Dagur - 18.09.1990, Blaðsíða 4

Dagur - 18.09.1990, Blaðsíða 4
4 - DAGUR - Þriðjudagur 18. september 1990 ÚTGEFANDI: ÚTGÁFUFÉLAG DAGS SKRIFSTOFUR: STRANDGATA 31, PÓSTHÓLF 58, AKUREYRI, SÍMI: 24222 ÁSKRIFT KR. 1000 Á MÁNUÐI LAUSASÖLUVERÐ 90 KR. GRUNNVERÐ DÁLKSENTIMETRA 660 KR. RITSTJÓRI: BRAGI V. BERGMANN (ÁBM.) FRÉTTASTJÓRI: KRISTJÁN KRISTJÁNSSON RITSTJÓRNARFULLTRÚI: EGILL H. BRAGASON BLAÐAMENN: JÓN HAUKUR BRYNJÓLFSSON (iþróttir), SKÚLI BJÖRN GUNNARSSON (Sauöárkróki vs. 95-35960), INGIBJÖRG MAGNÚSDÓTTIR (Húsavik vs. 41585), JÓHANN ÓLAFUR HALLDÓRSSON, ÓLI G. JÓHANNSSON, ÓSKAR ÞÓR HALLDÓRSSON, STEFÁN SÆMUNDSSON, ÞÓRÐUR INGIMARSSON, LJÓSMYNDARI: KRISTJÁN LOGASON PRÓFARKALESTUR: SVAVAR OTTESEN ÚTLITSHÖNNUN: RÍKARÐUR B. JÓNASSON AUGLÝSINGASTJÓRI: FRÍMANN FRÍMANNSSON DREIFINGARSTJÓRI: INGVELDUR JÓNSDÓTTIR, HEIMASÍMI 22791 FRAMKVÆMDASTJÓRI: HÖRÐUR BLÖNDAL PRENTUN: DAGSPRENT HF. SÍMFAX: 96-27639 Vaxandi Ijárhags- erfiðleikar ungs fólks „Fólk í nútímasamfélagi gerir miklar kröfur til verald- legra gæða og hikar ekki við að taka margvíslegar skuld- bindingar á sig í þeim efnum. Langt umfram það sem því er kleift að standa undir. Þegar ljóst verður út í hvað það er komið og engin önnur leið út úr vandanum en láta allt af hendi sem það hefur verið að reyna að eignast og byrja upp á nýtt, fyllist það kergju og ásökunarhvöt." Þannig komst Pétur Þórarinsson, prestur í Glerárhverfi á Akureyri að orði í viðtali í Degi um síðustu helgi. í viðtal- inu ræddi hann meðal annars um mannlega erfiðleika, sem hann hefur kynnst í starfi sínu og segir að vandamál sem skapast af fjárhagslegum erfiðleikum ungs fólks fari vaxandi. Fjárhagslegt skipbrot leiðir einnig oft af sér að framtíðarheimurinn hrynur. Ásökunarhvötin beinist að manns nánustu. Sambönd sem stofnað var til á grund- velli ástar og hamingju verða að víti. Særðir einstakling- ar sitja eftir með innilokaðar hugsanir. Við slíkar aðstæð- ur þarf sterkt sálarlíf til að hefja lífsbaráttuna að nýju. Ungt fólk, sem er að stofna heimili og taka sín fyrstu skref í lífinu sem sjálfstæðir og ábyrgir einstaklingar, gerir oft miklar kröfur. Þetta fólk er í mörgum tilfellum afkomendur þeirrar kynslóðar sem stóð í sömu sporum á verðbólguárunum. Það er afkomendur fólks sem gat byggt og búið nánast allt í einu. Verðbólgan sá um að greiða af óverðtryggðum skuldum. Unga fólkið í dag er fætt inn í þann heim að nánast allt eigi að vera til. Það þekkir ekki annað frá heimili foreldra sinna. Af þeim ástæðum er ekki óeðlilegt að það vilji taka þægindi bernskuheimila með sér á nýjar slóðir. Kaupa sér alla hluti, helst á fyrsta degi. Það á erfitt með að skilja hvern- ig foreldrarnir fóru að. Að pabbi og mamma hafi aðeins verið svo heppin að vera ung á verðbólgutímum. Við eigum ekki að gráta verðbólguna. Sá stöðugleiki sem nú er fundinn í íslensku efnahagslífi er fagnaðar- efni. Hins vegar tekur það nokkurn tíma að læra að lifa við þau skilyrði sem hann skapar. Ungu fólki í dag hefur ekki tekist það að öllu leyti. Ungt fólk í dag skortir einnig aðra möguleika sem foreldrarnir höfðu. Margt fólk leysti úr vandamálum kaupgleðinnar með mikilli vinnu á umliðnum árum. Deila má um hvað æskilegt sé að fólk leggi á sig mikla vinnu til að standa straum af rekstri óhóflegra heimila. En ungu fólki er þó tæpast vorkunn að leggja nokkuð á sig á meðan það er að koma sér fyrir og skapa grundvöll að efnahagslegri framtíð sinni. Tækifær- in til að leysa fjárhagsleg vandræði á þann hátt hafa breyst. í dag er ekki eins auðvelt að vinna meira þegar innheimturnar dynja á og ekkert er til að borga með. Atvinnutækifærum hefur fækkað. Pétur Þórarinsson er prestur í hverfi sem verið hefur að byggjast upp. Hann stundar prestþjónustu á meðal fólks sem reynt hefur að reisa sér hýbýli að fyrirmynd foreldra sinna á síðustu árum. Á þeim árum sem við höf- um orðið að sætta okkur við minnkandi atvinnu og jafn- vel atvinnuleysi. Vonandi helst jafnvægi milli verðlags og vaxtakjara. Vonandi tekst að bægja vofu atvinnuleys- is frá norðlenskum bæjardyrum. Ekki er þó séð fyrir end- ann á því. Við stöndum á tímamótum, þar sem við verð- um sjálf að taka á og skapa okkar eigin tækifæri. Ef okkur tekst það ekki munu vandamál af því tagi sem Pétur Þór- arinsson ræðir um í fyrrnefndu viðtali aukast og skapa fleirum sálarþröng. ÞI. Tilbrigði við álver(s)ið og fleiri sálmar sönghæfir Álver. Þetta sakleysislega fimm stafa orð er með allra algengustu orðum í íslensku ritmáli um þess- ar mundir. Margur er orðinn yfir sig saddur af þessari oftar en ekki broslegu umræðu sem tröllríður þjóðinni, ekki síst þeim hluta hennar sem býr hér í Eyjafirði, hvar einhverjir menn héldu ein- hvern tímann að ef til vill gæti jafnvel hugsast að álver yrði reist. Sumir töldu það jafnvel frágengið mál. Annað hefur þó komið á daginn, álversmennirnir vilja hvergi vera nema á Keilisnesi, í túnfæti höfuðborgarinnar. Það er hagkvæmasti kosturinn að mati þeirra og augljóslega ræðst eng- inn í framkvæmd af þessari stærðargráðu nema arðsemin verði sem mest. Byggðastefna á íslandi kemur þessum mönnum hreinlega ekki við. Þeir eru ekki að byggja álver fyrir íslendinga, heldur fyrir sjálfa sig. Málin virðast standa þannig, að ef íslendingar vilja endilega fá þetta álver, þá verður það á Keil- isnesinu. Sunnlendingum er það ekki svo mjög á móti skapi enda vanir menn þar á ferðinni þegar þensla, uppbygging og ofsagróði eru annars vegar. Allflestir aðrir, þ.e. þeir sem búa „úti á landi“, sjá fram á að landið sporðreisist endanlega ef þessi verður raunin. Ef enn einu sinni á að henda sprekum undir kjötkatlana fyrir sunnan, sprekum sem fengin eru úr deyjandi skógum dreifbýlisins. Er raforkuverðið aukaatriði? íslensk stjórnvöld eru í vanda. Mætir menn þar á bæ Ijúga því blákalt að okkur að það sé þjóð- hagslega hagkvæmt að íslending- ar fái álver, burtséð frá hvar því verður holað niður. Þetta eru fyrirlitleg ósannindi. Ef álverið lendir á Keilisnesi verður mest- allt framkvæmdafé íslenska ríkis- ins bundið þar næstu árin. Þar sem fjármagnið er, þar er hægt að framkvæma og framkvæmdir kalla á vinnuafl. Vinnuafl sem hlýtur að koma úr dreifbýlinu. Það má líka velta því fyrir sér hvaðan ríkissjóður fær megnið af ráðstöfunarfé sínu. Meira um það síðar. Einhverjir vísir menn hafa lagt til að tekjur þær sem landsmenn hafi af álverinu verði látnar renna til landsbyggðarinnar í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Þetta er ljómandi hugmynd ef dreifbýl- isbúar nenna að bíða til ársins 2020 eftir aurunum. Fyrr verður tæpast um fjárhagslegan hagnað að ræða af álveri ef meiningin er að tengja raforkuverðið við heims- markaðsverð á áli og gefa veru- legan afslátt af því að auki, fyrstu guð má vita hvað mörg árin. Bent hefur verið á, að þarna sé um að ræða að íslendingar taki á sig alla áhættu af rekstri erlends fyrirtækis. Heillandi. Ég var svo barnalegur að halda að meiningin væri að hafa einhvern hagnað af raforkusölunni, það væri eitt meginmarkmiðið með að fá hing- að orkufrekan iðnað. Ég biðst forláts á þessum misskilningi. En þegar öllu er á botninn hvolft, þá yrði ég fyrsti maðurinn til að leggja í púkk fyrir ferða- kostnaði álfurstanna til Kanada, ef þeir gera sig digra og hóta að flytja sig þangað. Fari þeir og veri. Bjargar álver eyfirsku atvinnulífi? Eyfiröingar hafa ekki enn misst Valur Sæmundsson. vonina um að hreppa það „hnoss“ sem sumir þeirra telja álverið vera. Því skal ekki á móti mælt, að atvinnuástand hefur sjaldan verið verra í firðinum, sérstaklega á Akureyri sem hefur nokkra sérstöðu í atvinnulegu til- liti, og fátt virðist framundan nema svartnættið eitt. Til að snúa þessari óheillavæn- legu þróun við hafa heyrst þær raddir að Eyfirðingar ættu að útvega sér álverksmiðju. Það „Það er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir að Reykjavík er afæta á landsbyggðinni en ekki öfugt. Hvernig væri ef landshlutarnir fengju að ráðstafa sjálfir þeim fjármunum sem þeir afla?“ væri eina ráðið til að rétta af slagsíðuna. Það vantar ekki að nokkrir menn hafa barist afar hart fyrir því að fá þessa fabrikku hingað en þeir hafa ekki síður verið háværir sem eru á móti. Röksemdir þeirra sem eru á móti eru af margvíslegum toga. Það er m.a. talað um hugsanlega mengun, sem óvíst er hvaða áhrif hefði, þannig að nienn hafa viljað fara varlega í að slá því föstu að álverið sé sá bjargvættur sem um er rætt. Mér hefur fundist málflutning- ur álbræðslusinna prýðilegur oft á tíðum en dálítið einhæfur þó. Samt virðist hann hafa haft áhrif á nokkurn fjölda fólks. Hinir, sem ekki eru vissir um að álver sé eins góður kostur og af er látið, eða eru jafnvel alveg á móti því, eru fjölbreyttari í sínum málflutn- ingi og að mér finnst trúverðugri. Það hefur vakið athygli mína óskipta þegar álverssinnar eru að kvarta undan málflutningi álvers- andstæðinga. Sagt er að andstað- an byggist á misskilningi, upplýs- ingar liggi ekki fyrir um þetta eða hitt og það sé skemmdarverka- starfsemi þegar menn eru að tala gegn álveri án þess að fullnægj- andi upplýsingar liggi fyrir. Þetta er afar merkileg röksemd. Það gæti verið gaman að spyrja á móti hvers vegna í dauðanum hægt sé að berjast fyrir álverinu þegar upplýsingar um áhrif þess eru af þetta skornum skammti. Eða vita þeir meira en aðrir? Luma þeir á einhverjum upplýsingum? Éf svo er, því ekki að láta þær af hendi, svo álversandstæðingar geti beð- ist auðmjúklega afsökunar á þessum meintu rangfærslum. Er álverið eini möguleikinn? Eflaust munu einhverjir finna að því að ég skuli ekki koma með einhverjar tillögur sjálfur, fyrst ég vil ekki gleypa álvershug- myndina hráa. En það sem ég er að gera, er að segja álit mitt á þeim kosti sem til umræðu er. Aðrir kostir eru ekki sjáanlegir, það veit ég vel. Það er þó ekki þar með sagt að álverið sé eini kosturinn. Ékki væri vitlaust ef hægt væri að búa svo um hnútana að aðrir kostir kæmu í augsýn. Lausnarorðið er byggðastefna. „Ótrúlega er maðurinn glöggur,“ hugsa eflaust einhverjir. En byggðastefna á ekki að vera fólg- in í því að stofnanir í Reykjavík; Byggðastofnun, Atvinnutrygg- ingasjóður, Hlutafjársjóður og hvað þetta heitir nú alltsaman, hendi milljónahundruðum í gjaldþrota fiskvinnslufyrirtæki úti á landi, fyrirtæki sem þjóðin öll ætti að njóta góðs af en gerir ekki. Það er ekkert lögmál að þensl- an eigi að vera fyrir sunnan. Hún er afleiðing aðgerðaleysis stjórn- valda í byggðamálum. Það er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir að Reykjavík er afæta á landsbyggðinni en ekki öfugt. Hvernig væri ef landshlutarnir fengju að ráðstafa sjálfir þeim fjármunum sem þeir afla? Öll þensla og uppbygging á landinu yrði utan Reykjavíkur. Byggða- þróunin myndi snúast við. Þar sem peningar eru, þar er framkvæmt. Þar sem fram- kvæmdir eru, þar er atvinna. Þetta er lögmálið. Það lýsir engu nema eigingirni þegar eitt hérað er að berjast fyr- ir því að fá álver. Það er að reyna að bjarga eigin skinni og jafnvel nágrannanna. Það er ekki hægt að gera svona upp á milli lands- hluta, þeir eru allir jafn réttháir. Reykjavík líka, vel að merkja. Lokaorö Það er alveg ljóst að gífurlegra breytinga er þörf ef landshlutarn- ir eiga að geta ráðstafað aflafé sínu sjálfir. Meðal annars stjórn- arskrárbreytinga. Það er þó ekki helsti vandinn sem þarf að yfir- stíga ef takast á að snúa núver- andi byggðaþróun við. Stjórn- málamennirnir eru helsta hindr- unin. Pólitíkusarnir. Kerfiskarl- arnir. Það er alveg ótækt að lög- gjafarvald og framkvæmdavald skuli vera jafn óaðskiljanleg og raun ber vitni. Ráðherrar eiga ekki að gegna þingmennsku. Hlutverk þingmanna er að setja lög og ekkert annað. Ég læt staðar numið að sinni, enda kominn út í aðra sálma en í upphafi. Þeir sálmar eru þó ekki síður sönghæfir en álsöngurinn alkunni. Valur Sæmundsson. Höfundur er fyrrum háskólanemi og er áhugamaður um byggðamál og fleira.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.