Dagur - 28.12.1988, Blaðsíða 15
28. desember 1988 - DAGUR - 15
In memoriani:
Ý Kristján Rögnvaldsson
Fæddur 21. des. 1897 - Dáinn 27. ágúst 1988
Ó, Faðir gjör mig blómstur blítt,
sem brosir öllum mót
og kvíðalaust við kalt og hlýtt
er kyrrt á sinni rót.
M. Joch.
í frægu helgiriti Indverja, Bhag-
vad-gíta, er greint frá samræðum
stríðsmannsins Arjuna við skó-
svein sinn Krisna, á Kúruvöllum,
áður en hann leggur til orustu við
frændur sína. Ráð hans er reikult
og efinn ásækir hann, en Krisna
reynir að stappa í hann stálinu og
kenna honum þá lífsspeki er dugi
honum til sigurs.
Inntakið úr fræðum Krisna
(sem raunar er persónugervingur
samnefnds guðs) er eitthvað á
þessa lund: Þér ber ávallt að gera
skyldu þína, á hverju sem veltur,
án þess að vænta árangurs hvað
þá nokkurra launa. Þá munu
verkin aldrei fjötra þig og þú
verður eins frjáls og hægt er að
vera.
Orustan á Kúruvöllum er aðeins
dæmisaga um lífsstríð sérhvers
manns og fræði Krisna eru al-
menn lífsspeki, er gagnast mega
hverjum sem er.
Kristján Rögnvaldsson var
ekki heimspekilega sinnaður,
heldur fyrst og fremst maður
athafna. Samt finnst mér líf hans
endurspegla þá speki sem túlkuð
er í indverska kvæðinu. Hann
þurfti ekki að láta segja sér hana,
því hún var honum í blóð borin,
án þess jafnvel að hann gerði sér
grein fyrir því sjálfur. Engan hefi
ég þekkt betri læriföður í lífslist-
inni, þótt sjaldan léti hann orð
falla um það hvernig menn ættu
að breyta eða hegða sér.
Ekkert starf vissi ég svo lítil-
fjörlegt, að Kristján heitinn gæti
ekki gengið að því heils hugar,
með hæfilegu sjálfsöryggi og
vinnugleði og
alltaf var hann reiðubúinn að
byrja á einhverju nýju og leggja
þeim málum lið, sem hann áleit
mikilvæg. Hann var líka óvenju
fjölhæfur og vel verki farinn. Er
því ekki að undra þótt hann yrði
mönnum og málefnum ómissandi
hjálparhella.
Kristján var af fátæku fólki
kominn, fæddur í Grjótárgerði í
Hnjóskadal, örreitiskoti sem
ekki er lengur í tölu bæja, sonur
hjónanna Lovísu S. Guðmunds-
dóttur frá Breiðabóli á Sval-
barðsströnd og Rögnvaldar Sig-
urðssonar, Péturssonar timbur-
smiðs á Akureyri, sem var af
Grjótnesætt frá Sléttu.
Arið 1903 fluttu foreldrar hans
að Fífilgerði í Kaupangssveit,
með börn sín á ungum aldri. Þau
urðu sjö, en sex komust til full-
orðinsára, þau Guðmundur,
Kristín, Jón, Kristján, Sólveig og
Sigrún. Fífilgerði er lítil jörð til
að framfæra stóra fjölskyldu. Þau
systkinin urðu því snemma að
leita sér vinnu utan heimilisins.
Þau tóku við búinu árið 1929 og
ráku þeir Jón og Kristján það allt
til 1957.
Jón Rögnvaldsson var snemma
námfús og bókhneigður og var
því settur til mennta. Örlögin
höguðu því svo, að hann hætti
menntaskólanámi en fór í þess
stað vestur til Kanada, þar sem
hann lærði garðyrkju og
skógrækt. Garðyrkjan varð svo
hans ævistarf.
Hlutskipti Kristjáns varð hins
vegar að læra múrverk, hjá þeim
kunna snillingi Sveinbirni Jóns-
syni, sem þá átti heima á Akur-
eyri. Stundaði Kristján það hand-
verk næstu árin og var m.a. við
byggingu KEA-hússins.
Þegar Jón kom heim frá Kanada
um áramótin 1924-’25 var hann
fullur hugmynda og hófst þegar
handa, af sínum alkunna eld-
móði, að framkvæma þær. Eðli
sínu samkvæmt gat Kristján ekki
annað en hrifist af fyrirætlunum
bróður síns og var orðinn þátttak-
andi í þeim fyrr en varði, og svo
var einnig um systkini hans
önnur, er heima voru.
I höndum þeirra systkina varð
nú til merkilegur skrúðgarður,
heima í Fífilgerði, sem var í raun
eins konar grasgarður og garð-
yrkjustöð jafnframt. Meira að
segja var þar lítið gróðurhús, hit-
að með rafmagni frá heimaraf-
stöð, og þótti mörgum það mesta
undur. Innlendum plöntum söfn-
uðu þau í garðinn og erlendar
tegundir fengust með fræskipt-
um. Þarna voru fjölmargar teg-
undir trjáa, runna og blóma
reyndar í fyrsta sinn hér á landi.
Einnig gengust þeir bræður fyrir
stofnun skógræktarfélags, hins
fyrsta hér á landi. Árið 1938
keyptu þeir svo Garðyrkjustöð-
ina Flóru, sem var neðst í Brekku-
götunni á Akureyri, og ráku hana
í 15 ár. Var Kristján þar ræktun-
armaður og sölustjóri.
Þegar Margrét Schiöth lét af
starfi við Lystigarð Akureyrar
árið 1954 og afhenti Akureyrar-
bæ garðinn, var ekki nema sjálf-
sagt að leitað væri til Jóns Rögn-
valdssonar að taka við forstöðu
hans. Lystigarðurinn var þá þeg-
ar orðinn frægur fyrir ræktun
trjáa og blóma og var almennt
talinn einn fegursti skrúðgarður
landsins.
Eftir að Jón tók við stjórn
Lystigarðsins sneru þeir bræður
sér með oddi og egg að því að
efla hann og auka. Garðurinn var
stækkaður meira en um helming,
komið upp litlu gróðurhúsi og
byrjað að safna í hann plöntuteg-
undum, innlendum sem erlend-
um, með það markmið að gera
hann að grasafræðigarði, hinum
fyrsta hérlendis. Þetta var á viss-
an hátt endurtekning á því starfi,
sem þeir hófu 30 árum fyrr,
heima í Fífilgerði, þó allt væri nú
í stærri stíl og fullkomnara en
áður.
Þetta leiddi til þess, að þeir Jón
og Kristján hættu búskap í Fífil-
gerði og fluttu búferlum til Akur-
eyrar árið 1957, og settust að við
Eiðsvöll á Oddeyri. Garðyrkju-
stöðina Flóru höfðu þeir lagt nið-
ur nokkrum árum áður. Plöntu-
safnið úr Fífilgerði var mestallt
flutt yfir í Lystigarðinn, en sumt
var gróðursett í dálítinn skika
sem þeir héldu eftir á jörðinni og
byggðu sér sumarbústað á. Þar
höfðu þeir varaforða af mörgum
tegundum Lystigarðsins, sem oft
kom sér vel.
Þeir bræður létu nú einskis
ófreistað að afla nýrra plöntuteg-
unda fyrir Lystigarðinn eða Grasa-
deild hans, eins og það var
kallað. Ófáar söfnunarferðir
voru farnar um gervallt ísland,
einnig til nágrannalandanna,
Noregs og Grænlands, og janfvel
til Alpafjalla.
Hlutverk Kristjáns var einkum
að sjá um íslenska plöntusafnið í
Lystigarðinum. Það annaðist
hann af frábærri alúð og árvekni,
enda hygg ég að enginn hafi fyrr
né síðar haft jafnmikla þekkingu
á lífskröftum hinna ýmsu teg-
unda íslensku flórunnar.
Jón Rögnvaldsson hætti störf-
um við Lystigarð Akureyrar árið
1970, og fylgdi Kristján þá for-
dæmi hans. Hann var þá enn í
fullu fjöri, þótt orðinn væri 73 ára
gamall, og ekkert var fjarri hon-
um en að setjast í helgan stein.
Hann hafði þá fyrir nokkrum
árum (1966) byrjað að vinna við
Náttúrugripasafnið á Akureyri á
vetrum. Þar sá hann um uppsetn-
ingu og hirðingu á plöntusafninu
og kom hin víðtæka plöntuþekk-
ing hans þá að góðu haldi. Eftir
að hann hætti í Lystigarðinum
vann hann einnig við safnið á
sumrum, plöntusöfnun, flóru-
rannsóknir, sýningavörslu og
náttúruvernd.
Kristján tók sér m.a. fyrir
hendur, að kanna flóru og fulgla-
líf tveggja svæða í umdæmi
Akureyrar, í frístundum sínum,
þ.e. Eyjafjarðarhólma og Krossa-
nesborga. Bar hann þau mjög
fyrir brjósti og leitaðist við að fá
þau vernduð á ýmsan hátt. Hann
var ótrauður fylgismaður hinnar
nýju náttúruverndarhreyfingar,
er hingað barst um 1970, og var
undirrituðum oft mikil stoð og
stytta í þess háttar erindisgerð-
um.
Það kom líka brátt í ljós, að
Kristján var liðtækur við fleira en
það sem sneri að fræðunum. Verk-
kunnátta hans og reynsla af
húsasmíðum kom nú einnig að
góðu haldi, svo hann varð fljótt
ómissandi við allar verklegar
framkvæmdir í húsakynnum
safnsins, sannkallaður þúsund
þjala smiður. Var það ekki lítils-
vert fyrir þessa ungu stofnun,
sem jafnan barðist í bökkunum
fjárhagslega. Dugnaður og vinnu-
gleði öldungsins við þessar fram-
kvæmdir var mér og öðrum sífellt
undrunar- og aðdáunarefni.
Ekki var Náttúrugripasafnið
þó eitt um að njóta starfskrafta
Kristjáns á elliárunum, því hann
sá meira eða minna um safn-
vörslu í tveimur „skáldahúsum" á
Akureyri og hafði umsjón með
þeim á þessum árum, þ.e.
Davíðshúsi og Matthíasarhúsi.
Hann var einn af stofnendum
Matthíasarfélagsins 1958, en
hlutverk þess var að kaupa Sigur-
hæðir, hús Matthíasar Jocums-
sonar, og koma þar upp minning-
arsafni. Safnvörður hússins var
Kristján árin 1971-1981, ersafnið
var afhent Akureyrarbæ og félag-
ið lagt niður.
Kristján hafði kynnst Davíð
Stefánssyni skáldi, fljótlega eftir
að Davíð flutti til Akureyrar.
Bundust þeir ævilöngum vináttu-
böndum og heimsóttu hvor ann-
an reglulega. Eftir lát Davíðs
1964 gekk Kristján í lið með Þór-
arni skólameistara og fleirum, til
að safna fé, til kaupa á húsi
Davíðs og koma þar upp minja-
safni um hann. Tókst það með
ágætum og var safnið opnað árið
eftir. Bærinn hafði þá keypt
bókasafn skáldsins og húsmuni
alla höfðu ættingjar hans gefið
safninu. Sjálfsagt var að Kristján
yrði fenginn til að hafa umsjón
með safninu. Rækti hann það
starf af mikilli kostgæfni og taldi
það sína helgustu skyldu að
minnast vinar síns þannig. Að
koma til Kristjáns í Davíðshús
var mér og öðrum ógleymanleg
lífsreynsla. Þar var hver hlutur
heilagur og varð að umgangast þá
af sérstakri nærfærni. Einnig sá
Kristján alveg um hirðingu lóð-
anna við bæði skáldahúsin og var
það ekki lítið verk.
Á árunum 1984-1985 dró
Kristján sig í hlé frá öllum þess-
um störfum, enda var hann þá
kominn hátt á níræðisaldur og
tekin að förlast sjónin, þótt hann
væri annars stálhraustur. Dagur
var að kveldi kominn á hans
löngu og heillaríku æfi.
Eins þáttar í eðlisfari Kristjáns
heitins er þó enn ógetið, en það
er listagáfan, sem einkum kom
fram í tónlistinni. Ungur lærði
hann að spila á orgel, af sjálfs-
dáðum mest, og stundaði þá list
allt til æviloka. Hann var organ-
isti í sóknarkirkju sinni að Kaup-
angi um áratuga skeið og á efri
árum spilaði hann við messur hjá
Pétri Sigurgeirssyni í Miðgarða-
kirkju í Grímsey. Grímseyjar-
ferðir þeirra séra Péturs urðu
honum minnisstæðar, enda var
þeim félögum tekið eins og send-
ingu af himnum ofan þar úti.
Sönglíf var mikið í sveitinni á
uppvaxtarárum þeirra bræðra,
sem tóku virkan þátt í því. Á
Akureyri söng Kristján m.a. í
Kantötukórnum, sem Björgvin
Guðmundsson stýrði og voru þeir
Björgvin góðir kunningjar.
Kristján mun snemma hafa byrj-
að að semja sönglög og nokkur
þeirra skrifaði hann niður með
nótum eftir orgelinu og söng þau
stundum, við eigin undirleik, í
góðra vina hópi. Dálítið lagasafn
skildi hann eftir sig er hann lést.
Á efri árum fékkst hann dálítið
við að mála myndir með vatnslit-
um eða krít, enda mun hann
eitthvað hafa fengist við þá list í
æsku, en sjóndepran háði honum
við þær tilraunir.
Kristján Rögnvaldsson í „grasaferð“ við Skólavörðuna á Vaðlaheiði, sumar-
ið 1981. Ljósm. H.Hg.
Kristján var alla tíð einhleypur
og átti ekki afkomendur. Hann
virtist kunna því vel eins og öllu
öðru sem lífið útdeildi honum.
Eftir að Jón og Karla fluttu til
Akureyrar átti hann heimili hjá
þeim, við Eiðsvöllinn og síðar í
Barðstúni 3, á Syðri-Brekkunni,
þar sem þeir bræður byggðu sér
vandað hús á árunum kringum
1965. Eftir lát Jóns (1972) og
flutning fjölskyldu hans úr hús-
inu, var Kristján einbúi um
skeið, en síðasta áratuginn eða
svo bjó Sólveig systir hans hjá
honum.
Kristján var höfðingi heim að
sækja og hrókur alls fagnaðar í
vinahópi. Þótt hann væri hófs-
maður á öllum sviðum, naut
hann þess vel að dreypa á góðu
víni og átti jafnan birgðir af
göfugum drykkjum í skáp sínum
auk vindla af mismunandi gerð-
um. Það var ekki háttur hans að
'forsmá guðs gjafir á því sviði né
öðru, minnugur fornra spak-
mæla, að „glaður og reifur skyldi
guma hverr, unz sinn bíður
bana.“
Á níræðisafmælinu 21. des-
ember fyrir ári, komu nokkrir
góðkunningjar í heimsókn og
þágu veitingar eins og vanalega.
Afmælisbarnið lék á als oddi,
spilaði á orgel sitt og söng. Datt
víst fáum í hug, að þar væri
níræður öldungur.
Eftir það fór samt að halla
undan fæti og um vorið kenndi
hann hjartabiiunar, er leiddi
liann til dauða þann 27. ágúst sl.
Þá hafði hann fengið tóm til að
ráðstafa eignum sínum, sem
raunar voru ekki miklar, því
hann hafði mestalla ævi verið
daglaunamaður á lægsta kaupi.
Víst er þó, að hann dó sáttur við
guð og menn, og er nú eflaust
farinn að skoða grösin í sumar-
landinu, handan hinna miklu
mæra, grösin sem hann dreymdi
stundum og reyndi jafnvel að
teikna.
Ekki veit ég til þess að Kristján
Rögnvaldsson fengi neinar orður
eða aðra viðurkenningu hjá opin-
berum aðilum, þótt fáir hefðu átt
það fremur skilið. „Fáir njóta
eldanna sem fyrstir kveikja þá,"
sagði Davíð skáld í ágætu kvæði.
Þó er ég næstum viss um, að
Kristján hefði ekki óskað eftir
neinu slíku og jafnvel fundist það
hvimleitt, ef slíkt hefði átt sér
stað.
Eins og fram kom í upphafi
þessa máls, vann Kristján ekki
störf sín vegna launanna, hvorki
beinna né óbeinna, heldur vegna
áhuga síns og gleði yfir að veita
góðu eða gagnlegu máli lið og
ánægjunnar yfir því að gera
skyldu sína. Þess vegna fjötruðu
verkin hann ekki, né heldur eign-
ir eða peningar. Hann var frjáls
maður, eftir því sem hægt er að
vera á jörðu hér, hressandi vind-
blær í þeirri þokumollu launa og
kjara, bóta og uppbóta, sem
umlykur okkur, vesælar
mannverur, á íslandi um þessar
mundir.
Það er viðeigandi að ljúka
þessu minningarspjalli um Krist-
ján vin minn og vinnufélaga með
vísu úr alkunnu kvæði Björns f
Sauðlauksdal:
Ævitíminn eyðist
unnið skyldi langtum meir.
Síst þeim lífið leiðist
sem lýist þar til útaf deyr.
Pá er betra þreyttur fara að sofa
nær vaxið hefur Herrans pund,
en lífsins stund
líði í leti og dofa.
H. Hg.