Þjóðviljinn - 10.11.1985, Blaðsíða 10

Þjóðviljinn - 10.11.1985, Blaðsíða 10
 Hefði sennilega haldið áfram í hnefaleikum... Ríkharður Jónsson er lík- lega sá maður sem fyrst kemur upp í huga fólks þeg- ar knattspyrnubærinn Akranes og gullöld hans, sjötti áratugurinn, berst í tal. Hann var einn af þeim sem sköpuðu þann knatt- spyrnuljóma sem enn í dag umlykur Skagann og var á sínum tíma talinn besti knattspyrnumaður íslands, sumir segja fyrr og síðar. Ríkharður er borinn og barnfæddur Skagamaður og býr þar enn í dag, er kominn hátt á sextugsald- ur, en knattspyrnuáhuginn er sá sami og áður, þegar hann var sjálfur í sviðsljós- inu. Blaöamaður Þjóðviljans átti leið yfir flóann og upp á Skaga ekki alls fyrir löngu. Hann lét það verða sitt fyrsta verk að banka upp á hjá Ríkharði, settist þar inn í stofu með kaffibolla og Ríkharð andspænis sér og vildi tala um knattspyrnu, gullaldartímann og Ríkharð. Hann kom ekki að tóm- um kofanum hvað það snerti. Hreinrœktaður forréttindastrákur „Ég vil meina að þegar ég var unglingur að alast upp á Skaga hafi ég búið við alveg dásamleg forréttindi, sem nú eru að mestu fyrir bí. Þessi forréttindi sem ég og aðrir stráklingar á Skaganum bjuggum við fólust í því að geta verið í fótbolta allan daginn, alls staðar nánast. Það voru grasvellir út um allan bæ, litlir og stórir og þeir voru nýttir til hins ítrasta. Þarna fengum við sem síðar urð- um félagar í Akranesliðinu frá- bæra aðstöðu til að búa okkur undir það sem síðar varð. Við vorum sosum ekki alls staðar velkomnir með tuðruna og það kom fyrir að leikurinn truflaðist við það að hún hafnaði á eldhús- borðinu í nærliggjandi húsi og týndist í nokkra daga, en það kom ekki að sök, hún skilaði sér aftur. Nú er aðstaðan öll önnur. Það er alls staðar verið að byggja, og setja niður blóm og annað. Það má bara helst ekki anda fyrir fínheitum.” Hvenœr hófst saga knattspyrn- unnar á Akranesi? Ríkharður Jónsson gull- aldarmaður afSkagaí viðtali „Það má segja að hún hafi haf- ist fyrir um sextíu árum þegar knattspyrnufélögin KA og Kári voru stofnuð. Þau héldu á sínum tíma uppi geysilega öflugu starfi, en heyra nú að mestu sögunni til. Það var alltaf leikið reglulega á milli þessara félaga. Þau skiptu með sér bænum, KA var allsráð- andi á Neðriskaga en Kári á Efri- skaganum. Það voru auðvitað frávik frá þessu, en þessi skipting var þó ríkjandi. Ég var í KA, hreinræktaður alveg. Sko stemmningin í þessu þá var þann- ig að þegar við lékum við Kára, þá jaðraði það við að vera meira en að við værum að verja heiður okkar félags, við litum þannig á að við værum jafnframt að verja landssvæðið sem slíkt, Neðri- skagann. Þetta var okkur gífur- legt kappsmál. Eftir því sem tímar liðu og bærinn stækkaði fóru menn að hallast að því að rétt væri að sameina þessi félög og við fórum þá að keppa sam- eiginlega gegn öðrum félögum. Við lékum t.d. með eitt lið í 1. flokki árin 1943, ’44 og ’45. íþróttabandalag Akraness var svo stofnað árið 1946 og þá var ákveðið að taka þátt í íslands- mótinu í meistaraflokki. Eftir það fóru línurnar að skýrast og menn fóru að eygja von um að geta staðið jafnfætis Reykjavík- urliðunum, eða Reykjavíkur- rauðmögunum eins og við köllu- ðum þau. Þeir kölluðu okkur þá Akraneskartöflurnar og við göntuðumst oft með að það hefði verið gómsætt fyrir þriðja aðila að komast í þetta. Eitt sinn það sama ár vorum við að ganga inn á gamla Mela- völlinn til leiks við eitthvert þess- ara Reykjavíkurliða. Þá er kallað á okkur úr hópi áhorfenda: „Sjá þessar helvítis Akraneskart- öflur”. Einn félaga minna svaraði um hæl: „Taktu eftir útsæðinu vinur, þegar það kemur”. Þetta er upphafssetning að þeirri breytingu sem átti eftir að verða á knattspyrnunni hér á landi, út- sæðið vinur. Til marks um það má geta þess, að 1946 urðum við fslandsmeistarar í 2. flokki og árið áður höfðu sömu strákar komist í úrslit í 3. flokki. í þessum unglingaliðum var kjarninn í gull- aldarliðinu. Þarna var ég ásamt Þórði Þórðarsyni, Pétri Georgs- syni, Sveini Teitssyni, Halldóri Sigurbjörns, og Guðjóni Finn- boga. Við vorum allir á svipuðum aldri, aðeins eitt til tvö ár á milli okkar. Þessi hópur var allur með þegar kannan (bikarinn) fór fyrst upp á Skaga 1951 og raunar næstu 15-20 árin. Þetta voru tímamóta- menn. Á þessum árum gekk okkur fremur illa í meistaraflokki og sérstaklega áttum við í erfið- leikum með Reykjavíkurliðin, Val, Víking, Fram og KR. Það voru eiginlega bara þessar fjórar sortir sem komu til greina og eitthvað máttu sín.” Reykjavíkur- rauðmagi í 4 ár Pú hefur ekki alltaf leikið með Akranesliðum. „Nei, ég lék með Fram í fjögur ár, 1947-1950. Ég fluttist þá til Reykjavíkur til að læra að mála op s að leika með Fram með- an á því stóð. Fram var með mjög sterkt lið á þessum árum og áður en ég kom til þeirra. Sjálfum gekk mér mjög vel með þeim og var blessunarlega laus við meiðsli og því um líkt. Við urðum bæði íslands- og Reykjavíkurmeistar- ar á þessum árum og unnum auk þess önnur minni háttar mót. Árið 1946 lék ég minn fyrsta landsleik, sem jafnframt var fyrs- ti landsleikur íslands, gegn Dönum í Reykjavík. KSÍ var ekki stofnað fyrr en ári síðar og það kom því í hlut KRR að sjá um leikinn. Hann tapaðist með þremur mörkum gegn engu en mér er það minnisstætt að í þessu fyrsta landsliði okkar var ég eini leikmaðurinn utan Reykjavíkur, þá 16 ára. Það átti eftir að breytast mikið. En hvað um það, þetta var upphafið að nær tuttugu ára ferli mínum með landsliðinu. Við lékum gegn Norðmönnum 1947 og 1948 tókst okkur í fyrsta sinn að vinna sigur, 2-0. (Rík- Ríkharður: „Taktu eftir útsæðinu, vinur, þegar það kemur.“ Ljósm.: Á.Á. harður skoraði bæði mörkin, innskot blaðam.) Þessi ár hjá Fram voru mér góður skóli. Eftir það fór ég til Þýskalands einn vetur áður en ég hélt upp á Skaga að nýju. Þar lék ég um veturinn og lærði eitt og annað. Með þá reynslu kom ég svo upp á Skaga 1951 og nýjar hugmyndir um hvernig leika ætti knattspyrnu. Ég vildi stytta bolt- ann, í stað þess að leika eins og ensku þiálfararnir höfðu kennt okkur. Ég kom þarna inn í vel undirbúinn hóp á góðum aldri, þetta voru strákar sem voru til- búnir að leggja allt í sölurnar. Og þarna hófst ævintýrið. Við æfð- um stíft í fimm mánuði án þess að spila svo mikið sem einn leik og þá var Langisandurinn okkur ómetanlegur. Það er fyrst nú á síðari árum sem hann er notaður eitthvað í líkingu við það sem við gerðum. Við tókum upp þrekæf- ingar, sem þá voru nýmæli hér á landi, æfðum eftir ákveðnu kerfi innan húss. Þetta var verulega góð uppbygging. Við lékum okkar fyrsta leik þá um vorið gegn KR og það er skemmst frá því að segja að við höfðum algera yfirburði og sigr- uðum 5-2. Þetta þótti með ólík- indum þá.” ísinn brotinn Svo urðuð þið fyrstir liða utan Reykjavíkur tilað vinna bikarinn. „Já, það var ótrúlegt og mark- aði tímamót í knattspyrnusög- unni. Þarna var allt í einu komið lið sem stóð ekki bara jafnfætis Reykjavíkurliðunum, heldur framar. Við spiluðum öðruvísi bolta, lékum stutt og lögðum höfuðáherslu á sóknarleikinn. Þannig hófst nú gullöldin. 1 Meistaratitillinn fór fyrst upp á Skaga 1951, síðan 1953, 1954, 1957, 1958 og 1960. Þetta var al- veg stórkostlegt. Bæði Skaga- menn og Reykvíkingar tóku okk- ur opnum örmum. Á Akranesi myndaðist nokkurs konar breiðfylking um knattspyrnuna og allir tóku virkan þátt í þessu. Fólk flykktist á völlinn, hvort sem við vorum að leika í Reykja- vík eða heima. Við skoruðum mörk og reyndum að halda bolt- anum með stuttu spili. Þannig réðum við gangi leiksins með fimm menn í framlínu, sem allir gátu skorað mörk. Það skipti miklu máli hversu vel við fórum í gang. Strákarnir sáu hvað þeir gátu og það hleypti algjörum eldmóði í þá. Þarna vorum við búnir að fara og hirða bikarinn og það þótti meiri háttar viðburður. Skeytasendingunum rigndi yfir okkur víðs vegar að af landinu. Það var brotið blað í íþróttasögunni. Við fórum að trekkja á völlinn og fengum alltaf fleiri áhorfendur en hin liðin. Það var ekki óalgengt að það kæmu 3-5 þúsund manns á Melavöllinn. Á þessum tíma var Akranes um 2000 manna bær. Árið 1954 buð- um við Hamborgarúrvalinu heim á Skaga og þá mættu hvorki fleiri né færri en 4000 manns á völlinn. Það má svo geta þess í gamni að sá leikur endaði með jafntefli, 2- 2. Það er mín skoðun að ef leikin hefði verið tvöföld umferð á íslandsmeistarar Akraness 1951. Aftari röð frá vinstri: Guðmundur Jónsson, Pétur Georgsson, Þórður Þ. Þórðarson, Dagbjartur Hannesson, Ríkharður, Halldór Sigurbjörnsson. Fremri röð: Sveinn Teitsson, Sveinn Benediktsson, Magnús Kristjánsson, Ólafur Vilhjálmsson og Guðjón Finnbogason. „Þetta voru tímamótamenn". sjötta áratugnum hefðum við unnið titilinn mun oftar en raun varð á. Á því er enginn vafi. Það var alltaf leikið á Melavellinum og það hafði sitt að segja.” Grasrótar- hreyfing Hver er skýringin á því að Akranes verður svona gagntekið af knattspyrnu? Hvers vegna ekki Akureyri eða Selfoss til að mynda? „Það er nú ekki gott að segja. Fótbolti hefur Iengi verið upp- vaxtarfprótt á Skaga, og ég held að hann sé það enn í dag. Núna yrði þetta líklega kallað grasrót- arhreyfing. Þetta hefur verið uppeldisatriði, metnaðarmál. Löngunin er mjög rík hjá ungum strákum að vera eins og hinn eða þessi leikmaður. Þegar við fórum að láta að okkur kveða á lands- mælikvarða voru heimilin í bæn- um undirlögð af fótbolta, völlur- inn fylltist og bærinn varð gegnsýrður af þessum áhuga. Það sem gerðist á sjötta áratugnum skipti í raun sköpum. Þá var talið að það sem við gerðum væri bara ekki hægt, en fyrst það tókst einu sinni var ekkert því til fyrirstöðu að gera það aftur. Það er hreint ótrúlegt hvað við höfum átt marga góða leikmenn og merkilegt með ekki stærri bæ en þennan. Landsliðsmenn og atvinnumenn hafa fjölmargir komið héðan. Ég var einu sinni spurður af sænskum blaða- mönnum hvernig á þessu stend- ur. Það er ekki gott að útskýra svona fyrirbæri svo ég svaraði því til að ef þá vantaði gull ættu þeir að fara til Suður-Afríku, en ef þeir á hinn bóginn væru að leita að góðum knattspyrnumönnum ættu þeir að fara beint upp á Skaga. Margir halda að til þess að ná upp góðu knattspyrnuliði sé grundvallaratriði að hafa góða yngri flokka. Ég er sannfærður um að þetta er aðeins hálfur sannleikurinn. Reynsla okkar hér á Akranesi sýnir að galdurinn liggur í því að vera með 2-3 af- burðaleikmenn til endurnýjunar á hverju ári til að viðhalda góðu meistaraflokksliði. Ef yngri flokkarnir sjá góða knattspyrnu, og nú er ég ekki að segja að Akr- anesliðið hafi alltaf leikið góða knattspyrnu, þá vita þeir að það þýðir ekkert minna en það til að komast áfram. Ef þeir ætla að eiga möguleika verða þeir að vera góðir, þetta síast inn hjá þeim. Breiður fjöldinn skiptir ekki öllu máli ef um er að ræða að vera með gott fyrstu deildarlið.” Gengur í œttir Nú er það svo að margir þeirra leikmanna sem gerðu garðinn frægan með gullaldarliðinu hafa síðan getið af sér landsþekkta knattspyrnumenn. Þórður Þórð- arson er faðir Teits Þórðarsonar og Ólafs Þórðarsonar. Halldór „Donni" Sigurbjörnsson er faðir Sigurðar Halldórssonar. Árni Sveinsson er sonur Sveins Teits- sonar. Karl Þórðarson er sonur Þórðar Jónssonar, bróður Rík- harðs. Svona mœtti lengi telja enn og Ríkharður var spurður hverju þetta sœtir. „Þetta hefur engum tekist að skýra mér vitanlega. Þetta bara gengur í ættir, en samt sem áður virðist þetta vera einkennandi fyrir Skagann. En auðvitað á uppeldið sinn þátt í þessu. Þetta er eins og þegar störf ganga mann fram af manni, þetta er viðloð- andi ákveðnarfjölskyldur. Kann- ski er þetta bara skemmtileg til- viljun.” Er hœgt að bera gullöldina saman við það sem síðar hefur gerst? „Hver maður er gull síns tíma. Þegar við vorum upp á okkar besta fengum við miklu fleiri áhorfendur en nú. Það sem talið er í hundruðum núna töldum við í þúsundum. Fólk kom til að sjá skemmtilega knattspyrnu. Nú eru liðin árangursríkari í vörn en sókn, en það sem fólkið vill sjá eru mörk og aftur mörk og helst falleg mörk. Svo hefur fólk nú til dags um miklu meira að velja í sínum frístundum, sjónvarp og annað. Þó er ég sannfærður um að ef við fengjum lið í dag sem talið væri áberandi best og skoraði mikið af mörkum mynd- um við fylla völlinn aftur. Það sem þarf til að gera knattspyrnu áhugaverða eru sveiflukenndir leikir með mörgum mörkum þar sem gleði og sorg ríkir á víxl. Það er spennan sem gefur þessu gildi.” KA og Kári á ný? „Ég er þess fullviss að knatt- spyrna mun alltaf loða við Akra- nes. En það er eitt vandamál sem við stöndum frammi fyrir nú. Við þurfum að endurskoða skipulag þessara mála, því margt hefur breyst frá því árið 1946 þegar við fórum að tefla fram einu liði í stað tveggja. Ég er ekki viss um að það sé rétt nú þegar bærinn er orðinn þetta stór, það er spurning hvort hann er ekki orðinn nógu stór fyrir tvö félög. Til þess eigum við nóga leikmenn og það er ör- ugglega til aragrúi manna sem vilja endurnýja kynnin af knatt- spyrnunni og komast í virkt starf á ný. Eins og málin standa í dag er ekki pláss fyrir þá. Ég el með mér þann draum að sjá gömlu félögin KA og Kára saman í fyrstu deild, með sitt hvort íþróttasvæðið, þá væri gaman að vera orðinn ungur á ný.” Hefurðu hugsað þér aðfara út í þjálfun að nýju? „Ég hef oft hugsað út í það og treysti mér vissulega til þess, þótt það sé meira en að segja það. En það er bara ekki svigrúm til þess, það vantar fleiri félög. Ég er viss um að ég myndi leggja allt mitt í þjálfun hjá t.d. KA, mínu gamla félagi. Ég hugsa mikið um og fylgist vel með fótbolta og er voðalega gagnrýninn á það sem er að ger- ast hverju sinni. Þá hugsar maður út frá því sem maður hefði gert sjálfur.” Hefurðu aldrei stundað aðrar íþróttagreinar en fótbolta? Hefur fótboltinn átt hug þinn alla tíð? „Ég hef alltaf sagt að hver sem er sæmilegur afreksmaður í einni íþróttagrein getur verið liðtækur í öðrum. Fótboltinn hefur ekki einokað íþróttaáhuga minn með öllu. Ég gerði talsvert af því að stunda hlaup hér í eina tíð og eitthvað hef ég komið nálægt handbolta. Nú svo æfði ég hnefa- leika um árabil og vegnaði bara vel. Ef hnefaleikar hefðu ekki verið bannaðir hefði ég líklega haldið því eitthvað áfram. Eg held ég hafi aldrei tapað keppni í hnefaleikum. Þetta var miklu erf- iðara en fótboltinn og þá var maður í góðri æfingu enda áhug- inn mikill og maður lét sig aldrei vanta. En þetta lagði ég allt á hill- una og í raun hefur fótboltinn alltaf verið númer eitt.” gg ............. ~^TTm——nnTTIIlWfll—W~—IfWHf MHIII ll— HÍM—■!■■■ Illllll mnj»wniMinuBiMngmaa——mmmamm—a—mw—i———ni :--i■■■■■■

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.