Dagur - 10.08.1988, Blaðsíða 14

Dagur - 10.08.1988, Blaðsíða 14
14 - DAGö^- 1Ö; át|úé¥1988 ri Minning: TJón Eiríksson fyrrum bóndi í Djúpadal í Skagafirði Fæddur 1. maí 1898 - Dáinn 8. júní 1988 Við fráfall vinar míns og sam- ferðamanns á langri ævi, Jóns Eiríkssonar frá Djúpadal, datt mér í hug erindi eftir skáldið og listamanninn, Ríkharð Jónsson, sem hljóðar svo: „ Vinirnir hverfa einn og einn, óðfluga leið til grafar. Fellur úr bergi steinn og steinn, strangur er dauðans mistilteinn. Stend ég að lokum eftir einn, við endaskör hinstu nafar. “ Með fráfalli Jóns hefur nú fall- ið stór steinn úr ættarbergi Djúpadals. Við ferðafélagar og samstarfsmenn stöndum eftir á ströndinni, fátækari og hryggir. Ég er einn þeirra manna, sem átti, að ég hygg, mest samstarf vandalausra manna við Jón. Starf okkar var á ýmsum sviðum félagsmála, um hálfrar aldar skeið. Er þar fyrst að minnast stofnunar ungmennafélagsins Glóðafeykis 1926. í annan stað í kjörstjórn Frostastaðarkjördeild- ar lengst af og í þriðja lagi í stjórn Kaupfélags Skagfirðinga fram á áttunda áratuginn. Aldrei bar skugga á okkar samstarf og í endurminningunni er aðeins þakklæti og birta. Fyrir utan þau störf, sem hér hafa verið talin var Jón deildar- stjóri Akradeildar Kaupfélags Skagfirðinga í tuttugu ár, lengur en nokkur annar deildarstjóri hefur verið. Umsögn þáverandi kaupfélagsstjóra Sveins Guð- mundssonar var sú, að enginn deildarstjóri, að öllum hinum ólöstuðum, hefði lagt eins mikla vinnu og rækt við starfið og Jón. Ástæðan til þess, að ég minnist Jóns, er fyrst og fremst okkar löngu kynni, og í annan stað sú að Jón talaði einhverju sinni um það að ef hann færi á undan mér, þá kveddi ég hann með nokkrum orðum. Ég tel mig því hafa þekkt Jón í Dal það vel, að ég þori að lýsa honum að nokkru. Jón í Dal, en svo var hann jafnan nefndur manna á meðal, var á margan hátt sérstök mann- gerð og átti fáa sína líka hér um slóðir. Hann var skarpgreindur, fljótur að átta sig á málum, rök- fastur, ræðumaður góður og fylg- inn sér í málflutningi. Hvar sem Jón kom fylgdi honum gleði, bjartsýni og hreinlyndi. Hann var höfði hærri allri meðalmennsku í andlegum skilningi. Hann var stórbrotinn höfðingi í lund. Alstaðar vakti Jón eftirtekt fyrir frjálsa og drengilega framkomu. Aldrei varð Jón ríkur maður, enda átti hann það til, að gefa svo að segja allt, sem hann átti, fyndist honum þörf á. Jón lifði ekki fyrir eyrinn, hann lifði fyrir hugsjónir. Hann var einn af traustustu samvinnumönnum í Skagafirði. Jón var skapmaður allmikill, en líka mildur eins og saklaust barn. Ég kom til Jóns mánuði áður en hann dó. Þá var hann með hressasta móti. Þetta var tveimur dögum eftir níutíu ára afmælið hans. Þá sýndi hann mér fjölda af skeytum, sem hann fékk frá vinum og vandamönn- um, en ég held honunt hafi þótt vænst um skeytið frá Sveini Guðmundssyni fyrrum kaup- félagsstjóra. Þar þakkar Sveinn Jóni fyrir frábært starf í stjórn Kaupfélags Skagfirðinga um ára- tuga skeið og trausta og drengi- lega framkomu í öllu starfi. Jón var hvergi hálfur, alstaðar heill. Eins og ég gat um hér að framan, var Jón viðkvæmur og tilfinningaríkur. Mitt í því að hann var að sýna mér skeytin, sem hann var virkilega ánægður með, dró hann upp úr fórum sín- um mynd af stúlkubarni og sýndi mér. Hann dró höndina yfir myndina eins og hann vildi klappa henni og sagði: „Þetta er hún Imba litla bróðurdóttir mín,“ og klökknaði við. Þannig var góðmennið, barnavinurinn, höfðingi Dalsins. En Jón var fljótur að átta sig og láta ekki til- finningar setja skugga á stundina, hann lyfti sérríglasi sínu og þar drukkum við okkar sfðustu hestaskál. Þótt Jón væri ávallt gleðigjaf- inn hvar sem hann kom, var þó ekki alltaf sólskin í lífi hans. Hann missti konu sína, Nönnu Þorbergsdóttur, eftir stutta sambúð. Var það Jóni hörmulegt áfall, jafn tilfinningaríkum manni. En hann eignaðist sólar- geisla, sem lýsti honum í sorg- armyrkrinu. Hann var búinn að eignast dóttur með konu sinni áður en hún dó, Sigríði gift Rögnvaldi Gíslasyni frá Eyhild- arholti, nú búsett á Sauðárkróki. Þau eignuðust fjögur börn. Eirík, dósent við Háskóla íslands, Guðrúnu, rafmagnsverkfræðing, Kristínu Sigríði, nema við Háskóla íslands og Nönnu, útgáfustjóra. Það sannaðist hér sem oftar, að hryggjast og gleðjast hér um fáa daga, að heilsast og kveðjast það er lífsins saga. Ekki get ég lokið svo þessum orðum mínum, að ég minnist ekki á það, sem var afar gildur þáttur í lífi Jóns, en það var ástin til Djúpadals. Þar dvaldi hugur hans til síðustu stundar. Á áttatíu ára afmæli Jóns fyrir tíu árum sendi ég honum nokkrar línur. Þar er reynt að lýsa umhverfi Djúpadals. Bærinn er í skjóli hárra fjalla, og við túnfót- inn rennur Dalsáin ýmist sem beljandi fossfall sem veltir björg- um svo drunur berast heim að bæ, eða rennur sem ljúfur ómur, sem flytur frið og ró í bæ. Kannski hefur hið stórbrotna og fjölbreytta umhverfi skapað and- lega reisn Jóns að einhverju leyti. Ég gerði mér þá í hugarlund, að þegar litli drengurinn fyrir áttatíu árum, skynjaði fyrst til- veru lífsins, hafi hann kannski fyrst heyrt milda óma Dalsárinn- ar. Ennfremur gerði ég mér í hugarlund að ef til vildi sofnaði hann síðasta blundinn við hljóma árinnar, en svo varð því miður ekki, því Jón andaðist á Sjúkra- húsi Skagfirðinga þann 8. júní sl. Þar sem var hans vagga vildi hann hljóta gröf. Honum varð að ósk sinni, jarðaður í heimagraf- reit í Djúpadal. Fjölmenni fylgdi honum síðasta spölinn, með eftirsjá en þakklæti fyrir langa og góða samfylgd. Skagfirðingar yfir höfuð sakna þín, en biðja þér velfarnaðar á landinu nýja. Ekkivar ég það kunnugur Jóni sem bónda, að ég geti farið mörg- um orðum um hann sem slíkan. Þó veit ég að hann ræktaði mikið, breytti fúamýrum í grösug tún og byggði upp hús staðarins. Enn- fremur held ég að hann hafi verið ágætur skepnuhirðir. Ég held að það sé óhætt að fullyrða, að þess- ar setningar séu sönn lýsing á Jóni, „að þeir sem akra yrkja, auka Iandsins gróður, eru í eðli tryggir ættjörð sinni og móður". Ekki var að efast um tryggð Jóns til heimahaga og ættjarðarinnar. Ég geng þess ekki dulinn, að þú kveiðst ekki umskiptum, þú varst búinn að fá ósk þína upp- fyllta, að ná níutíu ára aldri. Þú treystir því áreiðanlega að vinir biðu í varpa og tækju á móti þér. Gamli vinur ég læt hér staðar numið. Ég og kona mín þökkum þér öll þín gengnu spor í sam- fylgdinni, allar ánægjustundirnar sem munu fylgja okkur til síðustu stundar. Ég hef aðeins eina ósk til þín, vinur minn yfir landamær- in. Hún er sú, að Drottinn rétti þér höndina sína og leiði þig í ljósið og friðinn. Framnesi 25. júní 1988 Björn Sigtryggsson. Þeim er eðlilega farið að fækka bændunum, sem búsettir voru í Akrahreppi um það leyti, sem ég fluttist þangað handan úr Hegra- nesinu. Ætli þeir séu nema 11 eft- ir á lífi af 57. Sagt er að maður komi í manns stað. Víst er nokk- uð til í því. En engir tveir menn eru að öllu eins, og víst er, að sá kemur aldrei aftur, sem eitt sinn er horfinn. Sveitin sjálf er hin sama og áður. En mannlífið breytist því hver einstaklingur setur sinn svip á það umhverfi og samfélag, sem hann lifir í. Nú síðast hvarf Jón Eiríksson í Djúpadal af sviðinu. Engum þurfti í sjálfu sér að koma það á óvart með 90 ára gamlan mann. Og þó tók það sinn tíma að sætta sig við og átta sig á þessari and- látsfregn. Ekkert var fjarlægara né fráleitara en hugsunin um dauðann í návist þessa elskulega og lífsglaða manns, Jóns í Djúpa- dal, þótt níræður væri orðinn. Á æskufjör hans, bjartsýni og lífstrú sló naumast nokkrum fölskva allt til efsta dags. Jón Eiríksson fæddist í Djúpa- dal í Blönduhlíð 1. maí 1898. Voru foreldrar hans Eiríkur Jónsson, bóndi og trésmiður í Djúpadai og kona hans, Sigríður Hannesdóttir, góð hjón og glæsi- leg og ákaflega vel gerð á alla grein. í Djúpadal átti Jón heima til æviloka, enda hefði hann naumast að fullu fest rætur í nokkru umhverfi öðru. í Djúpa- dal hefur sama ættin setið um aldabil og sem betur fer eru ekki horfur á að það breytist í bráð. Innan fermingaraldurs dvaldi Jón nokkur ár hjá frændfólki sínu á Reynistað og mat það heimili jafnan mikils síðan. um tvítugs- aldur hvarf Jón til náms við Bændaskólann á Hvanneyri og lauk þaðan búfræðiprófi. Ánnars skólanáms mun hann ekki hafa notið utan hinnar venjulegu barnafræðslu þeirra tíma, sem nú mun naumast þykja merkilegt né halddrjúgt veganesti. Allt um það var Jón vel menntaður, í bestu merkingu þess orðs. Hann las flest, sem hann náði til. Hann var fluggreindur, stálminnugur, næmur og opinn fyrir straumum og nýjungum samtíðarmnar, glöggur á að greina kjarna frá hismi og manna fljótastur til fylg- is við þær hreyfingar og hugsjón- ir, sem hann taldi horfa til heilla. Slíkir menn eru allt sitt líf að læra og þeir læra vel. Éiríkur í Djúpadal var listefn- ugur smiður og því mjög eftirsótt- ur til þeirra starfa utan heimilisins. Það kom því snemma í hlut Jóns að veita búinu í Djúpadal for- stöðu að meira og minna leyti og síðar alfarið. Hann kvæntist frændkonu sinni, Nönnu Þor- bergsdóttur, en missti hana eftir skamma sambúð. Þau eignuðust eina dóttur, Sigríði, sem gift er Rögnvaldi Gíslasyni frá Eyhild- arholti. Jón í Djúpadal bjó aldrei neinu stórbúi en góðu og gagn- sömu. Enginn var hann auð- söfnunarmaður, enda stóð eðli hans og upplag ekki til þess, en svo óeigingjarn og örlátur að stundum sýndist lítt við hóf. Einn þeirra fágætu manna, sem ávallt láta eigin hag víkja fyrir annarra. Djúpidalur er frá náttúrunnar hendi mikil jörð og fögur. Hún stendur hátt í minni samnefnds dals og sér þaðan vítt yfir Skaga- fjarðarhérað. Hinn svipmikli Glóðafeykir stendur vörð um bæinn á aðra hlíð, Akrafjall á hina. Að baki liggur dalurinn og hið tignarlega Tungufjall. Við túnfótinn rennur Dalsáin í djúpu gili og syngur þar sitt eilífa lag, stundum með tröllslegum gný og ryðjandi fram björgum svo að nágrennið nötrar við, eða blítt og róandi. Þannig er umhverfi Djúpadals, svipmikið og fagurt í senn og síst undrunarefni þótt Jón kysi að eyða þar ævidögun- um. Én Djúpidalur er að ýmsu leyti óhæg jörð. Ræktunarskil- yrði erfið áður en hinar stórvirku jarðvinnsluvélar komu til sög- unnar. Langt á þjóðveg þótt ekki yrði þess vart að það drægi úr gestakomum. Var oft í meira lagi mannkvæmt í Djúpadal og Jón aldrei glaðari en þegar hann hafði fullt hús gesta og gat veitt á báðar hendur. Þá var Jón í Djúpa- dal stórauðugur maður. Fénaðar- ferð er mikil og fjárgæsla erfið svo sem verða vill á jörðum, sem mikið land eiga til fjalls. Kom sér oft vel að Jón var manna léttastur á fæti og brattgengastur. Sá ég Jón, á efri árum, feta þær kletta- skeiðar, sem ýmsum yngri mönn- um hefði ekki þótt fýsilegt að eiga fang við. Ekki mun ég rekja hér hin marg háttuðu félagsmálastörf Jóns á langri ævi. Það gerir alda- vinur hans og samstarfsmaður hans á þeim vettvangi um áratuga skeið, Björn Sigtryggsson á Framnesi, vel og rækilega í ann- arri grein hér í blaðinu. Þess eins skal getið, að það var fágætlega gott og ánægjulegt að starfa með Jóni að hvers konar félagsmáium. Komu þar til ágætar gáfur hans, glöggskyggni, víðsýni og mann- skilningur. Liðsinni hans brást aldrei þegar veita þurfti fram- faramálum brautargengi og þar munaði svo sannarlega um mannsliðið. Þótt Jón í Djúpadal þyrfti oft að fara að heiman vegna marg- háttaðra félagsmálastarfa, fýsti hann alltaf að komast sem fyrst heim. Síðustu vikurnar varð hann að dvelja í sjúkrahúsi. En nú er hann aftur kominn heim í Dalinn sinn. Hann var jarðsettur í heima- grafreit í Djúpadal þann 18. júní sl., að viðstöddu miklu fjöl- menni. Skagfirðingar og aðrir vinir og venslamenn Jóns kvöddu þar hugljúfan mannkostamann og góðan dreng. Sú jörð, sem hann uni svo heitt og vann svo vel hefur nú endanlega tekið hann í faðminn. Magnús H. Gíslason. lesendahornið Tony Fitzgerald: Bréf til þín Kæru vinir. Þakka ykkur fyrir að taka tíma til að lesa þetta bréf. Ég hef skrif- að þér það, því ég trúi að inni- hald þess sé mikilvægt. Fyrst vil ég þó kynna mig. Ég heiti Tony Fitzgerald, ég er Ástrali, búsettur í Englandi og hef oftsinnis heim- sótt land ykkar síðan 1976. í heimsóknum mínum til [íslands, hef ég talað á mörgum samkomum og séð Guðs kraft snerta líf margra, á sama tíma verð ég var við vaxandi hungur eftir Guðs sannleika. Við athugun á sögu þjóðarinn- ar sem er bæði rík og heillandi, get ég þó séð grundvallarhluti sem hafa hindrað að allt Guðs ráð fengi að opinberast. Ég bið þig að lesa áframhaldið með opnu hjarta. Biblían kennir okkur, að það sem við sáum, munum við uppskera. Ég trúi því að við fæðingu kristninnar hér á landi hafa verið sáð hlutum sem í dag gefa uppskeru í samræmi við þá sáningu. Uppskeran er krist- indómur sem hefur á sér yfirskin guðshræðslunnar en afneitar krafti hennar eins og segir í ritn- ingunni. í upphafi voru Þór, Týr og Óðinn dýrkaðir hér á landi sem aðalguðir og prestar ásatrúarinn- ar ríktu líka sem stjórnendur eða goðar. Ég þarf ekki að tíunda þessa hluti, þetta þekkið þið. En svo fór kristin trú að breið- ast út, rómversk kaþólsk. Alþingi lýsti því yfir árið 1000 að kristin trú yrði ríkistrú á íslandi. Þó máttu menn blóta goðin á laun og goðarnir urðu í reynd áhrifa- valdar í hinni nýju trú landsins í upphafi. Én gerum nú langa sögu stutta. Lúter kom fram á sjónarsviðið og boðaði m.a. réttlætingu fyrir trú á Jesúm Krist og að Biblían væri hið sanna orð Guðs. Danmörk tók lúterskuna og svo ísland og hefur lúterska kirkjan verið ríkis- kirkja landsins fram á þennan dag. Allt þetta hefur kallað fram mikinn styrkleik hjá íslensku þjóðinni, en á sama tíma orsakað það að margir játa trú á tilvist Guðs og ástunda jafnvel trúarleg- ar athafnir án þess þó að eiga lif- andi persónulegt samfélag við Drottin Jesúm Krist. Samkvæmt Biblíunni er kristin- dómurinn ekki trúarbrögð sem innihalda einungis lög, reglur, boð, bönn og trúarathafnir. Kristindómurinn er að meðtaka Jesúm Krist sem frelsara sinn og Drottin og lifa trúarlífinu í krafti heilags anda. Nú í ágústmánuði mun ég heimsækja ísland í boði Trú og Líf-kirkjunnar og tala á samkom- um bæði í Reykjavík, Vest- mannaeyjum og kannski víðar. Við munum boða fagnaðarerind- ið í krafti, fjalla um efni þessa bréfs og treysta Guði fyrir tákn- um og undrum því Guð er Guð krafta verkanna. Það er ekki mitt að dæma, en ég kem sem þjónn þinn og ég veit að það eru margir í ykkar yndislega landi sem þrá lausn í líf sitt og að sjá kraft krist- indómsins virka í daglega lífinu. Ég býð þér að koma og vera með okkur á þessum samkomum í ágúst og að við í sameiningu mættum heyra og sjá fagnaðarer- indi Jesú Krists. Þakka þér fyrir að lesa þetta bréf til enda og ég hlakka til að sjá þig. Virðingarfyllst, Tony Fitzgerald.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.