Þjóðviljinn - 18.12.1982, Blaðsíða 2

Þjóðviljinn - 18.12.1982, Blaðsíða 2
2 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Helgin 18. - 19. desember 1982 gott og að nýbreytni eigi engan rétt á sér nema sýnt sé að hún sé snöggt- um skárri en það, sem fyrir var. Stundum finnst mér svolítið ónotaleg tilfinning að vera að breytast svona, en þau ónot stafa bara af því, að ég er svo íhalds- samur að mér líður hálf illa þegar ég þarf að skipta um skoðun. Og þar komum við að meginor- sökum þess að ég hef skrifað í Þjóð- viljann til skamms tíma: Ég er svo íhaldssamur að ég get ekki hætt að skrifa í byltingarmál- gagnið: „Sósíalt séð séreinkennilegt“ hefði verið sagt í Dillu-sellunni forðum. Á Þjóðviljanum er afskaplega gott og hjartahreint fólk. Allir sem handgengnir eru þessu blaði hafa einhvern tíma verið róttækir, eða halda þeir hafi verið það - einsog ég. Sumir eru það sjálfsagt enn, og þá frekar þeir sem eru nýbyrjaðir á blaðinu, einsog að líkum lætur. Það sem þetta fólk hefur lengstaf dreymt um, er að afnema misrétti og bæta heiminn. Um aðferðirnar hefur stundum verið deilt eins- og gengur. Eg held að Þjóðviljamenn hafi flestir skömm á austantjalds fas- isma, þó kverkaskíturinn valdi þeim svolitlum sárindum, þegar þeir þurfa að kyngja því hvernig „kerfið" hefur brugðist í austri. Stundum hefur verið sagt um okkur, sem skrifað höfum í Þjóð- viljann, að við værum nytsamir sakleysingjar, en þá vaknar bara sú spurning: Nytsamir hverjum? Vinsælt er nútildags að halla sér uppað eiphverskonar skandinav- ísku sósíaldemókratíi, sem er nú einsog það er, svo ekki sé meira sagt, ef þetta er þá ekki alltof skringilega að orði komist. Þetta sameignar-samhjálpar- samsull er sannarlega góðra gjalda vert og verður sjálfsagt seint of- lofað, þó að vísu fylgi böggull skammrifi. Djöfullinn hafi það, það er eins- og ekki sé hægt að láta hendur standa framúr ermum og klóra sér, nema stofna fyrst til starfshóps um samstarf, þar sem félagsleg sam- hygð er lögð til grundvallar. Sfðan er grúpputerapíu, hópefli og af- slöppun beitt til að hægt sé að leggja grundvöllinn að væntan- legum árangri. Endanlega er svo málið sett í nefnd, og þegar það er loksins tekið fyrir eru allir búnir að gleyma hvað stóð til: Áð klóra sér. Stundum er mér nær að halda að skandinavískt sósíaldemókratí sé á góðum vegi með að drepa sjálfs- bjargarviðleitnina en ekki kapítal- ismann. Meðalmennskunni er endalaust hampað þar sem það er talið jaðra við glæp að kunna að reka fyrir- tæki, eða kunna yfirleitt til verks, enda flestir endalaust að fást við allt annað en það sem þeir kunna. Ef eitthvað þarf að gera, safnast öll sauðahjörðin saman, rugluð og jarmandi, en bjöllusauðurinn þorir ekki að taka forystuna og leiða hópinn farsællega heim í hús af ótta við að vera þá stimplaður andfé- lagslegur djöflamergur. Málpípan Skrifin í Þjóðviljann hafa stund- um orðið til þess að mér hafa verið gerðar upp skoðanir. Ekki bara hérna heima, heldur líka úti í hin- um stóra heimi. Ég læt mér þetta í léttu rúmi liggja. Ég hef hvort sem er sjálfur svo afskaplega takmarkaðar skoð- anir á því hvaða skoðanir ég hafi. Hef þegar best lætur eina í dag og aðra á morgun, þegar meðfætt afturhald hamlar mér ekki. Þó get ég neitað því, að aiveg gekk framaf mér, þegar mér barst einu sinni úrklippa úr afskaplega virtu austurþýsku bókmenntatíma- riti. Ég fór að spyrjast fyrir um þetta tímarit og var sagt að þar væri stór- mennum andans í nútímanum jafn- an hampað óspart, þ.e.a.s. þeim sem hefðu kórréttar skoðanir á dá- semdum þess samfélagsfyrir- brigðis, sem eitt sinn var kennt við kommúnisma, eða sósíalisma, og þrifist nú í endurbættri mynd og heldur ófagurri, að mínum dómi, í hinu svonefnda Austur-Þýskalandi og öðrum leppríkjum Rússaveldis. Það hefur löngum verið svona einsog einhverskonar árátta hjá miklum valdhöfum (ekki síst harð- stjórum) að eigna sér andleg ofur- menni. Þannig voru þeir Goethe og Wagner menn nasista-Þýskalands, Júlíus Caesar og Michelangelo stórmenni fasistanna á Ítalíu. Kommúnistar Rússaveldis tóku hinsvegar Tolstoj og Dostojevskí í guðatölu, en Kínverjar Mao, til skamms tíma. Austur-Þjóðverjar voru lengi með Bertolt Brecht á stalli, en svo kom að hann fór að rykfalla þar í sveit. Ljós átrúnaðargoða intelígensí- unnar í A-Þýskalandi voru einsog tekin að blikna í ljóma ennþá skærári stjörnu, sem var að rísa við sjóndeildarhringinn norður ; Ball- arhafi. Og hver var hann svo þessi óvænti ljósgjafi og um leið ó- vægni málsvari alheimskommún- ismans, með brugðinn skáldbrand orðsnilldarinnar reiddan til höggs og reiðubúinn að ganga milli bols og höfuðs á erkifjendum mannlegs samfélags, hinum ógnvekjandi kapítalistisku heimsvaldasinnum? Jú, viti menn: Flosi Ólafsson. Er kyn þó ntaður hlæi? Ég hefði satt að segja fyrr trúað því, að ég væri eingetinn sonur Guðs almáttugs en að ég væri orð- inn átrúnaðargoð austurþýskra kommúnista. Satt að segja var ég ekkert alltof lukkulegur. Én svona til að halda sæmilegri sálarró, þá hefur það oft gefist vel að líta á hinar broslegu hliðar þess sem á manni hrín, og þessvegna tók ég mig til og ramm- aði inn hluta af lofgreininni um mig úr framangreindu tímariti, og get raunar ekki stillt mig um að snara þessum æðisgengna brand- ara, til gagns og gamans fyrir alla sanntrúaða. Greinin ber yfirskriftina: „DAS WORT WIE EIN B AJONETTIM KLASSENKAMPF“, og hljóðar semsagt í lauslegri þýðingu ein- hvern veginn svona: „Hið andkapítalíska stílvopn, sem Flosi Ólafsson beitir gjaman, er bundið mál. Þennan hárbeitta rýting mundar hann óspart í greinum sínum í helgar- blaði Þjóðviljans. Hér eru ógnir og andstyggð hins íslenska kap- ítalisma afhjúpaður með óvæg- inni atlögu að hinu rotnandi og gersamlega úr sér gengna kapít- alíska samfélagi. Með hörku og nöpru háði skilgreinir hann þátttökuna í Nató og dvcl bandarísks herliðs í Keflavík og tengsl íslenskra kapítalista við herstöð heimsveldissinna. Einnig reifar Flosi vandamál, sem eru svo að segja í jaðri hins kapítalíska samfélags og þessvegna augljóslega nauða ómerkileg. Að slíku gerir Flosi snarpa at- lögu. Hérgreinir hann frá aftur- haldssegg með kapítaliskt inn- ræti, sem sækir um starf hjá samhj álparj afnaðarstofnun- inni: Æ mig vantar eitthvert starf, eitthvað sem er snobh í. Eiginlega eitt ég þarf: Yfirborgað hobbý. (Ich brauche irgend eine Beschaftigung etwas mit Snobismus darin. Eigentlich brauche ich nur eins: ein uberbezahlte Hobby). Ég var eins og hálflamaður eftir þessi ósköp. Austur-þýska gler- augnamafían búin að gera úr mér, greyinu, kommúnískan harðlínu- mann og hugmyndafræðing. Þetta minnti mig á það þegar Elvis Presl- ey var gerður að söngvara. Ég held að ég verði bara að upp- lýsa það hér, að þau nærri tíu ár, sem ég er búinn að skrifa í Þjóðvilj- ann, hefur það aldrei flökrað að mér að mæla þeim stjórnarháttum bót, sem viðhafðir eru í Austur- Þýskalandi og þar um slóðir. Ekki frekar en mæra Ku-Klux-Klan. Mín skoðun er nefnilega sú, að hafi nokkuð staðið góðum sósíal- isma í veröldinni fyrir þrifum, þá sé það vondur fasismi í austri. Og þessvegna frábið ég mér þann vafa- sama heiður að vera málpípa stjórnarfarsins fyrir austan járn- tjald. Einu sinni þurfti ég að fara til Ameríku. Ég þorði ekki annað en að fara f ameríska sendiráðið og fá vegabréfaáritun með góðum fyrir- vara af því að'ég var búinn að skrifa í Þjóðviljann í öll þessi ár. Stelpan í afgreiðslunni í sendi- ráðinu sagði mér að reyna að koma aftur eftir þrjá daga. Ég gerði það og þá rétti hún mér passann, en í hann var búið að stimpla að ég væri velkominn til Bandaríkja Norður-Ameríku hve- nær sem væri og allt til æviloka. Ég var svolítið móðgaður, þegar ég sá að ekki hafði verið gerð nein athugasemd útaf mér í sendiráðinu og spurði stelpuna í afgreiðslunni hvort þeir vissu ekki að ég væri bú- inn að skrifa í Þjóðviljann árum saman. - Jú, jú, áreiðanlega, svaraði hún. En ætli þeir haldi ekki bara að það sem þú ert að skrifa sé allt tóm della. Það fer semsagt ekki milli mála að kúltúrspíónar austan hafs og vestan hafa fylgst grannt með Viku- skömmtum mínum í Þjóðvilj- anum og að gleraugnamafíur stór- veldanna hafa ekki látið á sér standa að draga sínar ályktanir. Stundum hef ég verið að hug- leiða, hvernig því víki við að rit- stjórn Þjóðviljans skuli aldrei - í þessi tíu ár, sem ég hef skrifað í blaðið - hafa verið með minnstu tilburði til að hafa áhrif á það hvað ég léti frá mér fara. Þetta er þó málgagn kommúnista, ef mark er á Morgunblaðinu takandi. Ég hef iðulega í skrifum mínum haft allt á hornum méf, vikum saman, en þó helst það, sem í her- búðum Alþýðubandalagsins ætti að vera ginnhelgast, semsagt „Kerfið“ og samhjálparstefnu mannúðarinnar „sósíalismann". Hversvegna hefur það verið látið viðgangast að ég væri með skítkast- í málstaðinn, sem Þjóðviljinn stendur fyrir, og það í málgagninu sjálfu? Sumir halda að þetta sé af því að ritstjórarnir lesi ekki alltaf blaðið, en ég held að það sé nú ekki rétt. Sönnu nær held ég sé, að rit- stjórnin hafi ályktað sem svo: Ef Flosi fær að gaspra svona vikulega í blaðið, þá sjá allir að frjálslyndið er Þjóðviljans. Og líklega var rit- stjórnin sama sinnis og ameríkan- arnir, að ekki væri mark á mér tak- andi. Þetta væri allt tóm della. Um það hvort þessi greinarkorn seldu blaðið hefur sjálfsagt aldrei verið hugsað. Slíkar vangaveltur um markaðslögmál eiga ekki heima í höfuðstöðvum sósíalism- ans þar sem einkaframtakið gengur glæpi næst, hvað þá gróðasjón- armið. En þó einkaframtakið sé af hinu illa, getur það þó komið sér vel þegar í harðbakkann slær, og það skeði svo sannarlega einu sinni á Þjóðviljanum. Verður nú frá því sagt. Þjóðviljinn er til húsa við Síðu- múla. Síðumúlinn er talsvert athyglis- verð gata. Á þessu svæði eru ekki aðeins menningarmiðstöðvar dag- blaðanna og sameiginlegt prent- verk þeirra merkustu, heldur og fangabúðir íslensku lögreglunnar, svo nokkuð sé talið. Við þetta Fleet Street Reykja- víkur eiga semsagt heima bæði hin virðulegri dagblöð þjóðarinnar sem og svartholið og síðdegis- blöðin. Ein af veglegustu byggingunum við götuna er tvímælalaust Þjóðviljahöllin, en hún er byggð fyrir rússneska peninga, ef mark er á Morgunblaðinu takandi, og svo náttúrlega fyrir happdrættispen- inga, frjáls framlög nytsamra sak- leysingja og í sjálfboðavinnu. Þegar Þjóðviljahöllin var að rísa af grunni á sínum tíma, þótti mörg- um sannleikselskanda stærð henn- ar og allur íburður með ólíkindum. Að stærð slagar húsið uppí með- al einbýlishús í Arnarnesi og til að auka á ríkmannlega reisn er bróðurparturinn af neðri hæðinni leigður undir húsgagnaverslun með rókókómublum. Á Þjóðviljahöllinni, þessu merka stórhýsi, er útihurð, og er það raunar mergur þess máls sem hér fer á eftir. Það var í byrjun haustmánaðar að starfsfólk Þjóðviljans þóttist verða þess vart að hitastigið í stiga- gangi hússins væri í lægra lagi, og kom þetta einkum niður á símadöm- unum vegna þess hvernig þær eru staðsettar í byggingunni. Skotið var á fundi í blaðstjórn- inni til að reyna að fá botn í það, hverju þessi næðingur sætti, og varð niðurstaða þeirrar rannsókn- ar sú, að veðurhæð virtist meiri í stigaganginum þegar útidyra- hurðin stóð opin heldur en þegar henni var lokað. Æskilegra væri semsagt að hafa hurðina lokaða en opna, sérstaklega þegar svalir heimskautsvindar stæðu uppá húsið. Þessi niðurstaða var bókuð, og síðan gleymdist hurðin sem hélt áfram að standa opin allan iið- langan daginn allt haustið, einsog áður. Um veturnætur fór svo að bera á heilsubresti hjá símadömu fyrir- tækisins. Þetta virtist vera svona einsog aðkenning af bronkítis, blöðru- og heilahimnubólgu svo framkvæmdastjórinn tók af skarið uppá sitt einsdæmi, án samráðs við starfsfólkið, og keypti pumpu hjá Simsen, pumpu, sem er þeirrar náttúru að hún lokar hurðum, sem ekki er lokað á eftir sér. Pumpan var svo fest upp á þjóðhátíðardegi Tyrklands þ. 20. október og urðu með tilkomu hennar tímamót varð- andi starfsskilyrði á Þjóðviljanum. En Adam var ekki lengi í Para- dís. Á miðri jólaföstunni brast pumpan. í fyrstu veittu menn þessu litla athygli, og það var ekki fyrr en verulegur heilsubrestur fór að nýju að gera vart við sig hj á símadömun- um, að ástæða þótti til að taka mál- ið fyrir á sameiginlegum starfs- mannafundi á blaðinu. Á þessum fundi var mjög heitt í kolunum og má segja að þetta hafi verið með stormasamari fundum á blaðinu, en að lokum var borin upp tillaga frá auglýsingastjóranum, sem einmitt er staðsettur framar- lega í húsakynnum Þjóðviljahallar- innar, um að líma miða á útidyra- hurðina, með orðinu „LOKIГ. Þessi tillaga var felld eftir að út- breiðslustjórinn hafði bent á að ný- ir sjóndaprir áskrifendur, sem kæmu að dyrunum gætu haldið að á miðanum stæði „LOKAГ. Endanlega var samþykkt með naumum meirihluta að á miðanum skyldi standa „LOKIÐ HURÐINNP1. Á fundinum var síðan skipuð framkvæmdanefnd, sem skyldE freista þess að fá gert við pumpuna. Framkvæmdanefnd hóf störf, og má segja að mikill einhugur hafi í upphafi ríkt þar. Hringt var til Simsen og pumpumálið reifað fyrir talsmanni fyrirtækisins. Af hálfu Simsen var nefndinni tjáð að engin ábyrgð væri á slíkum pump- um, engin pumpuþjónusta væri á vegum fyrirtækisins, en ef gera ætti við pumpuna þyrfti að taka „spennuna“ af fyrst, skrúfa síðan pumpuna niður, ná svo í sérstakan „trekklykil“ sem hefði fylgt pump- unni, trekkja pumpuna svo upp og bæta einu „palli“ við. Að þessum upplýsingum fengn- um, tókst samstaða um að reyna að útvega mann til framangreindra umsvifa, en fljótlega þríklofnaði nefndin útaf því, hvernig staðið skyldi að þeirri ráðningu. Tveir nefndarmanna álitu að pumpumál heyrðu undir Hjörleif, einsog önn- ur orkumál; tveir álitu að hollustu- hættir á vinnustað, sem og heilsu- far símakvenna Þjóðviljans, heyrðu undir Svavar heilbrigðismálaráð- herra, en ritstjóri blaðsins sem var oddamaður í nefndinni vék ekki frá þeirri skoðun að Lúðvík væri það handgenginn pumpu- og véla- mönnum, já og hollustuháttum á vinnustöðum, að hann ætti að skipa mann til að gera við pump- una, Þessi óeining innan nefndarinn- ar varð svo til þess að hvorki gekk né rak í pumpumálum blaðsins all- an janúar og febrúar. Heilsufari fólksins stórhrakaði vegna gegnumtrekks, og engin lausn á málinu virtist í augsýn. Þá var það á þjóðhátíðardegi Grikklands og boðunardegi Maríu, að Gvendur blaðakóngur- strákur sem á að fermast í vor, en ber Þjóð- viljann út, svona með skólanum - spurði einhvern að því af hverju ekki væri gert við hurðarpumpuna. Honum var sagt að það væri ekki hægt. Þá sagði hinn þrettán ára gamli útburðarsveinn: - Lánið þið mér skrúfjárn. Svo skrúfaði hann pumpuna nið- ur, trekkti hana upp, bætti einu palli við, skrúfaði hana svo upp aftur. Og sjá: Hurðin féll að stöfum og hefur gert það síðan. En um leið og Gvendur blaða- kóngur snaraðist út með blaðabunk- ann undir hendinni, til að bera ör- eigaboðskapinn til áskrifenda Þjóðviljans, sagði hann: - Það þýðir ekki að treysta alltaf á aðra.

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.