Morgunblaðið - 16.11.2001, Side 50
MINNINGAR
50 FÖSTUDAGUR 16. NÓVEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ
✝ Björg SigrúnÓlafsdóttir,
saumakona og miðill,
fæddist á Þingeyri 3.
júlí 1909. Hún andað-
ist á öldrunardeild
Landspítala – há-
skólasjúkrahúss í
Fossvogi föstudaginn
9. nóvember síðastlið-
inn. Foreldrar henn-
ar voru Jónasína Sig-
mundsdóttur,
húsfreyja, frá Hrauni
á Ingjaldssandi, f. 28.
mars 1873, d. 2. nóv-
ember 1938, og Ólaf-
ur H. Magnússon, smiður, frá Hlíð-
arhúsum í Reykjavík, f. 29.
október 1872, d. 9. október 1958.
Björg var yngst þriggja systkina
en þau voru: 1) Esther Helga, hús-
móðir, f. 30. september 1900, d. 16.
desember 1973, maki Sigurður
Pétur Guðbjartsson, bryti, f. 10.
desember 1900, d. 29. ágúst 1959.
Börn þeirra eru: Lára f. 1922,
Bára, f. 1928, d. 1982, Ólafur, f.
1934, Halldóra, f. 1936, Jónas, f.
1937, og Helga, f. 1940. 2) Magnús
Halldór, verkamaður, f. 20. júní
1905, d. 26. júní 1965, maki Guðrún
Þorkelsdóttir, f. 14.
apríl 1905, d. 24. des-
ember 1985. Þeirra
barn er Guðrún Hall-
dóra, f. 1940.
Björg fluttist til
Reykjavíkur árið
1927, en vorið 1928
hóf hún nám í fata-
saumi á saumverk-
stæði Sigríðar Þor-
steinsdóttur á
Ægisgötu 10 og
starfaði þar í allmörg
ár. Vann hún við
saumaskap heima
eða hjá öðrum fram
eftir aldri. Björg var gædd dul-
rænum hæfileikum og stundaði
miðilsstörf um 60 ára skeið, m.a.
um hríð hjá Sálarrannsóknarfélagi
Íslands. Björg var ógift og barn-
laus en eftir andlát móður sinnar
hélt hún heimili með föður sínum.
Eftir að hann lést fluttist hún til
systur sinnar Estherar og systur-
dóttur Láru árið 1960. Esther lést
árið 1973 en Björg og Lára héldu
áfram saman heimili í Fellsmúla 9.
Útför Bjargar fer fram frá Bú-
staðakirkju í dag og hefst athöfnin
klukkan 15.
Ömmusystir mín, Björg S. Ólafs-
dóttir, er látin rúmlega 92 ára að
aldri. Hún gekk ætíð undir nafninu
Bubba í fjölskyldunni en ég kallaði
hana alltaf frænku mína þegar ég
ávarpaði hana, einkum hin seinni ár.
Þótt dauði frænku minnar hafi alls
ekki komið á óvart finnst mér það
mjög skrítið að eiga ekki eftir að hitta
hana oftar sitjandi í stólnum sínum í
stofunni í Fellsmúlanum, heklandi
eitthvað og að hlusta á Ríkisútvarpið
eða þá að lesa góða bók, svo ég tali nú
ekki um Morgunblaðið, sem við sögð-
um oft í gríni að væri hennar ,,biblía“.
Í annríki dagsins, þegar enginn mátti
vera að því að fylgjast með fréttum
eða markverðum viðburðum í fjöl-
miðlum, gat hún frænka mín alltaf
frætt okkar um það helsta og stund-
um í of miklum smáatriðum. Minni
hennar var ótrúlega gott, allt þar til
síðsumars er heilsu hennar fór að
hraka og jafnframt hennar lífsvilja.
Hún frænka mín hefur alla tíð verið
hluti af mínu lífi. Ég minnist hennar
þegar ég var barn og fór í heimsókn
til hennar og afa Óla, en Bubba hélt
fyrir hann heimili eftir að amma Jón-
asína dó árið 1938. Mér fannst hún
alltaf dálítið alvarleg og fjarræn og
hún talaði lítið við mig. Ég hugsaði
samt aldrei neitt mikið um þá hluti,
ánægðust var ég að fá alltaf nýja og
fína kjóla, sem hún saumaði á mig,
sem og önnur barnabörn Estherar
ömmu minnar.
Bubba lærði ung kjólasaum og
sinnti saumaskap ýmist heima hjá sér
eða úti á vinnumarkaðnum langt fram
eftir aldri. Ég hef ætíð notið góðs af
því hversu flink hún var í höndum.
Hún saumaði föt á mig á unglingsár-
unum, þá benti ég bara á sniðin í
Burda og öðrum ,,móðins“-blöðum,
eins og þau voru kölluð þá, og fötin
voru tilbúin á örskammri stund. Einn-
ig hjálpaði hún mér oft að lagfæra
flíkur á þeim tíma þegar ég var sjálf
að burðast við að sauma föt – aldrei
sagði hún neitt, en settist við sauma-
vélina og lagaði það sem lagað varð.
Þegar ég hugsa til baka held ég að
henni hafi aldrei þótt ég mjög mynd-
arleg við saumaskapinn. Það sem mér
finnst e.t.v. vænst um er skírnarkjóll,
sem hún saumaði og færði mér rétt
eftir að elsta dóttir mín fæddist, en
allar dæturnar þrjár voru skírðar í
honum. Og nú bíður hann barnabarns
míns. Ótal marga heklaða dúka ég á
eftir hana frænku mína, sem voru svo
fallegir þegar hún var búin að fara um
þá höndum og strekkja, sem hún
gerði svo lengi sem hún gat.
Snemma fór að bera á dulrænum
hæfileikum Bubbu og um 60 ára skeið
hélt hún miðilsfundi fyrir fólk og
hjálpaði mörgum í erfiðleikum sínum
með aðstoð ,,fólksins að handan“. Hún
ræddi þessi mál ekki mjög mikið við
okkur í fjölskyldunni, a.m.k. ekki við
mig. Ég hafði þó alltaf gaman að því
að sitja fundi hjá henni, hérna áður
fyrr, og heyra hvað þeir Nonni og
Pétur hefðu að segja og hlusta á
þeirra ráðleggingar. Árið 1983 skrif-
aði Guðmundur Kristinsson á Selfossi
bók um hana sem heitir ,,Heimur
framliðinna“ og er margt í þeirri bók
sem ég hafði ekki hugmynd um.
Ef ég á að lýsa henni frænku minni,
þá var hún glæsileg kona, alltaf mjög
vel til höfð og fór yfirleitt ekki út úr
húsi nema með hatt á höfðinu, annað
þótti ekki fínt. Hún var skapstór,
hafði mjög ákveðnar skoðanir á fólki
og nær öllum málefnum. Ef hún
ákvað eitthvað varð því ekki breytt
þrátt fyrir röksemdafærslu. Hún var
ekki allra og annaðhvort varstu í náð-
inni eða ekki, eins og við sögðum
stundum við hana. En hún var líka
ákaflega góðhjörtuð og ráðagóð ef
maður þurfti að leita til hennar.
Hún hafði mjög ákveðnar pólitísk-
ar skoðanir og fylgdi ætíð Sjálfstæð-
isflokknum að málum. Ég er viss um
að við hefðum aldrei orðið svona nán-
ar ef mínar stjórnmálaskoðanir hefðu
ekki farið saman við hennar. Stund-
um var ekki annað hægt en hlæja,
þegar við áttuðum okkur á hversu
hjartanlega sammála við vorum þeg-
ar við ræddum ýmis þjóðfélagsmál.
Hin seinni ár fór ég oft með henni að
kaupa föt. Þá kom yfirleitt enginn
annar litur til greina en blár, svo trú
var hún ætíð sínum flokki.
Hún frænka mín giftist aldrei og
átti engin börn, samt átti hún stóra
fjölskyldu. Þær systur, amma mín og
hún, voru alla tíð mjög samrýndar,
það var því ákveðið eftir að afi Óli og
afi Sigurður dóu, með árs millibili, að
Bubba flytti inn í Ásgarð til ömmu og
Löllu móðursystur minnar, sem einn-
ig var ógift og hélt alltaf heimili fyrir
ömmu og afa. Í 13 ár bjuggu þær
þrjár saman, fyrst í Ásgarðinum og
síðan fluttu þær í Fellsmúla 9. Afi og
amma áttu sex börn og við barna-
börnin erum 16. Þessi fjölskylda hef-
ur alltaf verið mjög samhent og fjöl-
skylduböndin mjög sterk, enda hefur
hvert tækifæri verið notað til að hitt-
ast og gleðjast, en eins og í öllum fjöl-
skyldum hefur sorgin líka knúið dyra,
sem bundið hefur okkur enn fastari
böndum. Fasti punkturinn í þessu
fjölskyldulífi hefur verið hin seinni ár
í Fellsmúlanum, þar sem þær Lalla
og Bubba bjuggu saman eftir að
amma dó árið 1973. Þær hafa ekki
legið á liði sínu við að efla og styrkja
fjölskyldutengslin með því að halda
bollukaffi, hafa súkkulaði á páska-
dagsmorgni, skötu á Þorláksmessu,
afmælisboðin á sumrin eða bara láta
boð út ganga að heitt verði á könn-
unni, ef einhver nennir að koma.
Ótal minningar koma í huga minn
þegar ég sit hér við tölvuna mína og
skrifa þessar línur sem eru mín hinsta
kveðja til þín, mín kæra frænka. Sum-
ar fengu að fara á blað, en aðrar ekki,
en þær verða varðveittar í hjarta
mínu.
Síðustu vikurnar, sem hún frænka
mín lifði, lá hún á öldrunardeild Land-
spítala - háskólasjúkrahúss í Fossvogi
og langar mig að þakka öllu starfs-
fólkinu á deildinni fyrir það, hversu
vel það hugsaði um hana.
Ég kveð þig, frænka mín, þakka
þér samfylgdina og bið algóðan Guð
um að geyma þig og vernda.
Þín frænka,
Esther R. Guðmundsdóttir.
Í fáeinum orðum langar mig til að
kveðja ömmusystur mína, Björgu
Ólafsdóttur. Hún hefur nú lagt upp í
sína hinstu för og í þessum línum vil
ég þakka henni samfylgdina.
Bubba, en það var hún ætíð kölluð
innan fjölskyldunnar og af vinafólki,
var eins konar miðdepill í móðurfjöl-
skyldu minni ásamt systurdóttur
sinni, Láru, sem hún hefur búið með í
rúm 40 ár. Svo tengdar hafa þær
frænkur verið í gegn um árin að þær
hafa sjaldnast verið nefndar á nafn
nema báðar í senn, Lalla og Bubba.
Bubba var fædd á Þingeyri við Dýra-
fjörð árið 1909 en bjó lengst af í
Reykjavík. Hún giftist aldrei og var
barnlaus en hélt heimili með föður
sínum eftir lát móður sinnar. Í
Reykjavík lærði hún saumaskap og
starfaði við sauma um árabil þar til að
hún sneri sér alfarið að dulrænum
málefnum og spíritisma.
Strax á unga aldri fór að bera á
þeim hæfileika Bubbu að sjá annað og
meira en flest fólk. Hún hafði sterka
miðilsgáfu sem fylgdi henni til hinsta
dags. Bubba starfaði í mörg ár sem
miðill hjá Sálarrannsóknafélagi Ís-
lands en eftir það var hún sjálfstætt
starfandi og var þekkt og virt á þessu
sviði. Um miðilshæfileika og störf
Bubbu má lesa í bók sem Guðmundur
Kristinsson skrifaði um hana „Heim-
ur framliðinna“ og kom út 1983.
Margs er að minnast úr Ásgarði og
Fellsmúla þar sem Bubba bjó síðustu
hálfa öld. Sem krakki man ég eftir
dulúðinni sem alltaf bjó yfir Bubbu.
Þegar mér ókunnir gestir töluðu við
hana setti hún jafnan upp sértakan
svip og hátíðarblær kom í rödd henn-
ar. Þá vissi ég að verið var að tala um
andleg málefni. Það var því eins gott
að láta sig hverfa á brott enda höfðum
við krakkarnir ekki vit á þessum mál-
um. Auk þess vorum við búin að heyra
margar kraftaverkasögur þannig að
við fundum okkur annan starfa þegar
Bubba setti upp hátíðarsvipinn. En
þegar vitið jókst með árunum fór ég
að skilja betur um hvað þetta snerist
allt og átti oft dulúðlegar samræður
við frænku mína þar sem hún breytti
röddinni og sagði „ég vildi sagt hafa
...“
Margir leituðu til Bubbu um hjálp
þegar sorg og erfiðleikar steðjuðu að
og andleg handleiðsla oft eina og síð-
asta úrræðið. Bubbu var mjög ljúft að
liðsinna fólki á þessu sviði og enginn
var glaðari en hún þegar hún fann að
hæfileikar hennar og kraftar höfðu
komið að gagni.
Bubba var stórlynd kona, með
mjög ákveðnar skoðanir á mönnum
og málefnum. Þær voru ófáar stund-
inrnar sem við frænkurnar ræddum
um þjóðmál. Í Bubbu fór saman und-
arleg blanda af andlega þenkjandi
mannesku og pólitískum eldhuga. Þar
var hún lituð blá, litur sem aldrei föln-
aði þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir
margra úr frændgarði hennar til að
umpóla hana í stjórnmálum.
Segja má að Bubba hafi verið stór
upp á sig og ekki allra. Aftur á móti
var hún sannur vinur vina sinna. Oft
mátti finna innan við harða skelina
ljúfa og viðkvæma konu. Þetta fund-
um við hjónin hvað best þegar við
eignuðumst dóttur okkar. Hún tók
henni opnum örmum og sýndi henni
mikla ást og hlýju. Þessi vinskapur
kristallaðist oft best í „lönguvitleysu“
sem þær stöllur spiluðu sér til
skemmtunar.
Bubba átti því láni að fagna að vera
andlega hress til hins síðasta. Líkam-
inn var farinn að gefa sig en hún lét
það ekki aftra sér að fara í heimsóknir
til frændfólks og vina eða kíkja í leik-
hús sem var hennar besta skemmtun.
Eins og áður var sagt hefur verið
skrifuð bók um Bubbu og hægt væri
að skrifa aðra. Hún hefur víða komið
við og margt gott látið af sér leiða á
sinni löngu ævi. Við hjónin þökkum
henni samfylgdina. Við eigum eftir að
sakna þess að sjá hana ekki sitja í bláa
stólnum sínum í Fellsmúlanum en
minningin um góða konu mun lifa.
Sigríður, Kristján og Merima.
Björg S. Ólafsdóttir er látin. Hún
var löngu orðin þjóðkunn fyrir mikla
dulræna hæfileika og starf sitt sem
trans- og sannanamiðill um nær hálfr-
ar aldar skeið. Hún fæddist á Þing-
eyri við Dýrafjörð 3. júlí 1909 og voru
foreldrar hennar Jónasína Sigmunds-
dóttir frá Hrauni á Ingjaldssandi og
Ólafur Magnússon, ættaður frá Hlíð-
arhúsum í Reykjavík. Á Þingeyri
bjuggu þau í nær 30 ár og stundaði
Ólafur þar lengst af bátasmíðar á veg-
um Proppé-bræðra. Þar ólst Björg
upp og var yngst þriggja systkina.
Björg fluttist frá Þingeyri með for-
eldrum sínum árið 1928 til Reykjavík-
ur. Hóf hún nám í fatasaumi á sauma-
verkstæði Sigríðar Þorsteinsdóttur á
Ægisgötu 10 og starfaði þar næstu tíu
árin. Hún bjó á heimili foreldra sinna
og síðar Estherar, systur sinnar, sem
gift var Sigurði Guðbjartssyni, bryta
hjá Skipaútgerð ríkisins, í Fellsmúla
9. Síðustu 27 árin hélt hún þar heimili
með Láru Sigurðardóttur, systur-
dóttur sinni.
Björg hlaut í vöggugjöf þann dýr-
mæta og fágæta hæfileika að geta séð
og skynjað ýmislegt, sem venjulegu
fólki er hulið. Þessar dulargáfur átti
Björg í ríkum mæli, ramma skyggni,
skarpa dulheyrn, næm hugboð og gat
farið sálförum til æðri heima. Þessar
dulargáfur taldi Björg sig hafa úr ætt
móðurafa síns, Sigmundar á Hrauni.
Hann var skyggn og mjög dulrænn og
fleiri í ætt hans. Þá var móðir hennar
einnig mjög dulræn og mun fátt hafa
komið á óvart.
Björg var lánsöm að eiga trausta
og skilningsríka foreldra og fá þegar í
upphafi starfs síns sem miðill mjög
sterkan og mikilhæfan stjórnanda að
handan, sem kallaði sig Pétur, og
Nonna, sem kom fram á fundum sem
ungur lífsglaður drengur.
Ekki sagðist Björg muna fyrr eftir
sér en hún léki sér við litla telpu, sem
henni fannst vera örlítið eldri. Löngu
síðar var henni sagt, að þessi æsku-
vinkona hennar og leiksystir væri
raunverulega systir hennar, sem farið
hafði af þessum heimi, áður en hún
fæddist. Hefði hún komið fram í hin-
um heiminum sem barn og haldið
áfram að þroskast og vaxið þar til full-
orðinsaldurs. Upp úr fermingu kvað
hún skyggnina hafa horfið og varð
hún lítið vör við þetta næstu tíu árin,
en þá kom skyggnin snögglega aftur.
Í marz 1939 fór hún með föður sínum
á fund hjá Guðrúnu Guðmundsdóttur
frá Berjanesi, sem var kunnur og
vandaður miðill. Og upp úr áramótum
1940 hófst miðilsþjálfun hjá Guðrúnu.
Þremur mánuðum síðar hóf hún að
starfa sjálfstætt sem transmiðill. Árið
1972 réðst hún til Sálarrannsókna-
félags Íslands og hélt þar fundi í fjög-
ur ár. Á þeim tíma heimsótti hún flest
sálarrannsóknafélög á landinu og hélt
transfundi.
Kynni okkar Bjargar hófust vorið
1973 er hún kom til okkar í Sálarrann-
sóknafélaginu á Selfossi og hélt fundi
fyrir félagsmenn og dvaldist á heimili
okkar Ásdísar Ingvarsdóttur. Áttum
við því kost á að kynnast mjög náið
hinum stórkostlegu dulrænu hæfi-
leikum hennar.
Fyrsta fundinn hélt hún á Selfossi
11. júní 1973. Þegar Nonni byrjaði að
lýsa sneri hann sér fyrst að gömlum
manni, sem verið hafði bóndi á Norð-
urlandi og var áreiðanlega Björgu
ókunnur, og sagði:
„Þótti þér gaman að hundum?“
Hann sagðist ekki geta neitað því.
„Það er kominn til þín hundur, sem
lætur svo vel að þér og leggur trýnið
upp á hnén. Hann er tvílitur, með
hvítan hring um hálsinn. Mikið þótti
þér vænt um hann. Og þú felldir þig
aldrei við aðra hunda á eftir.“ Þetta
sagði gamli bóndinn, að stæði allt
heima. Hundurinn hefði verið svona á
litinn, verið uppáhaldshundurinn
hans og hann hefði alltaf séð eftir hon-
um.
Upp frá þessu kom Björg til okkar
á hverju ári og dvaldist hjá okkur 1-2
vikur í senn og hélt tvo fundi á dag.
Og eitt árið kom hún fimm sinnum til
okkar og hélt fundi, síðast sumarið
1979. Á þessum sex árum hélt hún á
Selfossi 175 fundi og voru fundar-
menn um 800. Síðasta transfundinn
áttum við með henni á heimili okkar í
janúar í fyrra og voru þá liðin 60 ár frá
því að hún hóf störf sem transmiðill
og hún þá 90 ára að aldri.
Þegar ég nú lít yfir 27 ára kynni
okkar eru mér minnisstæðastir fund-
irnir á Selfossi, ferðalagið Sex-landa-
sýn, sem hún fór með okkur hjónum
sumarið 1976 á vegum dönsku ferða-
skrifstofunnar Tjæreborg, og þær
stórkostlegu sýnir, sem henni vitruð-
ust í ferðinni og samstarfið við hana
og stjórnendur hennar að handan við
samningu bókarinnar Heimur fram-
liðinna, sem út kom haustið 1983. Er
bókin að meginefni byggð á frásögn-
um þriggja þjóðkunnra manna að
handan, skráð eftir frásögnum þeirra
á 14 miðilsfundum, sem haldnir voru á
Selfossi 1981-82.
Þegar leiðir okkar Bjargar skiljast
nú um sinn er mér efst í huga mikið
þakklæti fyrir trausta vináttu og
margar ánægjulegar stundir, bæði á
léttum nótum hins daglega lífs, í
ferðalögum innanlands og utan og við
dyragáttir framlífsheima. Teljum við
hjónin hana meðal okkar beztu vina
og höfum oft farið af hennar fundi
talsvert fróðari um lífið og tilveruna
en áður.
Björg var ung kölluð til mikilla
starfa við sambandið á milli heim-
anna. Það rækti hún af frábærri trú-
mennsku, gaf sjúkum og sorgmædd-
um huggun og von og fjölda fólks
fullvissu um framhald lífsins þegar að
loknu jarðlífi.
Við færum Láru frænku og öðrum
ættingjum vinarkveðjur og óskum
Björgu Ólafsdóttur blessunar í nýjum
heimkynnum, sem hún hafði haft svo
náin kynni af á langri ævi. Líf hennar
og ævistarf var eitt af undursamleg-
um ævintýrum samtímans.
Guðm. Kristinsson.
Einstæð kona er fallin frá. Bubba,
eins og hún var kölluð, er nú komin til
þeirra heima sem hún varði miklum
hluta lífsins til að kynna fyrir með-
bræðrum sínum. Kröfur hennar til
þessa heims lífsgæða voru hvorki
miklar né flóknar, en slíkt er jafnan
aðalsmerki þeirra sem lengra eru
komnir í andlegum þroska og nálgun
við Guðdóminn. Hún var eins og skín-
andi perla í eyðimörk efnishyggjunn-
ar og gaf mikið en tók lítið. Henni
voru þau sannindi vel ljós að á lík-
klæðunum væru engir vasar.
Þessa einföldu staðreynd skilja fáir
og enn færri breyta eftir henni.
Vera okkar á þessu jarðarkríli er
aðeins sekúndubrot í eilífð tímans.
Raunar mætti tileinka Björgu orð
spekingsins sem mælti svo: „Með
ekkert komstu í þennan heim, og með
ekkert muntu fara með útúr honum,
nema þau góðverk sem þú hefir unn-
ið.“
Afar merkileg bók kom út árið 1983
um miðilsstörf Bjargar. Sú bók heitir
„Heimur framliðinna“ og er örugg-
lega ekki verra veganesti á þroska-
braut mannkyns en „Windows 98“
eða „Fasteignaskrá 2001“. Það er
allavega ljóst að með sambandi sínu
við lækna að handan hjálpaði hún
hundruðum manna og kvenna. Og
margir munu minnast hennar með
þakklæti í huga. Ég er einn þeirra.
Óli Hilmar Jónsson.
Elsku nafna mín, nú kveð ég þig í
hinsta sinn. Það var mér bæði lær-
dómríkt og mikils virði að eiga þig að.
Kveðjustundin sem ég átti með þér á
spítalanum var mér ómetanleg og
minnisstæð. Ég kveð þig með sökn-
uði, mín kæra frænka, guð blessi þig.
Vertu, guð faðir, faðir minn,
í frelsarans Jesú nafni,
hönd þín leiðir mig út og inn
svo allri synd ég hafni.
(Hallgr. Pét.)
Vertu yfir og allt um kring
í eilífri blessun þinni,
sitji guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sig. Jónsson)
Þín nafna
Björg S. Ólafsdóttir (Bubba).
BJÖRG S.
ÓLAFSDÓTTIR