Þjóðviljinn - 26.04.1987, Blaðsíða 5

Þjóðviljinn - 26.04.1987, Blaðsíða 5
ÍSAK HARÐARSON Eitt gamaldags gagnóróðursljóð fyrir Himininn Þegar ég kem út er Himinninn þar ennþá. Þolinmóður hefur hann legið framá lappir sínar og beðið mín í alla nótt með rifu á öðru auga (ef ég œtlaði að laumast burt). Nú stekkur hann á fætur, dillar gráu skottinu, hleypur upp um mig allan og sleikir í framan hlýrri skúr. Eins og langt og ég get teygt augað sé ég Himininn yfir mér, gráan eða bláan eftir atvikum. Afi segir mér að afi sinn hafi sagt sér frá sínum afa undir sama Himni löngu áður en borgin reis. Og í gulum ritum segir frá ofsafengnum Talandi Himni við Jörðina einsog ástmey um gullhærðar framtíðir. Að vísu hef ég sjálfur aldrei heyrt Himininn tauta eitt aukatekið orð á íslenska tungu. En á kvöldin ber ég vonir mínar og ótta fyrir hann í skál undir húsvegginn, og ekki bregst það að morguninn eftir er hún tóm fyrir utan eina eða tvær veiðistjörnur sem ég tíni samviskusamur í koddann minn. Ég á erindi í bæinn og ferðast með strœtó, og því verður Himinninn að bíða heima, eða einsog lögmálið skipar: „Fullorðnir 28 kr. Börn 8 kr. Himnar ekki leyfðir í vagninum." En þetta skilur Himinninn ekki og eltir mig kátur og geltandi, uns ég hef sveiað honum sjötíu sinnum sjö sinnum, að hann snýr við dapur og lúpulegur og hverfur milli trjánna - sem er úthugsað trikk! því þegar ég er sestur í vagninn meðal þéttvafðra múmíanna á leið milli grafhýsa, finn ég skyndilega nálægð gamalkunnugs glotts og horfi vantrúaður á Himininn vinka mér blárri loppu niðrum loftgluggann! Nú er ekki í tísku að hafa himin og þykir merki um úrelta tilfinningasemi, en af einhverjum ástæðum get ég ekki fengið mig til að láta svæfa hann. ,Akkurju í óskubbonum losaru ðig ekki við ennan steingervíng?" spyr oft Einhver og ég segi „O geyið! Einu sinni var ég að drukkna hér í víkinni þegar hann greip mig í kjaftinn og synti með mig á land. “ - Þá hristir Einhver höfuðið. „Þú ættir að láda skeppnuna á stobbnun þartilgerða, “ segja Aðrir, og ég hugsa „Og þegar mamma dó kom hann til mín um nóttina og leyfði mér að ata sig allan út í hori. “ Æijá, heimski sóðahiminn! Einn dag berst það boð frá keisaranum að skrásetja skuli alla himna á Stórreykjavíkursvæðinu. Þrátt fyrir hávœrar mótmælaraddir um gangstéttir bíaðar himneskum afurðum, virðist Ijóst að himnar séu loks aftur velkomnir í borginni. En hvernig sem ég reyni þverneitar Himinninn að láta skrá sig; hylur sig gráum bólstrum, gerist neðanjarðarhiminn og hverfur heilu dagana. Og einn morguninn hefur hann ekki hreyft við skálinni; vonir mínar og ótti liggja þar ósnert frá kvöldinu áður. En ég verð þess var að húsið er sokkið í þykkan, límkenndan hjúp nístandi augnaráða. ÞEIR HAFA HIMIN HÖNDUM TEKIÐ! læst inní búri, barið, stúngið, brennt glóandi sígarettum og nauðgað í löngum röðum, loks sprengt hann í tætlur ský fyrir ský, atóm fyrir atóm og gefið út opinbera tilkynningu: „Sjáið hræið! Þetta var þá öll dýrðin - holur innan einsog pappakassi!" En þegar ég kem út er Himinninn þar ennþá. Þolinmóður hefur hann legið framá lappir sínar og beðið mín í alla nótt: Af einhverjum ástæðum getur hann ekki fengið sig til að láta svœfa mig. Sunnudagur 26. apríl 1987 ÞJÓÐVIUINN - SÍÐA 5

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.