Dagblaðið Vísir - DV - 14.03.1987, Side 18
18
LAUGARDAGUR 14. MARS 1987.
Kærum vegna kynferðisafbrota fjölgar:
Fólk trúir
nú börnunum
„Min reynsla er sú að kynferðislega misnotkun inni á heimilum sé að finna
í öllum stéttum og öllum þjóðfélagshópum," segir Páll Eiríksson geðlæknir.
„Flestir sem um þessi mál fjalla eru
sammála um að ekki sé um að ræða
eiginlega fjölgun kynferðisafbrota
heldur hafi kærum fjölgað. Fólk trú-
ir nú börnunum. Niðurstöðurnar úr
okkar könnun benda til þess að
ástandið hafi alltaf verið svona.
Þetta hefur bara verið dulið,“ sagði
Ingibjörg Georgsdóttir læknir í sam-
tali við helgarblaðið, en upphafið að
þeirri miklu umræðu, sem farið hefur
fram undanfarið um kynferðisglæpi,
má rekja til könnunar sem Ingibjörg
og fleiri konur á vegum Kvennaráð-
gjafar stóðu fyrir í desember á
síðasta ári.
Síðan þessi könnun var gerð hefur
hvert dæmið á fætur öðru verið dreg-
in fram í dagsljósið um kynferðislega
misnotkun barna, en þau tilfelli þar
sem um er að ræða sifjaspell valda
sennilega hvað mestum óhug. Fólk
spyr sig hvers konar menn það séu
sem geta fengið af sér að nauðga
þriggja ára gömlu barni eða misnota
barnungar dætur sínar árum saman.
Erlendar kannanir hafa gefið til
kynna að fimmtán til þrjátíu prósent
allra kvenna verði einhvern tíma á
lífsleiðinni fórnarlömb sifjaspells og
langalgengast er að feður eða stjúp-
feður eigi í hlut. Eins og bent hefur
verið á gerir það málið allt miklu
flóknara og viðkvæmara þegar kyn-
ferðisglæpir eiga sér stað inni á
heimilum því barn sem verður fyrir
kynferðislegu ofbeldi af hálfu ókunn-
ugs manns getur flúið í faðm fjöl-
skyldunnar en barn sem verður fyrir
sömu reynslu af hálfu föður eða ann-
ars skyldmennis getur ekki snúið sér
til neins. Það neyðist til að lifa í
skelfingunni inni á eigin heimili.
Byrjar með elstu dætrunum
Könnun Kvennaráðgjafarinnar
var framkvæmd þannig að konum,
sem höfðu orðið fyrir kynferðislegri
áreitni, var gefinn kostur á að
hringja í síma Kvennaráðgjafar og
tjá sig um reynslu sína. Símatíminn
var auglýstur í fjölmiðlum og var að
sögn Ingibjargar fyrst og fremst
höfðað til fullorðinna þolenda en
ekki barna sem eru að upplifa þessa
skelfingu í dag.
Tugir kvenna hringdu og af þeim
höfðu tuttugu og sjö frá sifjaspella-
reynslu að segja. Af þeim höfðu tíu
verið kynferðislega misnotaðar af
föður og tvær af stjúpföður. I þremur
tilvikum var um að ræða afa, fjórar
konur höfðu orðið fyrir þessu frá
hendi frænda síns, í fjórum tilfellum
var afbrotamaðurinn bróðir konunn-
ar og í fjórum tilvikum var um að
ræða mann sem var giftur frænku
viðkomandi.
„Það sem gerir þennan glæp svo
alvarlegan er hversu lengi þetta
stendur," sagði Ingibjörg. „Barnið
er tíu, tólf ára þegar það gerir sér
grein fyrir að þetta er rangt og enn
eldra þegar það getur farið að berj-
ast á móti. Meðalaldur kvennanna,
þegar þær urðu fyrir þessu fyrst, var
sjö ár og margar sögðu að þetta
væri það fyrsta sem þær myndu eftir.
Stundum liggur margra ára undir-
búningur að baki afbrotum af þessu
tæi. Þetta byrjar á minni háttar
snertingu og þukli og eykst stig af
stigi. En oft á tíðum er um hreinar
og klárar árásir og nauðganir að
ræða,“ sagði Ingibjörg.
Engar rannsóknir hafa verið gerð-
ar hér á landi á bakgrunni eða
félagslegum aðstæðum þeirra fjöl-
skyldna þar sem kynferðislegt of-
beldi á sér stað, en þeir sérfræðingar
sem rætt hefur verið við segja sifja-
spell fyrirfinnast hjá öllum stéttum.
Erlendar rannsóknir hafa leitt í ljós
að helsta einkennið á þessum fjöl-
skyldum er að þær eru mjög lokaðar.
Bæði móðirin og börnin eru félags-
lega mjög einangruð og faðirinn hinn
stjórnandf húsbóndi. Oft er móðirin
mikið fjarverandi vegna veikinda,
barneigna eða mikillar vinnu. Vald-
inu er ekki jafnt skipt á milli foreldr-
anna heldur stjórnar faðirinn öllu
með harðri hendi.
„Þetta byrjar oft með elstu dætrun-
um. Þær ganga inn í hlutverk
móðurinnar, taka á sig ábyrgð á
heimili og yngri systkinum og smám
saman færist sú skylda að þjóna-eig-
inmanninum til borðs og sængur
einnig yfir á dæturnar,“ sagði Ingi-
björg sem mikið hefur kynnt sér þessi
mál erlendis.
Mæðurnar einnig kúgaðar
„Það er mjög algengt að þeir sem
fjalla um kynferðislegt ofbeldi inni á
heimilum ásaki mæðurnar fyrir að
taka afstöðu með mönnunum. En oft
á tíðum eru þær sjálfar svo kúgaðar
að þær eiga ekki möguleika á að
vernda barnið. Þegar uppvíst verður
um brot af þessu tagi eru mennirnir
yfirheyrðir og alltof oft eru þeir síðan
sendir beint heim. Og hvað gera þeir
þar? Þeir búa svo um hnútana að
ekki komist upp um þá aftur.
Við viljum ekki kenna mæðrunum
um eða varpa ábyrgðinni yfir á þær.
Þetta er þeim oft slíkt áfall að eina
vörnin er að loka augunum og neita
því að þetta hafi gerst. Þetta eru nú
einu sinni eiginmennirnir sem þeim
á að þykja vænt um.
En áhrifin á börnin eru mjög alvar-
leg og það er okkar reynsla að þær
konur sem hafa orðið fyrir kynferðis-
legu ofbeldi af hálfu föður eða
stjúpföður eigi langerfiðast upp-
dráttar. Það er mjög algengt að
þessar konur verði þunglyndar og/
eða eigi við áfengisvandamál að
stríða. Síðan eiga þær í verulegum
hjónabands- og kynlífserfiðleikum.
Þær eru flestar margfráskildar. Kyn-
lífið, þessi hornsteinn hjónabands-
ins, vekur þeim ótta og viðbjóð og
það segir sig sjálft að slíkt hjónaband
gengur ekki vel,“ sagði Ingibjörg.
„Það þarf að kenna börnum ákveðn-
ar öryggisreglur í mannlegum
samskiptum og ekki síst að láta vita
ef eitthvað er að. Síðan er grundvall-
aratriði að trúa barninu þegar það
segir frá því að það hafi orðið fyrir
kynferðislegri áreitni. Þó mann
hrylli við verður maður að styðja
barnið og hjálpa því og leita aðstoð-
ar hjá fólki sem hefur reynslu af
svona málum.“
Starfræktur er barnasími í Rauða
kross húsinu sem börn geta hringt í
ef þau hafa frá einhverju óþægilegu
að segja sem þau geta engum öðrum
sagt. Síminn er 622260 og opinn frá
þrjú til sex, mánudaga og föstudaga.
I vor er væntanlegur bæklingur sem
ætlað er að fræða fullorðna um kyn-
ferðisafbrot og hvernig bregðast
skuli við slíku.
Börn vilja ekki kæra
„Þegar fjölskyldur lenda í svona
löguðu þá er auðvitað eitthvað meira
en lítið að, hvað svo sem veldur,“
sagði Páll Eiríksson en hann hefur
í gegnum tuttugu ára starf sem geð-
læknir haft mikil afskipti af fórn-
arlömbum kynferðisafbrotamanna.
„Óhugnanlega mörg af þessum af-
brotum eru aldrei kærð en svo fá
læknar og sálfræðingar þessa ein-
staklinga í meðferð mörgum árum
síðar.
Börn vilja ekki kæra manneskju
úr fjölskyldunni. Það er hræðilegt
áfall að upplifa að faðirinn, sem
barnið treysti, reynist ekki trausts-
ins verður. Barnið getur fengið þá
tilfinningu að það sé sjálft á ein-
hvern hátt sekt og það spyr sjálft
sig: Hvað verður um mig ef ég segi
frá? Heimilið og fjölskyldan er eina
öryggið sem barnið þekkir, hversu
slæmt sem ástandið kann annars að
vera.“
Páll leggur mikla áherslu á mikil-
vægi forvarnarstarfs til þess að vinna
gegn afbrotum af þessu tæi.
„Það þarf að hjálpa fólki að læra
að verða foreldrar og vinna með eig-
in tilfinningar og það vantar ein-
hverja stofnun þar sem fjölskyldan
getur leitað aðstoðar. Víða á Norð-
urlöndum rekur kirkjan til dæmis
fjölskyldumeðferðarstofnun.
Mín reynsla er sú að kynferðislega
misnotkun inni á heimilum sé að
finna í öllum stéttum og öllum þjóð-
félagshópum en verstu tilfellin eru
samt í þeim fjölskyldum þar sem að-
stæður eru verstar því það fólk á
erfiðast með að verða sér úti um
hjálp. En ég hef meðhöndlað konur
úr öllum stéttum."
Afbrotamenn framtíðarinnar
Eins og sagði í upphafi á fólk erfitt
með að gera sér í hugarlund hvers
konar menn það eru sem misnota
börn, og það sín eigin, á þennan hátt.
Öllu venjulegu fólki þykir þetta svo
ótrúlega mikil grimmd og mann-
vonska að engu tali tekur.
Þessi mál hafa ekkert verið rann-
sökuð en ljóst er að margir kynferð-
isafbrotamenn voru sjálfir fórn-
arlömb kynferðislegrar misnotkunar
sem börn. Það skýrir þó ekki allt,
eins og Ingibjörg bendir á, þvi stærst-
ur hluti fórnarlambanna er konur
og ekki leggjast þær á börn. Þær
hella sér frekar í óreglu og jafnvel
vændi.
Ekki er heldur alltaf áfengisneyslu
um að kenna. „í mörgum tilvikum
eru afbrotamennirnir undir áhrifum
áfengis,“ sagði Páll, „en alls ekki
öllum. Ég man eftir dæmi frá Noregi
þar sem um var að ræða áhrifamann
í toppstöðu sem misnotaði dóttur
sína og áfengi kom þar ekkert við
sögu.
Það er á hreinu að það eru ýmsar
brotalamir í æsku þessara manna.
Ég hef allavega ekki ennþá séð eða
heyrt um kynferðisafbrot af þessu tæi
af hendi manns sem kemur frá góðu
heimili. Og þá er ég ekki að tala um
að yfirborðið sé fínt heldur að við-
’komandi hafi notið umhyggju og
hlýju sem barn. Maður trúir því ekki
á mann sem hlotið hefur ástríkt upp-
eldi að hann nauðgi þriggja ára
gömlu barni.“
Kynferðisafbrot hafa verið að
koma upp á yfirborðið og smám sam-
an lærist þjóðfélaginu að bregðast
við þessu. Læknar eru farnir að
þekkja áverkana, sálfræðingar að
þekkja hegðunina og fólk er að verða
sér meðvitaðra um þetta vandamál.
Bæði Ingibjörg og Páll leggja mikla
áherslu á hversu mikilvægt er að
hjálpa þeim einstaklingum sem
verða fyrir kynferðislegu ofbeldi og
fjölskyldum þeirra, því eins og Ingi-
björg segir þá er hér „ekki bara um
að ræða skemmda einstaklinga held-
ur hugsanlega afbrotamenn framtíð-
arinnar". -VAJ
Óhugnanlega fá kynferðisafbrot eru kærð og mjög margar kærur falla um sjálfar sig vegna skorts á sönnunum.
Mörgum finnast lika dómar fyrir kynferðisafbrot alltof vægir.