Alþýðublaðið - 16.03.1986, Blaðsíða 3

Alþýðublaðið - 16.03.1986, Blaðsíða 3
Sunnudagur 16. mars 1986 3 OLOF PALME Það eru þungbær örlög þegar friðarins maður verður enn einu sinni fórnarlamb ofbeldisins. Þannig hefur hinn mannlegi harmleikur birzt okkur í sögunni, af hinni helgu bók, í hinu forn- gríska drama og í heimi íslendinga- sagna. Og einnig á okkar dögum. í nafni íslenzkra jafnaðarmanna sendi ég sænskum jafnaðarmönn- um einlægar samúðarkveðjur við fráfall mikils Ieiðtoga. Frá íslenzku þjóðinni streyma hlýjar tilfinningar samhygðar og bróðurþels til sænsku þjóðarinnar. Olof Palme er látinn. En minning hans mun lengi lifa. Jón Baldvin Hannibalsson. Við andlát Olofs Palme hafa sannast him gömlu vísdómsorð, að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Eins og títt er um mikil- menni á sviði stjórnmála var hann umdeildur í lifanda lífi. Svo stór- brotinn var hann, að allir þekktu til hans og höfðu skoðanir um hann, störf hans og stefnu. Þegar hann, boðberi friðar og frelsis, féll fyrir kúlu launmorð- ingja á götu í höfuðborg sinni, kom það sem reiðarslag yfir sænsku þjóðina. Raunar ekki síður yfir hin- ar norrænu þjóðirnar, og loks við svo til allar þjóðir, þar sem hann eða orðspor hans höfðu komið og boðskapur hans var kunnur. Sorg sænsku þjóðarinnar var djúp og sár. Synir og dætur norðursins tár- uðust á torgum úti. Olof Palme hefur þegar sess í sögu okkar tíma. Hans mun verða minnst sem hins djarfa baráttu- manns fyrir friði og mannréttind- um, sem hljóp til varnar, þegar valdatafl og vopnaskak tróðu á lífi og örlögum lítilmagnans. Hans mun einnig verða minnst sem odd- vita þeirrar sænsku alþýðuhreyfing- ar, sem hefur á nokkrum áratugum skapað frjálst velferðarríki, er vart á sinn líka. Sá þáttur einn skapar honum stöðu í sænskri og norrænni sögu. Menn, sem eru til forustu valdir, hafa oft mörg andlit, ekki síst stjórnmálamenn, sem heyja baráttu sína á leiksviðr landsmála í augsýn almennings. Olof Palme var engin undantekning hvað þetta snerti. Margir þekktu hann aðeins sem hinn harða og stolta baráttumann í ræðustól eða sjónvarpi. Aðrir þekktu persónulega ljúfan og hóg- væran dreng, skemmtilegan og að- laðandi. íslendingar hafa syrgt Olof Palme fyrir allt það, sem hér hefur verið nefnt. Þeir syrgja einnig sér- stakan vin og aðdáanda íslands og sér í lagi íslenskrar menningar. Hann hafði oft heimsótt okkur síð- ustu áratugi og átti marga vini á ís- landi. Þegar á reyndi í meiri háttar þjóðmálum kom þessi vinátta hans og þekking á íslenskum högum okkur oft vel. Það vita þeir, sem nærri hafa staðið. 3.400 íslendingar, sem búa hér í landi og njóta gistivináttu sænsku þjóðarinnar, taka fullan þátt í sorg hennar og votta fjölskyldu Olofs Palme, flokki hans og sænsku þjóð- inni allri dýpstu samúð. Benedikt Gröndal, sendiherra í Stokkhólmi. MINNING Höggið var þungt. Skyndilega var Olof Palme allur. Á einni svipan breyttust Norðurlönd. Agndofa stóðum við frammi fyrir þessum tíðindum. Við vildum ekki trúa þeim — „ekki hann, ekki hér í okk- ar friðsæla heimshluta", ómaði í hugum okkar — en ískaldur veru- leikinn varð ekki umflúinn. Voðavíg hafði rofið kyrrð sænskrar nætur. Byssumaður hafði lagt að velli þennan friðarins mann. Launmorðingi hafði ráðið af dög- um þann mann sem var öllum víg- fimari en hafði orð ein að vopni. Friðsæl kvöldganga hans með konu sinni var í einu vetfangi stöðvuð. Þrotlaus ganga hans til að bæta heiminn var fyrirvaralaust á enda. Um hugann leiftra myndir af Olof Palme: — Af eldhuga á fjöldafundi, sem knýr það þungum rökum og miklum tilfinningahita að skattar verði að vera háir — þar til fundarmenn taka undir. — Af hinum snarráða, sem rís upp á stundinni, þegar tíðindi berast af innrás ísraels í Líbanon og kveður afdráttarlaust upp úr um að innrásina skuli fordæma þegar í stað. — Af friðarberanum, sem á al- þjóðlegum fundi lýsir ógnum kjarnavopna og biður um nýja alheimsstefnu sameiginlegs ör- yggis í stað gagnkvæmrar ógn- unar. — Af hugsuði, sem sitjandi í hópi félaga í stofu á sveitasetrinu í Harpsund, veltir vöngum yfir því hvernig jafnaðarmenn eiga að tryggja raunsanna valddreif- ingu, þar sem sérhver maður finni til samkenndar. Þannig var hann: Margbreyttur, fjölþættur persónuleiki með hin fjölbreytilegustu áhugasvið, í senn leitandi og leiðandi, yfirvegaður hugsuður og leiftrandi leiðtogi, hvass á stundum en jafnframt hlýr og glaður. Olof Palme sagði: „Pólitík er að vilja“ og hann hafði viljann. En hjá honum var Iíka skammur vegur frá vilja til athafna. Hvarvetna sá hann verkefnin. Réttlætiskennd og bar- áttuþróttur knúðu hann áfram. Þess vegna fékk hann líka miklu áorkað. Vegna alls þess sem hann ætlaði sér og átti óunnið höfum við svo mikils misst. Hann fór fyrir Norðurlöndunum eins og kyndilberi. Hann var fremsti talsmaður Norðurlanda. Enginn annar norrænn stjórnmála- maður var jafnþekktur utan Norð- urlanda eins og hann, enginn annar naut slíkrar virðingar, á engan ann- an var betur hlustað, hvort sem menn samsinntu honum eða ekki. Þetta skarð stendur nú ófyllt. Fyrir því finna Norðurlöndin öll. Söknuðurinn og missirinn er þó ekki Norðurlandanna einna. Þjóðir þriðja heimsins þekktu baráttu hans fyrir þeirra málstað. Þær vissu að barátta hans fyrir jöfnuði tak- markaðist ekki við heimaland hans eitt, heldur þreyttist hann seint á að minna á að ekki ætti og ekki mætti líða það efnalega misrétti sem ríkir milli ríkra þjóða og fátækra. Kúg- aðir og undirokaðir vissu líka, að Olof Palme var þeirra maður. Hann þoldi ekki órétt. Gegn óréttlæti og misrétti var hann manna vísastur til að beita sér hvar og hvenær sem það birtist. Þess vegna er sorgin þung og söknuður sár víða um heimsbyggð- ina, nú þegar Olof Palme er allur. Augu alheimsins beindust fyrst að Olof Palme, þegar hann hóf vægðarlausa baráttu sína gegn stríðsrekstri Bandaríkjamanna í Viet-Nam. Þá kaus hann að skipa sér fremst í fylkingu og hlífa sér i engu. Hann talaði tæpitungulaust og lét ekki á sig fá þótt Bandaríkin og fleiri gerðu að honum harða hríð. Þá sýndi hann þann kjark og þor, sem í honum bjó. Honum varð ekki þokað. Hann bauð hótunum byrginn. Þessi afstaða hans og sá viljastyrkur sem hann þá sýndi var lykillinn að þeirri tiltrú sem hann hlaut að njóta meðal allra kúgaðra og undirokaðra. í þessari rimmu kynntust menn nefnilega siðferðis- þreki hans og baráttuvilja. Þegar tímar liðu fundu menn í honum tákn frelsis og friðar, tákn mannréttindabaráttu og réttlætis. Hver sem sá til Olof Palme á al- þjóðlegum vettvangi hlaut að merkja hversu margir eygðu í hon- um von um lausn frá áþján og kúg- un, von um réttlátari heim, von um að fá að njóta friðar. Á síðari árum lagði Olof Palme sífellt ríkari áherzlu á baráttuna fyrir afvopnun og gegn vígbúnað- arkapphlaupinu. Hann benti á, að þótt halda mætti því fram, að gagn- kvæm fæling hefði tryggt frið frá styjaldarlokum, mætti jafnframt færa fyrir því sterk rök að svo mundi ekki verða til frambúðar. Hann lagði gjarnan áherzlu á að hvað sem liði hagsmunaárekstrum milli stórveldanna ættu þau jafn- framt sameiginlega hagsmuni í því að komast yrði hjá kjarnorkustyrj- öld sem mundi eyða heimsbyggð- inni. Á þessum grunni reisti hann hugmyndina um nýja stefnu í ör- yggis- og varnarmálum, þar sem „sameiginlegt öryggi" skyldi leysa ógnarjafnvægið af hólmi. Leiðin skyldi vera að draga úr spennu. Einn þáttur hennar er kjarnorku- vopnalaust belti um Evrópu endi- langa frá Norðurlöndum til Balk- anskaga. Svonefnd „Palme-nefnd“ undir forystu Olofs Palme gekk frá þessum hugmyndum í skýrslu til Sameinuðu þjóðanna. Skýrslan og starfið að henni lýsir tveimur eigin- leikum Olofs Palme einkar vel, nefnilega annars vegar hvernig hon- um tókst að laða til samstarfs og samvinnu fólk úr ýmsum heims- hornum og með öndverðar stjórn- málaskoðanir og knýja það til sam- eiginlegrar niðurstöðu og hins veg- ar kröfu hans um að koma með beinar tillögur um ákveðnar að- gerðir. í Olof Palme fór þannig talsmað- ur þriðja sjónarmiðsins, sem hafn- aði bæði rökum austurs og vesturs og leitaði nýrra leiða. Hann sá að vígbúnaðarkapphlaupið var ekki bara tilgangslaust heldur líka bæði rangt og hættulegt. Því barðist hann ótrauður gegn því, leitaði leiða til að minnka spennu og tor- tryggni og auka gagnkvæmt traust. Starfs hans á þessum vettvangi verður nú mjög saknað, þegar sæti hans er autt. Leiðtogi er fallinn. Félagi og vin- ur er kvaddur. Heimurinn hefur breytzt. Sænskur vegfarandi tók svo til orða, að Svíþjóð hefði dáið um stund, þegar tíðindin um víg Olofs Palme spurðust. En það var ekki bara Svíþjóð sem dó um stund. Þá slitnaði strengur í okkur öllum. Jafnaðarstefnan missti einn af sín- um fremstu foringjum, Norður- löndin misstu þekktasta og virtasta stjórnmálaleiðtoga sinn og heimur- inn allur missti friðarboða, sem lýsti öðrum og varpaði birtu á fram- tíðarveginn. Minning hans mun geymast og verða öðrum að leiðar- ljósi. Kjartan Jóhannsson. Ógnaratburðurinn í Stokkhólmi varpaði skugga á nýlokið Norður- landaráðsþing. Þar var ekki sem áður var og vantaði mikið á. Það hafði ekki aðeins verið höggið skarð í raðir norrænna jafnaðar- manna, heldur höfðu Norðurlönd- in misst leiðtoga á alþjóðavett- vangi, — leiðtoga, sem hlustað var á og tekið eftir, jafnt í austri sem vestri, ekki síður en í suðri og norðri. Olof Palme var einn þeirra sem setti hvað mestan svip á Norður- landaráðsþingin. Hver minnist ekki snarpra orðaskipta hans og Willochs í almennum umræðum hvers einasta þings þar sem báðir áttu sæti. Þar var tekist á um grund- vallaratriði hugmyndafræðinnar svo gneistaði. í fjölþjóðasamstarfi eins og Norðurlandaráði gefast tækifæri til gagnlegra kynna. í eitt ár starfaði undirritaður með Olof Palme í for- sætisnefnd Norðurlandaráðs, þar sem þá átti sæti einn frá hverju landi. Það var lærdómsríkt ár. En starfssvið Olofs Palme var víðari völlur en vettvangur Norðurlanda- ráðs. Hann var stjórnmálaleiðtogi á heimsvísu svo sem alþjóð er kunn- ugt. Mér er minnisstæður fundur, sem hann hélt með nokkrum nor- rænum jafnaðarmönnum, þá ný- kominn frá Nicaragua. Með eftir- minnilegum hætti skýrði hann stöðu mála í landinu og tengsl sin og samskipti við þarlenda stjórn- málamenn. Upp í hugann kemur líka morgunstund vestur á Hótel Sögu í desember 1984 er Olof og Lisbeth kona hans voru hér í opin- berri heimsókn. Þau vildu hitta ís- lenzka jafnaðarmenn og þar var setið og skeggrætt um stöðu Al- þýðuflokksins og pólitíkina í Sví- þjóð. í frægri ræðu, sem Olof Palme hélt á ársþingi Sambands ungra jafnaðarmanna í Svíþjóð árið 1964 og hófst á orðunum: „Pólitík er að vilja", ræddi hann meðal annars um vandamál þriðja heimsins, sem voru honum hugleikin. Þá sagði hann, er hann hafði lýst þeim regin- mun sem er á húsnæðis- og mennta- málum í Svíþjóð og þróunarlönd- unum: „Það er skylda okkar gagn- vart þjóðum heims að sýna að við stöðnum ekki í sjálfsánægjunni, heldur sækjum stöðugt fram“. Hann minnti líka á, að lýðræðis- jafnaðarstefnan hefði aldrei átt- brýnna erindi og aldrei veigameira hlutverki að gegna. Orð enn í fullu gildi. Mánudagskvöld í fyrri viku komu norrænir jafnaðarmenn saman í tengslum við þing Norður- landaráðs. Þar var ekki sami andi gleði og endurfunda sem oftast er. Það kvöld sagði Gro Harlem Brundtland formaður norska Al- þýðuflokksins okkur frá ferð er hún fór með Olof Palme til Indlands fyrir fáeinum vikum. Sú frásögn gleymist ekki þeim sem á hlýddu. Þar kom mæta vel fram hvernig Olof Palme fremstur meðal jafn- ingja í hópi norrænna jafnaðar- manna ræktaði vináttusambönd við þriðja heiminn. Það kom líka fram hvernig honum var þar fagnað sem boðbera vonarinnar um betra líf, — um frið og framför. Nú hefur ský dregið fyrir sólu hér á norðurhjara. Horfinn er sá stjórnmálamaður, sem lét rödd Norðurlanda berast vítt og breitt um veröldina, sem eftir var tekið og á var hlustað. Það er þakkarvert að hafa fengið að kynnast slíkum manni að nokkru og njóta návistar hans. Verk hans og minning munu lengi lifa. Eiður Guðnason. Olof Palme var einn mikilvirkasti og djarfasti baráttumaður jafnað- arstefnunnar síðustu áratugi. Hann var einn kunnasti leiðtogi jafnaðar- manna á alþjóðavettvangi; jafnt í þriðja heiminum sem á vesturlönd- um. — Hann starfaði mikið í Al- þjóðasainbandi jafnaðarmanna og hvatti mjög til eflingar norræns samstarfs. Olof Palme kynntist ég á sameig- inlegum fundum jafnaðarmanna- flokkanna á Norðurlöndum. Þau kynni voru góð og hlý. Hann fylgd- ist grannt með íslenskum stjórn- málum, og lýsti oft áhyggjum sín- um vegna sundrungar í hópi „vinstri" manna á íslandi. Það var notalegt að kynnast manninum Olof Palme á samkom- um þar sem stjórnmálaamstrið var utan dagskrár. Þá lék hann oft á alls oddi, sagði skemmtilega frá ýmsum atburðum í lífi sínu og var góður fé- Iagi. Nú er þessi merki maður allur. En málstaðurinn, sem hann barðist fyrir, mun lifa. Minningu hans verður best haldið á lofti með því að efla sókn og baráttu fyrir þeim hug- sjónum, sem hann helgaði krafta sína. Árni Gunnarsson.

x

Alþýðublaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Alþýðublaðið
https://timarit.is/publication/2

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.