Lesbók Morgunblaðsins - 22.06.1996, Síða 15
VÖKU-
DRAUMAR
SKÁLDS
Norska skáldkonan Herbjorg Wassmo segir, að
það sé ekkert starf að skrifa bækur, það sé leið
til að lifa af í þessum heimi. ÞRÖSTUR HELGASON
sótti málþing um höfundarferil Wassmo á Listahátíó-
inni í Björgvin þar sem meðal annars var fjallað
um móðurmorð, margröddun og nútímakonur.
Morgunblaðið/Þröstur Helgason
HERBJ0RG Wassmo er geysilega vinsæl í Noregi, ekki síst á meðal fjölmiðla, sem kepp-
ast um að né af henni myndum og viðtölum; hún er líka einn af fáum norrænum höfund-
um sem náð hefur verulegri alþjóðlegri útbreiðslu, t.d. á hinum erfiða Bandaríkjamarkaði.
HERBJ0RG WASSMO er
alveg hreint makalaust
heillandi kona; svona
hæglát og yfirveguð en
samt svo yfirþyrmandi,
yfirgnæfandi að allt ann-
að fellur í skuggann. í
matarboði norska rithöf-
undasambandsins eftir málþingið talar hún
um hvað íslendingar séu fallegir og maður
getur bara ekki annað en sagt „hvad!“ á ein-
hverri dönsku og horft í augu hennar sem
töfra mann út í geiminn. Þessi augu skelfa
reyndar suma, þeim finnst þau horfa inn í
sig, kryfja sig lifandi. Og það er rétt að þau
eru rannsakandi, stundum jafnvel stingandi,
en samt eru þau alltaf eins og brosandi við
heiminum.
Wassmo er geysilega vinsæl í Noregi, ekki
síst á meðal fjölmiðla sem keppast um að
ná af henni myndum og viðtölum; hún er
iíka einn af fáum norrænum höfundum sem
náð hefur verulegri alþjóðlegri útbreiðslu, þar
á meðal á hinum erfiða Bandaríkjamarkaði.
En Wassmo er ekki að skrifa bækur til að
komast í álnir; „að skrifa bækur er ekkert
starf,“ sagði hún á upplestrarkvöldi sem
haldið var á Listahátíðinni í Björgvin, „skáld-
skapurinn er lífsmáti, hann er leið til að lifa
af í þessum heimi.“
Móóurmoró -
Þórubaekurnar
Wassmo er fædd árið 1942 í Vesterálen í
Norður-Noregi. Rithöfundarferil sinn hóf hún
með tveimur ljóðabókum á áttunda áratugn-
um, Vingeslag (1976) og Flotid (1977). En
svo komu þau verk sem hún er frægust fyr-
ir og færðu henni almennar vinsældir, svo-
kallaðar Þórubækur; Huset med den blinde
glassveranda (1981), Det stumme rommet
(1983) og Hudlos himmel (1986), en fyrir
þá bók fékk hún bókmenntaverðlaun Norður-
landaráðs árið 1987. Þessar bækur hafa kom-
ið út í íslenskri þýðingu Hannesar Sigfússon-
ar, skálds (Húsið með blindu glersvölunum,
1988, Þögla herbergið, 1989, og Dreyrahim-
inn, 1990).
I Þórubókunum fjallar Wassmo um eld-
gamalt bókmenntaminni, sifjaspell, en samt
var eins og sprengju hefði verið varpað inn
í norskt samfélag á öndverðum níunda ára-
tugnum þegar fyrsta bókin kom út. Rakel
Chistina Granaas, sem stýrði málþinginu,
sagði í stuttu erindi um viðtökur á verkum
Wassmo að Þórubækurnar hefðu váldið svo
miklum usla vegna þess að í þeim hefði ver-
ið fjallað um þetta tabú, sem sifjaspell höfðu
verið um langan tíma, á opinskáan og bein-
skeyttan hátt; „í fyrsta skipti var skoðað inn
í sál fórnarlambs sifjaspella. Sifjaspell voru
dregin fram í dagsljósið."
í kjölfar útkomu bókarinnar spunnust
miklar umræður um það hvort lýsingar á
þöglum viðbrögðum Þóru og upplifun hennar
á sálrænum klofningi væru raunsæislegar
og trúverðugar eða yfirdrifnar og „móðursýk-
islegar", eins og sumir gagnrýnendur kölluðu
þær. Tíminn hefur leitt í ljós að lýsing
Wassmo er nær veruleikanum en margir vildu
viðurkenna í fyrstu.
í fyrirlestri sínum fjallaði Dagný Kristjáns-
dóttir, dósent við Háskóla íslands, um sam-
band eða tengsl móður og dóttur í Þórusögun-
um, en þessi tengsl eru Wassmo einnig mjög
hugleikin í öðrum bókum. Dagný sagði að
ótti Þóru við aðskilnað við móður sína og
hvers konar takmarkanir á sambandi þeirra
væri innbyggður í texta bókanna. En tíðar-
andinn krefst móðurmorðs, sagði Dagný, til
þess að geta fundið eða skapað sitt eigið sjálf
þarf dóttir að fremja táknrænt móðurmorð.
Þessi krafa er ekki viðurkennd í bókum
Wassmo, að mati Dagnýjar, hún er þvert á
móti gagnrýnd sem tilbúningur. „Þannig eru
kannski að myndast ný tengsl þarna á milli,
ef til vill er að koma nýtt móður-dóttur þema
inn í bókmenntirnar, leitandi, ögrandi og
óöruggt en algjörlega nauðsynlegt ef við eig-
um að rata úr öngstrætunum, sem við höfum
verið í síðustu ár, og fínna leiðina að nýrri
sjálfsveru konunnar. Ég held að textar Her-
bjargar Wassmo geti hjálpað okkur í þessari
leit því þeir hreyfa við hinum ýmsu bann-
helgu umfjöllunarefnum og veita okkur óend-
anlega margslungin og áhugaverð rannsókn-
arefni.“
Síkvikur og margradda texti -
Dinubælcwrnar
Á fyrri hluta níunda áratugarins skrifaði
Wassmo einnig tvö útvarpsleikrit; Junivinter
(1981) og Mellomlanding (1985) og heimilda-
skáldsöguna Veien á gá (1984). Árið 1989
kom svo skáldsagan Dinas bok og þremur
árum síðar sjálfstætt framhald hennar, Lyk-
kens sonn.
Dinas bok vakti mikla athygli en skoðanir
gagnrýnenda voru nú mjög skiptar á skrifum
Wassmo. Má segja að þeir hafi skipst í tvö
horn, annars vegar konur sem gáfu verkinu
góða dóma og hins vegar karla sem voru
neikvæðari. Granaas sagði að kvengagnrýn-
endur hefðu verið duglegri við að benda á
hið móderníska og nýja í textum Wassmo
en karlgagnrýnendur ráku sífellt tærnar í
það sem þeir kölluðu „yfirdrifna mellódramat-
ík“ hennar. Taldi Granaas að það þyrfti í
sjálfu sér ekki að koma mjög á óvart að texti
skrifaður af konu höfðaði meir til kvenna en
karla, en benti jafnframt á að frá hinu kyn-
bundna sjónarhorni væri sýnin á verk
Wassmo mjög takmörkuð; „það er mikilvægt
að undirstrika hve margþættur og margbrot-
inn texti Wassmo er og hve margar leiðir,
sem enn eru órannsakaðar, liggja að honum.“
Sarah Paulson, aðstoðarkennari í norsk-
um bókmenntum við Háskólann í Þránd-
heimi, sagði í erindi sínu á málþinginu að
ómögulegt væri að gefa einhlíta lýsingu á
Dinas bok vegna þess að texti hennar væri
sífellt að hlaupa út undan sér, grafa undan
sjálfum sér; þessi texti væri síkvikur og því
erfitt að höndla hann og skilgreina. Sífelld
spenna og togstreita einkenndi hann kannski
einna helst. Og það sama ætti við um Lykk-
ens sonn.
Paulson sagði texta Wassmo í þessum
bókum vera margradda og vísaði í kenningar
rússneska fræðimannsins Mikhails Bakhtin
um það hugtak. Eins og hugtakið bendir til
eru raddirnar í margradda texta margar,
rödd höfundarins er með öðrum orðum ekki
sú eina sem heyrist heldur hefur hver per-
sóna sína eigin rödd, er ekki málpípa höfund-
arins. Og það er athyglisvert að á fyrrnefndu
upplestrarkvöldi mátti heyra samhljóm með
þessum hugmyndum í máli Wassmo. Hún
sagði að það væri frumskylda rithöfundar
að ryðja sjálfum sér úr vegi, að verða eng-
inn. „Rithöfundurinn má ekki hafa vilja til
neins annars en að skapa; ef rödd hans sjálfs
er í öllu verkinu dettur það dautt niður, það
verður andvana fætt.“
Nútimakonur
Nýjasta bók Wassmo heitir Reiserog kom
út síðastliðið haust. í henni rær Wassmo að
mörgu leyti á önnur mið en í fyrri verkum
sínum. Bókin er fyrsta smásagnasafn hennar
og er öll skrifuð í 1. persónu, en þeim frá-
sagnarhætti hafði hún aðeins beitt í nokkrum
stuttum köflum Dinas bok og Lykkens sonn
áður. Gagnrýnendur tóku bókinni vel og
þótti hún vera djörf tilraun viðurkennds höf-
undar til að finna sér nýja rödd, nýja stöðu
í norskum bókmenntum.
Oystein Rottem, rithöfundur og gagnrýn-
andi, sagði í erindi sínu að meginmunurinn
á þessari nýju bók Wassmo og þeim fyrri
fælist í persónusköpuninni. I Reiser er
Wassmo að skrifa um persónur (konur) sem
standa henni nær í tíma og rúmi en í fyrri
verkum sínum. „Konurnar í bókinni eru
hvorki fórnarlömb sifjaspella eins og Þóra
né valkytjur eins og Dina. Þær eru nútíma-
konur. Þær eru á besta aldri. Hafa lifað líf-
inu og reynt ýmislegt, gert hluti sem eru
langt frá því að vera dæmigerðir fyrir þá
kynslóð kvenna sem þær tilheyra. Þær eru
hvorki mjög veikar og viðkvæmar né yfir-
máta sterkar og harðsvíraðar. Þær geta ver-
ið á barmi taugaáfalls, en þær brotna ekki.“
En sögurnar í Reiser eiga eitt grunnþema
sameiginlegt með fyrri bókum Wassmo, að
sögn Rottem. í öllum bókunum er sagt frá
fólki sem hefur misst eitthvað og stendur
eftir í eins konar tilvistartómi, tómarúmi sem
það reynir svo að fylla upp í. „í smásögunum
útfærir Wassmo þetta þema á nýjan hátt,
ekki eins dramatískan, en spurningar um
dauðann og ragnarök verða meira áberandi."
Raunsæi og draumar
Skipta má höfundarverki Wassmo í fernt;
(1) ljóðabækurnar í upphafi ferilsins, (2)
Þórubækurnar, (3) þær bækur sem hér hafa
verið kenndar við Dinu (Dinas bok og Lyk-
kens sonn) og (4) smásögurnar, sem hún
gaf út í fyrra. Ef við ætluðum svo að reyna
að setja þessar bækur undir einhvern einn
hatt myndi hann sennilega kallast raunsæi,'
eins og Svein Jarvoll, rithöfundur, þýðandi
og gagnrýnandi, benti á í erindi sínu. En
þótt frásagnarháttur Wassmo sé yfirleitt
raunsær víkur hún oftlega út af þeirri braut,
nægir þar að nefna síðustu bókina í Þórutrí-
lógíunni, Hudlos himmel, þar sem hin rök-
lega framvinda textans leysist upp aftur og
aftur.
Viðhorf Wassmo til skáldskaparins er
heldur ekki viðhorf hins dæmigerða raun-
sæisskálds. Við gefum henni orðið að lokum.
„Andagiftin liggur dulin á milli líkamlegrar
skynjunar okkar annars vegar og andlegs
ástands okkar og drauma hins vegar. Nánar
er ekki hægt að skilgreina hana. I draumi
erum við á ystu mörkum tilverunnar. En
enginn gagnger greinarmunur er á draumi
og ofskynjun. En hvað er þá skáld? Skáld
er manneskja sem dreymir vakandi.“
FYRIRLESARAR á málþinginu um Wassmo fyrir utan Bryggens Museum í Björgvin;
Sarah Paulson, Oystein Rottem, Rakel Christina Granaas, sem stýrði þinginu, Dagný
Kristjánsdóttir og Svein Jarvoll.
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING/LISTIR 22. JÚNÍ 1996 I 5