Morgunblaðið - 21.08.1983, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - 21.08.1983, Blaðsíða 28
28 MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 21. ÁGÚST 1983 Tónlistarhús við höfnina Tillaga tveggja arkitektanema um stað fyrir bygginguna í vetur sem leið komu fram í dagblöðum ákveðnar hugmyndir um að reisa bæri sem fyrst tónleikahús f Reykjavík. Hópur fólks hefur bundist samtökum um að vinna að framgangi þessa máls. Slíkt tónlistarhús, ef reist yrði, myndi bæta úr brýnni þörf sem lengi hefur verið hér í borginni fyrir fullkominn sal til tónlistarflutnings. Engin þeirra bygginga sem hingað til hafa verið notaðar til hljómleikahalds uppfyllir lágmarkskröfur um hljómburð og skortur á sætarými er tilfinnanlegur þegar hingað koma stórstjörnur á sviði tónlistar. Ekki er ætlun okkar að fjalla um hvernig standa beri að gerð hússins sem slíks enda þessháttar umfjöllun aðeins á færi sérfróðra manna. Mikilvægi stadarvals Tilgangur þessarar greinar er að vekja athygli á mikilvægi stað- arvals fyrirhugaðs tónlistarhúss og koma á framfæri hugmyndum um hvernig rétt staðsetning slíkr- ar starfsemi gæti orðið hvati fyrir listalíf í borginni og borgarbrag- inn í heild, án þess slíkt þyrfti að hafa í för með sér kostnaðarauka. Tvenns konar tónlistarhús Hús fyrir starfsemi af þessu tagi má hugsa sér á tvennan hátt. I mörgum nýrri tónleikahúsum er allri starfsemi og þjónustu komið fyrir undir einu þaki. Slíkar byggingar eru í flestum tilvikum sjálfstæðar einingar þar sem hugsað er fyrir öllu, s.s. bílastæð- um, veitingasölu o.s.frv. Oftar en ekki er húsum af þessari gerð val- inn staður á auðum svæðum sem vel liggja við samgöngum, gjarnan í úthverfum, en án beinna tengsla við nánasta umhverfi. Á hinn bóg- inn má hugsa sér tónleikasal sem er samgróinn hluti af stærri borg- arheild, t.d. miðbæ, þar sem bíla- stæði eru samnýtt af mörgum að- ilum og starfsemin nýtur góðs af því sem nánasta umhverfi hefur upp á að bjóða, verslun, veitinga- húsum o.s.frv. Nýi miðbærinn í Reykjavík er auðvelt að finna dæmi um hliðstæðar stofnanir sem fallið geta undir hinn fyrri efnisflokk. í hinu nýja Borgar- leikhúsi er gert ráð fyrir bíla- geymslum, veitingasölu, anddyri og biðsölum sem lítt tengjast ann- arri starfsemi en þeirri sem hugs- uð er í húsinu. Upphaflega var húsið hugsað sem hluti af stærri heild, þ.e.a.s. nýja miðbænum, en eins og flestum mun kunnugt um hafa forsendur breyst og litlar lík- ur eru á að hann muni nokkurn tíma rísa í þeirri mynd sem ætlað var. Hætt er við, að þegar hið nýja leikhús loks kemst í notkun þá verði það einangruð stofnun, stað- sett fjarri hliðstæðri starfsemi í borginni og án stuðnings frá nán- asta umhverfi. Þegar leikhúsi eða tónleikahúsi er valinn staður í nánum tengslum við gróna miðborg eða borgar- kjarna, nýtur starfsemin góðs af öllu því sem þegar er fyrir hendi í slíkum hverfum. Ekki þarf að gera ráð fyrir sérstakri veitingaaðstöðu ef í næsta nágrenni eru kaffihús, matsölustaðir, skemmtistaðir, verslanir o.s.frv. Fjölbreytni þjón- ustu sem gestum stendur til boða er óneitanlega meiri en nokkurn tíma væri hægt að bjóða upp á í einstakri byggingu. Núverandi aðstæður Fram til þessa hefur Háskólabíó verið miðstöð tónleikahalds í borginni ásamt Laugardalshöll. Litla þjónustustarfsemi er að finna í næsta nágrenni þessara tveggja bygginga. Fólk sem vill gera sér dagamun í tengslum við hljómleikaferð á vart annarra kosta völ en að aka yfir í aðra borgarhluta. Oftast nær koma tónleikagestir akandi í bílum sín- um í misjöfnu veðri og halda brott að tónleikum loknum. Ef hljóm- leikahús væri staðsett nær mið- borginni skapaðist möguleiki á því að njóta góðs af því sem hún hefur upp á að bjóða á undan og eftir tónleikum. Tónlistarstarfsemin gæti þannig orðið lyftistöng fyrir þjónustustarfsemi í hverfinu og ýtt undir fjölbreytilegt götulíf. Tónlistarhús við höfnina Ætlun okkar hér er að vekja at- hygli á stað í miðborginni sem að okkar dómi gæti hentað mjög sem staður fyrir tónlistarhús. Hér er um að ræða núverandi athafna- svæði Hafskips við austurhöfnina, einkum þann hluta sem næst ligg- ur sjónum og Ingólfsgarði (sjá kort). Með tilkomu Sundahafnar létti mjög álagi af Reykjavíkurhöfn og þó einkum austurhöfninni. Á þessu sviði standa nú hús sem notuð eru sem vöruskemmur og eru flest þeirra úrsér gengin, að Faxaskála undanskildum. Kostir þessarar lóðar eru ótvíræðir fram yfir aðrar lóðir í miðborginni. Svæðið liggur vel við einni helstu umferðaræð í borginni. Skammt er í Lækjargötu og Lækjartorg, aðra aðalmiðstöð strætisvagna í borginni. Utan verslunar- og skrifstofutíma er nóg framboð á bílastæðum í miðborginni og handan götunnar er hið nýja bíla- geymsluhús Seðlabankans. Á næstu grösum er fjöldi veitinga- staða, kaffihúsa, bíó, hótel, skemmtistaðir og fjöldi verslana í miðbæ Reykjavíkur. Ópera og Þjóðleikhús eru í næsta nágrenni. Vel mætti hugsa sér að tengja tónleikahúsið við Lækjargötu með yfirbyggðum göngustíg. Svæðið Þeir Ævar og Pétur við höfnina — I baksýn er svæðið sem þeir hugsa sér undir tónlistarhús. býður upp á ótrúlega möguleika á frekari uppbyggingu og er vel fall- ið til framkvæmda án þess að fela Myndin sýnir höfnina og miöbæinn í Reykjavfk. Lóðin sem um er rætt í greininni er á miðri mynd. í sér röskun á viðkvæmu eldra um- hverfi. Nálægðin við höfnina og sjóinn gefa þessum stað sérstakt gildi og bjóða upp á óvenjuleg tengsl á milli byggingar og umhverfis. Ef þetta svæði yrði fyrir valinu, sem við vonum, gæti fyrirhuguð arkitektasamkeppni um tónleika- sal einnig falið í sér að gerð yrði grein fyrir mögulegri uppbygg- ingu í tengslum við tónlistarsali og hvort ekki mætti byggja í áföngum til sparnaðar. Hliðstæður erlendis Á síðustu árum hefur átt sér stað svipuð þróun víða erlendis og í Reykjavík varðandi breytta nýt- ingu hafnarsvæða. Athafnasvæði hafa verið flutt fjær miðborginni og hafnarhverfi í grennd við mið- borgina tekin undir annars konar starfsemi. í ýmsum borgum hefur lista- og menningarstarfsemi ver- ið valinn slíkur staður. Má nefna Boston, Toronto, Vancouver og svipaðar hugmyndir eru á döfinni í Osló. Einstakt tækifæri Með staðsetningu tónlistarhúss- ins við höfnina gæti sparast mikið fé við gerð bílastæða, veitinga- aðstöðu o.s.frv. sem óhjákvæmi- lega fylgir ef byggt yrði fjær miðborginni. Að framansögðu er ljóst að hér er einstakt tækifæri til að gera allt í senn, glæða miðbæinn nýju lífi, fegra borgarmyndina og skapa miðstöð fyrir hið grósku- mikla tónlistarlíf í landinu. Þess- ari hugmynd er hér með komið á framfæri og vonum við að þessi grein megi verða upphaf umræðu um hvernig velja megi tónlistar- húsi verðugan stað í borginni. Ævar Harðarson arki- tektanemi, Osló. Pétur H. Armannsson arkitektanemi, Toronto. Skástrikaða svæðið á kortinu sýnir mögulega staðsetningu tónleika- húss. Svæðið innan striklínunnar sýnir möguleika á frekari uppbygg- ingu. Punktalínan sýnir tengsl við Lækjartorg.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.