Þjóðviljinn - 16.12.1988, Blaðsíða 19

Þjóðviljinn - 16.12.1988, Blaðsíða 19
Hér á eftir birtist kafli úr nýrri skáldsögu Þórarins Eldjárn, Skuggabox. Skáldsaga þessi segir sögu fræðimannsins og uppfinn- ingamannsins Kort Kjögx og einsog Þórarins er von og vísa þá er hér enginn venjulegur meðaljón á ferðinni heldur litskruðugur per- sónuleiki í meira lagi og stutt frá raunveru- leika yfir til hins yfirnáttúrlega. Við grípum niður í söguna þegar Kort Kjögx er nýbakaður stúdent á ferðum er- lendis í fyrsta skipti. Sfldin. Dillið. Maðurinn er þefdýr. í mínum nösum er ekkert sænskara en dill. Keimurinn af því togar mig óaflátanlega í átt að rótum mínum hér í þessu landi. Jarðvegurinn er sumarið 68 og nýbakaður stúdent er allt í einu kominn til Lundar á Skáni og far- inn að skúra þar á sjúkrahúsinu sem þeir kalla lasarett. Um borð í Gullfaxa, fyrstu þotu íslendinga, aðeins ársgömlum, hafði ég setið allur sem á nálum og rýnt næstum mér til óbóta í hið þjóðlega vegg- fóður: Sveitabær, Ingólfur Arn- arson, kona á skautbúningi, sauðkindin, og eitthvað fleira, þessir föstu liðir voru endurtekn- ir aftur og aftur um alla vélina. Mig gat ekki grunað að ég væri að kveðja ættjörðina fyrir fullt og allt. Enn var ég meira að segja f alls ekki viss um að útlönd væru til. Ég hafði aldrei fengið neinar sannanir fyrir því. En þegar Fær- eyjar ráku grænsvarta fjallakolla sína ávala upp úr skýjahulunni byrjuðu að koma þverbrestir í síðustu efasemdirnar, f þessa hugsun sem ég hafði gælt við allt frá bernsku: Hvað ef útlönd eru ekki til, hvað ef fullorðna fólkið hefur bundist samtökum um að ljúga þessu að börnum, eða allir að mér? Endanlega læt ég þó ekki sannfærast fyrr en ég er lentur í Kastrúp: Útlönd eru til. En Island er í útlöndum líka: Þegar ég er kominn gegnum toll- inn og stíg mín fyrstu hikandi skref út í hina stóru veröld, í fyrsta sinn staddur á meginlandi, blasir við mér Jón Sveinsson, Nonni, fagnandi: - Blessaður gamli gulur. Ég taldi tryggara að sækja þig. Jón Sveinsson, Nonni, hefur forframast erlendis, hann er þeg- ar búinn að dveljast rúman mán- uð við skúringar á lasarettinu í Lundi á Skáni. Þar á bæ er hann orðinn innsti koppur í búri og bú- inn að útvega mér vinnu og hús- næði. En fyrst er það Borgin við sundið. í dag er tuttugasti og fyrsti júlí 1968 og ég á tvítugsaf- mæli. Við tökum á okkur krók inn í Kaupmannahöfn. Jón Sveinsson, Nonni, vill ég sjái þessa „höfuðborg íslands svo miklu lengur en Reykjavík.“ Við komum á Hovedbanegár- den og setjum töskuna mína í geymsluhólf. Síðan byrjum við að skoða borgina vandlega, gegn- um botna á ölglösum, en útsýnið virðist alstaðar eins. Við höldum inn á Strikið. Við komum á Exal- on, sitjum þar á barstólum úti_á gangstétt. Við heyrum íslensku og Jón Sveinsson, Nonni, gefur mér merki um að þegja, leggur fingur að vörum. Islenskur ráð- herra og önnur en kona hans, setjast á stólana við hliðina á okk- ur. Þau fá öl. - Sjá þessa druslulegu dönsku stráka hvernig þeir liggja í ölinu, segir konan, vonandi eigið þið aldrei eftir að leyfa bjórinn heima. - Ekki til að tala um, segir ráðherrann og sötrar froðu ofan af glasi sínu. - Eigum við þá ekki að kíkja aðeins í Magasin? segir konan skömmu síðar þegar hún er búin úr glasinu. Ráðherrann tæmir glasið, hann hallar sér að konunni og tekur yfir um mittið á henni og strýkur hendi um hupp. - Komum fyrst upp á hótel og fáum okkur mjaðmahnykk, segir hann samanbitnum rómi og hvessir á hana sólgleraugu. Við Jón Sveinsson, Nonni, springum. Við frussum ölinu yfir diskinn, yfir hvumsa þjóninn, út um alit. Við flýjum niður Strikið, ég lít einu sinni um öxl og sé ráðherrann og konuna flæmast í átt að Ráðhústorginu. - Mjaðmahnykk, gargar Jón Sveinsson, Nonni, þegar við náum andanum. Heyrðirðu þetta maður, mjaðmahnykk. Þetta málatferli ráðherrans tryggir orðinu rækilega út- breiðslu meðal íslenskra skúringamanna í skánska bænum Lundi það sem eftir er sumars. En það minnir mig líka á málat- ferli Gróu Jónsdóttur: „Æfirðu skriðsund?“ Ég hafði magalent á henni einhvemtíma í óljósri og samdrukkinni atburðarás yrj- óttra stúdentspartía víðsvegar um bæinn. Við reyndumst eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta, sátum uppi með sveindóm og meydóm, sem okkur var farið að klæja meira en lítið í og var orðið brýnt að reyna að nudda burt. Hún var kannski ekki það sem fóstra mín kallaði piltagull og áreiðanlega voru þeir ekki margir draumarnir í bænum, þar sem ég var prinsinn, hvorki hjá Gróu Jónsdóttur né öðrum konum, en það var góð í henni undirstaðan. Það fann ég mætavel þegar ég dengdi mér í strenginn og tókst ótrúlega fljótt að ljúka þeim per- formans sem dyravörðurinn í Macbeth talar um að áfengi í óhófi vilji taka frá mönnum. Ég hafði komið upp í því á munnlega prófinu, en hér var ég staddur í verklegu. Það var þá sem hún sagði það: - Æfirðu skriðsund? Nokkrum vikum síðar hringdi hún samt í mig og var hin alúðleg- asta, reyndist búa við úrvals að- stæður með foreldra í útlöndum og bauð mér til sín. Nú áttum við betri samleið, en á eftir segir hún: - Ég held að við séum vitlaus að nota ekki neitt. - Við? segi ég, og meinti svo sem ekkert. Ég sver það. En svo fór ég að hlæja, ég ætlaði að spyrja hana hvort hún héldi virki- lega að ég væri að reyna að fjölga mér með gróum. - Hlærðu svo? segir hún og rfs upp. Vill þá ekki betur til en svo, að hún sér jakkann minn í óreiðu á stólnum, hann liggur yfir stól- bakið með rönguna út. Flugmið- inn skagar upp úr vasanum. - Ertu að fara eitthvað? segir hún. - Já, maður skellir sér úr landi á morgun... - Bara eins og ekkert sé, og segir ekki orð... - Eins og ég megi ekki fara... - Hver segir að þú megir ekki fara? Ef það er eitthvað sem þú mátt, þá er það það. En bara ef þú gerir það STRAX... Þegai ég er kominn í leppana sný ég mér við og segi: - Bless þá. - Farðu, segir hún, farðu fíflið þitt... Svo þetta er þá bara næsta dag sem við Jón Sveinsson, Nonni, komum lafmóðir að gosbrunni sem er skreyttur með storkum. Mér verður starsýnt á ekta hippa sem híma þar í löngum röðum með gítara í kjöltum. Þeir reykja ræfilslegar sígarettur sem ganga hratt á milli þeirra og þeim virðist einkennilega annt um að ekki fari til spillis. Nýtið fólk hugsa ég. Heldur verður stúdentamussa Jóns Sveinssonar, Nonna, heim- óttarleg við hlið þessara atvinnu- ntanna, en hann lSetur sér fátt um finnast og fussar. - Iss, þetta fólk er allt á lúxus- kerrum frá foreldrum sínum, það eru Bensar og Volvóar og Jagúar- ar sem það geymir hér í hliðargö- tum. Svo er bara mætt hér eins og í vinnuna. Sumt af þessu er meira að segja með svitalykt á brúsum sem það spreðar í krikana áður en það skellir sér í mussurnar svo allt sé nú kórrétt. Danir eru sveitamenn. Nei það er í Kalif- orníu sem hlutirnir gerast. Sá sem þangað væri kominn... Neðarlega á Strikinu sé ég hvar rektorinn okkar gamli úr Menntaskólanum situr á stól og er um þrítugt. Ég bendi Jóni Sveinssyni, Nonna, varlega á manninn. Hann stansar fyrir framan hann og glápir á hann. -Ótrúlegurandskoti, segir Jón Sveinsson, Nonni, og lyppast nið- ur af hlátri. Manngreyið atyrðir okkur á móðurmáli sínu, harð- lega, heyrist okkur, og enn eigum við fótum fjör að launa. lonina I oosdottii Vco«''r* Guð almáttugur hjálpi þér Endurminninj>ar sóra Sigurðar Hanks Guðjonssonar Séra Sigurður Haukur hefur löngum verið umdeildur, enda þekktur fyrir að ségja skoðun sína afdráttarlaust. í þessari hispurslausu bók fjallar hann m.a. um: • skemmtilega atburði frá æskuárunum í Ölfusi • fjölda samferðamanna • læknamiðla • hestamennsku • brottrekstilr frá útvarpi og sjónvarpi Nýja Bókaútgáfan • hinar „alræmdu“ poppmessur • sálarrannsóknir Föstudagur 16. desember 1988 NÝTT HELGARBLAÐ - SÍÐA 19

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.