Dagur - 20.12.1986, Blaðsíða 21

Dagur - 20.12.1986, Blaðsíða 21
mí aeörtííBií3 i^é6-HfeíÁétiR^ Si Mannsævin er nu ekki löng - segjr Bjöm Egilsson frá Sveinsstöðum í Lýtingsstaðahreppi, Skagafirði Björn Egilsson er fæddur og uppalinn í skagfirskri sveit. Hann hefur alla sína tíð búið í Skagafirði og hefur lifað tím- ana tvenna því hann er fæddur árið 1905. Hann var lengst af bóndi á Sveinsstöðum í Lýt- ingsstaðahreppi en hefur alla tíð verið mikið gefinn fyrir bókina og varið frítíma sínum tU lestrar og sjálfsnáms. Sjálfur vill hann þó ekki gera mikið úr þessu og er á móti því að vera kallaður fræðimaður. - Pú ert innfæddur Skagfirð- ingur, Björn? „Já, ég er fæddur á Sveinsstöð- um í Lýtingsstaðahreppi þann 7. ágúst 1905. Ég hef séð tímana tvenna ef ég myndi það, ég man nú lítið. Faðir minn, Egill Bene- diktsson, var Skagfirðingur að ætt og bóndi á Sveinsstöðum. Móðir mín var líka Skagfirðing- ur, Jakobína Sveinsdóttir. Hún var þarna úr héraðinu, foreldrar hennar bjuggu á Lýtingsstöðum á seinni hluta aldarinnar sem leið en fluttu til Húnavatnssýslu. Hún fæddist á Hafsstöðum eða Haf- ursstöðum á Skagaströnd. Sveinn Arason hét faðir hennar og Guð- björg Benjamínsdóttir móðir. Ég átti tvær systur og þrjá bræður.“ - En þú tókst við jörðinni? „Já, ég var elstur. Ég ætlaði mér ekkert endilega að verða bóndi en það var ekki um marga möguleika að velja þegar ég var að alast upp. Ef ég hefði haft minnisgáfu þá hugsa ég að ég hefði farið í skóla en það er óvíst hvort ég hefði haft nokkuð betra af því. Ég veit það ekki. Ég byrj- aði sjálfstæðan búskap 1928 og stundaði búrekstur einn til 1946 en þá hóf Sigurður bróðir minn búskap á Sveinsstöðum. Ég var þar líka viðloða næstu árin. Ég er fluttur inn á Sauðárkrók þó að ég hafi lögheimili ennþá á Sveins- stöðum. Annars er jörðin að fara í eyði þó hús séu þar ennþá uppistandandi." Búskapur fyrr og nú - Nú hefur þú fylgst með land- búnaðinum í langan tíma. Hvernig finnst þér horfa með sveitirnar í framtíðinni? „Pað horfir náttúrlega ekki vel, það fara einhver býli í eyði. En hvort þetta verður eins og sumir eru að tala um, það held ég nú ekki. Það verða samt erfið- leikar þegar bæjum fækkar og byggðin grisjast, einkum fyrir sauðfjárbændur. Það verður erf- iðara með ýmis félagsmál þegar fáir eru. Svo er líka annað sem kemur til. Bændur vilja alltaf hafa svo mikið land og þegar jarðir fara í eyði þá fá aðrir land- ið til afnota og það kannski full- nægir þeim eitthvað þegar þeir hafa miklu meira land. En svo kemur það til að þeir þurfa ekki nema þrjár álnir og mannsævin er ekki löng.“ - Hvernig var það þegar þú byrjaðir búskap, voru menn með margar búgreinar? „Nei, menn voru að vísu með sauðfé, kýr og hross en þá var mjólkursala ekki byrjuð. Pað voru tvær og þrjár kýr á bæ bara fyrir heimilið. Mjólkurfram- leiðslan byrjar svo í Skagafirði 1935 fyrir alvöru því þá var mjólkursamlag stofnað á Sauðár- króki og þá fengu bændurnir sér fleiri kýr og fóru að selja mjólk. Þetta hefur verið viðvarandi síðan.“ - Hvaða áhrif hafði þetta fyrir afkomu bændanna? „Það má segja að þeir hafi haft meiri tekjur en áður. Menn höfðu líka sumir eitthvað upp úr hrossum sem þeir voru með. Menn seldu folöld til slátrunar og sumir voru í því að temja hesta. Pað má segja að þessi búskapur með sauðfé, kýr og hross hafi verið ríkjandi fram yfir 1950.“ - Nú hefur þú þurft að fara í langar smalaferðir. „Það var ekki erfitt að ganga heimalandið í minni sveit, það var ekki stórt. Sveinsstaðir eru í Tungusveitinni svona miðjan veg milli Mælifells og Goðdala. Það voru aftur göngurnar á haustin ofan frá Hofsjökli og niður að Stafnsrétt sem ég fór oftast í. Þetta voru þriggja daga göngur, lagt af stað á sunnudag og komið ofan að Stafnsrétt um hádegi á miðvikudag. Þetta var þó nokkur ferð. Svo rak maður féð á fjall á vorin, það var kannski sólar- hringsferð." - Hvernig gengu þessi ferða- lög? „Jú, það komu nú veður í göngum, stórhríð kannski, en ekki oft. Það var 1963 minnir mig, þá kom stórhríð í göngun- um og var ekki hægt að smala. En menn fórust nú ekki, þeir héldu sig í hóp og komust til byggða. Menn fóru þetta allt á hestum." - Hefur þú átt góða hesta? „Ég átti sæmilega hesta því á þessum tíma voru til á flestum bæjum sæmilega góðir reiðhest- ar, einn eða fleiri. í mínu ung- dæmi var allt flutt úr kaupstað á klökkum en þetta var áður en ég fór að búa, fyrir 1920. Ég man vel eftir því. Kerrur og kerru- slóðir fóru ekki að koma fyrr en eftir 1920. Á veturna var ekið á sleðum eftir Eylendinu sem kall- að var, utan frá Krók og inn að Vindheimabrekkum. Þar voru oft glærir ísar og ágætt færi. Oft var reyndar ekið lengra, fram Tungusveitina og fram í dali, en það var ekki eins gott sleðafæri og í Hólminum og Eylendinu. Allir aðdrættir voru frá Sauðár- króki. Ég fór þangað í kaupstað í fyrsta sinn árið 1915, tíu ára gamall." Áhugamál - Hefur þú eitthvað fengist við ættfræði? „Það er frekar núna á seinni árum að ég hef svolítið gluggað í skagfirskar ættir en ég veit ekk- ert í ættfræði, það er svo mikið fag að það þyrfti að stunda alla ævina og helst margar ævir til að vita eitthvað, en höfuðatriði er auðvitað að muna það sem mað- ur les. Ég veit eitthvað dálítið um mínar eigin ættir, þetta er mest úr Skagafirðinum og reyndar einnig úr Húnavatnssýslu.“ - Hefur þú ekki haft gaman af bókalestri um dagana? „Ég hef lesið um dagana, þó er ég alveg hættur að lesa skáldsög- ur í seinni tíð. Það var takmark- aður tími til að lesa með bú- skapnum. Maður hafði þó alltaf einhvern tíma að vetrinum og ég vandi mig á að lesa alltaf á kvöld- in áður en ég fór að sofa eins og fleiri hafa nú reyndar gert. Þetta er bara vani.“ - Voru starfandi lestrarfélög í þínu ungdæmi? „Já, það var starfandi lestrar- félag í Goðdalasókn þar sem mín kirkjusókn var. Það voru reyndar tvö félög, annað í Mælifells- prestakalli, en það voru tvö prestaköll í minni sveit til ársins 1904. Sögur eftir íslenska höfunda sem voru að koma út voru vinsælar, einnig þýddar skáldsögur. Þessi félög áttu ekki mikið af samstæðum tímaritum. Fólk vildi lesa spennandi skáld- sögur til að drepa tímann. Það urðu stundum deilur um bækurn- ar, að minnsta kosti bækur Hall- dórs Laxness þegar þær fóru að koma. Þær voru fordæmdar alveg af sumum. Bækur eftir Gunnar Gunnarsson þóttu nokkuð góðar, eins Guðmundur Hagalín, ég man ekki eftir að hann þætti neitt slæmur. Hann skrifaði söguna Vestur úr fjörðum skömmu eftir 1920 og þá var Laxness að byrja að skrifa líka, Lfndir Helga- hnjúk o.fl. Sumir voru svo eitr- aðir á móti Laxness að þeir vildu koma því til leiðar ?ð það yrði engin bók keypt í lestrarfélagið eftir hann. Mér þótti alltaf gaman að lesa bækur eftir Laxness.“ - Voru keypt blöð í sveitinni? „Jú, jú, það voru ísafold og Tíminn. Eftir að Sjálfstæðis- flokkurinn var myndaður gaf hann út ísafold en Morgunblaðið var ekki mikið keypt í sveitinni, það var það dýrt, en ísafold var eins konar sérútgáfa af Morgun- blaðinu. Svo var blessaður Tíminn, hann var vikublað en varð ekki dagblað fyrr en um 1940. Ég get sagt þér sem dæmi um blaðalesturinn að það voru tveir karlar frammi í Vesturdal sem lánuðu blöðin á víxl. Þeir voru hvor í sínum flokknum. Annar var með Tímann en hinn með ísafold. Svo sagði Guð- mundur í Bjarnastaðahlíð við nafna sinn, séra Guðmund Ólafs- son í Litluhlíð: Það er góð grein í Tímanum núna. En hinn vildi ekki fallast á að það gæti verið.“ - Manst þú eftir einhverjum pólitískum fundum í sveitinn í gamla daga? „Já, þeir voru mjög skemmti- legir. Oft voru mikil átök á þess- um fundum því þarna voru atkvæðamenn miklir í framboði, Magnús Guðmundsson og Steingrímur Steinþórsson. Magnús var náttúrlega þó nokk- uð fyrr, ég held að hann hafi ver- ið kosinn á þing 1916. Hann var sýslumaður Skagfirðinga um skeið og mjög vinsæll. Svo kemur Steingrímur Steinþórsson þegar hann verður skólastjóri á Hólum árið 1931. Hann fékk þá kosn- ingu og þá var mikill hiti. Þetta voru glæsilegir ræðumenn báðir. Ég var venjulega með Fram- sóknarflokknum en þetta gat ver- ið skipt á sama heimili, bróðir minn Sigurður stóð með Sjálf- stæðisflokknum þótt við byggjum þarna saman. Það var allt í lagi með það milli okkar. Við körp- uðum stundum og kannski varð engin niðurstaða um hvað væri best. Það var ekki mikið um að menn deildu í illu á þessum fundum. Helstu kosningamálin voru ýmis hagsmunamál sveit- anna, samgöngur, vegir og brýr. Svo var mikið talað um það hvað menn fengju fyrir sínar afurðir og hvaða áhrif ríkið gæti haft á verðið, en ríkið hafði ekki mikil áhrif á þetta þá.“ - Hvernig gekk afurðasalan á kreppuárunum? „Hún gekk nokkuð oft erf- iðlega. Éinhvern veginn seldist allt en verðið var lágt. Það var náttúrlega allt lágt á kreppuár- unum milli 1930 og ’40 og þá gerði dilkurinn að hausti svona átta til tíu krónur. Þegar brennivínið eða svartidauðinn kom þá kost- aði flaskan sex krónur. Það var miklu dýrara vínið þá en núna.“ Hátíðir og tyllidagar - Hverjar voru helstu skemmt- anirnar hjá unga fólkinu? „Það voru dansleikir. Fyrst þegar ég man eftir þá voru ung- mennafélagsfundir en þeir voru haldnir á bæjunum því ekkert samkömuhús var til. Þá var dans- að í stofum á kvöldin á veturna, ég man vel eftir því fyrir 1920. Svo var byggt samkomuhús við Steinsstaðalaug 1926, eftir það voru dansleikir haldnir þar. Áður var alþiljað þinghús á Lýtings- stöðum, sem er nokkuð framar í sveitinni, notað til dansleikja. Þá var ég unglingur og ég man eftir því að harmonikuspilari utan úr Blönduhlíð kom gangandi alla leiðina með harmonikuna, það var Guðvarður á Brekkum, mág- ur Hermanns Jónassonar, giftur Margréti systur hans. Og hann lagði þetta á sig að koma gang- andi fram að Lýtingsstöðum um hávetur og spilaði alla nóttina í þinghúsinu." - Hvað gerði fólk sér til til- breytingar um hátíðir eins og á jólum? „Oft var nú gripið í spil og spil- að um hátíðarnar, svo var náttúr- lega maturinn. Það var alltaf haft hangikjöt og steikt brauð, einnig smér og ostur. Mysuosturinn var oft búinn til heima. Hvíti ostur- inn var öðruvísi og ég man fyrst eftir honum á Mælifelli. Ég var þar í fimm ár, frá fimmtán til tuttugu ára. Þar var þá prests- kona frú Anna, sem hafði verið í Danmörku, og hún pantaði hvít- an ost þaðan. Þá lærði ég að borða hvítan ost og mér hefur alltaf þótt hann góður síðan. Svo var dálítið gert til að skreyta innanhúss, það voru jólatré og kerti. Þetta er orðið mjög breytt núna frá því sem var en mesta breytingin er þó frá tíma gömlu torfbæjanna. Víðast hvar var alþiljuð baðstofa og svo voru göng og ekki þiljur á gólfum annars staðar en í búri eða frambæ. Moldargólfin urðu troð- in og hörð og þau voru sópuð. þetta gat verið mjög þokkalegt þegar búið var að taka til.“ Ég kvaddi Björn Egilsson og þakkaði honum fyrir viðtalið. Sjálfur er hann lítið gefinn fyrir að vera áberandi og vill ekki gera mikið úr fræðaiðkun sinni. Ekki leikur þó vafi á að Björn er í hópi hinna sjálfmenntuðu bænda, sem svo eru stundum nefndir. Hann hefur skrifað talsvert í blöð um árin og fylgist vel með framvindu landsmála. Þegar hann kvaddi var ekki laust við að sú hugsun sækti að mér að hann væri fulltrúi kynslóðar sem bráðum verður horfin - en arfur þeirrar kynslóð- ar verður ekki settur á vogarskál- ar né mældur með mælistiku. EHB

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.