Þjóðviljinn - 10.08.1986, Blaðsíða 11
Laufey Jakobsdóttiríviðtali við Þjóðviljann um unglinga
götunnar, lögregluna, kvennaathvarfið og fleira
„Ætli nokkur heyri
þó æpi lítil dama?
er einhver sem heyrir
þó æpi litla daman?
Já, allt í einu birtist
bjargvætturin Laufey
blásvört í framan"
Flestir kannast viö þessar línur
sem meistari Megas gerði frægar
á sínum tíma í laginu um „Krókó-
dílamanninn" - sem „komst
undan á flótta/ kellingin fann
hann loks á útidyratröppunum/
lamaðan af ótta.“
Og bjargvætturinn Laufey var
reyndar orðin fræg áður en þetta
lag fór að heyrast um allt land, og
þá sérstakiega á meðal ungling-
anna í Reykjavíkurborg sem áttu
hvergi höfði sínu að að halla
nema í skúrnum hennar við
Grjótagötu 6. „Hún var amma
okkar allra“ sagði ung stúlka,
sem fór reglulega á hverri helgi á
Planið, við blaðamann. „Við bár-
um mikla virðingu fyrir
Laufeyju, hún var svo góða við
alla og hjá henni gengu allir vel
um, hversu drukknir sem þeir
annars voru“ sagði annar fastag-
estur á Planinu, strákur um tví-
tugt núna.
„Einhvers staðar
urðu börnin
að vera“
En svo var skúrinn við Grjóta-
götu rifinn og upp eru komnar
félagsmiðstöðvar um allan bæ
sem ásamt Rauða Krossinum
sinna því starfi sem Laufey Jak-
obsdóttir hafði ein með höndum
áður.
En hún vinnur þó enn með
unglingum, í þetta sinn við að
hafa umsjón með klósettunum í
Hljómskálagarðinum þar sem
unglingarnir keppast nú við að
planta blómum og reyta arfa.
Þangað heimsóttum við hana
einn sólskinsblíðan morgun í vik-
unni og Laufey samþykkti að
spjalla svolítið við okkur um starf
sitt með unglingum og skoðanir
sínar á þeirra málum og öðrum.
Því Laufey fylgist vel með öllu þó
hún sé komin yfir sjötugt og hefur
ákveðnar skoðanir á öllu er við-
kemur mannlegu samfélagi. En
við byrjum á því að rifja upp árin
sem hún var á Planinu og hvernig
stóð á því að hún tók að reka þar
„hreinlætis- og huggunarað-
stöðu“ fyrir unglinga götunnar.
„Ég tók svo vel eftir því þegar
ég var að vinna á klósettunum á
Hlemmi að þessir krakkar gátu
ekki farið neitt ef þau vildu
skemmta sér og það fannst mér
skömm“ segir Laufey. „Og það
var líka hræðilegt að sjá vesaling-
ana sem komu á Hlemm, og mað-
ur var auðvitað skammaður fyrir
að henda þeim ekki út, rónunum.
Svo báðu þeir mann að hringja í
lögregluna þegar við lokuðum til
þess að þeir gætu fengið húsa-
skjól yfir nóttina, vesalings
mennirnir.
Það var gömul kona sem átti
þennan skúr við Grjótagötuna og
þegar hún hætti þá sótti ég fast að
fá að vera þarna til þess að hjálpa
krökkunum á Planinu. Það tók
langan tíma en loks fékk ég hann
með því skilyrði að ég borgaði allt
sjálf fyrir utan leigu og rafmagn.
Þetta var 9 fermetra skúr og
þarna var ég í þrjú eða fjögur ár.
Þá var hann rifinn fyrir mér svo
að ég varð að taka við krökkun-
um heima hjá mér, einhvers stað-
ar urðu þau að vera, börnin. Og
ég vil að það komi fram að þó að
ég lánaði þessum krökkum oft
peninga þá hefur allt skilað sér
aftur, hver einasta króna. Þau
eru ennþá að koma til mín með
einhverja aura sem ég hef lánað
þeim fyrir leigubíl fyrir löngu og
það er meira en nokkur fullorð-
inn myndi gera.
„Sá oft Ijóta hluti
til lögreglunnar"
En þau voru auðvitað misjöfn,
það er einsog með annan gróður
jarðar. Það fer allt eftir því
hvernig jarðvegurinn er og
hvernig er hlynnt að þeim. Ég
minnist þess að eitt sinn kom til
mín drengur gangandi alla leið
ofan úr Breiðholtinu klukkan 4
að nóttu því honum hafði verið
hent út heima hjá sér og gat
hvergi annars staðar bankað upp
á. Ég spurði hann því í ósköpun-
um hann hefði ekki bankað upp á
einhvers staðar á leiðinni en hann
sagðist ekki hafa þorað það. Ég
var hætt að hringja í sumt fólk til
að biðja það að ná í börnin sín því
þegar það kom þá var einsog væri
verið að sækja einhverjar skítat-
uskur sem hefðu fokið af snúru.
Og svo var byrjað að berja á þeim
um leið og komið var inn fyrir
þröskuld heimilisins.
En aðrir voru mér mjög þakk-
látir, það var misjafnt einsog
gengur. Og ég sá oft ljóta hluti til
lögreglunnar á þessum tíma, ég
gleymi aldrei nóttinni þegar Stóri
slagur var. Það er ógeðslegasta
nótt sem ég hef nokkurn tíma
lifað. Ég hafði farið heim í pásu
og var að horfa á þýsku sjón-
varpsmyndina sem sagði frá því
þegar nasistar smöluðu saklausu
fólki í bíla til að flytja það burt og
konur og börn kveinuðu og
grétu. Ég nefni þessa mynd því í
sama augnablikinu og ég er að
horfa á þessa hræðilegu hluti í
sjónvarpinu þá koma til mín
krakkar dauðhræddir og segja
mér frá því að löggan sé á Planinu
og sé að troða öllum hópnum inn
í bílana sína fyrir að rífa upp blóm
á Austurvelli. Ég fór strax niður á
Plan og þá hafði borgin kallað út
allt lögregluliðið, það var fullur
miðbærinn. Hljóðin og lætin voru
alveg hræðileg. Og það vissu það
allir að krakkarnir höfðu alls ekki
rifið upp þessi blóm, heldur var
það maður sem hafði verið hent
út af Borginni. Þeir í lögreglunni
viðurkenndu það fyrir mér seinna
að þeir vissu það en svo sögðu
þeir „við erum ekki hér á eigin
vegum, þetta er bara okkar
starf“. Og þannig er það alltaf,
krökkunum er kennt um allt.
„Krókódílamennirnir
eru enn á vappi“
En þessir krakkar skemmdu
aldrei neitt hjá mér. Ef eitthvað
brotnaði eða fór á gólfið hjá þeim
þá var það strax þrifið upp.
Svo voru það þessir óþverrar
sem eltu stelpurnar, aldrei fékkst
lögreglan til þess að taka þá þó ég
hefði skrifað niður hjá mér núm-
erin á bílunum og stelpurnar gætu
þekkt þessa menn aftur. En nú
eru komnar félagsmiðstöðvar og
þangað geta krakkarnir farið,
sem betur fer.“
- Það hafa væntanlega verið
þeir „Krókódílamenn“ sem
Megas söng um á sínum tíma?
„Já,“ og nú hlær Laufey hálf
feimnislega. „Hann vissi mikið
um hvernig þetta var. Maður
hljóp út ef maður vissi að
eitthvað var að gerast. Tvisvar
tókst mér að stöðva menn sem
voru að draga drukknar stelpur
inn í bflana hjá sér. Þetta voru
óþverra menn og ég tók niður
númerin á bflunum þeirra, þetta
voru oft sömu mennirnir, á aldr-
inum 50-60 ára. Þeir voru aldrei
teknir og ég veit um atvik þegar
ein telpa var tekin inn í bfl af
þremur mönnum en sem betur
fer, þá missti hún fljótt meðvit-
undina. Hún raknaði við í Hljóm-
skálagarðinum þar sem þeir
höfðu hent henni út úr bflnum og
hún þorði ekki að segja til
þeirra.“ Laufey verður þung á
brún þegar hún rifjar þetta upp
og þegir dálitla stund áður en hún
tekur til máls aftur: „Ég er
sannfærð um að þessum mönnum
á eftir að hefnast fyrir þetta ein-
hvern veginn. En nú fylgist ég
ekki lengur með þeim og þessir
„Krókódflamenn“ eru örugglega
ennþá á vappi.“
„Þau komu og gáfu
mér rósir"
- Varstu kauplaus allan þenn-
an tíma sem þú vannst við Plan-
ið?
„Nei, ég vann í Bankastrætinu
líka, á klósettunum þar, og svo
fór ég að fá eitthvert kaup fyrir að
vera á Planinu. Ég álít að það hafi
verið mest fyrir þrýsting frá blöð-
unum sem fóru að skrifa um þetta
og ég var á launum í tvö ár að mig
minnir. Ég hef unnið á öllum al-
menningsklósettunum í borginni
og þetta eru hræðilegir staðir. Á
Núllinu var til dæmis eitt sinn á
vakt ung ófrísk stúlka og þá ætl-
uðu einhverjir menn að brjóta
upp hurðina en henni rétt tókst
að hringja á lögregluna í tæka tíð.
En ég hef engan síma hér í
Hljómskálagarðinum og mér er
ekki alltaf rótt þegar útigangs-
mennirnir koma hingað á kvöldin
þegar garðurinn er hljóðnaður.
Ég bað þá hjá borginni að útvega
10 SÍÐA — ÞJÓÐVILJINN Sunnudagur 10. ágúst 1986
Laufey Jakobsdóttir: „Tvisvar tókst mér að stöðva menn sem voru að draga drukknar stelpur inn í
bílana hjá sér. Þetta eru óþverrar, þessir menn og þeim á áreiðanlega eftir að hefnast fyrir einhvern
tímann ..."
mér kalltæki eða eitthvað slíkt en
þeir sögðu að það væri of dýrt,
þeir verða að spara svo mikið,
þessir menn.
En ég hef vináttu þessara
krakka sem ég var að vinna með á
Planinu og það er mikilvægast
finnst mér. I fyrra komu til mín
nokkrir krakkar með stúdents-
húfur á kollunum og gáfu mér
rósir. Þau höfðu verið hjá mér á
Planinu og hagað sér illa stundum
þar, en svona getur nú ræst úr
þeim. En svo hittir maður aðra
sem vitað er að verður aldrei
bjargað, þeim er hent á milli lög-
reglu og fíkniefnasala. Ég man
eftir því að það var þarna líka
hópur krakka sem við kölluðum
„Hjálparkokkana" og mörg
þeirra snertu hvorki vín né tóbak.
Þau hjálpuðu hinum krökkunum
einsog þau gátu, komu þeim
undan lögreglunni og hjálpuðu
þeim oft heim. Maður á líka
margar skemmtilegar minningar
frá þessum tíma, og einsog ég
sagði þá er það að hafa vináttu
þessara krakka mikilvægast. Um
daginn var ég niðri í Austurstræti
og ætlaði að kaupa mér eitthvað
með kaffinu og þegar ég ætlaði að
borga þá sagði stúlkan bara:
„Nei, Amma, þú mátt bara eiga
þetta!"
Og nú er ástandið miklu betra
með tilkomu Rauða Krossins,
þar er duglegt fólk og það vinnur
gott starf með krökkunum. Þau
eru líka dugleg sj álf og hafa unnið
allt innan húss þar sjálf með
starfsfólkinu.“
„Krakkarnir í
unglingavinnunni
eru harðduglegir"
Og hvemig líkar henni nú að
starfa með krökkunum í ungling-
avinnunni, eru þau að slæpast ali-
an daginn einsog segir í lesenda-
bréfum dagblaðanna? Laufey
harðneitar því og er tíðrætt um
dugnaðinn í krökkunum. Hún
reiðist þegar hún talar um blaða-
skrifin:
„Þetta er ljótur áróður sem er
rekinn gagnvart þessum
krökkum. Hvar væru garðarnir
okkar núna ef ekki væri fyrir
þau? Það er haugalýgi að þau
vinni ekki, það sjá það allir sem
vilja sjá það.
Hvaða fullorðin manneskja
myndi endast til að reyta arfa all-
an daginn fyrir skít og ekki neitt í
kaup? En svona er nú þetta alltaf
gagnvart unglingum og okkur
gamla fólkinu. Við erum bara
byrði á þjóðfélaginu. Ég fæ
10.000 krónur í ellilaun og þá er
tekið af mér 4000 á mánuði af því
ég er að vinna hérna í þrjá mán-
uði yfir sumarið. Og svo á ég að
borga 4.500 krónur mánuði í of-
análag. Og að þeir skuli vera að
klípa skatt af launum þessara
krakka í unglingavinnunni sem
vinna ekki nema rétt blásumarið,
það er hneyksli. Og þó ég sé nú
Kvennalistakona þá er ég alveg
sammála honum Ossuri um það
að það má alveg reka eitthvað af
þessum æviráðnu yfirmönnum í
kerfinu, þeir vita ekkert hvað það
er að vaða ekki í peningum!
En hér er gott að vinna og í
þessum garði kynnist maður
þverskurðinum af þjóðfélaginu.
Hingað koma margir útlendingar
og maður fær ágætis æfingu í að
tala við þá, það var einn að kenna
mér nýnorsku í gær og það gekk
ágætlega að skilja það mál. Það
er verra með Svisslendinga, ég
veit ekki hvaða hrognamál þeir
babla! Svo koma margir vesal-
ingar til að liggja hér yfir nóttina
en sem betur fer er garðvörður-
inn hér góður maður. Eins eru
krakkarnir heppnir með verk-
stjóra og hjá þeim ríkir góður
andi. Á svona stað koma Iíka oft
leikskólabörn og litlir krakkar og
það er gaman að heyra í þeim
innanum fuglasönginn. Mér
finnst þó verra að þau fari inn á
sömu klósettin og útigangsmenn-
irnir og reyni að þrífa þetta vel
með sótthreinsilegi því það gæti
verið smithætta af þessum
mönnum, maður veit það ekki.“
Við skuldum
forsjóninni
að hjálpa öðrum
Á meðan á viðtalinu hefur
staðið koma gestir til Laufeyjar
sem líta inn í skúrinn til hennar í
ýmsum erindagjörðum. Maður
frá Borginni kemur með
launaumslagið og athugar hvað
vanti af hreinlætisvörum og garð-
vörðurinn kemur til að heilsa upp
á hana. Ung stúlka úr unglinga-
vinnunni kemur í dyrnar til að
láta vita af leka af klósettinu og
Laufey segist hafa beðið um við-
gerðamann sem muni vera á
leiðinni. Allir fá kaffisopa og
kleinu með og ekki gleymir hún
heldur vini sínum þrestinum sem
kemur á hverjum morgni til að
sníkja brauðmola hjá henni.
„Hann kemur um leið og hann
sér mig og syngur svo fallega"
segir Laufey. „Þetta er kannski
sami fuglinn og ég gef brauð
heima hjá mér, þeir eru svo lík-
ir.“
Og þó hún sé átta barna móðir,
eigi 24 barnabörn og 10 lang-
ömmubörn, þá hefur hún samt
tíma til þess að hugsa um aðra og
lætur sér sérstaklega annt um þá
sem eiga um sárt að binda. „Mér
finnst að við sem erum svo hepp-
in að eignast heilbrigð börn
eigum að gera allt sem við getum
fyrir þá sem eru fatlaðir á einn
eða annan hátt“ segir hún. „Við
skuldum forsjóninni það. Þegar
ég var að vinna á Planinu þá
fannst mér svo sorglegt að sjá
hópinn af heyrnarlausu börnun-
um sem gátu ekki tekið þátt í
glensi hinna krakkanna og voru
lokuð í eigin heimi. Ég tók mig þá
til og safnaði undirskriftum í bók
meðal krakkanna um að tekin
yrði upp kennsla í táknmáli í
öllum skólum. Ég fékk góðar
undirtektir við þessu og Sigríður
Dúna tók þetta inn á þing en það
var fellt þar, því þetta þótti of
dýrt að geta talað við
heyrnleysingjana!"
Það má aldrei loka
Kvennaathvarfinu
Aðaláhyggjuefni Laufeyjar
núna er að hennar sögn örlög
Kvennaathvarfsins. „Það má
aldrei loka því og það verður að
koma upp svona athvörfum um
allt land. Hingað suður koma
konur utan af landi og það verður
að gera eitthvað fyrir þær. Svo
verður að koma eitthvert fram-
hald á þessari aðstoð svo að þær
þurfi ekki að fara heim í
barsmíðarnar aftur. Ég held að
ríkið geti gefið einn af þessum
bönkum til þess að hægt sé að búa
þeim gott heimili á meðan þær
koma undir sig fótunum á ný.“
Og nú dregur gamla konan upp
úr pússi sínu greinarkorn sem
hún segist hafa skrifað á meðan
rólegt er hjá henni í skúrnum.
Hún segist ekki hafa sent það í
blöðin ennþá og okkur finnst því
alveg tilvalið að ljúka þessu
spjalli á að birta þessa grein
hennar um Kvennaathvarfið. Tit-
illinn er:
Þarf að loka
Kvenna-
athvarfinu?
og pistillinn hljóðar svo:
„Þarf að loka Kvennaathvarf-
inu? Nei, í guðanna bænum, það
má ekki. Þetta er eina lífsvon
kvenna og barna á stund sorgar-
innar. Konur um allt land: Við
verðum að bindast samtökum og
bjarga málum kynsystra okkar og
barna. Á 200 ára afmæli borgar-
innar er hægt að kasta miljónum í
plastsúlur og aðrar
gerviuppákomur frá borgarinnar
hálfu, en börn og konur eru sett
út á gaddinn.
Hver er það sem borgar brú-
sann? Er það ekki hinn almenni
skattgreiðandi? Eigum við ekki
rétt til að ákveða hvað er gert við
skattinn? Það eru byggðir bankar
og kirkjur til heiðurs Mammoni
og kristinni trú. En konur og
börn eru ekki inn í þeirra dæmi.
Við hljótum að krefjast þess að
þau verði sett í forgangs röð.
Hefði Kristur, sem okkur er
sagt að hafi verið verndari þeirra
sem minna máttu sín, verið borg-
arstjóri í dag, hefði hann látið
það viðgangast að svona hefði
verið haldið á málum? Hefðu
hans mál ekki snúist um allt aðra
málaflokka? Hvernig hugsa þess-
ir menn? Þeir eru fjáðir menn,
geta vaðið í öllum sjóðum sér og
sínum til hagsbóta. íslenska
þjóðin er á barmi gjaldþrots, pól-
itískrar spillingar og verkalýðs-
forystan er ekki lengur til. Hún er
fallin í net peningavaldsins. Vart
mun kristilegt hugarfar ráða
þeirra gjörðum, en lífið er ekki
svona auðvelt. Það kemur að
skuldadögum ráðamanna áður
en yfir lýkur. Sér grefur gröf sem
grefur.
Laufey Jakobsdóttir“
Sunnudagur 10. ágúst 1986 ÞJÓÐVILJINN — SIÐA 11