Þjóðviljinn - 12.07.1987, Blaðsíða 17

Þjóðviljinn - 12.07.1987, Blaðsíða 17
hressir og kcrtr Guðni Halldórsson, framkvœmda- stjóri Landsmóts Ungmennafélags íslands „Mótsgestir eru þegar orðnir margfalt fleiri en bæjarbúar: Fólk hefur streymt hingað lát- laust siðan mótið var sett. Það eru miklu fleiri komnir en menn bjuggust við á þessum tíma,“ sagði Guðni Halldórsson, fram- kvæmdastjóri Landsmóts Ung- mennafélags Islands, í spjalli við Sunnudagsblaðið í gær. Það eru tvö ár síðan undirbún- ingur mótsins hófst; keppendur eru um tvöþúsund talsins og kostnaður tíu milljónir. Húsvík- ingar hafa keppst við að gera bæ- inn sem allra fallegastan og að auki varið einum þrjátíu milljónum á þessu ári til upp- byggingar fþróttamannvirkja. Landsmótið er þannig ein stærsta samkoma ársins og Húsavík er um þessar mundir í brennidepli. Guðni Halldórsson er nafn vik- unnar að þessu sinni; sem persón- ugervingur þessa glæsilega móts. „Víkingaleikunum var að ljúka og Bretinn Capes hafði sigur. Þessir leikar hafa vakið gífurlega athygli enda mjög skemmti- legir.“ - Hvar var okkar maður, Jón Páll? „Hann var því miður meiddur og gat ekki beitt sér sem skyldi. Hann tók hinsvegar þátt til gam- ans enda er maðurinn óhemju vinsæll. Magnús Ver Magnússon hljóp í skarð hans á síðustu stundu og stóð sig afar vel, sigraði m.a. í síðustu greininni, sem fólst í því að draga 15 tonna bát niður við höfnina.“ - Þetta voru Víkingaleikarnir. Hvað er fleira til dundurs á lands- mótinu? „Það er nú eiginlega allt milli himins og jarðar. íþrótta- greinarnar sem keppt er í eru þrjátíu. Þar fyrir utan eru tón- leikar, böll og allskonar skemmtiatriði." - Hversu margir starfsmenn eru á mótinu? „Þeir eru nú hvorki meira né minna en sex eða sjöhundruð. Það er fólk sem annast keppnina; sér um ræstingu, sölumennsku og þess háttar. Störfin eru upp til hópa unnin í sjálfboðavinnu.“ - Kostnaðurinn er tíu milljónir, hvernig standið þið straum af honum? „Það er nú m.a. með verði á aðgöngumiðum, þótt við reyndum að stilla því mjög í hóf. Þannig kostar ekki nema 1300 fyrir alla þrjá dagana og börn í fylgd með foreldrum fá frítt. Svo öflum við peninga með því að selja öllu þessu fólki mat og ann- að slíkt. Tónleikarnir eru líka drjúgir. í fyrrakvöld var Bubbi Morthens með konsert, í gær- kvöldi Skriðjöklarnir og Greifarnir og í dag erum við með tvö böll og þrjár hljómsveitir." - Hefur mótshaldið gengið vel það sem af er? „Já, mjög svo. Það hafa engin meiriháttar óhöpp orðið, en björgunarsveitir eru í viðbragðs- stöðu, löggæslan hefur verið stór- efld og heimamenn standa bak- vaktir. En það hefur semsagt allt verið í sómanum.“ - Er ekki gman að vera fram- kvæmdastjóri í svona velheppn- uðum gleðskap? „Það er alltaf gaman þegar vel gengur. En ég sé nú minnst af þessu móti sjálfur. Ég vona að landsmótsgestir njóti dagskrár- innar betur en ég, því ég er alveg á kafi í verkefnum.“ - En það er semsagt fjör á Húsavík núna? „Já, svo sannarlega og ég merki ekki annað en að allir séu almennt hressir og kátir." -hj. LEIÐARI Hœttan á kjamorkuslysi Þjóðviljinn hefur undanfarna daga birt greina- flokk eftir Vigfús Geirdal um slys sem hlotist hafa af kjarnorkuvopnum, um kjarnorkubúnað á hafinu umhverfis okkur og þann búnað sem fyrir hendi er í herstöðinni á Keflavíkurflugvelli til að taka á móti kjarnorkuvopnum og beita þeim. í greinum Vigfúsar kemur meðal annars fram að kjarnorkuvopn eru nú alls talin vera um 60 þúsund í heiminum, og afar fjölbreyttrar gerðar, frá bombum sem gjöreyða víðlendum stórborg- um til vígvallarvopna sem gætu rúmast í venju- legri ferðatösku. Af þessum 60 þúsund stykkjum af kjarnorku- vopnum eru rúmlega 13 þúsund í umferð á eða í heimshöfunum, og einn helsti vettvangur kjarn- orkufleyja er á norðanverðu og austanverðu Atlantshafi, hér í kringum okkur. Talið er að á eða í hafsvæðinu fyrir norðan ísland séu að staðaldri 20 til 40 sovéskir kjarn- orkukafbátar auk fjölda herskipa og 7 til 10 bandarískir kjarnorkukafbátar. Sunnan við ís- land, á austanverðu Atlantshafi og á Norðursjó munu að staðaldri vera uppundir 17 sovéskir kjarnorkukafbátar, 10 til 17 bandarískir kafbátar og 3 til 5 kafbátar breskir og franskir auk ann- arra fleyja úr flotum stórveldanna, kjarnorku- væddra og hefðbundinna. Vigfús rekur í greinum sínum fjölmörg dæmi um kjarnorkuslys frá upphafi atómaldar, og hann segir meðal annars frá því að í janúar á þessu ári viðurkenndu talsmenn bandaríska flotans að á síðustu tveimur áratugum hefur 630 sinnum skapast hættuástand eða orðið slys við meðferð kjarnorkuvopna um borð. Það má teijast mesta mildi að íslendingar skuli hafa sloppið nokkurveginn við slíkar hremmingar. Jafnvel minniháttar slys á íslands- miðum gæti kippt undan þjóðinni fótunum efna- hagslega til langs tíma. Sá möguleiki er raunar fyrir hendi að vangá um borð í einhverju kjarn- orkufleyjanna - jafnvel mannleg mistök eins starfsmanns - gæti sett endapunkt aftan við íslandssöguna. Vigfús rekur einnig að hérlendis hafa á síð- ustu árum orðið þeir viðburðir í herstöðinni sem sýna að oft skellur hurð nærri hælum. Fyrir um fjórum árum munaði hársbreidd að kafbáta- leitarvél af Orion-gerð, sem hafði farið útaf áætlaðri leið, lenti í árekstri við farþegaþotu frá Arnarflugi. Orion-vélarnar eru búnar til að bera kjarnorkuvopn, og enginn veit hvort slík vopn er að finna í hverri vél á hverjum tíma. Fyrir tveimur árum voru björgunarsveitir kallaðar í ofboði suður á Völl vegna herflugvélar í nauðum, og lenti þá biluð Orion-vél. Viðhlítandi skýringar á þessum atvikum hafa aldrei verið gefnar, segir Vigfús. Hér eru engar mælingar gerðar á geislavirkni í sjó, og engar tilraunir verið gerðar til að meta líkur á kjarnorkuslysi á sjó í námunda við landið, engar áætlanir til um hvernig bregðast skyldi við slíku atviki. Ljóst er að íslendingar hafa ekki einir og sjálfir bolmagn til að breyta þeim aðstæðum sem hafa komið okkur á hættusvæði kjarnorkuslysa, að ekki sé minnst á kjarnorkuhernað. Hinsvegar geta íslendingar, bæði af sjálfum sér og í sam- vinnu við aðrar þjóðir, dregið úr hættunni á að land og haf verði vettvangur ógnaratburða eins- og þeirra sem lýst er í greinum Vigfúsar. Á síðustu misserum hefur okkur opnast ein leið til þess arna, og hún felst í einarðri sam- vinnu við granna okkar á Norðurlöndum um að stofna í þessum heimshluta svæði þar sem reynt yrði af fremsta megni að tryggja að kjarn- orkuvopn komi hvergi við sögu. Með pólitískum yfirlýsingum, með samningum við kjarnorku- veldin og ekki síst með öflugu eftirliti, sem tryggði að upplýsingar einsog þær sem finna má í greinum Vigfúsar berist norrænum yfir- völdum og almenningi rakleiðis og refjalaust. Það er sorglegt að við þessar aðstæður skuli setjast að völdum í Reykjavík ríkisstjórn sem samkvæmt stefnuyfirlýsingu ætlar sér síður en svo að taka frumkvæði í þessum málum, - ríkis- stjórn sem segist í málefnasamningi sínum ætla að fylgja sömu stefnu og síðasta stjórn gagnvart norrænni samvinnu um kjarnorkuvopnalaust svæði, það er að standa þvert í vegi. Það hefur áður verið bent á að þessi afstaða er óskiljanleg útfrá íslenskum hagsmunum einum saman, og flestir vita að hér eru rekin erindi annarrar ríkis- stjórnar, þeirrar í Washington, sem hvað eftir annað hefur gefið í skyn að hún liti norræna samvinnu í þessum efnum óhýru auga. En þrátt fyrir málefnasamninginn verður því að óreyndu ekki trúað að hinn nýbakaði utan- ríkisráðherra láti sér lynda að lúta skipunum frá Pentagon um þessi mál, og það er rétt að minna Steingrím Hermannsson á það í upphafi ferils síns í stórhýsinu við Hlemmtorg að skoðana- bræður hans í Framsóknarflokkum Noregs, Svíþjóðar, Finnlands og Danmerkur hafa haft allt aðra stefnu í þessum efni en þeir Matthías Á. Mathiesen og Caspar Weinberger. Að ekki sé minnst á meirihluta íslensku þjóðarinnar. -m Sunnudagur 12. júli 1987 ÞJÓÐVILJINN - SÍÐA 17

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.