Alþýðublaðið - 14.03.1987, Blaðsíða 15
Laugardagur 14. mars 1987
15
Fríða A.
Sigurðardóttir
rithöfundur:
„Bókin styrkir sálarieg tengsl milli manna. Svo lengi sem ég get lesið er mér sama um flest annað.“
Ég gat ekki
hætt að skrifa
„Ég segi eins og minn ágæti læri-
faðir, Dr. Björn Sigfússon háskóla-
bókavörður, þegar þú spyrð mig um
hvað nýjasta bókin mín fjalli, en
Dr. Björn fékk svipaða spurningu
einhvern tímann og sagði þá: Já, ég
skrifaði víst þessa bók, en ég hef
ekki lesið hana! Ég er nefnilega
ekki viss um að ég sé rétta mann-
eskjan til að segja til um hvað stend-
ur í þessari bók. Maður sest niður
og skrifar bók og lýkur við hana —
og þá er það búið mál. Síðan kemur
þetta sálræna sjokk að gefa bókina
út. Nú þá þarf maður að fara aftur
í tímann og situr allt í einu sitt
hvoru megin við borðið og sagan
sem skipti svo miklu máli á meðan
hún var í vinnslu, er meira eða
minna horfin frá manni og áhuginn
á söguefninu að auki fokinn út i
veður og vind. Búið spil. Þar að
auki hef ég grun um að sá sem skrif-
ar bók, hafi allt aðra skoðun á
söguefninu en lesandinn, hinn hátt-
virti neytandi. Þarna myndast
ákveðið gap — tóm á milli höfund-
ar og lesenda. Ég er bara öðru meg-
in við borðið og skrifaði þessa bók
sem heitir Eins og hafið. Síðan fékk
ég útgefanda að sögunni og þá var
málið að nokkru leyti komið úr
mínum höndum og út af heimilinu
og ég var hætt að hugsa um söguna.
Þríggja ára vinna
Síðan fara spurningar að dynja á
höfundinum: Af hverju stendur
þetta þarna, hvað á þessi setning að
þýða o.s.frv. Og svo er alveg til í
málinu að einhver persónan verði
allt öðruvísi en hún var hugsuð í
upphafi;
Éins og hafið er bók sem ég lagði
mikla vinnu í og hafði mjög gaman
af að skrifa. En ég er seinvirk. Það
tók mig þrjú eða fjögur ár að koma
henni saman. Auðvitað var ég orðin
leið á verkinu. í fyrsta lagi var ég
búin að ganga lengi með söguna í
höfðinu áður en ég settist niður við
að skrifa. En það var ekki nóg að
setjast niður, ég var lengi að finna
rétta tóninn. Þegar það svo loksins
tókst, þá gat ég farið að huga að
bakgrunni sögunnar. Loksins eftir
að þetta var allt smollið saman gat
ég fyrst byrjað að skrifa og það tók
rúm þrjú ár.
Að halda
tilfinningunni
Eitt af því erfiðasta við að vinna
bók á svona löngum tíma var að
halda tilfinningunni fyrir persón-
unum og umhverfi sögunnar. Ég
var með margar persónur og heilt
þorp sem ég bjó til eða lítið samfé-
lag og ég sá fljótlega að ef ekki átti
allt að fara í rugling hjá mér, þá yrði
ég að teikna upp landslagið, þorpið
og göturnar til þess að missa ekki
allt saman út í veður og vind. Og
þar með tókst mér að villast aldrei
út úr þessum heimi sem ég hafði
skapað. Þegar þetta er svo allt sam-
an komið á skrið og tónninn í verk-
inu er fenginn, þá eru að vísu
ákveðnir erfiðleikar við að halda
honum, en það er mesta furða hvað
það tekst og þessi aðferð að teikna
upp umhverfi sögunnar gafst mér
vel.
Skelfingin
Þó fékk ég einu sinni, á meðan á
þessu stóð, þá tilfinningu að ég væri
búin að missa allt út úr höndunum
á mér. Þá varð ég skelfingu lostin og
það var í eina skiptið sem ég varð
virkilega hrædd um að ég væri að
missa tengslin við söguna. Ég bjarg-
aði mér út úr þessum sálarháska
með því að vélrita allt upp aftur til
þess að geta siglt eðlilega inn í fram-
haldið, en tilfinningin var hryllileg
á meðan á þessu stóð. Þetta var
auðvitað mikil vinna, en nauðsyn-
legt fannst mér.
En það er eitt við að skrifa skáld-
sögu. Höfundurinn breytist sjálfur
á tímabilinu og persónur sögunnar
með. Ég er ekki söm manneskja í
dag og fyrir þremur árum og fyrir
bragðið tekur verkið ákveðnum
breytingum á þessu tímabili, í
sjálfri vinnslunni. Persóna sem var
hugsuð á einhvern ákveðinn hátt,
hún tekur vissum breytingum rétt
eins og maður sjálfur. Hún þrosk-
ast samhliða höfundinum að þvi er
virðist. Og þetta er vissulega eitt af
því sem er spennandi við persónu-
sköpun, að hlutirnir eru sífellt að
breytast.
Rammi og
grunnhugmynd
En ég held að það sé nauðsynlegt
að hafa nokkuð traustan grunn í
upphafi, einmitt til þess að missa
ekki söguna út úr höndunum á sér.
Ef grunnurinn er traustur þá hef ég
ekki trú á að höfundurinn þurfi að
missa tökin á sögunni. Það er alla-
vega mín reynsla. Þegar heimur
sögunnar er einu sinni kominn inn
í mann þá hverfur hann ekki þaðan
svo glatt. Rammi og grunnhug-
mynd, það held ég að sé góð byrjun.
Ég hef ekki lesið bókina eftir að
hún kom út — ég hef hreinlega ekki
nennt því. En þetta kemur seinna.
Eftir ákveðinn tíma verður örugg-
lega gaman fyrir mig að glugga í
bókina, en eins og er þá er ég búin
að fá nóg af henni í bili. Þessi saga
er heimur sem ég hef lifað í og ég er
eðlilega orðin þreytt á verkinu. En
svo lagast þetta. En galdurinn við
að skrifa góða bók held ég að sé að
sýna sjálfum sér og viðfangsefninu
fullan heiðarleika og auðmýkt.
Efinn er reyndar fylginautur
manns í þessu starfi. En stundum
efast maður um sjálfan sig, það er
satt. Maður er alltaf að skrifa um
sömu hlutina. Það sem breytist eru
efnistök — á vissan hátt, stíll eða
tóntegund væri kannski rétta orðið.
Tilraun með stíl
Sannleikurinn er sá, að ég var að
prófa í þessari bók ákveðna frá-
sagnaraðferð og stíl. Og ég er nokk-
uð ánægð með útkomuna. Auðvit-
að er maður aldrei alveg ánægður
með alla hluti, en þegar á allt er litið
þá held ég að ég sé sátt við þetta
verk. Ég get reyndar sagt það um
tvær síðustu bækur mínar. Ég hef
aldrei sent neitt frá mér sem mér
finnst ég þurfi að skammast min
fyrir. Ef til vill á höfundur ekki að
segja svona, en ég er nokkuð ánægð
með það sem ég hef verið að gera að
undanförnu. Allavega get ég talað
um mínar bækur án þess að afneita
þeim á einhvern hátt. Mér dettur
það ekki í hug.
Visst sakleysi eða hrein tilfinning
er að mínu mati mjög verðmætur
eiginleiki í bókum. Sumar bækur
eru mjög faglega unnar og „réttar“,
innan gæsalappa, í alla staði en það
er samt eins og vanti í þær sálina.
Það vantar í þær lífið og tilfinning-
una. Vanti líf í sögu þá er sagan ein-
hvern veginn alveg út í hött. Sagan
hefur þá mistekist ef þetta líf og
þessar tilfinningar vantar. Þá þýðir
ekki lengur að tala um vinnubrögð
— þau skipta þá engu máli því
grunninn vantar.
Það getur hins vegar verið gaman
að lesa bækur bókmenntafræðilega
séð til þess að athuga tækni og ann-
að slíkt, en ef lífið vantar í bókina,
þá vantar í rauninni allt.
Tómarúm
Fyrir nokkrum árum skapaðist
eitthvert tómarúm á milli höfunda
og lesenda. Þetta var á árunum
1965—1975 eða þar um bil. Ég velti
því fyrir mér þá hvort þetta hefði
verið vegna þess að menn töluðu þá
svo hátíðlega um menningu á þessu
tímabili og menn voru svo gáfaðir
að það var með eindæmum og ég
hélt kannski að þetta gap hefði ver-
ið vegna þess að íslenskir lesendur
væru komnir á þá skoðun að is-
lenskar bækur væru leiðinlegar.
Kannski voru þær það, ég veit það
ekki en það er hugsanlegt. En á
þessum árum var heldur ekki „fínt“
að sýna tilfinningar. Og þetta er
dálítið svona enn þann dag í dag
finnst mér. Það er eins og vanti enn
vissan húmanisma í bækur.
Hástemmd
menningarumrœða
Ég held nefnilega að listum og
menningu hafi verið lyft svo ramm-
lega upp á þessum árum að almenn-
ingur hélt að þetta væri bara ekkert
fyrir sig. Þetta virkaði dálítið á
mann eins og sendibréf á milli rit-
höfunda og gagnrýnenda. Hinn al-
menni lesandi var svo settur ein-
hvern veginn til hliðar við allt sam-
an. Mín skoðun er sú að þetta hafi
alls ekki verið bókunum sjálfum að
kenna, því margar þeirra voru
ágætar og stórskemmtilegar. Mér
gekk reyndar alltaf illa að skýra
þetta mál fyrir sjálfri mér. En það
er nú einu sinni svona í sambandi
við listir, að það er alveg sama
hvaða kenningu þú tekur, það geng-
ur ekkert upp í öllum hugsanlegum
atriðum. En á þessum árum var öll.
menningarumræða mjög há-
stemmd og hátíðleg og það var ekki
af hinu góða. Almenningur hætti
að botna í þessu sem eðlilegt er.
Að ná áttum
Auðvitað voru þetta miklir um-
brotatímar, þarna komu fram hipp-
arnir og blómabörnin og bítlarnir
og samfélagið fór einhvern veginn
allt í háaloft um tíma. Ég held að
þarna hafi orðið visst skammhlaup
— í samfélaginu öllu. Og þegar
upplausnartímar verða hjá fólki al-
mennt, þá er eins og menn missi
tengslin við bæði fortíð og framtíð
og jafnvel nútíðina líka. Þá tekur
það nokkurn tíma fyrir alla aðila að
ná áttum aftur. Þetta er mín tilfinn-
ing fyrir þessu tímabili. Og það fór
fram mikil leit hjá höfundum, les-
endum og ekki síst útgefendum,
sem voru auðvitað með lífið i lúk-
unum vegna þess að allt í einu fóru
skáldsögur að seljast illa. Þannig
var skyndilega komið upp mikið
óvissuástand. Menn vissu ekki hvar
þeir stóðu.
Efnilegt ungt fólk
Ég er reyndar ekki trúuð á það að
tiskuhreyfingar og annað slíkt móti
skrif rithöfunda, en það er búin að
vera mikil gerjun, ekki síst í sam-
bandi við bókmenntir og reyndar á
öllum sviðum lista sýnist mér og ég
held að það séu allir að þreifa fyrir
sér, hver á sinn hátt. Það er á öllum
sviðum lista að koma fram ungt og
mjög efnilegt fólk sem lofar svo
sannarlega góðu. Og mér finnst
vera áberandi hvað eru að gerast
skemmtilegir hlutir hjá konum, af
krafti og ákveðni sem minna bar á
áður. Mér finnst sem sagt að það
séu að gerast mjög góðir hlutir í
bókmenntum í dag. Það er að rísa
ný kraftmikil bylgja í listum al-
mennt. Þetta eru reyndar hlutir sem
hafa sína eðlilegu þróun og gerast
ekki í neinum grænum hvelli, en eru
þó áberandi einmitt núna. Hlutirnir
virðast vera að jafna sig og bókin
t.d. að ná sér á strik aftur. Það er að
renna upp fyrir mönnum að það
kemur enginn miðill í staðinn fyrir
bókina. Sjónvarpið til dæmis er allt
öðruvísi miðill. Bókin styrkir
ákveðin sálarleg tengsl milli manna
og skilgreinir á vissan hátt tilveru
mannsins og það er upplifun sem
þú færð ekki annarsstaðar — nema
þá kannski helst í tónlist.
Breytt viðhorf
Og vel á minnst. Heilmikið hefur
verið að gerast í tónlistinni. Ef við
lítum til dæmis til íslensku óper-
unnar og íslensku hljómsveitarinn-
ar, þá hefur átt sér stað á því sviði
hrein bylting. Fyrir fáum árum voru
þeir álitnir skrýtnir sérvitringar sem
hlustuðu á óperutónlist, en núna er
uppselt langtímum saman hjá ís
lensku óperunni. Þetta er stórkost-
Iegt. Viðhorfið hefur breyst. Al-
menningur hélt að listir væru fyrir
fáa útvalda og var hálf hræddur við
þetta og þá skipti ekki máli hvort
um var að ræða bókmenntir, mynd-
list eða tónlist. Á meðan eintómir
sérfræðingar fjölluðu um þessi
mál, var almenningur á þeirri skoð-
un að þetta væri ekki fyrir sig. En
þetta er mikið breytt sem betur fer.
En sjónvarpið hefur þrátt fyrir
allt gert tvennt: Annars vegar hefur
það kynnt listina og borið hana á
borð fyrir almenning sem er mjög
góður hlutur, og svo á hinn bóginn
hefur sjónvarpið sjálft afhjúpað þá
staðreynd að það sjálft var ekki
lausn á þessum málum nema að
litlu leyti og þá helst í kynningar-
skyni. Sjónvarp er einfaldlega fjöl-
miðill sem er annarrar tegundar.
Þegar þetta rann upp fyrir mönnum
leituðu þeir aftur til bókarinnar og
listarinnar.
Dópisti á bœkur
Þegar ég var ung þá sagði ég allt-
af: Svo lengi sem ég get lesið, þá er
mér sama um flest annað, því að ég
er dópisti á bækur. Svo lenti ég í því
að veikjast í augum og gat ekkert
Iesið, ég gat heldur ekki horft á
sjónvarp og þá þótti mér nú heldur
illa horfa fyrir mér og leist ekki á
blikuna sem vonlegt var. En þá var
það eitt sem bjargaði mér. Tónlist-
in. Þá rann upp fyrir mér að það eru
svipuð tengsl sem geta skapast milli
mannsins og bókarinnar og manns-
ins og tónlistarinnar. Ég uppgötv-
aði þetta þá. Og það var mikil hugg-
un að vita af því að þó svo að augun
biluðu um tíma, þá hefði maður þó
eyrun eftir!
Ekki hœgt að hœtta
Nú langar mig til að gera það sem
ég hef hlakkað til lengi og það er að
taka mér gott frí, ýta frá mér öllum
umhugsunum um skriftir og gera
eitthvað annað. En þá rakst ég á þá
nöturlegu staðreynd að það er ekki
hægt að hætta. Þetta er fíknmynd-
andi, þannig að ég er byrjuð að
krota aftur! En hvað verður úr því í
þetta skiptið veit ég ckki. Það er
ekki komið það langt. En það kem-
ur að þeim púnkti að maður fær
ekki nokkurn frið iengur fyrir sjálf-
um sér og verður að setjast niður og
byrja að skrifa. Þetta er nefnilega
eins og hafið sjáðu. Öldurnar geta
komið mjög skyndilega yfir mann
og þá er ekkert hægt að gera nema
að reyna að vera eins vel undir bú-
inn og kostur er. Þannig er lífið.
Kannski.
Texti: Ö.B.