Lesbók Morgunblaðsins - 05.03.1988, Side 7

Lesbók Morgunblaðsins - 05.03.1988, Side 7
Gegnum Jesú helgast hjarta í himininn upp ég líta má, Guðs míns ástarbirtu bjarta bæði fæ ég að reyna og sjá. Hryggðarmyrkrið sorgar svarta sálu minni hverfur þá. Það er líklega óþarfi að gefa þessum er- indum einkunn; svo ljóst má það vera hveiju bami hver munur er þar á. Séra Jón Magn- ússon hefur fengið skínandi góða hugmynd, annaðhvort af eigin hugljómun eða að láni úr passíubókmenntum síns tíma, að festa saman vitnisburð Gamla og Nýja Testa- mentisins og sýna þannig samhengi hjálp- ræðissögunnar. Hann túlkar vitnisburð Gamla Testamentisins á mjög svo lúthersk- an hátt, sem fyrirmynd eða spádóm um hjálpræðisverk Krists. Skjólið sem örkin hans Nóa gefur dauðskelfdu mannfólki vísar þá á hjálpræðið sem hinum kristnu er fyrir- búið vegna dauða Krists og upprisu. Séra Jón á því þakkir skilið, þó svo að úrvinnslan, í það minnsta á þessum stað, hafí farið svo hörmulega úr böndum. Hallgrímur fær þessa hugmynd þakksamlega að láni frá séra Jóni og smíðar úr henni kröftuga játn- ingu sem er um leið hið fegursta listaverk. Það má hins vegar spyija, hvaða gagn sé að vangaveltum um hugsanlegar fyrir- myndir að veglegum listaverkum á borð við Passíusálmana. Vitaskuld eru þeir í fegurð sinni óháðir öðrum trúarbókmenntum og hafa fyrir löngu öðlast sjálfstæða tilvist sem með engu móti verður frá þeim tekin. Þó hægt sé að sýna fram á skyldleika Passíu- sálmanna við önnur verk og jafnvel vísa á staði, sem sýnast bein fyrirmynd, þá geta það varla flokkast sem stórtíðindi. Hér gilda ekki sömu lögmál og í veraldlegum skáld- skap. Ef það uppgötvast skyndilega að rit- höfundur, sem búið hefur til vinsæla skáld- sögu, hefur fengið að láni hjá kollega sínum atburðarás eða einhvem annan undirstöðu- þátt sögunnar, þá er skáldaheiður höfundar- ins vitaskuld í hættu og sagan ekki lengur góð. Um hugverk á borð við trúarljóð, hugvekj- ur eða predikanir gildir öðru máli. Þar fara menn ekki af stað með nýjan sannleika; höfundurinn er óhjákvæmilega bundinn af túlkunarhefð kristins siðar, sem setur fram- setningunni skorður, þó ekki þannig að nið- urstaðan verði óhjákvæmilega einföld eft- irlíking á því sem áður var gert, snauð af frumleika.og persónulegu innsæi höfundar- ins. Þær skorður eða mörk sem trúarskáldi, kennimanni og hugvekjuhöfundi eru settar — og allt þetta var Hallgrímur Pétursson — eru vitnisburður ritningarinnar um Jesú frá Nasaret, ásamt með þeirri reglu eða venju sem myndast hefur í kirkjunni um það hvemig túlka skuli vitnisburð ritningarinn- ar; eða öllu heldur, þau lágmarksskilyrði sem þarf að uppfylla til að túlkun á vitnis- burði ritningarinnar teljist gild. Hallgrímur sjálfur velkist ekki í vafa um hvar kennimaðurinn skuli leita staðar orðum sínum, og hvaða orð það sé yfirleitt sem geri predikun og hveija kenningu í kirkj- unni gilda. í tíunda sálmi leggur hann fram áleitna áminningu þar sem hann talar við presta, og þá væntanlega sjálfan sig líka: Þú, guðs kennimann, þenk um það, þar mun um síðir grennslast að, hvernig og hvað þú kenndir. Að lærisveinum mun líka spurt, sem lét þitt gáleysi villast burt. Hugsa glöggt hvar við lendir. Jesús vill, að þín kenning klár kröftug sé, hrein og opinskár, lík hvellum lúðurs hljómi. Launsmjaðran öll og hræsnin hál hindrar Guðs dýrð, en villir sál, straffast með ströngum dómi. Rubens: Hrun hinna fordæmdu. Þannigsótti annar 17. aldar stórmeistari sér efnivið í trúarlegan skilning síns tíma. En samt geta menn enn spurt: Em þá kirkjuþing, biskupsorð, prestastefnur og álit guðfræðiskóla eins konar ritskoðunarfyrir- tæki sem hafa í gegnum tíðina stimplað „rétt“ eða „rangt“ á trúarlegar hugmyndir? Því fer fjarri; því það er satt, að jafnvel heilaga ritningu er hægt að teygja svo og toga að hún hljómi líkt og áróðurspípa óvin- arins, og geti þá verið notuð til þess að réttlæta eða styðja nánast hvaða fjarstæðu sem er. í siðbótinni varð til ritningarskilningur, eða kenning um ritninguna, sem gekk gegn meintri geðþóttatúlkun Rómarkirkjunnar. Siðbótarmennimir, og einkum Marteinn Lúther, héldu því fram, að ritninguna í heild yrði að skoða og kenna út frá miðju henn- ar, sem er Kristur, krossfestur og uppris- inn; ritningin er þá Guðsorð vegna fagnaðar- erindisins um náð Guðs og frelsun manna fyrir trú á Jesú Krist. Því má segja að í kirkjunni búi viðleitni til að vetja ritninguna fyrir öllum gerræðistúl'iunum, sem sækja ekki kennivald sitt í gmndvöll hennar, sem er Kristur; hvort sem þar em á ferð vingltrú- armenn, fríþenkjarar eða afneitarar. En hvað um Hallgrím og trúarljóð hans? Hann var fyrir það fyrsta venjulegur kristinn maður, prestur að auki og með bærilega guðfræðimenntun. Allt það sem mennirnir segja og skrifa er með einhveiju móti bundið þeim hugmyndaheimi er þeir hrærast í. Hugmyndaheimur Hallgríms er hin kristna játning um Jesú Krist, Drottin yfir lífi og dauða, sem hefur með fórn sinni opnað mannkyni leið til eilífs lífs. Um þessi efni ræðir Hallgrímur í sálmum sínum líkt og starfsbræður hans hafa gert í venjulegri helgidagspredikun. Af hveiju stendur Hall- grímur þá einn? Það er ekki vegna þéss, að hann hafi af sjálfum sér fætt eitthvert stórfenglegt nýmæli, því að efni til hefur hann talað líkt og aðrir kennimenn. Um Hallgrím og skáldskap hans hafa komið fram margvíslegar kenningar. Meðal annars hefur því verið haldið fram, að lykill- inn, svarið sem lýkur upp leyndardómnum um listaverk hans, hljóti að felast í sér- stæðri lífsreynslu og alls kyns volki er hann rataði í á ævi sinni. Bent hefur verið á, að ef til vill hafi eigin- konan verið honum erfíð og hjónabandið þess vegna verið áreynslusamt. Eða þá að fátækt og basl í erfiðum prestsskap suður með sjó hafi sett á hann mark sitt. Kenning- una mætti þá orða þannig: Þjáningin hefur búið til skáldið. Skýringar í ætt við þessa og endalausar vangaveltur um hagi Hallgríms sjálfs horfa gjaman framhjá þeim möguleika, að ef til vill var Hallgrímur Guðs útvalinn maður; settur í þann hóp manna í langri sögu krist- ins siðar, sem finna vöflulaust leið að hjart- anu með kristinn boðskap, þannig að sá sem á hlýðir í alvöru er knúinn til að játa með sjálfiim sér að orðin séu sönn; meira enn bara fagurt skáldskaparmál, heldur orð sem em vitnisburður um sannleikann, meira en bara aðdáunarefni í hlutlausri umhugsun. Orð Hallgríms snerta, koma við manninn, taka hann með sér að krossi Krists sem er ekki einvörðungu eitt dæmi af mörgum um djöfullegar afurðir mannhaturs og blindu; þar er Guðssonur í raun á valdi dauðans, ofurseldur hinu illa — og hann vinnur sig- ur, frelsi fyrir hvem þann mann er horfír á kross hans og trúir því sem þar á sér stað. í inngangi að Passíusálmunum — Guð- hræddum lesara heilsan — nefnir Hallgrím- ur samtíð sína, „... yfirstandandi eymdanna öld“ án þess að útskýra frekar hvað sú ein- kunn merkir. Margt getur þar komið til. Hagur alþýðu manna var bágur, í það minnsta við það sem nú þykir gott, og fá- tækt landlæg; pestir líkt og holdsveiki voru tíðar og ofríki valdsmanna var ekki óþekkt. Eymdin sein Hallgrímur nefnir kann líka að vera andleg eymd, enda vísar hann til þess að margir sofandi hirðuleysingjar finn- ist. En hversu lágt, sem vísitala lífsgæða stóð á þessum tíma, er sú kenning óvarleg að tilorðning og vinsældir Passíusálmanna hafi helgast af líkamlegri eymd og einungis mið- ast við hana. Sú sannfæring er inngróin í kristinn trúarskilning, að enginn maður, hvort heldur hann lifir í sárri fátækt eða býr við þokkaleg efni, geti lifað lífi sínu heill án þess að dvelja við hinn kristna trúar- boðskap. Passíusálmana er því ekki hægt að skilja, sem sérstakt heilunarapparat hinna fátæku og lítilsmegnandi, eins og þeir séu plástur á sár, óþarfir jafnskjótt og sárið er gróið. í kröftugu erindi Hallgríms kemur enda hvergi fram aðgreining þess efnis að líf trú- arinnar sé sérstakt nauðsynjarefni tilteknum hópi fólks en óþarft þeim er betur mega sín. í þessum orðum er talað til allra manna: Andvana lík, til einskis neytt, er að sjón, heym og máli sneytt. Svo er án bænar sálin snauð, sjónlaus, köld, dauf og rétt steindauð. Hver er þá tilgangur Passíusálmanna, við hvað miðast þeir? í fyrsta sálmi kemur skírt fram, að Hallgrímur ætlar þá sem lofgjörð og biður um Guðs anda sér til hjálpar: Ó Jesú gef þinn anda mér, allt svo verði til dýrðar þér uppteiknað, sungið, sagt og téð. Síðan þess aðrir njóti með. Passíusálmamir eru þá ekki einkaíhugun sem eins og fyrir slys kemur fyrir sjónir annarra. Þeir eiga sér stað í boðunarhefð- inni og eru nýr vitnisburður til að styrkja trúarvitund með nýrri kynslóð. Og í þetta viðfangsefni leggur Hallgrímur sig óskiptan: Upp, upp mín sál og allt mitt geð, upp mitt hjarta og rómur með. Hugur og tunga hjálpi til. Herrans pínu ég minnast vil. Allir kraftar lífs og sálar eru tilkvaddir til að minnast þjáningar Drottins í djúpri íhugun. Og íhugunin er ekki linnulaus harmagrátur í myrkrum þar sem einvörð- ungu er dvalið við hið illa, heldur er þjáning- in ávallt skoðuð í ljósi upprisunnar þar sem djöfulmóður myrkranna hörfar: ... Dauðinn tapaði en Drottinn vann, dýrlegan sigur gaf mér þann. í lestri og íhugun birtast sálmamir einn af öðrum. Þar má greina efnistök Hallgríms. Hann endursegir píslarsögu guðspjallanna, en brýtur frásöguna upp hvað eftir annað með sínum eigin útleggingum, eða ef vill, ljóðapredikunum, þar sem merking sögunn- ar er dregin fram. Hallgrímur er því í spor- um predikarans, kennarans, er leiðsegir þeim er vilja á hlýða í kirkjunni. Augljósasta einkenni sálmanna er hinn innilegi blær er einkennir alla framsetningu; þar er hugtakið sál í höfuðhlutverki og Hallgrímur stígur fram í löngu samtali við sig og Drottin sinn. Vaktu minn Jesú, vaktu í mér. Vaka láttu mig eins í þér. Sálin vaki, þá sofnar líf, sé hún ætíð í þinni hlíf. Það form er Hallgrímur kýs sálmunum til að bera fram lofgjörð sína og bæn er vissulega vandmeðfarið. Hættumar sem í þessari aðferð felast eru augljósar. Innileik- inn getur hæglega snúist upp í ógeðfellda mærð. Þakkarorðin geta orðið svo ijálgleg og yfírdrifin að lesandinn haldi höfund fagna yfir þjáningunni, líkt og hún sé í sjálfu sér eftirsóknarvert hlutskipti manna. Og í hverri persónulegri játningu trúar er sú hætta fal- in að játningin verði sjálfhverf, þannig að sá sem talar komi fram sem bandingi eigin reynslu þannig að lesandinn finnur þar eng- an stað fyrir sig. Þessar villur forðast Hallgrímur auðveld- lega, kemur reyndar hvergi nálægt þeim. Hann talar af hjartans einlægni, þekkir hina hreinu og látlausu auðmýkt og setur hvem þann, sem hefur augu til að sjá og eyru til að heyra, við hlið sér í íhugun á þeim at- burðum sem em stærstir í sögu mannkyns. Höfundar passíubókmennta á sextándu og sautjándu öld notuðu gjama myndmál til að endursegja píslarsöguna og túlka hana. Sú aðferð var oft áhrifarík, en heppn- aðist engu að síður misjafnlega vel, og stundum gengu menn fúlllangt í ákafa sínum er þeir vildu útlista þjáningar Drott- ins á myndrænan hátt. Neikvætt dæmi um þetta má taka úr áðumefndum Píslarsaltara Jóns Magnússonar, þar sem hann reynir að draga fram mikilvægi fómar Krists: Sál mín gef smakki sætleik þinn sætasti blóðbrúðgumi minn. Vinnulag af þessu tæi þar sem svo ólán- lega er farið með viðfangsefni getur vita- skuld haft þveröfug áhrif á lesandann. Hallgrímur lendir aldrei í þvílíkum kröggum og kröftugt og áleitið myndmál hans ber hvergi minnsta keim af ósmekkvísi. Gott dæmi um áhrifaríkt og tæpitungulaust myndmál, sem þó fer hvergi út í barnslega ákefð, er annað erindið í 23. sálmi: Helgasta holdið fríða frá hvirfli iljum að drottni varð sárt að svíða, svall allt af benjum það. Hver hans líkama limur og æð af sárum sundur flakti. Sú hirtinng mjög var skæð. í þessum vangaveltum verður nú látið staðar numið. í næstu tveimur greinum verður fjallað um meginstef Passíusálm- anna; um synd, dauða og þjáningu, og svo í lokin, sem vera ber, um fóm, friðþægingu og frelsi trúarinnar. Höfundurinn er sóknarprestur á Borg á Mýrum. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 5. MARZ 1988 7

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.