Þjóðviljinn - 25.01.1987, Síða 10

Þjóðviljinn - 25.01.1987, Síða 10
Ferðabrot Á HAFNA SLÓÐ Jú, þetta hefur heppnast ágætlega. Jón prófessor Helgason: Það er út af fyrir sig list að troða tóbaki í pfpu. Og engan veginn sama hvemig kveikt er f þvf. I I f I < { I Örskotsstund í Árnasafni með Jóni prófessor Helgasyni Hér segir frá því hvernig fund- um okkar Jóns prófessors Helgasonarfrá Rauðsgili bar saman í fyrsta, og raunar líka eina sinn. Að vísu hitti ég hann á blaðamannafundi í Reykjavík nokkrum árum seinna, en þar varaðeins skipst á örf áum orðum enda fleiri um hituna og engin að- staðatil þess að rifja uppfyrri fund. Flugfélögin hafa iðkað það nokkuð um árabil að bjóða blaðamönnum í kynnisferðir út fyrir pollinn. í eina slíka för fór undirritaður, í boði Flugfélags ís- lands, fyrir rúmum 20 árum. Hún var mjög fjölmenn miðað við það, sem slíkar ferðir eru að öllum jafnaði. Að sjálfsögðu voru í hópi hinna hamingjusömu fulltrúar frá Reykjavíkurblöðu- num, alvörublöðunum, eins og þau þykjast vera, Útvarpinu og að auki öllum þeim blöðum, sem þá voru gefin út á landsbyggð- inni. Fátt kvenna var í þessari fylkingu. Ef ég man rétt þá voru þær aðeins tvær. En þess ber þá að gæta, að það var miklum mun fátíðara þá en nú er orðið, að konur ynnu við blaðamennsku. Datt í lukkupottinn Um þetta leyti stóð blaðaút- gáfa á Siglufirði með miklum blóma. Þar voru gefin út hvorki meira né minna en fjögur blöð, þó að útkoma þeirra hafi kannski ekki verið rígskorðuð við ákveðnar dagsetningar. Eitt þessara blaða nefndist Einherji. Ritstjóri hans og eini fasti blaða- maðurinn var Jóhann Þorvalds- son, skólastjóri, ágætlega ritfær og mikill áhugamaður um hvers- konar mannfélagsmál. Jóhanni var að sjálfsögðu boðið í förina en af einhverjum ástæðum gat hann ekki farið. Ég hafði um nokkurt skeið ver- ið Jóhanni innan handar með efni í blaðið og líklega hefur það verið ástæðan til þess að hann hringdi í mig og bauð mér sæti sitt, hvað ég þáði. Þetta var á allan hátt ákaflega ánægjuleg ferð. Var það ekki hvað síst að þakka fararstjóran- um, Sveini Sæmundssyni, þáver- andi blaðafulltrúa Flugfélagsins, sem undirbúið hafði og skipulagt ferðina með mikilli fyrirhyggju og nákvæmni, frá fyrstu mínútu til hinnar síðustu. Auk þess hitti ég þarna menn víðsvegar að af landinu, sem mér þótti fengur að kynnast, þótt þau kynni væru nú auðvitað meir í ætt við augnablik- ið en eilífðina. Fljótt yfir sögu farið Flogið var frá Keflavík með Gullfaxa eldsnemma að morgni dags. Stungið var við fæti í Glas- gow en viðstaðan svo stutt að ekki þótti taka því að fara út úr flugstöðinni. Þvínæst var flogið beint til Kaupmannahafnar. Af flugvellinum var farið á Palace hótelið, sem vera skyldi hinn fasti punktur tilverunnar á meðan dvalið væri í Kaupmannahöfn. Til að byrja með munu ein- hverjir hafa farið út að versla en með því að mig vantaði hvorki rakblöð né tannkrem verslaði ég ekki neitt, en notaði tímann til þess að glöggva mig á herbergja- skipan til þess að eiga auðveldara með að rata á minn bás þegar liði að háttatíma, hvenær sem það yrði nú. Undir kvöldið var farið í boð til sendiherrahjónanna, Gunnars heitins Thoroddsens og frú Völu og síðan á skemmtistaðinn Lorry. Morguninn eftir var ekið um borgina og m.a. staldrað við í húsi Jóns Sigurðssonar. Síðan var efnt til veislu, þar sem sendi- herrahjónin voru heiðursgestir. Af öllu þessu mætti skrifa ítarlega frásögn og það held ég reyndar að ég hefi nú gert og birt í Einherja á sínum tíma. Sú saga verður því ekki frekar rakin hér nú. Þvert úr leið Við upphaf ferðarinnar voru þeir ekki margir í þessum hópi, sem ég kannaðist við. Einn skar sig þó mjög úr að þessu leyti og það var austfirðingurinn, Krist- ján heitinn Ingólfsson, kennari og síðar fræðslustjóri á Austur- landi. Fundum okkar hafði fyrst borið saman í Samtökum her- námsandstæðinga. Seinna hafði hann bækistöð hjá mér á Frosta- stöðum þegar hann ferðaðist um Skagafjörð sem blaðamaður. Nú var það næst á ferðaáætlun- inni að þegið skyldi heimboð í þær frægu Carlsbergsverksmiðj- ur. Og sem við erum staddir í Kaupmannahafnarsólskininu ut- an við hótelið víkur Kristján sér að mér og segist engan áhuga hafa á því að heimsækja Carls- berg gamla. Bjórinn hans sé ágætur en þau kynni af þessu fyr- irtæki nægi sér alveg. Nú hafi hann í hyggju að ferðast nokkuð á eigin spýtur, vilji ég ekki verða með? Jú, það vildi ég svo guðs- feginn, en hver var áætlunin? - Ætli sé ekki tilvalið að spáss- éra upp í Sívalaturn, segir Krist- ján - og svo væri kannski ekki úr vegi að líta inn í Árnasafn. Nú, ef tíminn leyfir eitthvað meira þá getum við tekið það til umræðu -þegar þar að kemur. Þessu næst skunduðum við Kristján á fund Sveins fararstjóra og spurðum hvernig honum litist á þessa áætlun. - Ágætlega, sagði Sveinn, - þið þurfið bara að vera komnir hing- að í hótelið á ákveðnum tíma, sem hann nánar tiltók, - því það er ekki gott til afspurnar fyrir Kaupmannahafnarbúa ef blaða- menn týnast hér, og gangi ykkur vel. Og með það löbbuðum við Kristján af stað til að leita að Sí- valaturni, sem við vissum að átti að vera einhversstaðar í Kaup- mannahöfn, en öllu lengra náði sú vitneskja ekki. Bankaviðskipti - Áttu nokkra danska peninga, spurði Kristján er við höfðum þrammað stundarkorn eftir hrjúfri og hörslulegri múrsteina- gangstéttinni? - Litla, svaraði ég. - En íslenska? - Líka litla. Og öðru vísi hef ég raunar aldrei getað svarað slíkri spumingu án þess að segja ósatt. - Það er þá líkt á komið með okkur, svaraði Kristján. - Við verðum að byrja á því að finna einhvern banka og fá skipt þessu íslenska aurarusli okkar því við getum hvenær sem er orðið hung- urmorða ef við höfum ekkert nema íslenska peninga. Og skyndilega snaraðist Kristján þvert yfir götuna og hrópaði svo hátt og hressilega, að vegfarend- ur námu staðar og tóku að glápa glottandi á þessa útlendu hávaða- menn: - Komdu strax, hér er banki, rétt eins og hann byggist við því að nú væru síðustu forvöð að losna við þessa íslensku aura áður en enginn þjóðflokkur vildi við þeim líta. Viðskiptin gengu greiðlega en hvergi sáum við Sívalaturn. Varð fangaráð okkar að veifa í leigubíl því okkur leist ekki á þessa tíma- eyðslu, og innan skamms blasti turninn við. Turngangan Danir eru mjög stoltir af Sív- alaturninum sínum og mega vera það. Turninn er rúmlega 38 m hár, stendur við eina af hinum gamalfrægu götum Kaupmanna- hafnar, Köbmagergade, og er í tengslum við Trinitatiskirkjuna, sem Kristján 4. lét hefja byggingu á árið 1637. Skyldi hún vera stúd- entakirkja, háskólabókasafnið á kirkjuloftinu en stjarnfræðistöð í turninum. Byggingameistarinn var hinn konunglegi arkitekt, Hans van Steenwinckel yngri, en konungur er sjálfur talinn hafa mjög haft hönd í bagga um gerð turnsins. Caspar Fincke gerði gluggana á turnþakið en nemandi sjálfs Tyge Brahe, Christian Longomontanus, kom fyrir stjörnurannsóknastöðinni. Var þetta ein af hinum fyrstu, opin- beru stjörnuathugunarstöðvum í heiminum og var notuð, með ýmsum breytingum og endurbót- um að sjálfsögðu, allt til 1861. Byggingu turnsins var lokið árið Pétur mikli fór ríðandi upp í Sívalaturn, keisaraynjan akandi en við Kristján gangandi. 1642 eða 5 árum eftir að hún hófst. Tröppur eru ekki í turninum, heldur fetar maður sig bara upp slátta „brekku". Þessvegiia reyndist líka Pétri mikla, Rússa- keisara, auðvelt að ríða hesti sín- um upp í turninn árið 1716, en náðug keisaraynjan fylgdi á hæla honum akandi í skrautvagni með 6 hestum fyrir. Hefur það án efa verið stórum íburðarmeira ferða- lag en þessi göngutúr okkar Kristjáns á þessar sömu slóðir 250 árum síðar. Þetta fræga mannvirki og út- sýnið þaðan áttum við Kristján nú kost á að skoða, einir af þess- um blaðamannahópi, þótt ýmsir úr honum hafi sjálfsagt séð hann áður, af því að Kristján var nógu frumlegur til að fara sínar eigin leiðir. Leitin að Árnasafni - Og nú er það Árnasafn, sagði Kristján. - Ratarðu þangað? spurði ég. - Nei, en við spyrjum okkur bara til vegar. Það hljóta allir hér að vita hvar Árnasafn er. Sú varð nú samt ekki raunin. Við spurðum hvern þann, sem við mættum. Flestir hristu aðeins kollinn. Aðrir reyndu að gera okkur skiljanlegt á mæltu máli að þeir hefðu enga hugmynd um þetta fyrirbæri, sem við nefndum Árnasafn. Nokkrir litu á okkur með vorkunnlátu vantrúarbrosi og fóru sína leið. Allt í einu varð mér litið yfir götuna og hvað sá ég nú þarna á ferð á gangstéttinni gegnt okkur? Það mundi þó lík- lega aldrei vera kunningi minn og samsýslungi, Jón Margeirsson frá Ögmundarstöðum, og kominn með þetta líka stórmyndarlega alskegg? Jú, ekki bar á öðru. Vegna umferðarinnar komst ég ekki í snarheitum yfir götuna svo ég brá á það ráð, að hrópa í Jón til þess að missa ekki af hon- um. En Kristján, sem gat verið maður langstígur, var horfinn fyrir næsta götuhorn, kom nú æð- andi til baka, hélt að ég hefði orð- ið fyrir árás einhvers óbótamanns og virtist til alls búinn. Jón kann- aðist þegar við mig, ég kynnti hann fyrir Kristjáni og innti hann eftir Árnasafni. Ekki stóð á svari. Og Ámasafn, hvers verustaður virtist ókunnur flestum þeim, sem á ferli voru í þessari götu, reyndist þarna örskammt undan. Jón hefur sennilega grunað að vissara væri að láta ekki við það eitt sitja að vísa okkur til vegar, heldur bauðst hann til þess að fylgja okkur alveg heim að dyrum þessa þráða húss. Þar kvöddum við hann með kærri þökk og tókum þvínæst að prika okkur upp eftir húsinu. Mólið vandast Að því kom, að við vorum staddir í einhverskonar forstofu. Þar sat maður, íbygginn á svip, og hugaði að blöðum, sem hann hafði fyrir framan sig. Ég hafði aldrei áður augum litið Jón próf- essor Helgason, en þekkti þó þegar af myndum, að hann myndi sá maður, sem við stóðum nú frammi fyrir. Kristján, sem bæði sakir líkamsvaxtar og andlegs at- gerfis, var fyrir okkur félögum, bar þegar upp erindið: Við vær- um hingað komnir langa vegu yfir lönd og höf til þess að skoða Árnasafn. En í því að Kristján hafði lokið við að flytja þetta ávarp sá hann bregða fyrir, innan við glerhurð, kunningja sínum og starfsmanni á safninu, Stefáni Karlssyni, og hvarf þegar til fund- ar við hann. Jón horfði á mig um hríð upp undan gleraugunum og sýndist rnér hann allt annað en blíður á svipinn. Hafði ég einhverntíma heyrt að hann ætti það til að vera illhryssingur hinn mesti og bjóst nú við hinu versta. Af Kristjáni vænti ég mér engrar aðstoðar í þessum vanda því hann var horf- inn eitthvað inn í húsið með Stef- áni Karlssyni. Leið mér nú líkt og gömlum og góðum Skagfirðingi, sem eitt sinn lýsti aðstöðu sinni í haustgöngum á Eyvindarstaða- heiði með þessum orðum: „Ég var einn á stóru svæði og enginn næstur mér“. 10 SfÐA — ÞJÓÐVILJINN Sunnudagur 25. janúar 1987 tmmmmmmmammmm■ Jón prófessor tók nú til máls og kvað því fara fiarri að hleypt væri inn fyrir dyr Árnasafns hverjum þeim göngumönnum, sem að garði bæri. Þekkti hann hvorki á okkur haus né sporð, sér sýndist jafnvel að við hefðum bragðað áfengi og væri viðurhlutamikið að veita viðtöku slíkum slöttólf- um, sem við sjálfsagt værum. Úrslltatilraun Þótt mér sýndust örlög okkar Kristjáns þegar ráðin að því leyti sem viðkom Árnasafni fannst mér lítilmannlegt að hverfa frá án þess að gefa frekari skýringar á ferðum okkar. Sagði ég fyrst á okkur lausleg deili og gat þess síðan, að við værum hér á ferð í boði Flugfélags íslands, ásamt fulltrúum frá flestum fjölmiðlum á gamla Fróni. Fátt eitt yrði séð í Höfn á hálfum öðrum degi, en illt þætti okkur Kristjáni það heim komnum að þurfa að játa að við hefðum sniðgengið Árnasafn og því hefðum við sett för þangað á okkar fábreytilegu einka-dag- skrá. Vel mætti vera að glögg- sýnn maður sæi þess merki að við hefðum notið veitulla gestgjafa og höfðinglyndra, þar sem væru þeir Flugfélagsmenn, en þó vær- um við Kristján ekki dýpra sokknir en svo að við hefðum fremur kosið Árnasafn en Carls- bergverksmiðjurnar. Ef það á hinn bóginn væri, af einhverjum ástæðum, sem sjálfsagt væru góð- ar og gildar, ekki hægt að fá að líta þarna inn fyrir dyr, þá væri ekki annað fyrir okkur Kristján að gera en að biðjast afsökunar á ónæðinu og fara. Lauk ég þar með máli mínu og þóttist mjög hafa vandað til ræðugerðarinnar, hver svo sem áhrifin yrðu. Léttir í lofti Meðan ég flutti þessa tölu horfði Jón framhjá mér, óræður á svíp en bak við sjónglerin þóttist ég sjá í augum hans bregða fyrir snöggum glömpum, sem ég vissi þó ógerla hvernig bæri að skilja. Svo stóð hann snöggt á fætur - ég minnist þess ekki að hann segði neitt og opnaði fyrir mér dyrnar inn á safnið. Við vorum komnir inn í Árna- safn, heimkynni Jóns prófessors Helgasonar um langan aldur. Fornhelgar bækur í öllum áttum. Nokkrir menn að vinnu, þögulir eins og sú löngu liðna saga, sem þarna bjó „innan við múrana". Við Kristján spurðum Jón Margs. Og hann leysti ekki að- eins greiðlega úr spurningum okkar heldur sagði okkur einnig ótal margt, sem við höfðum ekk- ert vit á að spyrja um. Þannig reikuðum við í fylgd Jóns frá einni hillunni til annarrar langa hríð. Af tilviljun varð mér litið á úrið. Var virkilega orðið svona áliðið? Jú, reyndar. Tíminn hafði flogið framhjá örar en okkur ór- aði fyrir. Vel hefðum við þegið lengri dvöl með Jóni í þessu must- eri fornra fræða. Fátt eitt varð sjálfsagt séð og um of fátt fræðst á þessum tiltölulega stutta tíma, sem við höfðum ráð á, en þó áreiðanlega ótrúlega mikið. Það áttum við Jóni prófessor Helga- syni að þakka. Og hann gerði það heldur ekki endasleppt við okkur, þessa fá- vísu förumenn utan af Islandi, því hann labbaði með okkur lang- leiðina heim á hótelið, benti okk- ur á hið markverðasta á leiðinni, tengdi allt sögunni og lék við hvern sinn fingur. - Ætíð skal ég róma þessar við- tökur, sagði Kristján, þegar við vorum orðnir einir. - Þakka skyldi, svaraði ég. - Fjandinn hafi þá náunga, sem ekkert eru annað en fleðulætin í byrjun en bresta svo eins og morknir rekadrumbar þegar eitthvað reynir á. Má ég þá held- ur biðja um menn eins og Jón, sem kannski eru nokkuð útsynn- ingslegir í upphafi en svo ekkert nema alúðin og elskulegheitin þegar inn úr skelinni er komið. Heldurðu annars að honum hafi litist illa á okkur til að byrja með? - Það skil ég ekki, svaraði Kristján, - hann hlýtur að vera meiri mannþekkjari en svo. - mhg. Sunnudagur 25. janúar 1987 ÞJÓÐVILJINN - SÍÐA 11

x

Þjóðviljinn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.