Morgunblaðið - 14.04.1993, Page 21

Morgunblaðið - 14.04.1993, Page 21
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 14. APRÍL 1993 21 Persónur eða leikreglur? Um stjórnmálasiðferði í máli Hrafns Gunnlaugssonar eftir Margréti S. Björnsdóttur Á opnum fundi Félags fijálslyndra jafnaðarmanna hinn 30. mars sl. um siðferði í íslenskum stjórnmálum og stjórnsýslu var megin niðurstaða þeirra er þar töluðu, að mjög skorti á reglufasta og heilbrigða stjórnar- hætti, jafnt í stjórnmálum sem opin- berri stjórnsýslu. Hvers kyns fyrir- greiðsla, hagsmunagæsla, pólitískar embættaveitingar, hagsmuna- árekstrar og afskipti stjórnmála- manna af smæstu málum fram- kvæmdavaldsins vitnuðu um bágt stjórnmálalegt siðferði, þar sem við ættu orðin löglegt en siðlaust, fleyg orð Vilmundar Gylfasonar, eina ís- lenska stjórnmálamannsins sem já- kvætt var vitnað til á þessum fundi. í sömu viku hófst síðan sú at- burðarás sem er tilefni þessarar greinar og sem sýnir í hnotskurn flest það sem gagnrýnt var á fundinum, embættishroka, pólitíska embættis- veitingu eða fyrirgreiðslu til vinar valdamanna, hæpna meðferð á al- mannafé, margfalda hagsmuna- árekstra og almennt siðleysi í með- ferð á opinberu valdi. Brottrekstur Hrafns Gunnlaugssonar - málfrelsi og ábyrgð stjórnenda stofnana Upphaf atburðanna var að Heim- ir Steinsson útvarpsstjóri sagði Hrafni Gunnlaugssyni deildarstjóra hjá sjónvarpi upp starfi. Slíkt er yfirmönnum stofnana heimilt, en eðlilegt og siðlegt hefði verið að hinum brottrekna og útvarpsráði hefðu verið gefnar skýringar á þess- ari óvæntu uppsögn. Embættishroki útvarpsstjóra var hins vegar slíkur, að einungis var gefið í skyn að ástæður væru margar og m.a. lítils- virðandi ummæli Hrafns í sjón- varpsþætti hinn 23. mars um starfs- menn og stjórnendur ríkissjón- varpsins. Slíkur hroki og lítilsvirð- ing gagnvart starfsmanni, sem sagt er upp starfi er að sjálfsögðu óþol- andi og með sama hætti bar Hrafni að gefa þeim starfsmönnum og dagskrárgerðarmönnum RÚV, sem hann var nýbúinn að segja upp, skýringar á þeirra uppsögnum. Skýringar Heimis Steinssonar á brottvikningu Hrafns hefðu vænt- anlega komið í veg fyrir þá fráleitu umræðu um málfrelsi sem Hrafn, stuðningsmenn hans á Alþingi og hjá helstu dagblöðum landsins- hengdu sig í. Umræðu sem eins hefði átt við þegar Davíð Oddsson forsætisráðherra neyddi fyrir nokkru Þórð Ólafsson, forstöðu- mann Bankaeftirlits Seðlabankans og í fyrra Guðmund Malmquist, forstöðumann hjá Byggðastofnun, til að taka aftur gagnrýnin um- mæli þeirra um stjórnarhætti for- sætisráðherrans. Gagnrýni Hrafns Gunnlaugsson- ar á starfshætti, starfsmenn og stjórnendur ríkissjónvarpsins í áð- urnefndum sjónvarpsþætti kunna að eiga við einhver rök að styðjast, en allir hljóta að vera sammála um að siðlegt hefði verið að hún hefði fyrst birst í umbótastarfi hans inn- an sjónvarpsins, en ekki í sjónvarps- þætti sem hann sjálfur setti upp og valdi spyijendur í. Stjórnendur fyrirtækja og stofn- ana bera ábyrgð gagnvart þeim og markmiðum þeirra. Ummæli Hrafns í sjónvarpsþættinum veiktu ríkissjónvarpið, veiktu stöðu Hrafns sem stjórnanda og rufu eðlilegan trúnað milli hans, starfmanna og annarra stjórnenda sjónvarpsins. Viðbrögð starfsfólks og stjórnenda RÚV, þótt þau séu ekki einhlítur mælikvarði benda ótvírætt til þess. Mér er sem ég sæi Davíð Odds- son líða Albert Jónssyni deildar- stjóra í forsætisráðuneytinu að setja upp sjónvarpsþátt, að eigin frum- kvæði, þar sem Albert viðhefði sams konar ummæli og Hrafn um starfs- fólk og stjórnendur forsætisráðu- neytisins. Endurráðning og stöðuhækkun Hrafns Gunnlaugssonar „einkavinavæðing" ríkisstofnana Pólitískar embættaveitingar þykja því miður sjálfsagt mál í opin- berri stjórnsýslu á íslandi og er þar enginn flokkur undanskilinn, sem setið hefur í ríkisstjórn, þótt tæki- færi þeirra hafi verið mismörg og ósvífnin mismikil. Þegar Heimir Steinsson rak Hrafn Gunnlaugsson gerði hann sig sekan um þann embættishroka að telja sig hvorki skulda Hrafni né útvarpsráði skýringar á uppsögn- inni. Þeirra skýringa hefði Olafur G. Einarsson hins vegar að sjálf- sögðu átt að leita áður en hann hóf afskipt'i af málinu. Hefðu þær verið fullnægjandi þá hefðu þær væntan- lega einnig sýnt Hrafn vanhæfan sem framkvæmdastjóra sjónvarps- ins. Hefðu skýringar Heimis Steins- sonar á brottvikningu Hrafns hins vegar ekki talist fullnægjandi, er rétt að efast um hæfni Heimis til að fara með yfirstjórn Ríkisútvarps- ins og Ólafur G. Einarsson hefði átt að taka á því máli fyrst. En menntamálaráðherra hefur afskipti af málinu með „pólitískri ákvörðun" að eigin sögn. Hann hefur, einnig að eigin sögn „sam- ráð“ við tvo valdamestu ráðherra Sjálfstæðisflokksins, en svo vill til að annar þeirra er besti vinur Hrafns Gunnlaugssonar. Síðan býð- ur menntamálaráðherra fram- kvæmdastjóra sjónvarps, Pétri Guðfinnssyni, ársleyfi á launum. Slík launuð leyfi utan kjarasamn- inga og án „sérverkefna" viðkom- andi starfsmanns eru fáheyrð í ís- lensku stjórnkerfi. Samdægurs ræður hann Hrafn í stöðu fram- kvæmdastjóra samkvæmt starfslýs- ingu, sem fráfarandi framkvæmda- stjóri gengur frá sjálfur þann sama dag og að því er virðist án nokkurs samráðs við aðra stjórnendur eða yfirstjórn Ríkisútvarpsins. Það má einnig spyija hvort ekki hefði átt að auglýsa stöðuna og hvort kvik- myndagerðarmaður með reynslu og menntun Hrafns Gunnlaugssonar sé endilega heppilegur fram- kvæmda- og þar með fjármálaum- sýslumaður stofnunar sem veltir rúmum tveimur milljörðum króna á ári. Það dregur enginn í efa lögmæti þessarar embættisveitingar menntamálaráðherra, sem hann segir sjálfur að sé samkvæmt „póli- tískri ákvörðun“. En væru það ekki eðlileg og heilbrigð vinnubrögð og í samræmi við anda þeirrar laga- greinar um Ríkisútvarpið sem segir að leitað skuli umsagnar og haft samráð við útvarpsstjóra og út- varpsráð þegar skipað er í stöðu framkvæmdastjóra sjónvarps, að gera meira en að tilkynna þessum aðilum ráðningu Hrafns, þótt tíma- bundin sé? Það sem hér gerist er að mennta- málaráðherra beitir valdi sem hann hefur samkvæmt lögum, en for- sendurnar og aðferðirnar má kalla pólitíska fyrirgreiðslu til handa einkavini forsætisráðherra, óhefð- bundnar launagreiðslur handa frá- farandi framkvæmdastjóra fyrir að liðka til „í hvelli“ og lítilsvirðingu gagnvart útvarpsstjóra, útvarpsráði og starfsfólki sjónvarps. Hagsmunaárekstrar milli hinna mörgu hlutverka Hrafns Gunnlaugssonar I gagnrýni stjórnarandstöðunnar á Alþingi, sem með réttu notar þetta mál til að koma höggi á ríkis- stjórnina og í samþykkt stjórnar Félags kvikmyndagerðarmanna eru ekki síst gagnrýndir þeir hags- munaárekstrar sem óhjákvæmilega eru og verða milli þeirra mörgu hlutverka sem Hrafn Gunnlaugsson hefur á hendi í íslenskri sjónvarps- og kvikmyndagerð. Margrét S. Björnsdóttir Sem kvikmyndagerðarmaður semur Hrafn handrit, framleiðir myndir, sækir um styrki, selur og endurselur sýningarrétt innanlands sem utan. Sem _ stjórnarmaður í Kvikmyndasjóði íslands, stjórnar- maður í menningarsjóði sjónvarps- og útvarpsstöðva og sem fram- kvæmdastjóri sjónvarpsins er Hrafn aðili að öllum veigamestu ráðstöf- unum fjár til íslenskrar kvikmynda- gerðar. Hann situr einnig í stjórn tveggja samtaka kvikmyndagerðar- manna. Hagsmunaárekstrar eru hér augljósir þótt mismiklir séu og fráleitt að Ólafur G. Einarsson skuli ekki hafa tekið á þeim áður en hann veitti Hrafni stöðuna, td. með því að gera til hans sömu kröfur og Félag kvikmyndagerðarmanna hefur nú sett fram. Ef siðareglur hér á landi væru svipaðar og í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við um stjórnarfar, kæmi ekki annað til greina en að Hrafn yrði að velja hvoru megin borðsins hann kysi að vera. Flokkurinn, ríkið og ég erum eitt Á fundi Félags fijálslyndra jafn- aðarmanna sem ég vitnaði til í inn- gangi lét einn framsögumanna of- angreind orð faila um íslenska stjórnmálmenn og gæðinga þeirra. Þessi orð eiga vel við um þá at- burðarás sem hér hefur verið lýst. Því miður sé ég fá merki þess að þetta sé að breytast. Allt of margir þeirra sem taka þátt í umræðum um uppsögn og ráðningu Hrafns Gunnlaugssonar, málsmetandi og valdamikið fólk í íslenskum stjórn- málum og ijölmiðlum virðist ekki geta greint á milli persóna og leik- reglna í þessu máli. Þegar Hrafn Gunnlaugsson lítils- virðir opinberlega samstarfólk sitt og stjórnendur þeirrar stofnunar er hann starfar við er það talið þarft, kallaðir „ferskir vindar“ og frelsi hans til þess skal varið. Þegar emb- ættismenn í Bankaeftirliti og Byggðastofnun tala gagnrýnið um stjórnarhætti tiltekinna ráðherra eru þeir hins vegar teknir á teppið og látnir biðjast afsökunar opinber- lega eða taka ummæli sín aftur. Þegar bent er á augljósa hags- munaárekstra í starfi og stjórnar- embættum Hrafns Gunnlaugssonar eða að hann hafi vísvitandi haft fé út úr sjónvarpinu með því að bijóta samninga sína við Kvikmyndasjóð íslands, þá kalla forystumenn í ríkisstjórninni það „persónulegar árásir" og „ógeðfelldar mannaveið- ar“. Hver skyldi vera skýringin á því, að allt of margir íslenskir stjórn- málamenn eru ófærir um að takast á við svona mál nema með því að hræra saman persónum og eðlileg- um leikreglum? Eru þeir svona „um- hverfisfirrtir" (sbr. orðalag Árna Johnsen alþingismanns Sjálfstæðis- flokksins í umræðum um málið á Alþingi), eða getur verið að Jónas Kristjánsson ritstjóri DV hafi haft rétt fyrir sér á áðurnefndum fundi Félags fijálslyndra jafnaðarmanna, þegar hann sagði að siðleysið og spillingin í íslenskum stjórnmálum og stjórnkerfi kæmi „úr grasrót- inni“, úr sál íslendingsins sem liti. ekki á sig sem myndugan borgara gagnvart ríkisvaldi, heldur sem þegn gagnvart kóngi sínum og það væri kóngurinn sem „skaffaði og skammtaði“? Höfundur er formaður Félags frjálslyndra jafnaðarmanna. fin einasta yfirdýna tnpr hvaða prinsessu m er Vóðan nætursvefn Góð yfirdýna getur breytt martröð hvaða prinsessu sem er í sælusveín. Yfir dýnur eru til af ýmsum gerðum. Einn megin- kostur þeirra er hve vel þær einangra gegn kulda. Latex- dýnur eru úr nátt- ■ úrugúmmíi, sem heldur ekki raka að líkaman- um og í það safnast hvorki ryk né óhreinindi. Eggja- bakkadýnur verma sérlega vel og mýkja og hafa einstaka fjöðr- unareiginleika. Þær henta bak- veiku fólki mjög vel. Yfirdýna úr svampi, sérsniðin að þinni dýnu mýkir og vermir rúmið þitt. Þegar þú færð þér nýja, vandaða rúmdýnu er það sjálfsögð fýrirhyggja að hlífa henni gegn sliti og óhreinind- um með þægilegri yfirdýnu. Góða nótt. el LYSTADUN-SNÆLAND hf Skútuvogi 11 • 124 Reykjavík • Sími 81465 5 / 685 5 88

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.