Dagur - 14.12.1990, Blaðsíða 17

Dagur - 14.12.1990, Blaðsíða 17
Föstudagur 14. desember 1990 - DAGUR - B 17 Gaman oi» akara á jólum smásagnahöfunda í Jólablaði Dags hafa stunduin verið þættir um jól í augum skálda en nú ætlum við að breyta til og huga að jólum í íslenskum smásögum. Par er af mörgu að taka en við munum ekki einskorða okkur við lýs- ingar á sjálfu jólahaldinu heldur nota kaíla úr sögum sem hafa þennan árstíma sem bakgrunn. Sögurnar Qalla ýmist um ytra umhverfi eða sálarlíf, þær eru alvarlegar eða gamansamar, jólin sjálfkoma mismik- ið við sögu í þeim og raunar er ekki verið að leita eftir eiginlegum jóla- sögum. Valið er að sjálfsögðu nokkuð handahófskennt en reynt verður að hafa fjölbreytnina í fyrirrúmi. Lýsingar á jólahaldi í skáldsögum og smásögum taka mið af umhverfi sagnanna og aðstæðum sögupersóna. í gömlu raun- sæissögunum var oft fjallað um fátækleg jól og yfirleitt skein í gegn ákveðin virðing gagnvart þessari hátíð frelsarans í eldri sögum, hvort sem þetta var gleðistund eður ei. Vissulega voru jólin oft gleði- stund, ekki síst hjá rómantískum rithöf- undum. Þjóðfélagsandinn breytist og með árun- um hefur lotning rithöfunda fyrir helgi jól- anna minnkað. Nú þykir það ekkert til- tökumál að gagnrýna kaupæði og græðgi sem fylgir jólahaldinu, hæðast að auglýs- ingaskrumi o.s.frv. Ádeildum í þessum dúr hefur fjölgað og margir rithöfundar henda gaman að öllu tilstandinu. En lítum nú á nokkur sögubrot. Hernarðarsaga blinda mannsins Halldór Stefánsson kvaddi sér hljóðs á því tímabili sem kennt hefur verið við félags- legt raunsæi í bókmenntum, eða upp úr 1930. Ein þekktasta smásaga hans er Hernaðarsaga blinda mannsins. Út úr hjákátlegum heimiliserjum má lesa alvar- legri atburði, nefnilega heila heimsstyrjöld. Þegar við komum til sögu er húsfreyjan búin að taka tóbakið af blinda manninum og hann hefnir sín með því að bryðja lýs milli tannanna, húsfreyju til mikillar skapraunar. Hún neyðist til að þrífa hann vel til að losna við ófögnuðinn. Og nú eru að koma jól: „En um jólin komu rúsínurnar. Það voru rúsínurnar í jólagrautnum sem gáfu hinum blinda manni hugmyndina um nýja bardagaaðferð. Hann safnaði saman steinunum og geymdi þá í vestisvasa sínum, þar þornuðu þeir og urðu stökkir. Það var nokkrum dögum eftir jól, fólkið var allt í baðstofu og karlinn sat á rúmi sínu. Þá heyrir húsfreyja lágan brest sem hún þykist kannast við og sér karlinn geifla munninn. Óðara stökk hún á hann: Ertu byrjaður á þessu aftur skepnan þín, og hvernig ferðu að ná í þessa bölvuðu lús, það er mér óskiljanlegt, eins mikið og ég hef fyrir því að þrífa þig? Þegar löðrungarnir voru um garð gengnir, sagði karlinn sakleysislega, um leið og hann ýtti með tungunni sundurbitn- um rúsínusteini fram á vörina: Þetta er bara rúsínusteinn. - Sérðu það ekki? Fólk- ið kreisti niðri í sér hláturinn, en húsfreyj- an stóð alveg ráðalaus andspænis þessari mannvonsku karlsins. Meðan steinarnir entust lék hann þetta sama bragð og gætti þess alltaf að sem flestir væru viðstaddir. En svo þrutu þessi skotfæri hans, og auðnuleysi myrkursins ásótti hann að nýju.“ Appelsínur Já, rúsínurnar komu um jólin og það gerðu líka eplin og appelsínurnar. Við skulum næst glugga í kostulega sögu eftir listmálarann Steingrím Sigurðsson er nefn- ist Appelsínur. „Einn dag í skammdeginu kom Nóva af hafi. Með appelsínur sunnan úr heimi fyrir jólin. Hún hafði verið að leika sér á torg- inu fyrir framan Toftverslun þegar henni allt í einu varð litið til uppljómaðs búðar- gluggans. Þá sá hún Jenna búðarþjón vera að líma á rúðuna stærðar spjald sem allt var skreytt gulum og glóandi hnöttum. Hún tók undir sig stökk og var nærri því komin inn úr gluggaglerinu þegar hún las: Appelsínur koma á morgun! Viðskipta- menn ganga fyrir. Vatnið spýttist fram í munninn á henni, blóðið í æðunum niðaði og steig eins og brimið fyrir neðan húsið hennar, og allt í henni öskraði af löngun í eitt: þessi góm- sætu safaríku aldin. Hún mátti ekki heyra appelsínur nefndar svo að hún kæmist ekki í uppnám. Um síðustu jól hafði mamma hennar tekið út hálfan skammt af appelsín- um hjá Toft kaupmanni. Appelsínur voru munaður hjá tiltölulega fátæku fólki og munnarnir margir: ein á hvern. Það sagði ekkert í villikisuna þeirra, en hún var háttvís stúlka og gáfuð og hún vildi ekki særa móður sína með því að nauða á henni að taka út allan skammtinn. Hún hafði keypt sína appelsínu með öllu eins og hún kom fyrir, og börkinn af öllum hinum hafði hún því næst hámað í sig. Þó var það engin saðning. Hún var ekki mönnum sinnandi lengi á eftir og hljóp æ glæfraleg- ar í fjörugrjótinu og tiplaði á bólverkinu hvernig sem viðraði og skeytti ekki hætis hót þótt ískaldur sjórinn ryki framan í hana og gegnbleytti hana. Seltubragðið gat þá stundum fróað henni." Síðar í sögunni er því lýst á skemmtilega yfirdrifinn hátt hvernig stúlkan hámar í sig skemmdar og sjóreknar appelsínur, en þessi saga rifjar upp að ávextir voru mun- aður hér á árum áður. Klæðin rauð Frá ávöxtum yfir í föt. Smásaga Kristínar Geirsdóttur, Klæðin rauð, gerist á tveimur tímabilum, desember 1931 og desember 1936. Lítum á sögulokin: „Já, svona hafði hún farið, gjöfin sem þessi vesalingur hafði glaðst svo hjartan- lega yfir að geta fært stúlkunni sinni. Hann hefði áreiðanlega ekki verið glaður þá ef hann hefði vitað hvílíkt ólánseitur fylgdi gjöf hans. En hversvegna? Því þurfti fá- tæktin að eitra þannig líf þessara smæl- ingja meðan sumir sóuðu fjármunum eins og engin fátækt væri til? Því þurfti þessi kona að örslíta svo hverjum einasta þræði í kjólnum sínum - kannski eina fallega kjólnum sem hún hafði átt um dagana - meðan sumar konur fleygðu margfalt dýr- ari kjólum eftir eitt danskvöld? Líklega hefði mikið mátt laga ástandið í Bakkakoti með þeim peningum sem ég vissi til að stundum var eytt í eina drykkju- veislu. - Það var svo mikið öfugstreymi í heiminum. Mjallarflygsur féllu ofan á tærnar á skíðunum mínum. Hann var farinn að mugga og skammdegisrökkrið að síga yfir, en til allrar hamingju vorum við líka nærri því komin heim að reisulegum bæ. Það leið notalegur straumur um mig alla þegar ég hugsaði til þess að fá nú loksins hvíld og hressingu, og svo voru jólin bráðum komin. Á morgun yrði ég líka komin til vinkonu minnar í Vogum - ég sá í anda viðtökurnar hjá henni og hlýlegan jóla- fögnuð á heimili hennar, og allt í einu leið fram í liuga minn þetta gamla vísubrot: „Það á að gefa börnum brauð að bíta í á jólunum, - kertaljós og klæðin rauð - svo komist þau úr bólunum." Klæðin rauð - klæðin rauð. - Þessi orð minntu mig aftur á komuna heim að kot- inu. Þau ómuðu í eyrunt mér eins og viður- lag - eins og undarleg bón um vægð gegn ranglæti heimsins." Margur gefur svo hann glúpnar eftir Sláunt á léttari strengi. Sæmundur Guð- vinsson skrifaði gamansögur úr hversdags- leikanum í bókinni Við skráargatið. Þar — gluggað í nokkur sögu- brot tengd jólahaldi sér hann m.a. spaugilegar hliðar á jóla- gjafakaupum og skulum við skoða tvö brot úr sögunni Margur gefur svo hann glúpnar eftir: „Þennan dag voru verslanir opnar langt fram á kvöld. En ekki skipti það mig máli. Ég gekk í það að pakka inn þessum litlu og nytsömu gjöfum sem ég var löngu búinn að kaupa. Eftir að hafa pakkað inn tann- burstanum handa drengnum og þvotta- klemmupakka sem tengdamamma átti að fá, tók ég fram hárgreiðu sem ég hafði keypt handa konunni. Þetta var sterkleg greiða úr Hagkaup og ekki gerð úr plasti heldur járni. Á henni var mjór prjónn til þess að klóra sér með. Á þetta ætlaði ég að benda sérstaklega ef gjöfin vekti takmark- aða hrifningu eins og ég hafði grun um. En nú voru merkimiðarnir búnir og ég ákvað að bregða mér í bæinn og kaupa miða. Um leið var upplagt að líta á lýðinn ryðjast um göturnar, trylltan af kaupæði. Á Laugavegi var aragrúi fólks á flandri milli verslana með æðisglampa í augunt og pinklum hlaðið. Ég vorkenndi þessu fólki sem þarna æddi um í leit að fánýtum og rándýrum hlutum í stað þess að gefa lítið en gagnlegt. En eftir að hafa rólað þarna um Laugaveginn nokkra stund fór ég aö finna fyrir samviskubiti. Kannski að hár- greiðan sé nú óþarflega lítil gjöf og varla verður strákurinn himinlifandi yfir því að fá bara tannbursta frá föðurómyndinni." Höfundur finnur kaupæðið hríslast um sig með ófyrirsjáanlegum afleiðingum og eftirstöðvarnar eru þessar: „Þó ég hafi nýlokið við síðustu afborg- unina neitar konan enn að fara í pelsinn sem ég keypti að lokum þarna um kvöldið og gaf henni í jólagjöf. Þetta er samt geysi- stór og hlý flík. En hún segist líta út eins og bjarndýr í pelsinum. Það finnst mér ekki rétt samlíking. Hún minnti mig miklu frekar á Ivan Rebroff þegar ég sá aftan á hana við mátunina á aðfangadagskvöld, ellegar þá snjómanninn hræðilega. En pelsinn var okurdýr þótt kaupmaðurinn segði hann á eldgömlu verði. Drengurinn klippti listaverkabókina niður yfir jólin og var hæstánægður. Hins vegar gengur tengdamamma aldrei í kú- rekastígvélunum sem ég gaf henni, af hverju sem það nú stafar. Greiðuna og klemmupakkann geymi ég vandlega. Næst skal ég verða viljasterkari og ekki láta kaupæðið ná tökum á mér.“ Hér er ekki rými fyrir fleiri sögubrot þótt fleiri korn hafi verið tínd til. Þau verða að bíða. SS Hún tók undir sig stökk og var nærri því komin inn úr gluggaglerinu þegar hún las: Appelsínur koma á morgun! Viðskiptamenn ganga fyrir. Ertu byrjaður á þessu aftur skepnan þín, og hvernig ferðu að ná í þessa bölvuðu lús?

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.