Lesbók Morgunblaðsins - 18.09.1999, Blaðsíða 19

Lesbók Morgunblaðsins - 18.09.1999, Blaðsíða 19
VÍNLAND ER ELDRA EN ÍSLANDS BYGGÐ EFTIR HERMANN PÁLSSON Hvergi í sögunum er þess minnst að Vínlandsfarar gerðu sér vín af öllum þeim vínberjum sem þeir lásu á Vínlandi. En ef Vín- land dregur heiti sÍtt^T víni fremur en vínberjum eða vínviði, verður að leita vitneskju utan íslenskra fornrita. 1. Landcrfundir eg landonöfn MEÐ því að nú hefur öflugri Landafundanefnd verið hrundið af stokkum má ætla að áhugi þjóðarinnar beinist ekki einung- is að snillingum á borð við þá Naddodd víking, Garðar Svavarsson, Hrafna- Flóka, Gunnbjörn Úlfsson, Eirík rauða, Bjarna Herjólfsson, Leif Eiríksson hinn heppna og Þorfinn karlsefni, heldur einnig að nöfnum þeirra landa og eyja sem slíkir snill- ingar fundu út um hvippinn og hvappinn og hlutu verðskuldaða frægð fyrir bragðið. Sum þau landanöfn sem forðum voru gefin í rænu- leysi líðandi stundar, löngu áður en Landa- fundanefnd kom til sögunnar, eru ekki lengur við lýði: fáir minnast nú Snælands, Garðars- hólms og Gunnbjarnarskerja. Hins vegar hefur þjóðin enga ástæðu til að gleyma nafni Vínlands, jafnvel þótt ýmsir hafi kynlegar hugmyndir um uppruna þessa nafns. Síðar í þessu hjali verður reynt eftir nokkrum krókaleiðum að finna svar við spurdaganum mikla: Hvaðan er nafnið Vínland komið? Ann- að vandamál varðar tímatal. Hvenær fengu ís- lendingar fyrst þá vitneskju að vínviður prýddi eitt kostaland handan við hafið í útsuðri? Var það Leifur hinn heppni sem færði löndum sín- um á Grænlandi slíkt fagnáðarerindi, áður en fréttin barst austur um haf til Skagafjarðar, þar sem Þorfinni karlsefni varð einkar við dátt að heyra tíðindin? Eða vissu landnámsmenn eitthvað um vínlönd í vestri áður en þeir tóku sér bólfestu hér? Nú er kostað kapps um að ákveða ná- kvæma hnattstöðu Vínlands og er þá farið í vínberjamó á austurjaðri Vesturheims og öðr- um tilbrögðum beitt, en þó ættu áhugamenn ekki síður að láta sér annt um að finna Vín- landi öruggan stað í hugmyndaheimi þeirra þjóða sem forðum minntust vínlanda vestan hafs í bókum sínum, en þær eru einmitt írar og íslendingar.1 ísland byggðist að nokkru leyti af írlandi og Suðureyjum og því þykir skylt að kanna menningu vora í ljósi þeirra hugmynda sem auðkenndu íra og Suðurey- inga fyrr á öldum. 2. ísland Fróðir menn telja að ísland sé þriðja nafnið sem fósturjörð vorri var gefið og raunar hið eina sem við hana hefur loðað síðan á níundu öld. Þetta hála og svala heiti þykir frábærlega valið, enda felur það í sér allar myndbreyting- ar vatns, hvort sem heldur er um að ræða regn eða snjó, hagl eða hrím, gufu eða ský, foss eða jökul, vellandi hveri, varmar laugar eða kaldavermslin sjálf. Skáldleg frásögn hermir að nafnið ísland hafi sprottið upp á Vestfjörðum, í grennd við örnefni á borð við Vatnsfjörð, Isafjórð, Reykhóla og Gufufjörð, sem öll mega teljast tilbrigði við sama stefið. Að fornu þótti sjálfsagt að klífa hátt fjall áður en heilu landi væri valið nafn, að minnsta kosti í þeim skröksögum2 sem helst er tekið mark á. I Landnámu sinni, einhverri frægustu ritningu sem ort hefur verið á íslenska tungu, lýsir St- urla Þórðarson (1214-84) heyleysi þeirra Hrafna-Flóka og kumpána hans og síðan farast honum orð á þessa lund: „Vor var heldur kalt. Lýsing úr írsku handriti, líklega frá 9. öld. Þá gekk Flóki upp á fjall eitt hátt og sá norður yfir fjöllin fjörð fullan af hafísum; því kölluðu þeir landið ísland sem það hefir síðan heitið." Þessi sögn mun vera hreinn og tær skáldskap- ur, en hún er ekki verri fyrir það. 3. Örnefnasögur I írskum og íslenskum fornsögum úir og grúir af örnefnasögum: fyrr á öldum reyndu menn sí og æ að finna ástæður til nafngifta og er þá jafnan miðað við einhvern tiltekinn at- burð eða atvik. írskar frásagnir af slíku tagi fylla heilar skræður og hérlendis fer býsna mikið fyrir þeim í Landnámu og íslendinga sögum. Yfirleitt eru þess konar skýringar ærið vafasamar, enda munu fáir leggja trúnað á þá staðhæfingu í Sturlubók Landnámu að Kambs- nes í Hvammsfirði sé kennt við einhvern kamb sem Auður djúpúðga var talin hafa tapað þar. Hitt þykir öllu sennilegra að nesið dragi heiti sitt af einhverjum kambi í landslagi. Grunsamlegar eru skýringar á örnefninu Kjalarnes í Vesturheimi. I Eiríks sögu rauða fundu þeir Karlsefni kjöl af skipi og gáfu því þetta nafn. En í Grænlendinga sögu brutu Þorvaldur Eiríksson og förunautar hans kjöl- inn undan skipi sínu og þegar þeir höfðu bætt skipið varð garpi að orði: „Nú vil ég að vér reisum hér upp kjölinn á nesinu og köllum Kjalarnes." Meginregla um slíkar skýringar er sú að enginn skyldi leggja á þær trúnað, enda mun nafnið Kjalarnes stafa frá landslagi fremur en smíðisgrip. Um Vínland er það skemmst að segja að heitið á því mun vera rangskýrt í fornum letrum vorum. 4. Vfnviður eg vinber I frásögn Grænlendinga sögu af nafngift- inni Vínland er þess fyrst getið að þýskur fóstri Leifs,3 sem var fæddur þar sem hvorki skorti vínvið né vínber, fann einmitt slíkan gróður fyrir vestan haf. Leifur skipur svo fyr- ir að nú skuli lesa vínber eða höggva vínvið og fella mörk- ina [...] Svo er sagt að eftirbátur þeirra var fylldur af vínberjum. Nú var höggvinn farmur á skipið. Og er vorar, þá bjuggust þeir og sigldu burt, og gaf Leifur nafn landinu eftir landkostum og kallaði Vínland. Nú er ekki verið að klífa fjall til nafngiftar, heldur virðist Leifur gefa nafnið af skipsfjöl. Hér, eins og endranær í Vínlandssögum, er gert ráð fyrir þeirri undarlegu hugmynd að vínviður sé mikils virði í sjálfum sér og nytj- anlegur með einhverju móti, en þó er þess ekki getið til hvers þeir notuðu vínviðinn þeg- ar heim til Grænlands kom. Þótt Grænlendinga saga telji hiklaust að Vínland sé kennt við vínber og vínvið er sú skýring ærið grunsamleg. I fyrsta lagi mætti spyrja af hverju landið var ekki kennt við þann gróður sem bar fyrir augu og kallað annað tveggja *Vínberjaland eða *Vínviðar- land. Vitaskuld verður því ekki neitað að for- liðurinn vín merkir allt annað en vínber og vmviður. Eini staðurinn í Vínlandssögunum tveim þar sem vfn verður umræðuefni er frásögnin af vonbrigðum Þórhalls veiðimanns í Eiríks sögu rauða sem kvartar sáran undan vínleysi í dróttkvæðri vísu; hluta vísunnar mætti end- ursegja á þessa lund: „Menn sögðu að ég fengi hinn besta drykk er ég kæmi hingað, en þó kom aldrei dropi víns á varir mér." Hvergi í sögunum er þess minnst að Vínlandsfarar gerðu sér vín af öllum þeim vínberjum sem þeir lásu á Vínlandi. En ef Vínland dregur heiti sitt af víni, fremur en vínberjum eða vín- viði, verður að leita vitneskju utan íslenskra fornrita. Áður en farið er út í slíka sálma þarf þó að grafast fyrir um aðra hluti. 5. Úr Eyrbyggju eg Landnámu Hvernig sem málum er velt fyrir sér hlýtur sá grunur að vakna að nafnið Vínland kunni að vera eldra en siglingar þeirra Leifs heppna og Þorfinns karlsefnis á vesturslóðum. I því skyni að átta sig sem best á þessu vandamáli í heild nægir ekki að einblína á Eiríks sögu , rauða og Grænlendinga sögu heldur er einnig skylt að taka aðrar frásagnir til greina. Rétt eins og brátt verður rakið, varpa tvær ís- lenskar bækur, sem sé Eyrbyggja og Land- náma, dálítilli skímu á hugmyndir forfeðra vorra um Vínland, en auk þeirra eru þónokk- ur írsk fornrit sem skipta hér miklu máli. Samkvæmt Eyrbyggju var Guðleifur Þorfinnsson farmaður úr Straumfirði á sigl- ingu frá Dyflinni til íslands, þegar hann hrakti vestur um haf; þá bar hann að landi sem minnir mjög á Vínland; þar töluðu menn írsku og helsti leiðtogi þeirra var aldraður ís- lendingur, grár fyrir hærum, sem neitaði tví- vegis að segja til nafns síns,4 en með því að <£ hann kvaðst vera betri vinur húsfreyjunnar á Fróðá en goðans á Helgafelli, þykjast allir vita að maðurinn hljóti að hafa verið Björn Breiðvíkingakappi. Frá hinu ókunna landi í vestri siglir Guðleifur austur um haf til Ir- lands, á þar vetrardvöl og heldur síðan heim til íslands sumarið eftir; hið vestræna land er tengt írlandi á ýmsa lund. Hrakningar Guð- leifs eiga að hafa gerst skömmu fyrir 1030.5 I Landnámu segir frá Ara Mássyni á Reyk- hólum, sem var farmaður rétt eins og Guðleif- ur úr Straumfirði, Leifur heppni og Þorfinnur karlsefni en ílentist í ókunnu landi eins og Björn Breiðvíkingakappi. Frásögnin af Ara er í sneggsta lagi: Hann varð sæhafi til Hvítramannalands;6 það kalla sumir írland hið mikla; það liggur vestur í haf nær Vínlandi hinu góða; það er kallað sex dægra sigling vestur frá írlandi. Þaðan náði Ari eigi á brutt að fara og var þar skírður. Þessa sögu sagði fyrst Hrafn Hlymreksfari, er lengi hafði verið í Hlymreki á írlandi. Svo kvað Þorkell Gellisson segja íslenska menn, þá er heyrt höfðu frá segja Þorfinn jarl í Orkneyjum, að Ari hefði kenndur verið á Hvítramannalandi og náði eigi brutt að fara, en var þar vel virður. Ari átti Þorgerði dóttur Álfs úr Dölum; þeirra son var Þorgils og Guðleifur og Illugi; það er Reyknesingaætt.7 . Þessi örstutta glefsa lætur ekki mikið yfir sér en getur þó talist merkilegt kennileiti í menningarsögu forfeðra vorra fyrr á öldum. Hér virðast renna saman íslenskar og írskar hugmyndir um dularfull lönd fyrir vestan haf. Með heimildarmanninum Þorkatli Gellissyni er glögglega gefið í skyn að frásögnin sé færð í letur af Ara fróða en hann var bróðursonur Þorkels Gellissonar og niðji Ara Mássonar,8 sem forðum ílentist á Hvítramannalandi langt vestur í hafi nær Vínlandi hinu góða. Greinin um efstu öriög Ara Mássonar mun vera hið fyrsta sem skráð var á íslensku um Vínland og enn er varðveitt. Þorgils Arason sem nefndur var hér að framan var faðir Valgerð- ar, ömmu Ara fróða. Einsætt er að bæði örnefnin Hvítramanna- land og írland hið mikla benda ákveðið til írskra heimilda. Og sama máli gegnir um fjar-'A lægðina 'sex dægra sigling vestur frá írlandi, þótt hún sé vitaskuld allt of stutt. Sú kristni sem Ara var kennd hefur vafalaust verið af írskum toga. Þess er skylt að geta að örnefnið Hvítramannaland mun vera þýtt úr írsku;9 svipuðu máli gegnir um einstaka þríliða staða- heiti á íslensku, svo sem Kornbretaland. MerM- legt má það teljast að einn af heimildarmönn- um frásagnarinnar af Ara Mássyni hafði dvalist lengi í Hlymreki á Vestur-írlandi, en þar var merkur kaupstaður sem Norðmenn settu á stofn á níundu öld. Hitt er einnig athygli vert að í sögninni af Guðleifi úr Straumfirði er talið að írsk tunga hafi gengið á landinu vestan hafs. Rétt eins og nafnið írland hið mikla gefur í skyn, þá hillir hér undir írskar arfsagnir. Ef einhver fótur er fyrir þeirri staðhæfingu ^ að Ari Másson hafi ílenst á Irlandi hinu mikla, * skammt frá Vínlandi hinu góða, þá hefur hann verið fyrsti íslendingurinn sem sté fæti sínum á land í Vesturálfu. Ekki er vitað hvenær Ari hætti að eiga heima á óðaltorfu sinni, Reykhól- um, en það mun hafa gerst eftir 981, en þá var hann talinn einn af helsti höfðingjum þjóðar- innar. Þótt ýmislegt sé tortryggilegt um þessa frásögn nær engri átt að vísa henni á bug, enda eru heimildarmenn Ara fróða mjög trúverðug- ir, ekki hvað síst Þorkell Gellisson á Helgafelli, en Valgerður móðir hans frá Reykhölum var einmitt sonardóttir Ara Mássonar á Hvítra- mannalandi. Þessi arfsögn sýnir að íslendingar á elleftu og tólftu öld réðu yfir vitneskju um5^ Vesturálfu sem var óháð Eiríks sögu rauða og Grænlendinga sögu. Niðurlag í næstu Lesbók. Höfundurinn er fyrrverandi prófessor vi5 Edinborgarháskóla. LESBÓK MORGUNBLADSINS ~ MENNING/LISTIR 18. SEPTEMBER 1999 19

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.