Lesbók Morgunblaðsins - 27.03.1955, Síða 8
180
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS
amtmanni til umsagnar og svarar
hann með því að lýsa Ólafi sem
hinum versta manni. Hann hafi
sýnt sér banatilræði á Alþingi,
hann hafi þózt kjörinn til þess
samkvæmt draumvitrun að verða
þriðji biskup á íslandi, hann sé
óstjórnlegur ofsamaður, mesti
háskagripur, þjófur o. s. frv., og
eftir hæstaréttardóminn sé hann
orðinn bandóður, hóti að drepa
hvern af öðrum, og menn vænti
ekki annars en frétta þá og þegar
að hann hafi drepið sjálfan sig eða
aðra.
Lagði hann síðan til, að Magnúsi
Ketilssyni yrði falið að setja hann
í gæzlu hjá duglegum manni, helzt
í ey þar sem hægast sé að varna
honum að komast til lands, og þess
gætt að hann komist ekki til Al-
þingis.
Þetta varð til þess, að Kansellí
úrskurðaði, að Magnús Ketilsson
sýslumaður yrði ekki skyldaður til
þess að gæta mannsins, en ef hann
sé svo, að ekki sé forsvaranlegt að
hann gangi laus, þá sé það skylda
amtmanns að koma honum í gæzlu.
TVÍVEGIS FLUTTUR
AF ALÞINGI
Ekki undi Ólafur á Hallbjarnar-
eyri þegar sumra tók og allir vegir
voru færir. Lagði hann þá enn
land undir fót og flakkaði víða.
Komst hann svo alla leið suður á
Þingvöll, þegar Alþingi var þar
haldið, en var tekinn og fluttur
hreppstjóraflutningi vestur í Dali
aftur. Var svo látið heita, að Wibe
amtmaður hefði tekið upp hjá sér
að koma honum burt af þinginu,
en það mun þó fyrst og fremst hafa
verið Ólafur stiftamtmaður. sem
vildi losna við hann.
Næsta sumar komst Ólafur prest-
ur enn suður á Alþing. Skipaði þá
stiftamtmaður að flytja hann þegar
þaðan á brott, og lét Vigfús sýslu-
maður Þórarinsson draga Ólaf
prest út úr Snorrabúð og fylgja
honum vestur í Lundarreykjadal,
en þaðan var hann sendur vestur
í Dali. Flæktist hann þá norður á
bóginn og komst alla leið að Geita-
skarði í Húnavatnssýslu. Þar sneri
ísleifur sýslumaður honum aftur
og flakkaði hann þá um Stranda-
sýslu og ísafjarðarsýslu. Um vet-
urnætur kom hann að Skógum á
Fellsströnd. Þar voru þær Kristín
kona hans og Sigríður dóttir þeirra
í húsmennsku og hafði hann áður
haft athvarf hjá þeim. Rétt á eftir
dó Kristín kona hans og flæktist
hann þá suður á Snæfellsnes og
gekk þar milli bæa. Var hann þá
hættur að koma í kirkju og vera
til altaris og var farið að bera á
rugli hjá honum, en skapsmunirnir
voru hinir sömu og áður og segir
Magnús Ketilsson um hann að
hann sé öllum hvimleiður og jagi
alla, eins og hann hafi gert.
Næsta ár helt hann enn til í
Skógum að mestu leyti, en var þó
á flakki um nærsveitir og enn frár
á fæti. Árið 1799 fer hann svo til
Guðmundar systursonar síns að
Hallbjarnareyri og dvaldist hjá
honum upp frá því til æviloka.
Hann andaðist 12. september 1801
og var þá 75 ára að aldri.
----o---
Séra Ólafur átti í miklu fleiri
brösum, en hér er frá sagt og var
því ekki ófyrirsynju að hann var
kallaður Mála-Ólafur. Sögðu sam-
tíðarmenn hans, að honum hefði
mjög svipað til Jóhanns Gottrups,
móðurbróður síns um ofstopa og
ófyrirleitni, eins og hann tæki
þennan frænda sinn til fyrirmynd-
ar. Þeir höfðu verið samtíða um
hríð í Grunnasundsnesi, og má vera
að Gottrup hafi haft mikil áhrif á
skaplyndi piltsins, og Ólafur verið
hriíinn af honum. Gæti bent til
þess að hann lét son sinn heita
Jóhann. En fyrir sálfræðinga er
það athyglisvert, að svo virðist sem
séra Ólafur hafi orðið samsála við
Jóhann Gottrup eftir lát hans, og
að honum hafi fundizt, að minnsta
kosti stundum, að hann væri eng-
inn annar en Jóhann Gottrup. Því
til sönnunar má benda á, að meðal
skjalanna í koparhringsmálinu er
eitt alllangt með hendi séra Ólafs,
full 4 blöð í arkarbroti þéttskrifuð.
Það er á dönsku, en fullt af latínu-
glósum, og svo ruglingslegt að auð-
séð er að það er ekki skrifað af
andlega heilbrigðum manni, enda
var það lagt fram á Alþingi 1768
til sannindamerkis um að séra
Ólafur væri geggjaður. Hann hefur
undirskrifað þetta skjal, ekki með
sínu nafni, heldur — Gottrup.
Á. Ó.
AUKIÐ RENNSLI í PÍPUM
Um 40 ára skeið hafa menn í
Bretlandi verið að reyna að finna
aðferð til þess.að auka rennsli lag-
ar í pípum, og nú hefir tekizt að
leysa þetta vandamál. Er talið að
með þeirri uppgötvun geti pípur
fleytt þrisvar sinnum meira vatni
heldur en áður. Með þessu móti má
nú hafa vatnsleiðslupípur í húsum
miklu grennri heldur en áður og
getur það sparað byggingarkostn-
að að mun.
LÍKAMINN ENDURNÝJAST
ÁRLEGA
Dr. Paul Aebersold, sem er for-
stjóri við eina deild kjarnorku-
rannsóknanna í Bandaríkjunum, lét
nýlega svo um mælt, að það hefði
komið í ljós með rannsóknum á
geislavirkum efnum í mannslík-
anum, að 98% af líkamanum end-
urnýast árlega. Þessi uppgötvun
kollvarpar þeirri kenningu, sem
hingað til hefir ríkt, að líkaminn
brenni næringarefnunum eingöngu
til þess að viðhalda orku sinni. í
þess stað notar hann fæðu, vatn og
loft til þess að endurnýja sjálf-
an sig.