Þjóðviljinn - 10.08.1986, Blaðsíða 2

Þjóðviljinn - 10.08.1986, Blaðsíða 2
FLOSI skammtur af hagfrœðilegri í dag ætla ég að skrifa um hagfræðilega hringrás þjóðarframleiðslunnar á íslandi til glöggvunar fyrir þá sem ekki vita hvernig þjóð- arhag er best borgið. Að undanförnu hafa stjórnvöld, og aðrir þeir sem vettlingi geta valdið, lagt á það meginá- herslu að leggja beri megináherslu á óhefð- bundnar atvinnugreinar til að auka jafnvægið í byggð landsins og fjölga atvinnutækifærum til gagns og gamans fyrir alþjóð. „Athafnamenn" stofna skrautleg fyrirtæki, en það er á íslandi kallað að „fara útí“ og af því að forretningarnar eru stundum svolítið í lausu lofti, er reksturinn kallaður „umsvif". Það hagkerfi sem lagt er til grundvallar í um- svifum af þessu tagi er oft af sérfræðingum kallað „sósíalismi andskotans", en sá sósíal- ismus er sérhannaður fyrir glúrna einstaklinga sem stofna fyrirtæki fyrir þeninga úr vösum al- mennings, hirða það sem inn kemur ef eitthvað er, látaskattgreiðendurumtapreksturinn. Risn- una sem þeir reikna sér í ótrúlegustu myndum borgar daglaunafólkið í landinu að ekki sé talað um gjaldþrotið uppá miljónir, hundruðmiljóna, eða miljarða, þegar best lætur. Eftir situr svo „athafnamaðurinn“ orðinn stór- auðugur af „umsvifunum" og öllum hans ætt- boga borgið um ókomna tíð. Nú kem ég að hinni hagfræðilegu hringrás þjóðarframleiðslunnar. Lengi hefur það verið kennt bæði ungum og öldnum að „perpetuum mobile" eða eilífðarvél væri ekki hægt að búa til. Hér sannast hið forn- kveðna. Maður á aldrei að segja aldrei. Á íslandi er nefnilega draumurinn að rætast og þá einkum í landbúnaðinum. Það voru sannarlega tímamót á Blönduósi þegar sett var á stofn verksmiðja til að framleiða mjólkurduft úr óseljanlegri mjólk. Að vísu fannst enginn markaður fyrir mjólkur- duftið svo gripið var til þess þjóðráðs að gefa kúnum það aftur. Við þetta stórjókst að sjálf- sögðu nytin í kúnum og þar sem þær mjólkuðu miklu meira en nokkru sinni fyrr, var auðvitað hægt að framleiða miklu meira mjólkurduft til að gefa kúnum aftur. Þetta er kallað „hagfræðileg hringrás“. Annað dæmi um „hagfræðilega hringrás" er tengt íslensku sauðkindinni. Einar Benediktsson skáld og stórhugi hélt því fram að ísland gæti borið 20 miljónir sauðfjár „án nokkurra beitilandsbóta". Um tíma voru þeir menn til sem efuðust um að landið þyldi slíka beit, en nú eru margir úr bændastétt farnir að hallast að því að Einar hafi haft rétt fyrir sér hér sem endranær. Það er ekki langt síðan einn merkasti bænda- frömuður landsins varpaði fram þessari kenn- ingu um sauðkindina: „Hún skítur meira en hún étur“. Ef þetta er rétt, sem líklegt má telja, er hægt að græða landið upp í snarheitum. Láta bara tuttugumiljón rollur ganga örna sinna í auðninni. Semsagt hagfræðileg hringrás. Nú er verð á loðnulýsi í lágmarki. Þess vegna er þjóðráð að nota loðnulýsi til að bræða loðnu og fá með því ennþá meira loðnulýsi til að bræða ennþá meiri loðnu. Hagfræðileg hringrás. ísland er mikið fjallaland. Hér rísa smjörfjöll, ostafjöll, kjötfjöll, hvalfjöll, steinullarfjöll, stálull- arfjöll, glerullarfjöll, kanínuullarfjöll, kjúklingafj- öll, laxafjöll, loðskinnafjöll, mjölfjöll og eyrna- pinnafjöll. Hér gnæfa við himinn fjöll af yfirleitt öllu sem framleitt er í landinu. Og auðvitað er lausnin sú að nota umframframleiðsluna til að ' halda eilífðarvélinni gangandi. Viðhalda hinni hagfræðilegu hringrás. Reiknað er með að í haust verði hér komið fimmhundruð til þúsund tonna laxafjall. Úr því má mala laxamjöl og fóðra með því 20 þúsund hringrós tonn af eldislaxi sem er ráðgerð ársframleiðsla íslendinga á þessum kostafiski í framtíðinni. Og þegar farið er að framleiða 20000 tonn af laxi á ári er nú fyrst hægt að fara að mala laxamjöl svo um munar og gefa laxinum það aftur. Og síðast verður áreiðanlega malað gull. Semsagt hagfræðileg hringrás. Þegar þetta er skrifað er það helst í fréttum að nú eigi að láta hvalfjallið hverfa ofaní refina. Þó allir hlutir séu nú afstæðir, einsog Einstein benti réttilega á, blandast mönnum víst ekki hugur um það að hvalurinn er stærri skepna en refurinn. Þess vegna þarf að stækka refastofn- inn til muna, ef hann á að geta torgað heilum hvalfjöllum, einkum þegar tekið er tillit til þess að kjötfjallið átti að nota í refafóður. Þá hefði refurinn endurheimt aldagamalt hlutverk sitt í lífríkinu og fjallalambið sömuleiðis. Hér er hætta á að hin hagfræðilega hringrás rofni. Hún strandar á refnum. Mér kemur í hugann Ijúf endurminning. Kunn- ur athafnamaður hér í borg kom fyrir nokkrum árum heim til sín léttur í skapi. Hann afréð að grilla sér kódilettur á útigrillinu í sólskininu. Þeg- ar hann fann engar kódilettur í ísskápnum rann honum í skap og náði í minkapels dóttur sinnar og grillaði hann á glóðagrillinu í garðinum með tilheyrandi sósum. Þegar eiginkonan fann að þessu við bónda sinn náði hann í silfurrefapels- inn hennar og matreiddi hann á sama hátt og pels dótturinnar. Þegar pelsarnir höfðu þannig verið grilláðir að hætti húsbóndans, sneri hann sér að konu sinni og sagði: - Þið gleymið kannske ekki að kaupa í matinn næst. Því segi ég þessa sögu, að ef til vill er lausn á markaðsvanda loðbænda í augsýn og sömu- leiðis væri vafalaust hægt að stórminnka kjöt- fjallið ef konur væru ekki sífellt gleymandi því að kaupa í matinn. Geðsveiflur krataforingja Nú mitt í gúrkutíðinni hafa einkum tvö mál komið frétta- þyrstum blaðamönnum til að líta lífið bjartari augum. Þar ber auðvitað fyrst að nefna vesturferðir manns mánaðar- ins á rás tvö, en einnig hefur komið upp mikil óánægja meðal hægrikrata með sam- eiginlega sumarferð ungra allaballa og krata. Þar hafa einkum verið nefndir þeir Jón Baldvin og rótari hans, Á- mundi Ámundason. Skýring- una hafa menn talið liggja í því að þeir félagar óttist pólitíska framtíð ungra krata nú þegar þeir eru farnir að líta allaballa hýru auga. Óþekktur frétta- skýrandi, sem lagt hefur ómælda vinnu í að skýra pólit- íska atburði út frá geðsveiflum 2 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN krataforingja, hefur hins veg- ar gaukað þeim möguleika að okkur að skýringin sé ef til vill sú að Jón Baldvin hafi verið orðinn hræddur um að Bryn- dísi langaði að fara með ung- viðinu í sukkið, en það gæti Jón ekki sætt sig við þrauta- laust. Hvort sem þetta er satt eða logið, munu þær vera fáar sumarferðirnar sem hafa fengið eins góða auglýsingu á frétta- og leiðarasíðum dag- blaða. Er nú búist við fjöl- menni í þessa ferð. ■ Sendur til baka Það kom mjög á óvart þegar Hvala-Dóri kom heim úr för sinni vestur um haf án þess að eyða mörgum orðum á bandaríska ráðamenn um framtíö hvalveiða íslendinga. Þótti mörgum sem för þessi hafi verið heldur snautleg. Þá varð þessi limra til hér á rit- stjórn Þjóðviljans: Þegar til átti að taka, þá talaði Dóri án raka: „Þú ert aumari en Denni, þér ég alls ekki nenni, “ sagði Reagan og send'ann til baka. ■ Óhlutdrægni Það vakti athygli manna í síð- asta helgarblaði Þjv., að út- varpsráð var sagt hafa sakað fréttastofu sjónvarps um óhlutdrægni og æsifrétta- mennsku. Haft var eftir Páli Magnússyni varafréttastjóra: „í gagnrýni útvarpsráðs ertal- að um að spurningar frétta- manns hafi verið of ágenga- þannig að þær hafi nálgast óhlutdrægni." Önnur eins á- sökun hefur víst sjaldan verið borin fram. ■ ( Hafnarpóstinum, blaði (s- lendinga í Kaupmannahöfn, rákumst við á þessa íslensku landkynningarmynd, tekna í bjóði sem Utflutningsmiðstöð iðnaðarins, Sölustofnun lag- metis og sendiráðið í Kaup- mannahöfn héldu um daginn á veitingastaðnum Nimb þar í borg, og var veislan kölluð „Fredag pá vulkaner". Brosið á Hóff er frekar stirt af ein- hverjum ástæðum. ■ Sunnudagur 10. ágúst 1986

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.