Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1982, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1982, Blaðsíða 10
 Ingimar Erlendur Sigurdsson Fjallið eina Af vatnajökli veglaus tár og vinalaus falla. Ur heljarfarveg harmaár á himininn kalla. í hafdjúpið, hafdjúpið falla. í hljóðakletti hjartað slær og hamrar á strenginn. Við þagnarhljóminn hjartað grær og heyrir það enginn. Það bærir ei, bærir ei strenginn. Und herðubreið er huga þraut að halda við anda. Á hugarflugi hatröm naut með herðakamb standa. Æ þyngra, æ þyngra að anda. Á fjallið eina ferðast sál og festir þar yndi. Hún berast lætur bænamál af bjargföstum tindi. Þar himneskt er, himneskt er yndi. Bænheyrsla Ó, biðjenda baðmur, hve brumarþú; minn flísstungni faðmur fyllist af trú. Bænarlíf Svo miklum dular mætti bænin yfir býr: í næsta andar drætti dauður lifir — nýr. Játningar völvu Tove Ditlevsen segir frá. 2. hluti Helgi J. Halldórsson þýddi Sagan að bakisögunni Fyrir nokkrum árum ákvaö ég að fara í hundana. Slík ákvörðun vekur hvorki meðaumkun né sam- úö hjá neinum þegar maður hefur, að því er virðist, heilmikið að lifa fyrir og hefur ekki orðið fyrir verulegu áfalli. Einhvers staðar utan áhrifasviðs míns var að vísu einhver tuttugu og fimm ára yngri stúlka sem ég gat ekki lengur bar- ist við á kvennavígstöðvum. Samt þurfti ég ekki af þessum sökum að játa mig gersigraða því að gagnstætt mörgum öðrum konum í svipaðri aðstöðu hafði ég þá ótvíræðu yfírburði að ég gat skrif- að mig burt frá þessu. Hvílík gæfa! En sú öfundsverða vöggu- gjöfí Ég hafði engar málsbætur, enga afsökun. Ég vissi aðeins að leiðin að ritvélinni getur verið löng og krókótt og við köllum hindranirnar ýmsum nöfnum, meðal annars hinn þriðja sem Rilke skrifar um: „Og þegar ég skrifaði harmsögu mína, hve hrap- allega skjátlaðist mér. Var ég þá einhver eftirherma og asni úr því að ég þurfti einhvern þriðja við að segja frá örlögum tveggja sem gerðu hvort öðru lífíð erfitt? Hve auðveldlega gekk ég í gildruna. Ég hefði þó mátt vita að þessi þriðji aðili sem gengur í gegnum líf allra og bókmenntir, þessi aft- urganga hins þriðja, sem aldrei hefur verið til, skiptir engu máli, honum verðum við að afneita. Hann ber að skoöa sem yfirvarp, átyllu til að leiða athygli manna burt frá launkofum eigin sáiar. Hann er það skálkaskjól sem lífs- dramað er leikið bak við. Hann er hávaðinn við innganginn að radd- lausri þögn hinna raunverulegu árekstra." Mínir raunverulegu árekstrar voru sú staðreynd að ég hafði ekkert skrifað í þrjú ár og ég hafði misst vonina um að geta nokkru sinni skrifað nokkuð framar. Þetta er kölluð „listræn kreppa", og þar sem svo þung- bært er að lifa við hana grípur maður dauðahaldi í „hávaðann við innganginn" sem allir geta heyrt og maður bregst við á meira eða minna heimskulegan hátt sem okkur innst inni er þó ekki ljóst af hverju stafar. Sjálf ákvörðunin var mér mikill létt- ir. Það kom mér til að hugsa um það fólk sem ég hafði þekkt og hafði heppnast þetta. Andlit þess risu upp úr djúpi endur- minninganna þar sem þau höfðu legið ónotuð árum saman eins og grímurnar í leikhúsfata- geymslu. Líf mitt hafði um sinn komist í snertingu við líf þessa fólks en ég veit ekki hvað síðan varð af því. Kannski gleypti jörðin það, kannski fann það eitthvað mikilvægt eftir að það hafði losað sig við allt það sem heimurinn metur. Það að fara í hundana þýðir nefnilega ekki endilega að deyja (því að það er nógu auðvelt), það er miklu erf- iðara og flóknara mál sem krefst umhugsunar, undirbún- ings, kænsku og, það sem er verst af öllu, ekki svo lítillar til- litssemi við þá sem þykir vænt um okkur. Þó er þeim, þegar til lengdar lætur, best þjónað með með því að maður kasti sér með opnum augum út í þennan hreinsunareld. Við hversdagslegan undirbún- ing minn, sem í fyrstunni (ein- hvers staðar verður maður þó að byrja og það eru ekki til nein uppsláttarrit um „listina að fara í hundana") var fólginn í að hvolfa í mig viskíi eins og það væri saft, fór ég að hugsa um lítið ómerkilegt atvik frá ham- ingjudögum fjölskyldunnar í Birkerod. Á tímabili ræktaði ég pottablóm í öllum gluggakistum af undarlegri þörf til að ná tengslum við fortíðina. I eðli mínu er ekkert upplag fyrir þetta endalausa kvennasýsl, en með aðstoð og góðum ráðum garðyrkjumanna bæjarins tókst mér að fá flestar þessar plöntur til að lifa og dafna. Ein þeirra skrapp þó saman, visnaði og leið undir lok þó að ég gerði henni margt til góða; gæfi henni sól, skugga, vatn, áburð og hjalaði við hana. Að lokum gafst ég upp við hana og fleygði henni niður í miðstöðvarkjallara. Þar upp- götvaði ég dag einn að án nokk- urrar umönnunar, en einnig laus við allar skyldur, hafði hún borið hin fegurstu blóm, engum til gleði. Að forðast hin allsgáðu augnablik En enda þótt tilgangur minn væri ótvíræður og örvænting mín ekta, fór ráðagerð mín á misvíxl á tvo vegu eins og þegar tvær ljósmyndir eru teknar hvor ofan í aðra. Þegar hinn bragð- vondi vökvi fór að renna um æð- ar mínar kviknaði veik von í sál minni og ég vann bug á ótta mínum við hvíta pappírinn, sett- ist við ritvélina og skrifaði ótal setningar sem á allsgáðum augnablikum reyndust einskis virði eins og falskar ávísanir. Æ, hefði maður aðeins hið skothelda sjálfsöryggi áhuga- mannsins sem enginn útgefandi, enginn ritstjóri og enginn ráð- settur „starfsbróðir" getur tekið frá honum. Það hafði ég ekki og hef ekki, en nú var um að gera að foröast allsgáð augnablik. Björgunarmenn mínir gerðu allt sem þeir gátu til að koma í veg fyrir að ég næði í hinn banvæna drykk. Reiðufé hvarf mér úr augsýn en við vorum í reikningi hjá kaupmanninum og við hann myndaðist mjög flókið samband. Fyrst pantaði ég gegnum síma ýmsar óhjákvæmilegar lífs- nauðsynjar og sagði svo: Æ, eft- ir á að hyggja, ég þarf líka að fá* eina flösku af viskíi, við fáum því miður gesti í dag. — Auðvit- að fær maður enga gesti þegar maður liggur í rúminu allan daginn og drekkur og notar hús- ið til að fela flöskurnar fyrir stálpuðu barni sínu, sem reynd- ar veit allt, og húshjálpinni sem í dásamlegri einfeldni ályktar eindregið að konan drekki af þvi að maðurinn eigi sér aðra, og það skilur hún vel sem kona. Hún varð mér samsek þetta hugstola tímabil. Hún fjarlægði flöskurnar þegar

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.