara aðila, stendur hinn eiginlegi löggjafi jafnt fyrir orðn- um hlut sem áður, ef svo ber und- ir. Það er því augljóslega lítið hald í þeirri takmörkun, sem stjórn- arskrárnefnd telur sig nú vera að leggja til. Ekki er annað sýnt en áfram geti blómgazt og dafnað hin uggvænlega misnotkun á þessu skæða Estrup-vopni þreklausra ríkisstjórna. Það þarf ekki að hafa um það mörg orð, að þær aðstæður, sem áður þóttu réttlæta heimild til út- gáfu bráðabirgðalaga, eru engan veginn fyrir hendi í þjóðfélagi nútímans. Það er að jafnaði ekkert því til fyrirstöðu, að Alþingi verði kvatt saman til fundar með skömmum sem engum fyrirvara, ef raunverulega og brýna nauðsyn ber til. í kostnað eða fyrirhöfn af slíku getur þjóð með sjálfsvirð- ingu ekki leyft sér að horfa. Komi hins vegar ytri aðstæður á borð við náttúruhamfarir eða styrjald- arátök í veg fyrir fundi Alþingis, er vafalaust, að stjórnvöld verða talin geta gripið til margs konar og nauðsynlegra aðgerða í skjóli neyðarréttar. Úr íslenzkri stjórn- skipunarsögu er skemmst að minnast ákvarðana Alþingis um meðferð utanríkismála og kon- ungsvalds og frestun kosninga, sem gripið var til í upphafi heims- styrjaldarinnar síðari og voru réttlættar á grundvelli óhjá- kvæmilegrar og brýnnar nauð- synjar eða hins stjórnskipulega neyðarréttar, sem svo hefur síðar verið nefndur. Það er því ljóst, að við samningu stjórnarskrár fyrir ísland þarf ekki að leita langt yfir skammt í þessum efnum. Heimild- in til útgáfu bráðabirgðalaga er ekki aðeins úr tengslum við raun- veruleikann og tímaskekkja í stjórnskipun lýðræðisríkis. Hún er einnig í ósættanlegri mótsögn við meginmarkmið íslenzkrar stjórnskipunar um þrígreiningu ríkisvaldsins. Það er andstætt eðli þeirrar greiningar og getur ekki Ieitt á aðrar götur en ógöngur, þegar framkvæmdavaldið tekur sér sæti löggjafans, sem hann get- ur þó mæta vel skipað sjálfur. Lokaorð Hér hefur aðeins fátt eitt verið tínt til af því, sem stingur í augun við yfirlestur tillagna stjórnar- skrárnefndar. Þar er að sönnu margt fleira, sem þarf gaumgæfi- legrar athugunar við, svo sem ákvæði um náttúruauðlindir og eignarrétt, vinnumál og mann- réttindi. Þá er ekki síður ástæða til að grandskoða eitt og annað, sem alls ekki er nefnt í lillögum stjórnarskrárnefndar, og nægir að minna á þau álitaefni, er lúta að ábyrgð og stöðu verkalýðs- og at- vinnurekendasamtakanna í stjórnkerfi landsins. Alþingi þarf að sjálfsögðu töluverðan tíma til að fjalla um þau mikilsverðu mál- efni, sem hér er um að ræða. Þá á þjóðin sjálf einnig og ekki síður heimtingu á rúmum tíma til að glöggva sig á tillögum stjórn- arskrárnefndar eða fyrirhuguðu frumvarpi til nýrra stjórnlaga, rökræða þau efni og koma hug- myndum á framfæri, eftir því sem verkast vill. Af þessum sökum teldi ég það glapræði, ef reynt yrði að knýja fram samþykkt nýrrar stjórnarskrár í því andrúmi upp- lausnarinnar, sem nú ríkir á AI- þingi. Björgunarnetið Markús komið í um 130 skip BJÖRGUNARNETIÐ Markús er nú komið um borð í hátt í 200 ísiensk skip, bæði fiskiskip og flutningaskip, en netið er sem kunnugt er hannaö af Markúsi B. Þorgeirssyni í Hafnarfirði. Hannes Þ. Hafstein hjá Slysa- varnafélagi íslands, Guðjón Ármann Eyjólfsson, skólastjóri Stýrimannaskólans í Reykjavík, og Viggó E. Maack hjá Eim- skipafélagi fslands, hafa mælt með netinu sem viðbót við þau. björgunartæki sem eru fyrir í flota landsmanna og m.a. eru þar nefnd sérstök tilvik eins og í sambandi við borðhá skip, við hafnir, ár og vötn og við björgun á milli skipa. Meðal þeirra skipa sem hafa nú tekið Markús um borð eru öll skip Eimskipafélags íslands, skip Skipadeildar SÍS, fjöldi fiskiskipa frá Vestmannaeyjum, Hafnarfirði, Reykjavík, Akra- nesi, Neskaupstað, Seyðisfirði, Ólafsfirði, Húsavík, Grindavík, Sandgerði, Keflavík og skip frá fleiri verstöðvum. Fyrstu björgunarnetin tók Guðmundur Jónsson skipstjóri á Maí frá Hafnarfirði um borð í apríl 1980. tnmrmm

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.