Morgunblaðið - 01.07.1993, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 01.07.1993, Blaðsíða 23
22 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 1. JÚLÍ 1993 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 1. JÚLÍ 1993 ftoripittMsiMi Útgefandi Framkvæmdastjóri Ritstjórar Fulltrúar ritstjóra Fréttastjórar Ritstjórnarfulltrúi Árvakur h.f., Reykjavík Haraldur Sveinsson. Matthías Johannessen, Styrmir Gunnarsson. Björn Jóhannsson, Árni Jörgensen. Freysteinn Jóhannsson, Magnús Finnsson, Sigtryggur Sigtryggsson, Ágúst Ingi Jónsson. Björn Vignir Sigurpálsson. Kringlan 1, 103 Reykjavík. Símar: Skiptiborð 691100. Auglýsingar: 691111. Áskriftir 691122. Áskriftargjald 1200 kr. á mánuði innan- lands. I lausasölu 110 kr. eintakið. Stórútsala og við skiptasiðferði Einhver umfangsmesta útsala síðari ára var haldin er vöru- lager verslunarinnar Miklagarðs var rýmdur í síðustu viku. Allar þær vörur, sem óseldar voru við gjaldþrot fyrirtækisins, voru seld- ar með verulegum afslætti og mynduðust langar biðraðir er þúsundir manna flykktust á stað- inn. í Morgunblaðinu á laugardag birtist grein eftir Jenný Stefaníu Jensdóttur, framkvæmdastjóra í Reykjavík, þar sem þessi „stórút- sala aldarinnart er harðlega gagnrýnd og sogð endurspegla „hið sjúka og siðlausa viðskipta- umhverfi sem verið hefur að festa rætur á íslandi undanfarin ár“. Jenný bendir á að gjaldþrot verslunarfyrirtækja á undanförn- um árum hafa gengið mjög nærri mörgum þeim fyrirtækjum, sem selja verslunum vörur. I greininni segir m.a.: „Nú er svo komið að eiginfjárstaða vel- flestra íslenskra fyrirtækja er al- gjörlega óviðunandi og víða kom- in upp í kviku svo undan blæðir við hvert áfallið á fætur öðru. Það er vart búið að „grafa“ eina versl- unina en upp er risin ný verslun í sama húsnæði, með sömu for- svarsmönnum og sömu rekstrar- formúlunni. Breytingin er einung- is: nýtt nafn, ný bankafyrirgre- iðsla, fullur lager, og skuldir núll ... Siðleysið í Miklagarðsmálinu með þátttöku eða þátttökuleysi Landsbankans er algjört og hver einasti viðmælandi minn undan- famar vikur er algjörlega á sama máli. Ekki verður hægt að kenna stórslysarekstri Miklagarðs um kunnáttu- eða þekkingarleysi for- ráðamanna eða hvað? Hver er ábyrgð þessara manna þegar þeir halda áfram að fylla lagera sína af vörum út á krít vitandi að fyrir- tækið er löngu gjaldþrota og aldr- ei kemur til greiðslu á þessum vörum? í minni orðabók heitir þetta: að ná til sín vörum á svik- samlegan hátt.“ Greinarhöfundur segir það vera siðlaust að reyna að fela sig á bak við upplýsingaskort úr tölvu- kerfí og jafn siðlaust að telja sér og öðrum trú um að tapið sé inn- an við 100 milljónir en skyndilega sé það komið í tæpar 600 milljón- ir. Telur hún að krefjast hefði átt greiðslustöðvunar fyrirtækisins strax 31. mars sl. er Landsbanki leysti til sín eignir Miklagarðs. Jenný Stefanía Jensdóttir segir að þó verið sé að selja vörubirgð- ir Miklagarðs upp í skuldir fyrir- tækisins sé ljóst að hinir sönnu „eigendur“ vörunnar muni ekki fá skuldir sínar greiddar. Útsalan muni að auki hafa þau áhrif að neytendur kaupi ekki viðkomandi vörur annars staðar á meðan og tjón innflytjenda og framleiðenda sé því í raun tvöfalt. „Kom það aldrei til greina í huga bústjóra að í stað þess að skapa stórkost- legt umferðaröngþveiti og rúss- neskt ástand með stórútsölu ald- arinnar, að bjóða hinum einu sönnu eigendum lagersins að leysa til sín vörur sínar? Ef það er á skjön við Iandsins lög, hvaða lög verja þá hagsmuni birgja, sem lánuðu fyrirtækinu í góðri trú löngu eftir að það varð raunveru- lega gjaldþrota með eða án vit- undar forráðamanna, sem veifuðu álitlegum rekstraráætlunum fram í rauðan dauðann? ... Eftir stend- ur sú staðreynd að á endanum lendir tapið á herðum okkar allra, líka þeim sem gerðu reyfarakaup á stórútsölu aldarinnar. Ríkissjóð- ur er ekki sjálfseignarstofnun rík- isstjórnar hveiju sinni eins og fjöl- margir láta í veðri vaka í hags- munapoti sínu, hann inniheldur eignir og skuldir þ.m.t. framtíðar- skuldbindingar okkar allra og því fyrr sem menn átta sig á því, því betra.“ Þetta er alvarlegt vandamál, sem greinarhöfundur bendir á, ekki síst í ljósi þess, að vandinn er ekki einangraðurvið rýmingar- útsölu Miklagarðs. Ótalmörg önn- ur dæmi mætti nefna, þó að þau séu ekki af sömu stærðargráðu og gjaldþrot Miklagarðs. Veruleg- ar upphæðir glatast með þessum hætti árlega. Vilhjálmur Egilsson, fram- kvæmdastjóri Verslunarráðs ís- lands, segir í sunnudagsblaði Morgunblaðsins að fyrirtæki í verslunargreinum tapi 1-1,5% af veltu árlega vegna greiðsluörðug- leika viðskiptavina. Það sé ekki óvarlegt að áætla að einkageirinn afskrifi allt að fjóra milljarða á ári vegna tapaðra viðskipta- krafna. Auðvitað nær það ekki nokk- urri átt að framleiðendur vöru og heildsalar standi berskjaldaðir frammi fyrir því að þurfa að af- skrifa hana sem glataða á sama tíma og hún er boðin til sölu í hillum verslana. Það er löngu orðið tímabært að endurskoða þau lög og þær reglugerðir, sem í gildi eru um gjaldþrot fyrirtækja og ráðstöfun þrotabúa. Auðvitað verður aldrei hægt að koma í veg fyrir að ein- stakir aðilar bíði fjárhagslegt tjón þegar fyrirtæki er tekið til gjald- þrotaskipta. Það er hins vegar hægt að reyna að koma í veg fyrir framferði af því tagi, sem greinarhöfundur gerir að umtals- efni með lagabreytingum á borð við þær, sem Birgir Rafn Jóns- son, formaður samtakanna ís- lenzk verzlun, víkur að í samtali við Morgunblaðið sl.. sunnudag og eiga að tryggja hagsmuni vöruseljenda. Þar með væri búið að taka lítið en mikilvægt skref í átt til þess að bæta siðferði í íslensku viðskiptalífi. + Fólk er farið að meta gildi stöðugleikans Dr. Jóhannes Nordal seðlabankastj óri hættir störfum í dag. Hann ræðir hér í sam- tali við Morgunblaðið þróun efnahags- og atvinnumála undanfarna þrjá áratugi, stóriðjuhorfur, sjálfstæði Seðlabankans, samstarf við ríkissljórnir og fleira. Viðtal Agnes Bragadóttir ÁKVEÐNUM þætti í einstæðum ferli áhrifamanns í efna- hags- og atvinnuiífi íslendinga lýkur í dag, 1. júlí, því klukkan 9 í gærmorgun mætti dr. Jóhannes Nordal seðla- bankastjóri í síðasta sinn til starfa í Seðiabanka íslands, eftir að hafa í 32 ár haldið um stjórnartaumana í þess- ari æðstu peningastofnun landsmanna, eða allt frá stofn- un bankans árið 1961. Þótt Jóhannes hætti nú störfum sem bankastjóri Seðlabankans, er ekki þar með sagt að hann sé sestur í helgan stein. Hann hyggst áfram gegna ákveðnum ábyrgðarstöðum, sem honum hefur verið trúað fyrir og má í þeim efnum nefna stjórnarformennsku í Landsvirkjun, formennsku í íslensku álviðræðunefndinni, formennsku í Vísindaráði og formennsku í norrænni yfir- stjórn Iðnþróunarsjóðs. Jóhannes lítur yfir farinn veg í samtali við Morgunblaðið, sem hér fer á eftir, enda hef- ur hann upplifað geysilegar breytingar í íslensku efna- hags- og atvinnulífi á starfsferli sínum, og iðulega komið við sögu, þegar markverðar breytingar hafa átt sér stað og átt þátt í slíkum breytingum. - Jóhannes, þú komst ungur heim frá hagfræðinámi í Lundúnum, fyrir hartnær 40 árum, eða 1954 og réðst þá sem slíkur til Landsbanka íslands. Síðan verður þú bankastjóri Landsbankans í ársbyijun 1959. Var Seðlabankinn í þá daga nokkuð annað en skúffa í Landsbankanum? „Ekki vil ég lýsa Seðlabankanum á þeim tíma með þeim orðum. Á þessum árum blandaðist starfsemi seðlabanka og viðskiptabanka í Landsbankanum svo mikið saman að það var ákaflega erfitt að greina þar á milli. 1957 var Landsbank- anum skipt í tvær deildir, sem voru með sjálfstæðum stjórn- um: seðlabanka og viðskiptabanka. Við þá skiptingu var far- ið að skipta starfsliðinu á milli deiida og þær að starfa sjálf- stætt. Við þessa skiptingu var farið að beita peningastjórnun meira en áður var gert.“ - 1961 er Seðlabankinn stofnaður og þú ráðinn sem banka- stjóri hans. Hvernig myndir þú lýsa þeim grundvallarbreyting- um sem urðu á efnahagsstjórn landsins við það að Seðla- banki íslands var stofnaður? „Með Viðreisninni var í fyrsta skipti í mjög langan tíma farið að beita vöxtum og þeir hækkaðir verulega. Það var hluti af því að skapa skilyrði fyrir fijálsræði í viðskiptum við útlönd og afnema höftin að stórum hluta. Þá voru líka tekin upp ákveðnari markmið varðandi útlán Seðlabankans og að- hald að útlánum bankanna." ísland hálflokað land - Hvað er það nú helst sem stendur upp úr, varðandi efna- hags- og atvinnuþróun, þegar þú iítur til baka? Hvaða breyt- ingar hafa í þínum huga haft mest áhrif og reynst markverð- astar fyrir þróunina hér á landi? „Ég tel að einkennt hafi þetta tímabil, allt frá því Seðla- bankinn var stofnaður til þessa dags, að við höfum smám saman verið að færa út markaðshagkerfi hér. Ég held að það sé ákaflega erfitt fyrir fólk á miðjum aldri í dag og þaðan af yngra, að gera sér grein fyrir því hvað efnahagslífið á íslandi var orðið reyrt í allskonar höft og viðjar í lok sjötta áratugarins, þegar Viðreisnin tók við stjórn lands- ins. ísland var þá hálflokað land. Möguleikar fólks til þess að kaupa hluti voru ákaflega takmarkaðir. Fjölmargar vörur, sem við í dag teljum nauðsynjavörur, voru í þá daga bann- vara sem almenningur gat aldrei búist við að eignast. Það að hægt væri að kaupa bíl, var fátítt og gerðist helst þannig að höftum var aflétt um stuttan tíma til þess að afla tekna til niðurgreiðslu fyrir sjávarútveg eða eitthvað þess háttar. Þess á milli var þetta algjör bannvara og sama máli gegndi um svo ótal marga aðra hluti, sem í dag eru bæði taldir sjálf- sagðir og nauðsynlegir. Utanferðir voru svo til eingöngu fyr- ir þá sem áttu viðskiptaerindi eða voru að fara til náms. Aðrir áttu ekki kost á slíku. Þannig að breytingin á ekki lengri tíma en rúmum þremur áratugum er ótrúlega mikil. Kerfi hafta og viðja Ferillinn við það að breyta kerfi hafta og viðja í opið mark- aðskerfi, hefur verið langur. Hann hefur yfirleitt ekki verið fólginn í neinum stökkbreytingum, en vissulega hafa sumir áfangar á þessari vegferð verið mikilsverðir og haft meiri þýðingu en aðrir. Langstærsti einstaki áfanginn var að sjálf- sögðu sjálf Viðreisnin, vegna þess að þá voru afnumin höft á innflutning, sem skiptir náttúrlega meginmáli í litlu, ein- hæfu þjóðfélagi. Nú er mér ljóst að það var óheppilegt að næstu skref í átt til frjálsræðis skyldu ekki hafa verið tekin fyrr. íslendingar misstu af því að verða þátttakendur í fyrstu áföngunum að því að koma á efnahagssamstarfi innan Evrópu. Þegar EFTA var stofnað, vorum við ekki tilbúnir til þess að ganga inn í það samstarf og komum þar af leiðandi ekki inn í EFTA fyrr en 1970, sem var allt of seint. Það hefði verið miklu betra ef við hefðum verið með frá upphafi. Þess vegna hófst kerfisbund- in lækkun tolla, sem áður voru óhemju háir, mjög seint hér á landi, eða í upphafí áttunda áratugarins. Þriðji stóri áfanginn á þessari vegferð okkar varð svo ekki að veruleika fyrr en um miðjan síðasta áratug, en það var fijálsræði á fjármagnsmarkaði. Það er enginn vafí í mínum huga nú, að það hefði reynst farsælla, ef við hefðum tekið öll þessi skref fyrr og með skemmri millibilum. En það var margt sem olli því að svo varð ekki.“ Pólitískar deilur - Eins og hvað? „Ein ástæðan var að sjálfsögðu pólitísk, því um alla þessa áfanga urðu meiri eða minni pólitískar deilur. Svo héldu margir í trú sína á þau höft sem eftir voru, þegar búið var að leyfa aukið frelsi á einu sviði, hversu vel sem tekist hafði til þar. Þar að auki bættust við alls konar efnahagsþrenging- ar og sveiflur, sem einnig töfðu þessa þróun. Þá hygg ég að þorskastríðin hafi tekið mikla athygli frá þessum þáttum efna- hagslífsins, og þeir þess vegna setið á hakanum, á meðan við stóðum í stórræðum í baráttunni fyrir útfærslu landhelgi Islendinga.“ - Þú nefndir sem þriðja stóra áfangann á vegferð okkar til aukins frelsis, fijálsræði á fjármagnsmörkuðum. Ertu sann- færður um að það frelsi hafí að öllu leyti verið til góðs, eða hefur það á einhvern hátt farið út um víðan völl? „Ég held að það gildi um þetta frelsi eins og allt annað frelsi í efnahagsmálum, að í því felst tækifæri til bætts efnahags en engin trygging. Það er alltaf viss áhætta sem fylgir frelsi, einkum fyrst eftir að höft hafa verið afnumin. Það tekur menn tíma að átta sig á því hvernig með frelsið skuli fara og hvaða aðhald þurfi að veita mönnum, svo þeir fari sér ekki að voða með nýfengnu frelsi. Reynsla okkar á þessu sviði er að mínu mati svipuð því sem gerst hefur í öðrum löndum, þótt skrefin hafi verið smærri sem þar voru stigin hveiju sinni. Afnám hafta á íjármagnsmarkaðinum hér á síðasta áratug átti áreiðanlega sinn þátt í því að hér myndaðist meiri of- þensla, en ella hefði orðið. Ýmis mistök í fjárfestingum fyrir- tækja má vafalaust einnig rekja til þess að stjórnendur fyrir- tækjanna áttuðu sig ekki á því, að frelsinu fylgdi miklu meiri áhætta, en haftabúskapnum. Erfitt að tapa peningum Á meðan höft voru á fjármagnsmarkaðnum og raunvextir neikvæðir, var lítil hætta á að lenda í mjög miklum erfiðleik- um, þótt ógætilega væri farið í skuldasöfnun. Sömuleiðis var erfitt fyrir bankana að tapa peningum, þegar skuldirnar hurfu nokkurn veginn af sjálfu sér, vegna neikvæðra vaxta og verð- bólgu. Þegar þetta breyttist, tók það menn augsýnilega all- nokkum tíma að átta sig á því að skilyrðin voru orðin allt önnur. Fjárfesting verður að skila miklu öruggari arði í dag, en áður var nauðsynlegt, til þess að fyrirtækin geti staðið við skuldbindingar sínar. Ég held Iíka að menn hafí ekki áttað sig á hættunum, sem þessum breytingum fylgdu, vegna þess að afnám haftanna á fjármagnsmarkaði átti sér stað þegar veruleg uppsveifla var í efnahagsmálum, ekki bara á íslandi heldur um heim allan. Menn voru því mjög bjartsýnir og óvarkárir, sem þeir reynd- ar alltaf em á uppgangstímum. Þessar ytri efnahagsaðstæður urðu til þess að menn gættu enn síður að sér og fóm sumir hveijir illa út úr fjárfestingum, sem þá var ráðist í. Á hinn bóginn held ég að þetta séu tímabundnir erfiðleikar og menn séu búnir að átta sig á þeim lögmálum sem gilda og þeirri áhættu sem fylgir frelsinu. í dag sjáum við að fyrir- tæki sem eiga í örðugleikum vegna fjárfestinga og hafa átt í slíkum vandræðum undanfarin ár, eru það mjög sjaldan vegna fjárfestinga sem þau hafa ráðist í á seinni árum. Flest þessara vandamála má rekja alllangt aftur í tímann, til rangr- ar fjárfestingar á haftatímanum eða til upphafsára frjálsræð- is á fjármagnsmörkuðum." Verðtrygging til vandræða - Ríkisstjórnin segir í yfírlýsingu sinni sem gefín var út sl. sunnudag, aðeins þremur dögum áður en þú hættir sem seðlabankastjóri: „Ríkisstjórnin hefur ákveðið að skipa nefnd sérfræðinga til að kanna vaxtamyndun á lánsfjármarkaði, einkum með tilliti til þess hvort uppbygging og skipulag markaðarins, t.d. víðtæk verðtrygging, hindri eðlilega vaxta- rnyndun." Telur þú að þessi ákvörðun ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar sé vísbending um að stjórnvöld telji að við ráðum ekki við þetta frelsi? „Nei, ég túlka það alls ekki svo. Ég hef skilið þessa nefnd- arskipun þannig, að ríkisstjómin sé fyrst og fremst að hugsa um hvort hægt sé að bæta skipulag fjármagnsmarkaðarins hjá okkur og breyta í þá átt að markaðurinn verði virkari, þannig að áhrif framboðs og eftirspurnar komi skýrar fram. Við búum við ákveðið vandamál, sem flækir ákvörðun vaxta Morgunblaðið/Einar Falur Hættir í dag Dr. Jóhannes Nordal seðlabankastjóri lætur af störfum frá og með deginum í dag, en hann hefur starfað sem bankasljóri Seðlabanka íslands allt frá stofnun bankans árið 1961. verulega og við hér í Seðlabankanum höfum ítrekað bent á, en það er þetta tvöfalda vaxtakerfi: annars vegar verðtryggð útlán og innlán og hins vegar óverðtryggð. Hér eru í gildi tveir mælikvarðar á lánsfjármarkaðnum, sem eykur óvissu um verðmyndunina á markaðnum. Ég vona að við getum gengið út frá því að við séum nú síðustu árin að ná svipuðum stöðugleika í verðlagi og aðrar þjóðir í Evrópu og þannig getum við unnið okkur út úr þessu verðtryggingarkerfi, en það var í raun og veru nauðvarnar- kerfi á tímum mikillar verðbólgu, til þess að bjarga lánakerf- inu frá hruni. Við þann stöðugleika sem við nú búum við, er almennt verðtryggingarkerfí alls ekki réttlætanlegt. Það er ekki bara að verðtryggingin hjálpi ekki lengur, eins og hún gerði á tímum óðaverðbólgu, hún er íorðin vandamál, sem við þurfum að vinna okkur út úr, með því að draga kerfísbund- ið úr verðtryggingu, sérstaklega á skammtímamarkaði. Verð- tryggingu eigum við í framtíðinni eingöngu að nota á lán til mjög langs tíma.“ Mikið verk fyrir höndum í landbúnaðarmálum - Þú nefndir þá áfanga sem kannski eru hvað merkilegast- ir þegar efnahagsþróunin í nokkra áratugi er skoðuð. Hvar hefur okkur mistekist, að þínu mati? „Aðalvandamálið á þessu tímabili var verðbólgan, sem fór hér úr böndunum á áttunda áratugnum og fram á þann níunda. Hún var að sjálfsögðu afleiðing af öðrum þáttum, m.a. því að ekki var um nægilegt markaðsaðhald að ræða. Ef Ijár- magnsmarkaðurinn hefði verið fijáls á þessum tíma, hefði verðbólgan aldrei farið svona hátt, því vextirnir hefðu stöðvað hana. Þar að auki höfum við verið alltof seinir að afnema ýmsar hömlur í sjávarútvegi og landbúnaði. Mikil breyting hefur orðið til hins betra í sjávarútvegi, t.d. með fiskmörkuðunum og fijálsa fiskverðinu. Fiskverðsákvarðanir voru afskaplega snar þáttur í verðbólguskrúfunni á sínum tíma, eins og land- búnaðarvísitalan og allt hið opinbera verðlagningar- og vísi- tölukerfí. Ennþá eru ýmsar hömlur eftir í þessum atvinnuveg- um, og þá sérstaklega í landbúnaði. Ég skil vel, að erfitt er að afnema þær á mjög skömmum tíma. En því miður fórum við fyrir nokkrum áratugum allt of langt í verndarstefnu á þessu sviði. Það veikti landbúnaðinn og varð til þess að hann brást ekki við breyttum aðstæðum, eins og hann hefði getað gert. Þar af leiðandi stendur hann frammi fyrir miklu meiri og stærri vandamálum í dag. Þarna er mikið og erfitt verk óunnið sem verður að vinna, hægt og bítandi, en að sjálf- sögðu með gát, því þetta verður erfið aðlögun fyrir stóran hluta landsins.“ - Sennilega hefur enginn maður haft meiri áhrif á efna- hags- og atvinnulíf landsmanna en einmitt þú sem banka- stjóri Seðlabankans í 32 ár. Þú hefur verið lykilmaður í upp- byggingu orkubúskapar landsmanna; þú hefur átt stóran þátt í samningum um uppbyggingu stóriðju hér á landi, fyrst ÍSAL og síðan Járnblendifélagið á Grundartanga, sem þó hefur orðið mun minni en að var stefnt. Þegar þú lítur um öxl og einskorðar þig við þennan þátt, hver er þá þín niðurstaða? Höfum við nýtt þá möguleika til atvinnuuppbyggingar, frek- ari stóriðju og raforkusölu, sem fyrir_ hendi voru? Eru slík tækifæri ennþá fyrir hendi? Eða er ísland fyrst og síðast verstöð, sem um aldur og ævi verður umfram allt að byggja á einni efnahagslegri óvissustærð - fiskinum í sjónum? „Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að slíkir möguleikar eru fyrir hendi. Vissulega er orkan auðlind sem getur orðið mikilvægur grundvöllur í okkar þjóðarbúskap, og er þegar orðin það að nokkru leyti. Höfum ekki nýtt tækifærin Hitt er annað mál, að íslendingum hefur ekki lánast að nýta þau tækifæri sem þar hafa verið fyrir hendi, á þann hátt sem ég tel að hefði verið mögulegt. íslendingar hefðu þurft að komast af stað með orkufrekan iðnað, þegar á fyrstu áratugum aldarinnar, eins og Norðmenn gerðu. Ef það hefði orðið, væri stóriðjan fyrir löngu orðin innlendur atvinnuvegur, með innlendu fjármagni. En ég hygg að afstaða manna til nýrra atvinnugreina hér á landi og nei- kvæð viðhorf þeirra til samvinnu við útlendinga, hafi orðið þess valdandi að engir þessara möguleika voru nýttir fyrr á þessari öld - því miður. Að nokkru leyti höfum við átt við sömu erfiðleika að glíma þessa síðustu áratugi. Þegar framkvæmdir hófust vegna ál- versins í Straumsvík og samningum hafði verið lokið, voru þeir samningar kallaðir landráðasamningar, ekki síður en samningarnir um varnarstöðina í Keflavík voru á sínum tíma, eða ýmsir samningar sem gerðir voru til sátta í sambandi við útfærslu íslensku landhelginnar. Það hefur tekið alllangan tíma að vinna fylgi meirihluta þjóðarinnar við uppbyggingu stóriðju og sýna fram á að það er æskilegt að nýta þá kosti sem fyrir hendi eru. Þetta hefur verið afskaplega bagalegt. Allur orkufrekur iðnaður er háður sveiflum og hefur alltaf verið. Fjárfestingarákvarðanir eru yfirleitt teknar á tiltölulega stuttum tímabilum, með löngum hléum á milli. Ef við erum ekki tilbúnir með okkar áætlanir og með vilja til þess að taka þátt í stóriðjuuppbyggingu, þegar slíkir kostir bjóðast, missum við kannski tíu ár eða meira, þar til næsta tækifæri býðst. Þetta hefur því miður hent okkur, til dæmis í byijun níunda áratugarins, en þá hefði bæði verið eðlilegt og ákjósanlegt að við hefðum getað byggt upp nýjan stóriðjuáfanga, en þá voru skilyrðin mjög góð í þessum efnum. Á þeim tíma áttum við tækifæri á samningum við erlenda aðila, sem stjórnmála- legar ástæður áttu þátt í, að ekki urðu að veruleika.“ (Þetta var í stjórnartíð dr. Gunnars heitins Thoroddsen, og Hjörleif- ur Guttormsson var þá iðnaðarráðherra. - Innskot blm.) „Ég held þó að þetta sé orðið nægilega breytt til þess, að næst þegar tækifæri bjóðast, eigum við ekki að þurfa að missa af þeim með sama hætti,“ bætir Jóhannes við. Ákvörðun um Keilisues bíður í nokkur ár - En hvað segir þú um Atlantsálsamningana? Er ennþá raunhæft fyrir landsmenn að gera sér vonir um að Atlantsál- fyrirtækin reisi og reki álverksmiðju á Keilisnesi? „Það var náttúrlega afskaplega mikil óheppni, að þeir samn- ingar skyldu ekki geta verið aðeins fyrr á ferðinni, svona hálfu öðru eða tveimur árum fyrr. Því ef það hefði orðið, hefði nýtt álver á Keilisnesi getað orðið að veruleika. Ég hef að vísu enn vonir um að það geti orðið að veru- leika, en hins vegar er það ljóst, að ef mörg ár líða, áður en ákvarðanir verða teknar, verður væntanlega að gera einhveij- ar breytingar á þeim samningum sem gerðir hafa verið, þar sem aðstæður breytast alltaf eitthvað á nokkurra ára tíma- bili. Þrátt fýrir það mun sú vinna sem lögð hefur verið í undirbúning og samningsgerð nýtast að langmestu leyti, um það er ég sannfærður. Ég hef ekki þá trú að sú verðhækkun sem nú á sér stað á heimsmarkaðsverði á áli, sé það veruleg að hún breyti þeirri biðstöðu sem málið er í. Til þess að fyrirtæki ráðist í fjárfest- ingu álvers upp á einn milljarð dollara, held ég að þau þurfi, eftir þessa löngu og djúpu efnahagslægð, að sjá í nokkur ár góð verð, jafnframt því sem þau þurfa að fá tækifæri til þess að bæta eigin efnahag. Mörg þessara fyrirtækja hafa tapað umtalsverðum fjármun- um að undanförnu og fjárhagsstaða þeirra er veikari en hún var fyrir tveimur, þremur árum. Þau þurfa því að byggja upp sína fjárhagsstöðu áður en þau treysta sér til þess að ráðast í mjög stórar fjárfestingar. Þess vegna held ég að við þurfum að gera ráð fyrir því, að tvö til fjögur ár verði að líða, þangað til upp komi á nýjan leik verulegur áhugi, af sama tagi og Atlantsálhópurinn sýndi.“ Sjálfstæði Seðlabankans - Ef við víkjum að öðru. Þú hefur umfram aðra mótað starf og stefnu Seðlabankans á ferli þínum. Seðlabankinn hefur starfað náið með ríkisstjórnum hvers tíma og haft ákveð- in áhrif í því samstarfi, ekki satt? „Ég tel við þær aðstæður sem hér hafa verið, að náið sam- starf Seðlabanka og ríkisstjórnar hafi verið nauðsynlegt. Þar að auki er okkar löggjöf beinlínis þannig upp byggð, að hún gerir ráð fyrir slíku samstarfi. Oft er það líka drýgsta leiðin til þess að hafa áhrif á atburðarásina, að vinna saman að málum. Við höfum alltaf lagt kapp á að hafa gott samstarf, en við höfum líka talið það skyldu okkar að halda fast fram þeim sjónarmiðum, sem við töldum mikilvæg. Við höfum oft verið ósammála rikisstjórnum, flestum ein- hvern tíma. Samstarfið hefur verið mismikið og misnáið, en við höfum a.m.k. á tímabilum átt gott samstarf við allar rikis- stjórnir." - Hvert hefur verið helsta ágreiningsefni Seðlabankans og ríkisstjórna í gegnum tíðina? „Mesta togstreitan hefur verið um vextina og stefnu í vaxta- málum. Á tímum verðbólgu og lágvaxtastefnu hefur Seðla- bankinn oft reynt að þrýsta vöxtum meira upp á við, heldur en ríkisstjórnir hafa viljað. Oft höfum við orðið að sætta okkur við að ríkisstjórnir hafa sett okkur stólinn fyrir dyrn- ar. Ég held að það hafi verið slæmt, að svo var gert, en varla um annan kost að ræða fyrir okkur, en að sætta okkur við það, á meðan kerfið var eins og það var. 28 En þetta hefur líka breyst til hins betra, því eftir að vext- ir voru gefnir frjálsir, hafa markaðsaðstæður skipt verulegu máli, og þar með hefur sveigjanleiki Seðlabankans til þess að reka sjálfstæða stefnu í vaxtamálum vaxið.“ - Sveigjanleiki til þess að reka sjálfstæða stefnu, segir þú. Hefur það einhvern tíma hvarflað að þér, að Seðlabankinn hefði getað orðið meira aðhaldsafl í efnahagsstjórnun, fyrir misvitra stjórnmálamenn, ef hann hefði ekki starfað í jafn- nánu samráði við ríkisstjórnir á hveijum tíma og hann hefur gert, heldur haldið sig í ákveðinni fjarlægð frá ríkisstjórninni og talað sjálfstæðari röddu en hann hefur gert? Ég nefni Bundesbank í Þýskalandi til samanburðar og hversu sjálf- stætt stjórntæki hann er í þýsku efnahagslífi, óháður ríkis- stjórnum. „Vissulega hlýtur maður að spyija sig þeirrar spurningar, hvort einhver önnur vinnubrögð en við beittum, hefðu skilað meiri árangri. Ég get hreinlega ekki dæmt um það sjálfur, enda held ég að það sé afskaplega erfitt, eftir á, að leggja dóm á það. Vafalaust hefði það verið til bóta, ef við hefðum haft afl til þess að veita meira viðnám gegn sumum ákvörðun- um og ráðstöfunum ríkisstjórna í íslenskum fjármálum. En lagaleg staða okkar hjá Seðlabankanum er mjög ólík stöðu Bundesbank. Þar að auki eru þjóðfélögin mjög ólík. Staða Bundesbank er mjög sérstök í bankaheiminum, því það má á vissan hátt segja að hann sé ríkisstjórnarígildi. Staða hans byggist bæði á því að hann er banki í sambandsríki, þar sem einstakir ríkishlutar hafa sín áhrif, og einnig því að almenningur í landinu hefur stutt stefnu bankans. Stjórnmála- menn í Þýskalandi hafa orðið að taka tillit til þess almenna stuðnings sem Þjóðveijar hafa veitt þeirri stefnu Bundes- bank, að halda verðbólgu niðri, jafnvel hvað sem það kost- aði, og þeir hafa verið tilbúnir til þess að taka á sig byrðar og óþægindi þess vegna. Því miður hefur það tekið langan tíma fyrir íslendinga, að tileinka sér þann hugsunarhátt, þótt þar hafi orðið mjög mikil breyting á seinni árin. Mér finnst að sá stöðugleiki sem nú er í íslensku efnahagslífi, byggist sem betur fer ekki ein- göngu á því að nú er rekin virkari peningapólitík og markviss- ari aðhaldsstefna í gengismálum, heldur einnig á því að fólk- ið er farið að meta gildi stöðugleikans. Án þessa gagnkvæma skilnings milli almennings og stjórnvalda í stjórn efnahagí?-' mála næst sjaldnast varanlegur árangur." Höfum meira sjálfstæði en Englandsbanki - Er ekki rætt um að gera Englandsbanka að mun sjálf- stæðari stofnun en hann hefur hingað til verið? „Umræðan um sjálfstæði seðlabanka er víða ofarlega á baugi um þessar mundir. Það er beinlínis hluti af Maastricht- samkomulaginu, að stefnt verði að því að gera seðlabanka í Evrópubandalagslöndunum sjálfstæðari. Þegar Evrópubank- inn tekur til starfa, á hann að verða mjög sjálfstæður. En þróun í þessa átt er mjög misjafnlega vel á veg komin í Evrópulöndunum. Þótt Englandsbanki sé gamall og virðuleg- ur, nýtur hann í raun og veru mun minna sjálfstæðis en \4ð gerum hér í Seðlabankanum. Okkur er ekki hægt að gefa beinar fyrirskipanir, þótt vissu- lega sé hægt að setja hömlur á ýmislegt sem við kynnum að vilja gera, og væri stjórnvöldum ekki að skapi. Fjármála- ráðuneytið í Bretlandi getur á hinn bóginn gefíð Englands- banka bein fyrirmæli. Um þetta er mjög mikið rætt í Bretlandi, en enn hygg ég að það vanti talsvert á að það sé stjórnmálalegur stuðningur við það að gera Englandsbanka sjálfstæðan. Það hefur vakið athygli mína að tveir fjármálaráðherrar í Bretlandi hafa nýver- ið lýst því yfir, eftir að þeir sögðu af sér, að þeir vildu að Englandsbanki væri sjálfstæður. En það hafði lítið farið fyrir þeim yfirlýsingum hjá þeim, á meðan þeir voru ráðherrar. Ríkisstjórn Majors virðist ennþá vera mjög hikandi að stíga þetta skref. En í Frakklandi er nýbúið að setja ný lög, sem gerir Banque de France miklu sjálfstæðari." Viðreisnartímabilið merkilegt - Á þessum langa ferli þínum hefur þú átt samstarf vfð' ótal ráðherra í fjölmörgum ríkisstjórnum. Nú veit ég að ég fæ þig ekki til þess að kveða upp palladóma um menn, en mig langar til að forvitnast um hveijir ráðherranna eru þér minnisstæðastir og fyrir hvaða sakir? „Ég vil ekki fara út í þá sálma á þessari stundu. Ég er ekki tilbúinn til þess. Hins vegar get ég sagt það, sem stafar ef til vill að nokkru af því að fjarlægðin gerir fjöllin blá, að mér eru þeir einna minnisstæðastir sem ég vann með fyrstu árin, þegar starf Seðlabankans var að mótast, en stofnun hans var einmitt þáttur í því að styrkja stjórnarstefnu Við- reisnarstjórnarinnar. Því nefni ég þá Ólaf Thors og Bjarna Benediktsson, sem voru forsætisráðherrar þeirrar stjórnar, og Gylfa Þ. Gíslason, viðskiptaráðherra, sem ég vann lang- mest með á þessum árum. Þessir þrír ráðherrar voru í forystu í efnahagsmálum á merkilegu tímabili í íslenskri efnahagssögu. Þetta var einnig sú stjórn sem hefur setið langlengst og því komst mjög mik- il festa á samskipti okkar við þá. Það held ég að hafi reynst mjög farsælt fyrir alla aðila.“ - Síðdegis á morgun gengur þú hér út af skrifstofu þinni í síðasta sinn. Verður söknuður í huga þér eða tilhlökkun, eða verða tilfinningarnar blendnar og hvað tekur svo við hjá Jóhannesi Nordal? „Ég hef áhuga á því að starfa áfram í stjórn Landsvirkjun- ar og íslensku álviðræðunefndinni, ef hægt er að vinna eitt- hvert gagn á þeim vettvangi. Svo er ég formaður Vísinda- ráðs og mun starfa þar áfram og einnig I norrænu stjórn Iðnþróunarsjóðs. En undanfarna mánuði hafa annir mínar verið svo miklar, að ég hef ekkert hugleitt hvað annað ég muni hafa fyrir stafni. Ég byija nú á því að taka til hjá mér og sé svo bara til. Þegar ég hverf héðan á morgun, vona ég að það verði fyrst og fremst tílhlökkun í huga mér. Ég Iæt af störfum hér fyrr en ég þurfti og þá ákvörðun tók ég vegna þess að mér fannst vera orðið tímabært að hætta. Að sjálfsögðu verður viss söknuður í huga mér einnig, sérstaklega að þurfa að kveðja samstarfsfólk mitt, sem margt hefur átt samleið með mér um áratugi. En ég neita því ekki, að ég hlakka til að sýsla við ýmislegt sem ég hef ekki getað sinnt sem skyldi hingað til.“

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.