Dagur - 15.09.1992, Blaðsíða 4

Dagur - 15.09.1992, Blaðsíða 4
4 - DAGUR - Þriðjudagur 15. september 1992 ÚTGEFANDI: DAGSPRENT HF. SKRIFSTOFUR: STRANDGATA 31, PÓSTHÓLF 58, AKUREYRI, SÍMI: 96-24222 ÁSKRIFT KR. 1200 Á MÁNUÐI LAUSASÖLUVERÐ KR. 110 GRUNNVERÐ DÁLKSENTIMNETRA 765 KR. RITSTJÓRI: BRAGI V. BERGMANN (ÁBM.) FRÉTTASTJÓRI: KRISTJÁN KRISTJÁNSSON BLAÐAMENN: GEIR A. GUÐSTEINSSON, HALLDÓR ARINBJARNARSON (iþróttir), INGIBJÖRG MAGNÚSDÓTTIR (Húsavík vs. 96-41585), JÓHANN ÓLAFUR HALLDÓRSSON, ÓLI G. JÓHANNSSON, ÓSKAR ÞÓR HALLDÓRSSON, SIGRÍÐUR ÞORGRÍMSDÓTTIR (Sauðárkróki vs. 95-35960, fax 95-36130), STEFÁN SÆMUNDSSON, ÞÓRÐUR INGIMARSSON LJÓSMYNDARI: KJARTAN ÞORBJÖRNSSON PRÓFARKALESTUR: SVAVAR OTTESEN ÚTLITSHÖNNUN: RÍKARÐUR B. JÓNASSON AUGLÝSINGASTJÓRI: FRÍMANN FRÍMANNSSON DREIFINGARSTJÓRI: HAFDÍS FREYJA RÖGNVALDSDÓTTIR, HEIMASÍMI 25689 FRAMKVÆMDASTJÓRI: HÓRÐUR BLÖNDAL PRENTVINNSLA: DAGSPRENT HF. SÍMFAX: 96-27639 Ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur í hyggju að afnema nær allar undanþágur frá virðisaukaskattin- um og taka jafnframt upp tvö mismunandi þrep skattsins, hið lægra 14% en hið hærra 22%. Þessar hugmyndir eru búnar að vera til umræðu í þing- flokkum beggja stjórnarflokkanna og kratar hafa þegar lagt blessun sína yfir þær. í þingflokki sjálf- stæðismanna er málið ekki komið jafn langt en sannast sagna bendir fátt til annars en að ofan- greindar hugmyndir verði að veruleika áður en langt um líður. Ef tillögurnar um að afnema undanþágur frá virð- isaukaskattinum ná fram að ganga, verður starf- semi í menningar- og íþróttamálum, ferðaþjónustu og fjölmiðlun virðisaukaskattskyld, svo dæmi séu nefnd. Meðal þess sem ekki ber virðisaukaskatt nú en mun bera þann skatt eftir breytingu má nefna aðgangseyri að leikhúsum, tónleikum, sundstöðum og íþróttamótum; bókaútgáfu, gistingu á vegum ferðaþjónustu bænda og annarra aðila, áskriftar- gjald dagblaða, héraðsfréttablaða, tímarita og sjón- varpsstöðva og gjaldskrá leigubifreiða. Þannig mætti reyndar lengi telja. Ljóst er að ef ofangreindar hugmyndir stjórnar- flokkanna ná fram að ganga munu verða þáttaskil í íslensku samfélagi. í fyrsta lagi mun virðisauka- skattur á ferðaþjónustu hér á landi vafalaust koma í veg fyrir frekari vöxt þeirrar atvinnugreinar. íslenskt verðlag er nú þegar allt of hátt og á stærst- an þátt í að fæla útlendinga frá því að heimsækja landið. 14% virðisaukaskattur á ferðaþjónustuna mun því vafalaust jafngilda rothöggi fyrir greinina. Virðisaukaskattur á íþrótta- og menningarstarf- semi mun hafa mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir íþrótta- og menningarstarfsemi í landinu og fækka jafnt iðkendum sem áhorfendum. Þá mun slíkur skattur án efa leiða til þess að auknar byrðar verði lagðar á herðar sveitarfélaganna í landinu, sem neyðast munu til að stórauka fjárframlög til íþrótta- og menningarmála. Virðisaukaskattur á fjölmiðlun í landinu svo og bókaútgáfu er hrein og bein aðför að prentfrelsinu í landinu og þar með frjálsum skoðanaskiptum. Hin nýja skattheimta gæti hæglega leitt til þess að minnstu dagblöðin lognuðust út af, Stöð 2 sömuleiðis, og fjölmörg tímarit ættu á brattann að sækja. Þá myndi einnig draga stórlega úr bókaútgáfu. Þessar síðustu hugmyndir ríkisstjórnarinnar að nýrri skattheimtu eru einhverjar þær verstu sem þessi ríkisstjórn hefur fengið - og er þó af mörgum slæmum að taka. Með þeim er ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur og hótað að leggja ferðaþjón- ustu, fjölmiðlun og lista- og menningarlíf því sem næst í rúst í einu vetfangi. Ríkisstjórn sem hefur slíkt í hyggju er óalandi og óferjandi. Þjóðin væri sannarlega betur komin án hennar. BB. Á að flytja viðhald og nýsmíði skipa úr landi? Útgerðarfélag Akureyringa hefur nýlega ákveðið að fara út í umfangsmiklar breytingar á Harð- bak EA, einum togara félagsins. Ákveðið var að bjóða verkið út og bárust 9 tilboð í verkið. í umræðum um tilboðin finnst mér að ekki komi fram allt sem máli skiptir þegar borin eru sam- an tilboð Slippstöðvarinnar og annarra stöðva sem buðu í verkið. Þá er fyrst að telja að það eru tvær pólskar stöðvar sem bjóða í verkið. Einnig eru tilboð Slippstöðvar- innar tvö, en eingöngu hefur ver- ið talað um lægra tilboð Pólverja, þ.e. Nauta stöðvarinnar, og hærra tilboð Slippstöðvarinnar en ekki minnst á það að Slipp- stöðin ætlar að framkvæma verk- ið á mun skemmri tíma. Oft eru mjög lág tilboð (og óraunhæf) lögð til hliðar, enda vantar oft í þau ýmsa verkþætti og sýnt að ekki er hægt að standa við þau þegar á reynir. Þá er ekki bara horft á krónutöluna heldur fleira tekið til (eins og þegar til- boðin í hús aldraðra á Ákureyri, sem nú er í byggingu, voru metin). Ef við berum saman tilboð Slippstöðvarinnar II og pólsku stöðvarinnar Gryfia, sem ég tel raunhæfara, er mismunurinn 12,2 milljónir króna. Eftir að bætt er við erlendu til- boðin siglingu, kostnaði við eftir- lit, ferðir áhafnar og annan þann kostnað sem hlýst af því að fram- kvæma verkið svo fjarri heima- höfn, er mismunurinn á tilboðum Gryfia Póllandi og Slippstöðvar- innar nær því að vera um 3-5 milljónir króna Pólverjum í hag, en þá er eftir að taka tillit til þess að Slippstöðin ætlar að vera 34 dögum skemur að vinna verkið. Einnig má bæta við siglingartíma til Póllands, eða með öðrum orðum; skipið gæti farið í tvær veiðiferðir á þeim tíma. Áður en lengra er haldið skul- um við líta á tilboðin: Kr. dagar 1. Nauta Póllandi 36.784.969 (78) 2. Gryfia Póllandi 51.058.888 (90) 3. Slippstöðin II feb. ’93 63.270.000 (56) 4. Slippstöðin sept. '92 66.600.000 (63) 5. Karstens Danmörku 76.050.486 (98) 6. Ast. Luzuriaga Spáni 77.173.806 (105) 7. Stálsmiðjan 78.310.284 (154) 8. Stralsund Þýskalandi 99.712.170 (120) 9. Mjellem & Karlsen Noregi 102.954.276 (84) Kostnaðaráætlun ÚA sam- kvæmt fréttum er 92 milljónir króna. Óraunhæft tilboð Nauta í Póllandi er svo langt um lægra að meira að segja Spánn getur ekki komist í námunda við það. Eng- inn veit ennþá hvaða áhætta fylg- ir því að taka svo lágu tilboði. því ófá verða aukaverkin og lagfær- ingar þegar heim kemur ef vinnu- brögðin verða eins og hingað til. Stjórn ÚA telur sig vera að gæta hagsmuna hluthafanna og einn af stærstu hluthöfunum er Akureyrarbær (þ.e. bæjarbúar) og hverjir eru hagsmunir þeirra? Eru það hagsmunir bæjarbúa að halda vinnunni í bænum eða bæta við atvinnuleysið? Að halda þekkingunni í landinu eða færa viðhald og nýsmíðar á skipum úr landi? Þegar á allt er litið er engin spurning með Harðbak, hvar vinna ætti verkið, því ég get ómögulega trúað að það sé 30 milljóna króna munur á lægstu tilboðunum þegr allt er talið eins og haft var eftir framkvæmda- stjóra ÚA í Degi 2. sept. Þegar Harðbakur kemur til baka úr viðgerðinni þá vonast ég til að stjórn ÚA upplýsi okkur bæjarbúa um það hver raunveru- legur kostnaður varð á endanum, þ.e. viðgerðin sjálf, aukaverk, eftirlit, sigling, veiðitap, atvinnu- leysi áhafnar og lagfæringar á viðgerðinni þegar komið er í heimahöfn, áður en farið er á veiðar á ný. Af því mætti sjá hvort leggja megi viðhald og skipasmíðar innanlands niður og flytja alfarið til Póllands, eins og sumir virðast vilja stuðla að. Það er umhugsunarefni að þeir sem hafa einkarétt til að veiða úr sameiginlegri auðlind lands- manna geti nýtt hagnaðinn til að flytja vinnu úr landi án þess að greiða af því jöfnunartoll. Tryggvi Árnason. (Höfundur er starfsmaður Slippstöðvar- innar.) Rauði kross íslands: Rit um námskeið og nám- stefiiur á haustmisseri Út er komið rit á vegum fræðslu- miðstöðvar Rauða kross íslands og hefur það að geyma upplýs- ingar um námskeið og námstefn- ur á vegum RKÍ, Rk deilda og Ungmennahreyfingar RKÍ á haustönn. Mest ber á hefðbundn- um námskeiðum sem tengjast skyndihjálp, forvörnum og almennri Rauða kross fræðslu, en einnig er bryddað upp á nýjungum. RKI mun í október gangast fyrir málþingi um þróunaraðstoð ásamt alþjóðastofnun Háskóla íslands. I sama mánuði verður einnig námskeið fyrir sendifull- trúa Rauða krossins. Námskeiðið verður haldið í Munaðarnesi í Borgarfirði og á því er fólk búið undir hjálparstörf vegna náttúru- hamfara eða stríðs. Til þess að gerast sendifulltrúi en skilyrði að hafa setið slíkt námskeið. Ungu fólki í Rauða krossinum býðst að sækja námskeið til undirbúnings sjálfboðaliðastarfi erlendis. Til að komast á slíkt námskeið þarf að sækja grunn- námskeið um Rauðakrosshreyf- inguna, en það verður haldið í september. Námstefna um alnæmi sem RKÍ, Landsnefnd um alnæmis- varnir og Samtök áhugafólks um alnæmisvandann standa sameig- inlega að verður haldin í októ- ber. Aðalfyrirlesarar eru tvær sænskar konur, sem hafa getið sér orð fyrir störf sín að alnæmis- málum í Svíþjóð. Starfslokanámskeið verða haldin á nokkrum stöðum á land- inu á haustmisseri og er fræðslan sniðin að þörfum þeirra sem eru að ljúka eða hafa þegar lokið starfsævinni. Ýmislegt fleira verður í boði á vegum RKÍ, Rk deilda og URKÍ og má þar á meðal nefna nám- skeið fyrir sjálfboðaliða Vina- línu, skyndihjálparnámskeið, námskeið fyrir nýbúa á íslandi og fleira.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.