Þjóðviljinn - 28.02.1988, Blaðsíða 7

Þjóðviljinn - 28.02.1988, Blaðsíða 7
demóninn í okkur öllum Ég er ekki viss um aö Don Giovanni sé svo vondur við konur. Þaöflokkastvarla undir illmennsku að girnast konur, og ég held að það sé afskræming á eignarréttinum að halda því fram að Don Gio- vanni hafi gerst brotlegur með kvennafari sínu. Það má eins vel benda á að Don Giovanni vekur eitthvað í öllum þeim konum sem hann flekar, ein- hverjatilfinningu og erótík sem þær halda eftir þótt hann sé allur á burt. Hann verður áhrifavaldur í lífi þeirra og breytir því. Það sem verður Don Giovanni að falli erekki kvennafarið sem slíkt, heldur það að hann leikur sér með lífið eins og leikfang og stork- ar dauðanum. Og gegn því broti dugar honum enginn jarðneskurdómur, hanntekur sína refsingu út í helvíti. Þannig komst Þórhildur Þor- leifsdóttir að orði í samtali okkar um manngerðina Don Giovanni, en sem kunnugt er leikstýrir hún óperu Mozarts um Don Gio- vanni, sem nú er flutt í íslensku óperunni. Við sátum inni á veitingahúsi eina dagstund í vik- unni, og ég spurði hana hvaða skilning hún legði í manngerðina Don Giovanni og hver væri hlutur hans í lífi okkar: Don Giovanni er frekar tákn en persóna, hann er tákn fyrir eiginleika sem búa innra með okkur og sem okkur er kennt að temja eða beygja. Hann er eins konar náttúrukraftur sem býr í okkur öllum. En alveg eins og við gætum ímyndað okkur að ólíft væri í heiminum ef allir höguðu sér eins og hann, þá sjáum við líka í hendi okkar hversu ömurleg tilveran væri ef hans nyti ekki við. Don Giovanni hefur enga dýpt sem persóna. Hann er fullkom- lega komplexalaus og það eru engir tilfinningahnútar að þvæl- ast fyrir honum. Hann er í raun- inni stikk frí frá því að takast á við mannleg vandamál og lífið er fyrir honum leikfang til þess að leika sér að. Það er gaman að því á meðan það varir. En hann veltir aldrei fyrir sér siðferðilegum vandamálum eða afleiðingum gerða sinna. Mér fannst Kristinn Sigmundsson söngvari komast vel að orði þegar hann líkti Don Giovanni við flóðbylgju: það er ekki hægt að ásaka flóðbylgjuna fyrir það þótt hún skilji allt eftir sig í rúst, fallnar konur og fallin hús. Þetta er einfaldlega hennar eðli sem náttúrukraftur. Og þessi óbældi kraftur heillar okkur vegna þess að við hugsum í aðra röndina: mikið djöfulli væri nú gaman að geta verið svona! Býr Don Giovanni í konunum líka? Eru þetta eiginleikar sem þœr eru líka fæddar með? Ég held að það hljóti að blunda í öllu fólki að vilja hafa hlutina eins og því sjálfu hentar best. Að losna við allar siðferðilegar van- gaveltur um ábyrgð og sam- kennd. Að losna við alla tilfinn- ingahnútana og sektarkenndina. En það er ekki þar með sagt að það sé æskilegt eða eftirsóknar- vert að vera þannig í raun. Eðli Don Giovanni er ekki síður ríkt í konum en körlum að ég held og það birtist í okkur sem ákveðin erótík og egóismi, rétt eins og hjá körlum. Eins og þú veist þá er engin manneskja fullkomin, nema þá kannski nýfætt barnið. En það er um leið fullkominn eg- óisti. Það má segja að Don Gio- vanni sé eins og nýfætt barn að þessu leyti: hann grenjar bara ef hann fær ekki það sem hann vill og hann endar alltaf með því að fá það. Það flokkast ekki undir illmennsku að girnast konur segir Þórhildur Þorleifsdóttir leikstjóri En við getum líka spurt okkur hvers vegna hann sé svona frið- laus, hvers vegna hann geti aldrei unað við neitt eða bundið tryggð við neitt (tryggð er hugtak sem hann skilur ekki). Hann getur varla hafa verið hamingjusamur maður, eða hvað? Því önnur spurning blundar alltaf á bakvið: ja, það skyldi nú aldrei vera? En hvað varðar Don Giovanni-eðlið í okkur konum annars vegar og körlum hins veg- ar, þá má kannski segja að af líf- eðlisfræðilegum ástæðum sé kon- um það nærtækara að þroska með sér umhyggju fyrir lífinu og samkennd, en þessi demón sem býr í Don Giovanni er engu að síður til í okkur öllum. Nú fáum við írauninni ekkert að vita um það íóperunni, hvern innri mann Don Giovanni hefur að geyma. Ekki nema í tónlistinni og erótíkinni sem henni fylgir. Hann er allur í hinni stundlegu munúð. En hann skilur hins vegar eftir sig slóða af viðbrögðum og lætur eng- an ósnortinn. Eigum við þá að lesa persónu hans út úr þeim við- brögðum sem hann vekur hjá öðr- um? Jú, það er mjög eftirtektarvert að sjá hvernig hann vekur mis- munandi viðbrögð hjá konunum þrem-í óperunni: Donnu Önnu, Donnu Elviru og Zerlinu. Og þau kenna okkur ekki hvað síst um eiginleika Don Giovanni sjálfs. Donna Anna er vammlaus yfir- stéttarkona í rammkaþólsku samfélagi á Spáni, þar sem allt framhjáhald jafngildir útskúfun. Engu að síður er hún friðlaus nema hún sé stöðugt að eltast við Don Giovanni eða einhvers stað- ar í námunda við hann. Og þótt hún kalli ákaft á hefnd og heiður ættarinnar vegna þess að Don Gi- ovanni neyddist til þess að drepa föður hennar í einvíginu í upphafi óperunnar, þá finnum við að hún meinar það aldrei fullum huga. Og hún er stöðugt að skjóta brúð- kaupi sínu og Don Ottavio á frest. Við sjáum að Don Gio- vanni hefur vakið með henni ein- hvern þorsta sem Don Ottavio mun aldrei geta slökkt, og þegar hún biður hann enn um ársfrest á brúðkaupinu í óperulokin, þá grunar okkur að hún muni aldrei giftast honum. Donna Anna er kannski verst stödd af konunum þrem í óperulokin: það er búið að kippa henni úr sínu félagslega ör- yggi og óvíst hvort hún muni nokkurn tímann geta sætt sig við sitt hlutskipti sem trú eiginkona Ottavios. Donna Elvira er eina konan í óperunni sem Don Giovanni hef- ur sannanlega komist yfir. Hún á þyngstra harma að hefna og nið- urlæging hennar er mest. En samt er hún friðlaus á eftir Don Gio- vanni, og í lokin, þegar helvíti hefur gleypt hann, þá ákveður hún að ganga í klaustur. Það vek- ur þá spurningu hversu langt sé á milli trúarlegrar og erótískrar á- stríðu. Því að ganga í klaustur hlýtur að fylgja áköf trúarleg ást- ríða, sem er ekki síður sterk en sú sem Don Giovanni vakti með þessum konum. Bóndakonan Zerlina er sú kvennanna þriggja sem best fer út úr viðskiptum sínum við Don Giovanni. Hún ánetjast draumn- um smástund en dettur svo harkalega niður á jörðina aftur. En það sem hún hefur lært af samskiptum sínum við Don Gio- vanni nýtir hún sér síðan í sam- bandi sínu við eiginmanninn og sveitamanninn Masetto. Hún ber til hans einhverja munúðarfulla tilfinningu og um leið einhvern þann klókskap sem gerir það að verkum að við fáum á tilfinning- una að hún muni alla tíð vefja bóndanum Masetto um fingur sér. En Zerlina og Masetto eru þau einu sem átta sig á því hvað er þeim fyrir bestu í leikslok og hverfa til síns hversdagsleika sem er að því leyti bjartari en áður að Zerlina hefur lært að auðga hann með þeirri munúð og erótík sem Don Giovanni kenndi henni. Það má því segja að með öllum þessum konum veki Don Gio- vanni upp kenndir sem verða til þess að breyta lífi þeirra. En þær nýta sér þær misjafnlega vel, þar sem aðalskonan Donna Anna er greinilega verst út leikin. Svo má ekki gleyma þjóninum Leporello. Don Giovanni er yfir- burðamaður gagnvart þessum þjóni sínum og vefur honum um fingur sér. Veikburða viðleitni Leporello til þess að leiðrétta yfirboðara sinn og snúa honum til betri vegar fer öll út um þúfur enda virðist takmörkuð sannfæring liggja þar að baki. Þetta samband herra og þjóns sem kemur fram í óperunni á milli Don Giovanni og Leporello er alþekkt í bókmenntunum (t.d. Don Kikóti og Sanco Pansa), og það á í raun uppruna sinn í Com- media dell'arte. Leporello er alls ekki ómerkileg persóna í mínum augum, ekki frekar en þeir sem búa við kúgun og eru neyddir til að þjóna annarri stétt en þeir til- heyra sjálfir. Er það hræsni að rísa ekki stöðugt upp á móti kúg- ara sínum? Það virðist hins vegar tvíræður léttir fyrir Leporello þegar helvíti hefur gleypt hús- bónda hans og hann heldur á krána í sögulok að leita sér að nýjum húsbónda. Það verður að minnsta kosti leitun að skemmti- legri og ævintýralegri húsbónda en Don Giovanni! En í lokin fær Don Giovanni makleg málagjöld. Voru þau kann- ski ekki makleg? Átti hann betra skilið? Alls staðar þar sem fjallað hef- ur verið um Don Giovanni í bók- menntunum er hann látinn mæta sínum dómi, líka í óperu Moz- arts. En Mozart hafði engu að síður mikla samúð með Don Gio- vanni, það skín út úr tónlistinni. Kannski fann hann til meiri skyldleika við Don Giovanni en títt er. Mozart gekk á skjön við viðtekin hegðunarmynstur í sín- um samtíma og lét oft eigin löngun og ástríðu ráða ferðinni. En í óperunni er það fyrst og fremst sú storkun sem Don Gio- vanni sýnir dauðanum sem verð- ur honum að falli. Steinmaðurinn er tákn dauðans í óperunni, og Don Giovanni heldur að hann geti leikið sér að honum eins og öðru í lífinu. Hann býður honum til kvöldverðar eins og ekkert sé, og hendir gaman að öllu saman. Syndin er fyrst og fremst fólgin í því að leika sér að lífinu og storka dauðanum. Fyrir þá synd dugir enginn jarðneskur áfellisdómur og því fær Don Giovanni að brenna í logum vítis. Þar á hann líka vel heima. Eða hvað? -ólg. Sunnudagur 28. febrúar 1988 ÞJÓÐVILJINN — SÍÐA 7

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.