Morgunblaðið - 24.11.1983, Side 28

Morgunblaðið - 24.11.1983, Side 28
MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 24. NÓVEMBER 1983 27 tilnefningar. Kannski verður hann síðasta þjóðskáldið. Tímarnir hafa breytzt. Nú er allt óformlegra en áður. Allt lagt að jöfnu. Stílleysi einkenni poppaldar. Litlar kröfur gerðar til listrænna vinnubragða. Samt eru enn lesin ljóð á þjóðhátíð 17. júnk Það er þó nokkur yfirlýsing um sérstöðu ís- lenzkrar menningar. Það var kennari Tómasar og vinur, ólafur Lárusson próf- essor, sem bað hann semja fyrsta ávarp fjallkonunnar 17. júní. Það átti að vera í óbundnu máli, „en mér þótti fara betur á að yrkja ljóð,“ ságði Tómas. Þannig komst þessi venja á. Hún er vinaleg áminning um það, sem gefur lítilli þjóð gildi. ★ Tómasi var dauðinn áleitið umhugsun- arefni. Hann sagði mér, að hann hefði kviðið fyrir honum, þegar hann hefði verið ungur, „en nú er ég hættur því.“ Hann var svo mikill trúmaður á annað líf, að hann var þess fullviss, að hundurinn hans og einkavinur, Stubbur, sem hann gerði ódauðlegan í einstæðu ljóði, biði hans handan við gröf og dauða. Um kvæðið sagði hann við mig: „Þetta verða eftirmæli um hundinn minn og ég er að vona, að það komist inn í sálmabókina.“ Dauðinn var Tómasi áleitið yrkisefni, ekki sízt í Fljótinu helga 1950. Heilsufari hans var þannig háttað um þær mundir, að það knúði hann til að velta fyrir sér dauðanum meir en hann hafði áður gert. „En ég komst að þeirri niðurstöðu," sagði hann, „að það er eitthvað í okkur sem sættir okkur við dauðann, ef við höfum kjark til að hugsa um hann eins og hann er úthverfan á lífinu." Þegar Tómas var að yrkja kvæðið um Stubb, sagði hann mér, að tilhlökkunin væri að mestu horfin. Áð- ur hafði hann talið það mikla hamingju að ná háum aldri — og er það skjalfest í Svo kvað Tómas. Nú sagðist hann helzt hafa gaman af að dunda við að yrkja eftirmælin um hundinn. Ég sagði mér fyndist hann líta vel út. En hann horfði á mig og sagði brosandi: „Eins og hús, sem er nýmálað að utan en er að hrynja að innan. En ég er orðinn svo gamall, að það sakar ekki þó ég sé svolítið trúaður." Mér fannst hann hafa tilhneigingu til örlagatrúar. Tómas minntist á vináttuna í þessu samtali okkar og lagði áherzlu á mikilvægi hennar. Hann kvaðst hafa ort um vinátt- una og hlýjuna í síðasta ljóðinu í Stjörnum vorsins. Síðar sagði hann mér, að hann hefði reynt að finna þetta Ijóð, en það væri horfið úr bókinni. „Ég hef líklega gleymt þessu ljóði í prentsmiðjunni," sagði hann. Hann skrapp í burtu þegar verið var að setja Stjörnur vorsins, en fékk í hendur síðustu próförk, þegar hann kom heim aft- ur og fannst þá síðasta ljóðið misheppnað. Hann orti það upp, en líklega hefur það glatazt. Tómasi þótti vænt um að Almenna bókafélagið ætlaði að gefa út Stjörnur vorsins í tilefni af 75 ára afmæli hans. Hann sagði, að þeim Kristjáni Karlssyni þætti Stjörnur vorsins skemmtilegasta ljóðabókin hans. ★ Þeir Tómas og Morten Ottesen skóla- stjóri voru miklir mátar. En Morten trúði ekki á annað líf. Einhvern tíma yfir kaffi- bolla á Borginni sagði Tómas okkur, vinum sínum, hvernig dauðinn hefði leikið á Morten Ottesen: „Þegar hann var látinn, kom hann í draumi til mín, glotti og sagði: „Það er eins og ég hef alltaf sagt þér, Tommi minn, það er ekkert annað líf.“ ★ Ástsælasta skáld þjóðarinnar er dáið, fulltrúi gleði og æsku, boðberi birtu og vors; eitt af mestu ljóðskáldum sinnar samtíðar horfinn þessum heimi: Ó, dauði, taktu vel þeim virti mínum sem vitjað hefur þreyttur á þinn fund. Tómas fór eftir hollri ábendingu Maet- erlincks, að hugsa dálítið um dauðann á hverjum degi. Þá yrði auðveldara að deyja þegar að því kæmi. „Við deyjum dálítið hvern dag,“ sagði hann, „þangað til við deyjum. Þá hættum við að deyja.“ Tómas Guðmundsson er hættur að deyja. Hann lifir með þjóð sinni. Matthías Johannessen Tómas Guðmundsson flytur þjóðhátíðarljóð sitt á 1100 ára afmæli íslandsbyggðar á Þingvöllum 1974. kaffibolla á Borginni, sagði Bjarni Guð- mundsson okkur þá sögu — og Tómas staðfesti hana — að skáldið hefði fyrir mörgum áratugum verið spurt að því, hvers vegna hann væri að yrkja. Tómas svaraði: „Það er til þess að ég hafi eitthvað gott að lesa, þegar ég er orðinn gamall." Eftir hátíðahöld stúdenta 1. desember fyrir nokkrum árum, sagði Tómas við mig hryggur: „Það er sorglegt að horfa upp á þá berjast fyrir skoðunum, sem þeir hafa ekki.“ Þegar flestir ráðherrarnir voru á Norð- urlandaráðsfundi erlendis fyrir allmörg- um árum, sagði Tómas við mig: „Þetta er voðalegt ástand hér og ekkert útlit fyrir, að það fari batnandi, nú er ríkisstjórnin að koma heim.“ í annað skipti sagði hann: „Annaðhvort verður að leggja niður dagblöðin eða ís- lenzkuna, það fer ekki saman.“ Mér er nær að halda að Halldór Laxness hafi jafnvel meiri áhyggjur af íslenzkunni í fjölmiðlum en Tómas. ★ Tómas kvaðst einungis hafa snarað tveimur ljóðum um dagana. Annað var eft- ir Kipling, en hitt Sigurð Grímsson. Það þýddi hann á ensku. Það byrjaði svona: Syngdu góða, syngdu sólskinsljóðið þitt. Þeir bekkjarbræðurnir í menntaskóla vissu, að Sigurður ætlaði að láta kvæðið fljóta með í ljóðabók sinni, Við Langelda. „Þegar Sigurður var að lesa prófarkirn- ar af bókinni, fórum við að hugleiða, hvernig við gætum stritt honum,“ sagði Tómas. „Það varð úr að ég þýddi þetta ljóð á ensku, síðan gengum við heim til Sigurð- ar og fengum að glugga í próförkina. Þeg- ar við komum að þessu ljóði sagði ég: „Heyrðu, þetta getur ekki verið eftir þig, þetta er eftir Swinburne". Sigurður hrökk við og varð áhyggjufullur og ætlaði að fara að eyðileggja ljóðið, en við settum upp sakleysissvip. Ljóðið væri örugglega eftir Swinburne, enda væri það stuðlað á ensk- unni. „Ja, ég hlýt að hafa lesið þetta ein- hvern tíma,“ sagði Sigurður skelkaður og átti nú ekki annað eftir en rífa ljóðið úr próförkinni. Þá sögðum við honum sann- leikann." Á menntaskólaárunum var gleði og gáski ofar hverri kröfu. Tómas var ímynd stúdentsins. Æskan var ávallt í fylgd með honum. ★ Tómas Guðmundsson var ekki einungis borgarskáld, heldur einnig þjóðskáld án

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.