Lesbók Morgunblaðsins - 27.03.1955, Side 13
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS
185
vöru þegar ég fór að troða á undan.
Veður var gott þegar við riðum suður
dalinn, orðið kyrrt en þykkt loft að
mestu, en sáust þó heiðríkjublettir og
man ég það að við vorum að tala um
það, að það væri munur að vera á ferð
núna en hafði verið fyrr í dag. Þegar
kom suður hjá Brún fór alvarlega að
dimma 1 lofti og þegar við fórum fram
hjá Máskoti var komin mokandi hríð,
ein af allra mestu snjókomu í logni,
sem ég man eftir. Þá var líka svo áliðið
kvölds, að náttmyrkrið var að skella á.
Þegar upp hjá Másvatni kom, var orðið
svo mikið snjódýpi, þar sem ekkert sást
til að sneiða, að ég var alveg hættur
að koma á bak, en kafaði á undan, en
læknarnir sátu á hestunum í slóðinni,
en urðu þó stundum að fara af baki
þegar allt sat fast. Einhvern veginn
höfðum við okkur, með góðu móti upp
að Másvatni, en þegar fram á það átti
að fara vissum við það ofur vel að nú
valt allt á því að fara beint. Ég hugsaði
mér því rétta stefnu yfir vatnið og kaf-
aði á undan út á það. Því næst kom
svo Sigurmundur á Svip, en síðast
Björn á Skjóna og bað ég hann að
segja mér til ef ég breytti um stefnu.
Var hann dálítið á eftir fyrst, en það
gekk ekki vel því að Skjóni vildi
ógjarnan missa af samfylgdinni og vildi
því fylgja fast eftir. Ég talaði stundum
til Björns og spurði um stefnuna og
taldi hann að beint væri farið. Enginn
okkar hafði áttavita, en Björn læknir
sagðist eiga áttavita, en hefði bara ekki
tekið hann með sér núna, þó hann væri
vanur því á vetrarferðum. En nú voru
komin sumarmál og því ekki viðhöfð
sama varasemi og í skammdegi. Það er
svo ekkert um ferðalagið að segja ann-
að en það að ég þrammaði á undan í
góðri trú á það að ég færi beint, en
nokkuð langt fannst mér yfir vatnið.
Þó fór svo, að ég fann það loks að við
fórum upp af vatninu og setti ég það
í samband við það, hvað vont væri að
kafa í ófærðinni hvað mér fannst langt
yfir vatnið. Fann ég nú í hríðinni að
við fórum upp brekku og fannst mér
hún hafa alveg sama bratta og átti að
vera upp á ásinn austan við vatnið. En
það hvort maður fór upp brekku eða
undanhallt var það eina, sem hægt var
að skynja í þessari þykku hríð og dauða
-logni. Enn fannst mér óvenjulega langt
upp á ásinn og jafnvel brattara en ætti
að vera. Bar ég mig af og til saman við
læknana um áttir og fannst þeim alltaf,
að við værum öruggir að fara beint
austur. Loks náðum við, eftir minni til-
finningu, upp á ásinn og fórum nú eftir
jafnsléttu; virtist það allt standa heima
við það sem ætti að vera. En þá kom
nýtt atriði fram, sem olli mér óróleika;
ég heyrði ekkert til Laxár, sem átti þó
að vera mjög nærri. Við stönzuðum og
hlustuðum, en þó að við reyndum að
verða allir að eyrum, gátum við engan
árnið heyrt. Enn reyndu læknarnir að
gera mig rólegan. Þeir sögðu að það
væri ekki von að það heyrðist til ár-
innar nema stutt þegar svona væri mik-
il hríð og svo væri hún svo lítil og
fjötruð núna að það heyrðist litið til
hennar.
----★-----
Við heldum nú áfram enn, en ekki
leið nú á löngu með að ég sannfærðist
með sjálfum mér um það, að við vær-
um villtir og gat ég ekki hugsað mér
það öðruvísi en þannig, að við hefðum
farið einhvern hring eða hálfhring á
vatninu og farið upp á Víðafell, sem
er vestan við vatnið, í stað þess að fara
upp á ásinn austan við vatnið. En í
hvaða stefnu fórum við eftir að við
komum upp í fellið? Ósjálfrátt reyndi
ég að sveigja til vinstri og hugsa mér
að við værum á ferð suður fellið og
væri þá eðlilegt að reyna að leita eitt-
hvað austur.
Nú má hver sem vill setja sig í mín
spor þarna í náttmyrkrinu, hríðinni og
ófærðinni, villtur með tvo lækna,
þreytta af ferðalögum undanfarið og
nú á ferð til að bjarga mannslífi, sem
maðUr gat ekki hugsað sér að nokkur
von væri um að bjargaðist, nema lækn-
arnir kæmu í tæka tíð. Ég hugsaði um
fólkið heima, sem vakti og beið eftir
læknunum og vonaði að þeir kæmu
sem fyrst. Ég kafaði á undan hestun-
um með þessar dapurlegu hugrenningar
og þjáðist undir töskunni, sem mér
fannst nú vera orðin afskaplega þung.
Færið varð nú svo vont, að læknarnir
urðu að fara af baki og ganga í slóðina
eftir hestana. Mér varð það nú ljóst
að við vorum virkilega villtir og urðu
þeir að trúa því með mér.
Stóðum við nú um stund kyrrir og
reyndum enn að heyra niðinn í Laxá,
en ekkert heyrðist. Sigurmundi lækni,
sem mátti heita nokkuð kunnugur
þarna á heiðinni, og hafði miklu oftar
farið yfir hana en ég, fannst það lík-
legast að við værum uppi á Víðafelli,
eða hefðum að minnsta kosti farið eitt-
hvað yfir það. Var nú enn haldið aust-
ur, eftir því sem okkur fannst. Meðan
á þessu stóð birti ofurlítið; sást ofur-
lítill heiðríkjublettur og þar í ein skær
og stór stjarna. Ég spurði læknana
hvort þeir þekktu nokkuð þessa stjörnu,
en það sögðust þeir alls ekki gera, enda
gátu þeir verið góðir læknar, þó þeir
þekktu ekki stjörnur himinhvolfsins
svo vel, að þeim nægði að sjá eina
þeirra í heiðríkjugati. En þessi stjarna
minnti mig mikið á stóra stjörnu, sem
oft er lágt á lofti í suðri og suðvestri
um nýársleytið. En hvar var hún núna?
Það gat ég ómögulega vitað nema það,
að við höfðum hana alveg á hægri
hönd. Ef ég hugsaði mér hana i suð-
vestri, þá var stefna okkar alveg í suð-
austur. Ég beygði því eftir henni til
vinstri og hélt enn út í sortann, því að
stjarnan sást ekki nema í 4—5 mín-
útur. Varð nú hríðin dimmri en nokkru
sinni fyrr. Fór ég nú að hugsa um það,
að þó að ég hefði nú tekið rétta stefnu
eftir stjörnunni, þá væri ómögulegt að
gizka á það hvað ég mundi halda henni
lengi.
----★-----
Ég fór nú að taka eftir því, ef við
stönzuðum eitthvað, að þá var eins og
hrossin væru eitthvað að horfa út í
sortann og stundum sýndist mér eins
og þau væru að hlusta og þá væru þau
auðvitað að hlusta eftir niðnum í Laxá
eins og við. En ég gat samt aldrei séð
þau horfa í neina vissa átt eða merkt
á þeim að þau vissu nokkuð.
Ég gafst nú alveg upp, sagði lækn-
unum að við værum orðnir svo vilítir
að mér væri ómögulegt að hafa nokkra
hugmynd um það hvert nú ætti að fara
og nú mundi ekki um annað að gera en
bíða eitthvað eftir uppbirtu; mundi það
betra að berja sér hér, en uppgefa sig
og hestana á því að kafa, kannski alveg
í öfuga átt. Þeir tóku þessu vel, eins, og
öllu, og tóku í nefið eins og þeir væru
heima. Mér fannst undir öllum kring-
umstæðum ómissandi að hvíla hrossin
ofurlítið, þó aldrei væri nema á meðan
okkur væri að kólna. Fann ég að mér
mundi kóTrva fljótt, þvi að ég var renn-
votur af svita af ófærðinni og því að
kafa með töskuna.
Nú tók ég eftir því, að Svipur gamli
fór eitthvað að horfa út í sortann og
var eins og hann væri eitthvað óró-
legur. Dettur mér þá í hug, að hann
muni kannski rata, þó að ég gæti það
ekki; svo að ég segi við læknana, að
ég vilji vita hvort hann fári ekki eitt-