Þjóðviljinn - 23.04.1988, Blaðsíða 17

Þjóðviljinn - 23.04.1988, Blaðsíða 17
MINNING Guðgeir Magnússon fyrrverandi blaðamaður Fœddur 2. desember 1927 - Dáinn 13. apríl 1988 Gamall félagi og vinur, Guð- geir Magnússon, fyrrverandi blaðamaður Þjóðviljans, er genginn á vit feðra sinna langt um aldur fram. Hann var rétt nýorð- inn sextugur, en búinn að vera öryrki í u.þ.b. hálfan annan ára- tug vegna hjartasjúkdóms, sem ekki tókst að ráða bót á, þrátt fyrir viðleitni utan lands og innan. Mér er Ijúft og skylt að minnast þessa gamla vinar með nokkrum orðum. Guðgeir Magnússon fæddist á Flateyri við Önundarfjörð 2. des- ember 1927, sonur Magnúsar Guðmundssonar, sem þar var kaupfélagsstjóri, og konu hans Jónínu Geirmundsdóttur. Áttu þau hjón ættir að rekja til Austur- lands. Guðgeir sleit barns- skónum á Flateyri til 14 ára aldurs, en fluttist þá með foreldr- um sínum og þremur systkinum til Raufarhafnar, er faðir hans gerðist verksmiðjustjóri hjá Sfld- arverksmiðjum ríkisins. Þegar Guðgeir hafði aldur tii lagði hann á menntabrautina, var einn vetur í Menntaskólanum á Akureyri, en hélt síðan til náms syðra, sett- ist í Verzlunarskólann og lauk þaðan stúdentsprófi vorið 1951. Kynni okkar Guðgeirs hófust í Háskóla íslands haustið 1951, innritaðir í heimspekideild, og gerðumst meðlimir ( Félagi rót- tækra stúdenta. Ekki varð Guð- geir þó mosagróinn á háskóla- bekk, varla verið þar lengur en tvö ár. Þó að námshæfileikar væru fyrir hendi, munu takmörk- uð fjárráð hafa staðið í vegi frek- ara námi, auk þess sem hann að eðli og upplagi var miklu fremur hneigður til virkrar þátttöku á veggvangi þjóðlífsins en að eiga setur yfir misjafnlega skemmti- legum lærdómsskruddum. Guðgeir varð fljótt virkur á hinu pólitíska sviði, bæði meðal róttækra stúdenta innan Há- skólans, svo og utan hans á veg- um stjórnmálasamtaka sósíalista. Átti hann sammerkt í því efni með skólabróður úr Verzlunar- skólanum, Boga Guðmundssyni, sem gerðist forystumaður ungra sósíalista á þessum árum og mikl- ar vonir voru bundnar við. Var það óvenjulegt í meira lagi, að tveir menn af þessu pólitíska sauðahúsi kæmu jafnsnemma úr skóla hinnar íslenzku verzlunarstéttar. Atvikin höguðu því svo, að ég tók sæti í stjórn Félags róttækra stúdenta haustið 1952 ásamt þessum tveimur fóstbræðrum úr Verzlunar- skólanum, undir forystu Boga. Bogi Guðmundsson sem lézt rúmlega þrítugur, - öllum harm- dauði, sem þekktu hann, - og Guðgeir voru traustir og skemmtilegir félagar, sem gott var að eiga samneyti við, ekki að- eins í pólitísku starfi heldur jafn- framt á gleðistundum. Ég minnist þeirra beggja með eftirsjá. Á sumrum dvaldist Guðgeir heima á Raufarhöfn hjá móður sinni (faðir hans lézt 1947) og stóð m.a. fyrir verzlun í hennar nafni. Einnig vann hann í síldar- verksmiðjunni, en eins og kunn- ugt er sköpuðu sfldveiðarnar fjörugt athafnalíf þar nyrðra á ár- unum um og eftir 1950. Á þessum árum ritstýrði Guðgeir um hríð veggblaðinu „Verksmiðjukarlin- um", sem Einar Bragi skáld mun hafa verið upphafsmaður að. Þar skyldi stæla verkalýð til átaka í stéttabaráttunni, - til baráttu fyrir rétti sínum undir merkjum sósíalismans. Eftir að Guðgeir Magnússon fluttist alfarið suður, gegndi hann ýmsum tilfallandi störfum. Eftir- minnilegust mun framganga hans í sambandi við störf á Keflavíkur- flugvelli 1953-54, þegar hersetan var orðin að raunveruleika að nýju og íslenzku vinnuafli beint í stórum stíl á völlinn. Guðgeir var einn þeirra, sem þangað fóru í atvinnuleit, eins og svo margir stúdentar á þeim tíma, þegar atvinnuleysi lá í landi. Þó varð vera hans þar með sérstæðum hætti. Herstjórnin og íslenzkir handlangarar töldu fljótlega ein- sýnt, að þessi róttæki stúdent væri stórhættulegur agent, sem ekki væri ráðlegt að hafa valsandi innan vallar. En það var sama hvað gert var í því skyni að reka hann burt úr starfi, hann skaut jafnharðan upp kollinum á veg- um ýmissa innlendra aðila á vell- inum. Þessa ögrun þoldi her- stjórnin illa, og lét hengja upp plakat á ensku með mynd af Guð- geir, einsog um eftirlýstan glæpa- mann væri að ræða, og var þar varað við svo hættulegum manni! Fremur en annað kaus Guðgeir „ævintýrið á yztu nöf', eins og sameiginlegur vinur okkar, Kjartan Ólafsson, orðaði það í grein um Guðgeir sextugan. Það voru orð að sönnu, enda naut Guðgeir þess að geta skapraunað vallarmönnum með svo eftir- minnilegum hætti. Hinn sann- færði sósíalisti og andstæðingur erlendrar hersetu gat á þennan hátt hlotið nokkra uppreisn fyrir þá auðmýkingu, sem hann taldi íslenzka alþýðu verða fyrir, er henni var beint til vinnu við að byggja upp bandaríska herstöð á íslenzkri grund. Ævistarf Guðgeirs Magnús- sonar var löngum eftir þetta tengt Þjóðviljanum. Hann gerðist um hríð auglýsingastjóri blaðsins, en síðan almennur blaðamaður. Skrifaði hann að sjálfsögðu margt sem til féll í Þjóðviljann á þeim hálfum öðrum áratug, sem hann var þar starfandi, en eink- um eru minnisstæð viðtöl hans við ýmsa menn, auk greina, sem hann ritaði með sínum persómi- lega stíl og báru vott um góða blaðamannshæfileika, enda hafði hann ágæta frásagnargáfu. Hjartasjúkdómur leiddi til þess að Guðgeir varð að fara til uppskurðar erlendis, og þrátt fyrir að hann næði bata um sinn, snerust mál þó á verri veg, heilsan var farin og hann varð óvinnufær og öryrki hálffimm- tugur. í 15 ár mátti þessi lífsglaði drengur þola vaxandi heilsubrest og lifa skuggatilveru. Það hefur verið sárt vinum hans að horfa upp á þessi þungbæru örlög og fá ekkert að gert. Kona hans, Her- dís Kolbrún Jónsdóttir, hefur verið honum stoð og stytta í þess- um veikindum. Guðgeir lézt hinn 13. apríl sl. á Vífilsstöðum, þar sem hann hafði dvalizt um tveggja ára skeið. Á stúdentsárum okkar Guð- geirs markaðist hin pólitíska bar- átta mjög af heilagri reiði okkar yfir bandarískri hersetu á íslandi á friðartímum, og skrif um þau mál drógu dám sinn af því hugar- ástandi. Meðan ég og fleiri rituð- um oft í talsverðum trúboðsstfl um pólitíkina, - þar sem her- námsmálið var löngum undir- tónninn, - sannfærðir um óhjá- kvæmilega, sögulega þróun í átt til framtíðarríkis sósíalismans og þar með réttlætis og frelsis, - bjó Guðgeir félagi okkar yfir meira jafnvægi hugans og ritaði af hóg- værð grein á sögulegum grunni um íslenzka stúdenta í Kaup- mannahöfn á öldinni sem leið, er áttu að vera okkur fyrirmyndin. Mig langar að vitna í kafla úr þeirri grein til að sýna hvaða tón hinn látni vinur okkar gat slegið: ,Á nítjándu öld var Kaup- mannahófn ein af miðstöðvum evrópskrar menningar. Þessi aldna borg við Eyrarsundfór ekki á mis við franskar byltingahug- sjónir. - Þegar borgarastéttin víð- svegar um álfuna bylti afsér klafa konunglegra einvalda. - Það voru átök. Það var hiti í andrúmsloft- inu. Nýjar hugmyndir ruddu sér rúm. Gamalt skipulag flosnaði upp. Einn af safaríkustu þáttum ís- lenzkrar sögu gerist um þessar mundir. - Það er söguleg spenna í atburðarásinni. - Fámenn ný- lenda brýtur sér braut til sjálfstœð- is síns. Þar ríða íslenzkir stúdent- ar í Höfn fremstir landa sinna. Maður þreytist seint að lesa um þessafátœku sveitapilta, sem berj- ast gegnum latínuskólann, soltnir ogfatalausir, þvingaðir afdanskri skoðanakúgun nýlendubúans. Hinsvegar eru þeir uppfullir af þrjósku landa sinna í erfiðum lífsskilyrðum. — Með hugboð um dýrmœta menningararfleifð, sem réttlœtir tilveru þjóðar þeirra. Þeir sigla til Hafnar. Leggja stund á háskólanám. - En menntunarþrá þeirra leitar oft út fyrir náms- bækurnar. Það er eitt af œvintýrunum í ís- lenzkri sögu að sjá beygðan upp- reisnaranda þeirra blossa upp í róttækni samtíðar sinnar gegn ríkjandi valdi. - Þeir eru tengdir fátcekum löndum sínum heima. Þeir vilja bæta lífsháttu þeirra. .- Þeir dá landið sitt. - Þeir elska og hata. - Þeir dýrka eld og jökla. - Það er hiti og harka í máli þeirra og þeir yrkja og skrifa á dýrustu tungu jarðarinnar. Það er ekki undarlegt, þó að margir Hafnar- stúdentar eigi óskipta virðingu okkar og endurminningin um þá sveipist hlýjum Ijóma. Einnþeirra skrifar þannig heim til landa sinna: „Látum oss ímynda oss, að vér verðum fyrir árásum út- lendrar þjóðar og hún taki sér nokkra staði í landinu og byggi þar um sig meir og meir; ættum vér þá að horfa á meðan hún væri að því og sitja aðgerðar- lausir?" Þannig skrifaði Jón Sigurðsson í hita baráttu sinnar. Stúdentar í dag mœttu gjarnan íhuga með meiri gaumgæfni þá arfleifð í bókmenntum og sögu, sem fyrirrennarar þeirra í Höfn áttu svo drjúgan þátt í að skapa, þegar sjálfstæðisbaráttan stóð sem hæst við Dani. - Við hefðum kannske samúðarríkari skilning með stúdentum nýlenduþjóð- anna. Við getum einnig lært af við- brögðum þeirra, þegar við horf- um á erlendan her í landi okkar, sem þrúgar lífskjór þjóðarinnar og misbýður sjálfstæði hennar á alla lund." (Nýja stúdentablaðið, okt. 1952) Maðurinn og félaginn Guðgeir Magnússon verður mér einlægt minnistæður frá okkar ungu dögum. Yfirbragð hans, fram- koma og málflutningur einkenndist af sérstæðum og per- sónulegum svip. Hann var hár vexti, með reisn í fasi, oft blandna stóískri ró, og ræða hans hafði í sér fólginn heimspeki- legan tón. Allt þetta gerði mann- inn einkar sérstæðan persónu- leika í augum okkar vina hans. Fyrir allar ánægjulegu samver- ustundirnar með Guðgeiri í bar- áttu og leik erum við gamlir fé- lagar hans allt frá háskólaárunum þakklátir. Mynd hans frá þeim dögum þegar hann var heill og allt lék í lyndi, mun fylgja okkur. Við sendum Herdísi, eftirlif- andi eiginkonu Guðgeirs, sonum þeirra, svo og systkinum hans, innilegar samúðarkveðjur. Við kveðjum gamlan vin okkar hinztu kveðju og blessum minn- ingu hans. Einar Laxness Guðgeir föðurbróðir minn er farinn á fund feðranna. Ég mun minnast hans. Ekki endilega vegna frændskaparins né náinna kynna og tíðra funda meðan leiðir okkar lágu saman. Miklu fremur vegna þess, að tilvera hans hefur Ieitt mér eitt og annað fyrir sjónir. Meðal annars það, hvers virði það getur verið að hafa hugsjónir og málstað, sem efnivið í rökræður um það sem mestu máli skiptir: mannlífið sjálft, samfélagið og umhverfið. f uppvextinum átti ég frænda í fjarskanum sem virkjaði starfsk- rafta sína í þágu alþýðufólks sem blaðamaður á Þjóðviljanum. Með trú á málstað. Hann var víðs fjarri, en um leið nálægur í frétt- aflutningi, greinum og viðtölum við fólk á síðum Þjóðviljans. En starfsferill hans varð styttri en margra annarra. Guðgeir fæddist á Flateyri við Önundarfjörð. Foreldrar hans, afi minn og amma, voru Magnús Guðmundsson, kaupfélagsstjóri frá Sleðbrjótsseli í Jökulsárhlíð á Fljótdalshéraði, og Jónína Geir- mundsdóttir frá Hóli í Hjalta- staðaþinghá, einnig á Héraði. Á báðum þessum bæjum var ég í sveit sem drengur og kynntist gildi vinnunnar í gegnsærri veröld búskaparins. Guðgeir ólst upp hjá afa og ömmu, er sagður hafa verið bráðþroska, orðvís og snemma læs af eigin rammleik. Pabbi segir hann hafa verið grúskara í uppvextinum, hafa meðal annars fengist við að safna plöntum og þurrka og safna frím- erkjum. Guðgeir fluttist með afa og ömmu til Raufarhafnar árið 1942, þar sem afi gerðist verk- smiðjustjóri í Síldarverksmiðju ríkisins. Afi veiktist alvarlega þremur árum síðar og dó 1947, sex árum áður en ég fæddist. Guðgeir var elstur fjögurra systkina og lenti í forsjá fjölskyld- unnar þar af leiðandi að nokkru á hans herðum. Guðgeir stundaði nám við Menntaskólann á Akureyri, en haustið 1946 settist hann í annan bekk Verslunarskóla fslands og lauk stúdentsprófi þaðan 1951. Að því loknu innritaðist hann í Heimspekideild Háskóla íslands og lagði stund á sögu, bók- menntir og íslensku, en hvarf frá námi eftir tvö ár. Hann réðst til starfa á Þjóðviljanum 1954. Fyrst sem auglýsingastjóri, en síðar sem blaðamaður. Þar starfaði hann óslitið til ársins 1973 er veikindi bundu enda á starfsferil hans fyrir fullt og allt. Hann þótti ritfær í besta lagi. í heil fimmtán ár var hann ör- yrki, dvaldi lengst af á heimili sínu, en oft á sjúkrahúsum eða stofnunum, yfirleitt í góðu yfir- Iæti. Ég býst við því að unnt sé að aðlagast slíkri tilveru og lifa við þau skilyrði sem langvinn veikindi búa manni. Guðgeir var oftast sæmilega kátur þá sjaldan við hittumst á síðustu árum. Hann fylgdist ágætlega með þjóðmálum kvað upp sína dóma um menn og málefni. Það háði honum nokkuð að geta ekki lesið sér til gagns vegna sjóntruflana sem fylgdu í kjölfar krank- leikans. Síðustu tvö ár dvaldi hann á hjúkrunardeild Vífils- staðaspítala. Við leiðarlok vil ég fyrir hönd aðstandenda færa læknum og hjúkrunarfólki á Víf- ilsstöðum innilegar þakkir fyrir að annast Guðgeir í langvinnum veikindum. Sú umönnun vekur trú á að tilvera og líðan fólks sem á við langvinn veikindi að stríða, líkt og Guðgeir, geti verið bæri- fleg þrátt fyrir allt. Jóhann Hauksson Það er stutt síðan við vorum að halda upp á sextugsafmæli Guð- geirs. Ég man að það var góð stund með gömlum félögum og fjölskyldu Guðgeirs, og þó blönduð því óumflýjanlega samviskubiti sem hlýtur að grípa okkur sem heilbrigð erum gagnvart þeim sem ekki gengur heill til skógar og hefur sú ganga verið löng og erfið. En Guðgeir bar sig vel og það var ekki lítið eftir í augunum af þeim gáskaglampa sem hann mætti með uppákomum heimsins í þá „gömlu daga" sem við erum vön að telja nokkuð góða í minn- ingunni. Við vorum báðir orðnir það sem Sverrir Kristjánsson kallaði „gamlir hundar á blað- inu" - Guðgeir var á fleti fyrir þegar ég kom að Þjóðviljanum fyrir aldarfjórðungi rúmum. Þetta voru örvandi tímar en nátt- úrlega hábölvaðir tímar um leið, það var mikil uppdráttarsýki í flokksa, engin vinstrisveifla í grennd, öngvir peningar heldur til að gefa út blað og borga laun. Guðgeir var þá á hálfgerðum Úríapósti - hann hafði þann starfa að porra upp mann- skapinn, fá elskulega félaga okk- ar til að opna budduna og kaupa miða í happdrætti Þjóðviljans. Og þetta gerði hann af góðum húmor og útsjónarsemi, bjó þá til úr einum happdrættisvinning- num - sem var hestur - einhvern táknrænan og stórskáldlegan byltingargæðing sem beit og sló og geystist áfram og ögraði daufum sálum til að brýna samvi- skuna og sýna lit. Það voru þessi einkenni - gam- ansemi og frumleg útsjónarsemi - sem gerðu Guðgeir að afar skemmtilegum vinnufélaga. Og um leið gerðu þessir góðu kostir hann að þeim óvenjulega fjöl- miðlamanni sem ekki hjakkar í einhverju almennu fréttafari ár eftir ár, þar sem síldarvertíð, páskahret og vinnudeilur reka hvert annað hring eftir hring. Guðgeir vissi náttúrlega vel af þessari hringrás en hann var ekki þræll hennar, hann gat alltaf séð, jafnvel í smæstu málum, ein- hverjar undursamlegar og stór- furðulegar lykkjur sem framvind- an í samfélaginu leggur á leið sína okkur til skemmtunar - um leið og til þess verður ætlast að við drögum af öllu saman einhvern pólitískan lærdóm eða lífsvisku - annaðhvort væri nú. Við gamlir samstarfsmenn Guðgeirs sendum konu hans og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur við fráfall góðs drengs og eftirminni- legs, sem við áttum alltof skamma samfylgd með. Árni Bergmann Laugardagur 23. apríl 1988 ÞJÓÐVILJINN - SÍDA 17

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.