Morgunblaðið - 16.06.1985, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - 16.06.1985, Blaðsíða 18
*’ 18aB MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 16. JÚNÍ 1985 Svavar A. Jónsson Er Guð „superman“? Allt frá alda öðli hefur uppeldi að mestu farið fram á heimilinu. Það hefur verið litið á ríkið (dagheimili, skóla o.þ.h.) og kirkjuna sem nokkurs konar auka-uppalendur. En er þetta að breytast? Er ríkið orðið áhrifamesti aðilinn? Börn eru á dagheimilum frá kl 9—5 eða í skólanum mestan hluta dags. Hvað gera þau í frítímum? Koma þau seint heim, borða, hátta sig, horfa á sjónvarp eða myndband og sofna að lokum fyrir framan tækið? Nú, á ári æskunnar, er vert að gefa áhugamálum, þroskastigi og hugsanagangi barna góðan gaum. Hugsa börn t.d. einhvern tíma um Guð? Hver er hann í þeirra augum? Á aldrinum 2—7 íra er trú barnsins í gegnum innlifun og ímyndun. »Og menn færðu born til hans, til þess að hann skyldi snerta þau, en lærisveinarnir ávítuðu þá. En er Jesús sá það, gramdist honum það og hann sagði við þá: „Leyfið börnunum að koma til mín og bannið þeim það ekki, því að slíkra er guðsríkið. Sannlega segi ég yður: hver, sem ekki tek- ur á móti guðsríki eins og barn, mun alls eigi inn í það koma.“ Og hann tók þau sér í fang, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.“ (Mark: 13-16.) Hvernig á að ala upp? Hver á að ala upp? Foreldrar? Skólar? Kirkjur? Á að blanda trúmálum inn í uppeldið? Hver á að sjá um það? Sjálfsagt fást aldrei svör við þessum spurningum, sem all- ir verða á eitt sáttir um, en eitt er þó víst að í árhundruð hafa börn ekki komist hjá því að full- orðnir miðli þeim einhverri trú- arlegri fræðslu, hvort sem for- eldrar, skólar eða kirkjur hafa verið þar að verki. Ætli það sé áhuginn á að börn eignist lifandi trú á frelsarann, Jesúm Krist, eða siðferðisboðskapur kristn- innar sem veldur því að hinir fullorðnu halda áfram að pré- dika fyrir börnunum? Eru börn fædd trúhneigð? Er það þá þessvegna sem þau eru upp- frædd? Eða vegna þess að krist- indómurinn er ríkistrú? Ýmsir fræðimenn hafa rann- sakað sameiginleg einkenni barna á hinum ýmsu aldursstig- um og hvernig trúarímynd þeirra tengist þessum einkenn- um. Prófessor Ivar Asheim í Noregi hefur haldið fjöldann all- an af fyrirlestrum um þessi mál. Rannsóknir hans og ályktanir má t.d. lesa í bókinni „Relig- ionspedagogikk — en innföring". Ronald Goldman, guðfræðingur og uppeldisfræðingur, hefur stuðst við vitsmunakerfisskoð- anir svissneska fræðimannsins Jean Piaget í sambandi við trú- arþroska barna, sem fram kem- ur í bókinni „Readiness for relig- ion“. Lítum nú á nokkur mikil- væg atriði hjá Asheim og Goldman. Asheim talar um formlegt og óformlegt uppeldi: Um formlegt uppeldi er átt við eitthvað skipu- lagt, t.d. skólann, en óformlegt uppeldi á einkum við það sem gerist heima fyrir, hið mikil- væga samband milli barna og fullorðinna. Asheim leggur áherslu á mik- ilvægi heimilisins fyrir uppeldi og persónuþroska barnsins: — Barnið verður að finna að það sé reiknað með því. Foreldr- arnir verða að gefa sér tíma fyrir börnin. — Á heimilinu kynnast börn- in fyrstu þáttum menningar- innar. Málfar og málþroski barna miðast við heimilin, þar læra þau að tala. Málið opnar mönnum mikla heima. Ef barn virðist t.d. ekki hafa neina tilfinningu fyrir heimi trúarbragða er orsakanna oft að leita á heimilunum — það hefur ekki verið talað við þau um neitt slíkt. — Barnið þarfnast einhvers fullorðins sem leiðbeinir því og er sálusorgari þess. — Asheim telur það sjálfsagðan hlut í kristnu uppeldi að leyfa börnunum að hafa sínar eigin skoðanir. Auðvitað má leiða þeim eitt og annað fyrir sjón- ir en ekki að ætlast til að þau samþykki skoðanir foreldra sinna. Barnið þarfnast þess að litið verði á það sem manneskju. Það birtist t.d. í því að þau vænta alvarlegra svara þegar þau spyrja ein- hvers. Það er ljóst að tengsl eru á milli þroskastigs barna og trú- arlífs þeirra. Hinn viðurkenndi svissneski fræðimaður Jean Pi- aget hefur sett fram staðhæf- ingu um þróun vitsmunalífs barna. Hann telur heilbrigðian einstakling ganga í gegnum fjög- ur vitsmunaleg skeið. Þau eru: 1. Skyn- og hreyfiskeiðið 0—2 ára. Barninu tekst að greina sjálft sig frá umhverfinu. Hlutur fær merkingu þó hann sé ekki sýnilegur. 2. Forskeið rökrænnar hugsun- ar/foraðgerðarstig, 2—7 ára. Það er erfitt að setja sig í spor annarra og sjá hluti frá sjónarhóli annarra. Oft er þessu stigi skipt í tvennt: a. forskeið hugtakamyndunar 2—4 ára. í leik eru hlutir látnir tákna eitthvað ann- að en þeir eru. b. innsæisskeið 4—7 ára. Varðveisluhugtakið er mikilvægt. Barnið kann að flokka fyrirbæri. 3. Hlutbundnar aðgerðir 7—12 ára. Barnið getur aðeins framkvæmt aðgerðir á raun- verulegum hlutum, en ekki með hugtökum. 4. Formlegar aðgerðir. Loka- skeið 12 ára og eldri: Ein- staklingurinn er fær um að hugsa formlega rökrétt og miðar ályktanir sínar við form staðhæfinga án tillits til inntaks eða efnis þeirra. Velt- ir fyrir sér hinu mögulega, gerir ályktanir. Hættir að vera eins bundinn raunveru- leikanum. Nú er spurningin: Hvernig er trúarlíf barna á fyrrnefndum skeiðum? Asheim segir: — Á 2. skeiði, 2—7 ára, mun trú barnsins ekki liggja I gegnum hugtök heldur innlifun og ímyndun. — Á 3. skeiði, 7—12 ára, verður fræðslan að vera þannig að hún höfði mjög til hins daglega lífs barnsins, miðist við hið hag- nýta. Ekki er hægt að ætlast til þess að barnið skilji abstrakt guðfræðileg hugtök. — Á 4. skeiði, 12 ára og eldri, er mjög mikilvægt að hjálpa ungl- ingum við að yfirfæra trú sína frá hinu barnslega-hlutstæða til hins fullorðins-hugræna. Ef það bregst er sú hætta á ferð- um að unglingurinn hafni krist- indómnum á þeim forsendum að hann sé barnalegur. R. Goldman telur hins vegar lokaskeiðið ekki hefjast fyrr en um 13—14 ára aldur. Hann held- ur því fram að börn gangi í gegn- um þrjú stig hvað varðar trúar- legan skilning: Fyrsta stigið er mjög frumstætt, þar eð barnið hefur ekki náð því að tileinka sér hugtök sem síðar verða grund- vallandi í trúarlegri hugsun. Líkt og á öðrum sviðum verður barnið að styðjast við leik og ímyndun og að þreifa sig áfram. Annað stig einkennist af því að allur hugsanagangur barnsins og allar staðreyndir eru efnisleg- ar og áþreifanlegar. Þau hugsa sér Guð eins og raunverulegan mann, en koma honum þó öðru hvoru fyrir í heimi, sem er hand- an við þessa veröld. Á þriðja stigi, sem Goldman kallar „hið persónulega stig“, er barninu fært að gera sér ljósar eigin hugmyndir um trúarbrögð. Goldman telur að á 1. stigi eigi að fræða börnin m.t.t. þeirra eig- in reynslu og spurninga. Á 2. stigi eigi að vera fræðsla í þeim viðfangsefnum sem mætir barn- inu daglega og heimfæra hana upp á trúarlegan skilning (ljós, loft, sköpun, ég sjálfur, lög og reglur o.fl.). Goldman styðst mjög við rannsóknir sínar á trúarlífi barna. Rannsóknirnar telur hann eftirfarandi hafa leitt í ljós varðandi guðshugtakið: Börn á fyrstu skólaárunum hugsuðu sér Guð I mannslíki, stundum með einstaklega góða eiginleika, s.s. kænsku og mikla góðvild. Upp úr 10—11 ára aldri varð einhvers konar yfirfærsla frá hinu mannlega til hins ofurmannlega (superman). Eftir 12—13 ára aldur verður guðs- hugmyndin táknlegri, abstrakt og andlegri. Miða þarf fræðsluna við trúar- þroska og áhugasvið barnanna, segir Goldman. Hann telur upp nokkur nauðsynleg atriði: — Persónuleg þátttaka hins fullorðna í fræðslunni er nauðsynleg. — Hugsun I kennslu þarf að vera heiðarleg og hugkvæm. — Gefa þarf gaum að áhuga og áhugahvöt. — Tengja þarf kristindóminn við aðrar greinar. — Gera þarf nemendum grein fyrir ritun Biblíunnar og hvers konar bók hún er. 11—12 ára börn þurfa að vita nokkuð um fræðilegar rann- sóknir. — Biblíulestur þarf að vera hugsjónalegur og sýna gang þróunar. — Trúarbragðakennsla án trú- arlegra athafna nær ekki markinu. tslenskir foreldrar ráða ákaf- lega litlu um hvaða námsgreinar börn þeirra læra í skólanum, taka það e.t.v. gott og gilt sem í boði er. Hvers vegna er krist- infræði kennd? Helstu ástæður fyrir því að kristinfræði er viðurkennd sem námsgrein eru þær að hún er talin nauðsynleg til menning- arskilnings, samfélagsskilnings, nauðsynleg til hjálpar á lausn- um persónulegra vandamála lífsins og að hún skapar visst gildis- og ábyrðgarmat. f íslensku kristinfræði- námsskránni, sem gefin var út af menntamálaráðuneytinu í ág- úst 1976, er ekki gefin uppskrift að hentugri kennsluaðferð en talið er æskilegt að við skipulag kennslu í kristnum fræðum og val á kennsluaðferðum verði tek- ið tillit til a.m.k. eftirtalinna þriggja atriða: „Nemandans og gildis efnis- ins fyrir hann og þá einnig áugasviðs hans og spurninga. Hér ber að hafa í huga bæði núverandi og að því marki sem mögulegt er, framtíðar- aðstæður nemandans. Kröfur samfélagsins og óskir varðandi fræðslu og uppeldi (sbr. það sem fram kemur t.d. í lögum um grunnskóla og markmiðsgreinum náms- skrár í kristnum fræðum). Fræðigreinarinnar (í þessu tilviki fyrst og fremst guð- fræðinnar) og skilningi henn- ar á sjálfri sér.“ Einnig segir: „Kennsluaðferðir og kennslutækni þurfa að vera með þeim hætti að efnið komst til skila, þ.e. að nemandinn til- einki sér námsefnið." Hér hefur verið stiklað á stóru um staðreyndir varðandi trúar- þroska barna á hinum ýmsu ald- ursskeiðum. Okkur fullorðna fólkinu er mikil ábyrgð á herðar lögð þegar við færum börn okkar til skírnar. Barnið er þá skráð inn í söfnuð Krists og okkur tjáð að við séum ábyrg fyrir kristi- legu uppeldi þess. Sinnum við því hlutverki?

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.