Morgunblaðið - 18.11.2001, Síða 22

Morgunblaðið - 18.11.2001, Síða 22
22 SUNNUDAGUR 18. NÓVEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ Veðurfræðingurinn í sjón-varpinu segir að tungl-myrkvinn verði klukkan20.50 og vari í 53 mín-útur. Fulla tunglið verð- ur sveipað slæðu skuggans af jörð- inni þar til klukkuna vantar 17 mínútur í níu. Ég horfi út um stofu- gluggann sem snýr í austur og fylg- ist með hvernig stjörnufræðin rætist upp á mínútu langt fyrir ofan Hellis- heiðina. Sennilega upp á sekúndu ef veðurfræðingurinn hefði verið ná- kvæmari. Mamma er líka svona tungl. Fullt tungl. La luna. Veðurfræðingurinn borubratti gæti þó ekki spáð gang- inum á fulla tunglinu hennar mömmu. Það tungl er óútreiknan- legt. Oft dansar það á himinhvolfinu, brjálaðan dans með brennandi sólina sér við hlið, og í verstu köstunum flækist það fyrir sólinni og breiðir myrkur yfir heiminn um hábjartan dag. Mömmutungl er þannig tungl. Ég stend og horfi út um gluggann. Út um rimlagardínurnar sem ég loka aldrei. Þegar ég var lítil sá ég aldrei út úr húsinu. Gluggatjöldin voru allt- af dregin fyrir. Þannig vildi mamma hafa það. Óskaplega er ég flöt, hugsa ég með mér. Hvenær ætli ég verði góð, heilbrigð? Við erum búin að ákveða að leigja sumarhús í Danmörku í júní og fara með börnin. Þau eiga það inni eftir allt vesenið á mér. Tunglið er svo skrítið svona. Ég hélt að það mundi bara hverfa en það er þarna í skugga jarðarinnar, ein- hvern veginn skítabrúnt á litinn. Kringlótt klessa úti í geimnum, um- komulaus og asnaleg. Ég sný mér frá glugganum og fer inn í eldhús. Ég veit að ég á að láta gosið vera, lyf- in hafa fitað mig um tíu kíló, en í miðjum tunglmyrkva gef ég skít í kröfurnar um þvengmjótt mitti. Ég veit ekki hvað ég á af mér að gera. Héðinn með börnin hjá tengdó og ég ein heima í fyrsta sinn í nokkra daga. Krakkarnir hafa forðast mig að undanförnu. Það er eins og þau finni fyrir flatneskjunni, sjálfselskunni og eigingirninni, eyðimörkinni í sálinni; þau vilja til Danmerkur, ekki Sahara. Skuggi jarðarinnar er farinn að færa sig af tunglinu, heimsluktin, spegill sólarinnar, fer að skína á ný. Mér verður snöggvast litið á svart- hvítu myndina af mömmu og pabba á hornborðinu. Mamma var einstak- lega falleg. Eftir því sem tunglið stækkar breytist birtan inni í stof- unni og allt verður gulara og gulara. Myndin af mömmu verður gul en pabbi er ennþá svarthvítur. Pabbi var líka alltaf svarthvítur. Hjartsláttur sex ára stúlku Þetta var ekki í fyrsta sinn sem ég heyrði þau rífast heiftarlega. Ég leit yfir í rúmið hans Jens bróður hinum megin í herberginu og velti því fyrir mér hvernig hann gæti eiginlega sof- ið á meðan mamma braut enn eitt diskasettið í eldhúsinu. „Helvítis hórkarlinn þinn. Skepn- an þín.“ Mamma var óvenju varkár í orðavali í þetta sinn. „Ég vil ekki lifa lengur, ég ætla að drepa mig.“ Ég var sest upp og leit aftur yfir á rúmið til Jens. Hann lá grafkyrr. Mamma var hætt að öskra og pabbi líka. Eitthvað hrópaði inni í mér. Úti- hurðinni var skellt. Ég hlustaði eftir fótataki frammi en það var grafar- þögn. Það eina sem heyrðist var ör hjartsláttur sex ára stúlku. Ég stökk fram úr rúminu og hljóp fram á gang. Kveikt var á lömpum í stofunni og ljós í eldhúsinu. Það var myrkur í svefnherbergi foreldra minna. Ætli ég hafi ekki verið fjögurra ára þegar mér hafði lærst að meta aðstæður á heimilinu út frá ýmsum táknum. Fótatakið hennar mömmu sagði mér margt um það hver staða mála væri, hvernig rétt væri að hegða sér. Ef fótatakið var hratt og taktvisst var ekki von á góðu en ef það var hægt og óreglulegt, sem var þó miklu sjaldnar, gat ríkt vopnahlé dagpart eða tvo. Ég var búin að læra að meta aðstæður upp á hár. Hve- nær væri rétt að setja hendurnar fyrir sig til að verjast höggum, fela sig í óhreinatauinu eða, í verstu til- fellunum, fara ekki heim. Í náttkjólnum tiplaði ég á tánum að útidyrunum, teygði mig í húninn og kíkti varlega út. Í minningunni er haust. Nótt eins svört og hún getur verið. Rigning eða kannski úði. Kalt. Þetta er fyrsta minning mín um kulda, þegar ég steig berfætt út á regnvotar tröppurnar og tiplaði af stað af því að mamma var að fara að deyja. Hún leið þarna áfram í móðu í hvítu kápunni sem hún klæddist allt- af í þau fáu skipti sem hún fór út. Ég vissi að núna ætlaði mamma út í síð- asta skiptið og svo aldrei meir. Hvorki inn né út. Þar sem ég hljóp gegnblaut á eftir henni sá ég það á taktföstu göngulagi hennar og ákveðnu fasi að þessi kona ætlaði að deyja. Sex ára vissi ég hvað dauðinn táknaði. Mamma nefndi hann svo oft þegar hún talaði við pabba eða mig og Jens. Dauðinn táknaði eitthvað hræðilegt og endanlegt. Ég kallaði ekki á mömmu. Ég vissi að hún mundi ekki svara mér. Þegar hún var komin niður í fjöru var farið að blæða úr fótunum á mér og ég byrjuð að kjökra. Ekki vegna sárs- aukans í fótunum eða kuldans, held- ur vegna þess að ég vissi að eitthvað hræðilegt mundi gerast ef mamma dæi. Ég náði mömmu í fjörunni. Hún stóð þarna stjörf og starði yfir þar- ann, út á hafið. Sítt dökkt hárið lið- aðist niður á axlir og bak og það var eins og tíminn stöðvaðist þegar ég horfði á hana, í hvítu kápunni, ein- beitta á svipinn í flæðarmálinu. „Mamma, komdu heim,“ kjökraði ég í hálfum hljóðum og togaði í káp- una hennar. Hún sýndi engin við- brögð. „Mamma, komdu heim.“ Ég veit ekki við hverju ég bjóst. Kannski átti ég von á að hún mundi slá mig og vaða af stað út í sjóinn. Hún var svo sterk en samt svo óskaplega veik, hún mamma. Henni virtist standa al- veg á sama um að litla stúlkan henn- ar, blaut, köld og berfætt væri búin að hlaupa á eftir henni niður í fjöru. Allt í einu sneri hún sér snöggt við og gekk ákveðnum og hröðum skrefum heim á leið. Ég elti hana en hún sagði ekki orð og lét eins og ég væri ekki þarna, alla leiðina heim. Logar helvítis Orðin komu öll í einni bunu út úr mömmu og svívirðingarnar bergmál- uðu um húsið. Hún lét höggin dynja á mér með kústinn að vopni. Ég held að ég hafi sjaldan grátið eins sárt undan höggunum hennar. Mér fannst eins og allt inni í mér brynni, logar helvítis sem mamma talaði um voru komnir inn í mig. Þegar mamma var orðin þreytt á þessu og ég löngu hætt að gráta upphátt, kastaði hún sópnum frá sér og gekk tígulega burt í bláa frottenáttkjóln- um sem hún fór aldrei úr þegar hún var heima. Þegar ég sá að hún var komin inn í eldhús skreiddist ég inn í herbergið okkar Jens. Hann lá í rúminu sínu og svaf eða þóttist sofa. Mér var svo illt að ég gat ekki hugs- að um neitt nema leggjast í rúmið. Ég vaknaði upp við það að pabbi kom inn í herbergið. Ég reyndi að draga sængina upp yfir andlitið en hann tók hana frá og horfði stórum augum framan í mig. Hann horfði ekki lengi enda þurfti hann þess ekki. Það stórsá á mér. Hann rauk út úr herberginu og áður en ég vissi var hann búinn að draga mömmu innan úr eldhúsi í dyragættina. Henni var greinilega brugðið enda hafði pabbi aldrei áður verið harkalegur við hana, sama hvað gekk á. Pabbi rauk beint að rúminu hans Jens og reif hann upp á öxlunum. Jens var svo hissa að honum datt ekki einu sinni í hug að æpa. Pabbi leit hörkulega á mömmu og sagði hvasst: „Ég ber hann ef þú lætur hana ekki í friði.“ Ég sá hræðsluglampann í augun- um á mömmu í fyrsta sinn. Þeim svip gleymi ég aldrei. Pabbi lét Jens aftur niður, ýtti mömmu frá dyrunum og lokaði. Eftir lágum við Jens ein í myrkrinu og þögninni. En þögnin í bláa húsinu var nú full af hugsunum. Þetta var það fallegasta sem pabbi hafði nokkru sinni gert fyrir mig. Nú vissi ég að honum þótti vænt um mig. Hann þyrfti aldrei að segja það. Mamma lét mig í friði í nokkra daga. Nornin í bláa húsinu Pabbi minn var ráðherrabílstjóri. Ráðherrabílstjórar eru hundtryggir þeim sem þeir aka. Þeir verða að vera það. Hann pabbi hefði örugg- lega getað skrifað sögu í mörgum bindum um það sem gerðist í svarta Kadiljáknum. Hvernig ákveðið var að lækka atvinnuleysisbæturnar af því að ráðherrann sá út um bílglugg- ann að það vantaði verkamenn í hús- grunn í Breiðholtinu. Eða hvernig hætt var við að reka herinn úr landi af því að Truman féllst á að eingöngu óblandaðir aríar fengju að húka á Miðnesheiði. Þetta eru samt allt get- gátur því að hann tók öll atvinnu- leyndarmálin með sér í gröfina. Hann var jafntryggur mömmu og ráðherranum. Það var sama þótt hann þyrfti hvað eftir annað að end- urnýja Bing & Grøndahl stellið út af köstunum hennar í eldhúsinu og allir í hverfinu kölluðu konuna hans norn- ina í bláa húsinu, mömmu hallmælti hann aldrei. Ekki við nokkurn mann. „Karólína mín, hún mamma þín er veik,“ var það eina sem hann hafði að segja um ástandið. Ég elskaði pabba minn. Ég gerði allt fyrir hann, þennan klett í hafinu sem gekk alltaf jafnhratt um gólf og kom með öryggið heim úr vinnunni. Mamma barði mig ekki þegar pabbi sá til. Hún sló mig kannski við mat- arborðið af því að ég lá vel við höggi en hún barði mig bara þegar pabbi var í vinnunni. Yfirleitt var það ekk- ert vandamál fyrir hana því að þegar mamma hafði gengið í skrokk á mér skreið ég undir sæng og pabbi sá mig ekki fyrr en daginn eftir eða seinna. Þá höfðu bólgurnar hjaðnað. Pabbi vann stundum á kvöldin og nóttunni. Ráðherrann þurfti oft að láta aka sér á þeim tímum, áreiðanlega á mjög mikilvæga einkafundi. Jens bróðir slapp við barsmíðar mömmu. Kannski af því að hann var ári eldri en ég og fékk hærri ein- kunnir í skóla; þó er það líklega ekki ástæðan, því að frá því ég man fyrst eftir mér var þetta svona. Jens var „proffinn“ sem grét ekki og sýndi engar tilfinningar. Þegar mamma tók kast grúfði hann sig bara dýpra ofan í bókina sína eða hélt áfram að horfa á sjónvarpið eins og ekkert hefði í skorist. „Ég hefði átt að snúa þig úr háls- liðnum þegar þú fæddist, helvítis tík- in þín,“ öskraði mamma á mig og hrinti mér í forstofunni. Ég var þá fimm ára. Fimm ára barn veit ekki hvað helvíti er og ekki heldur hvað tík er nema það sé úr sveit. Fyrir mér var sveitin rétt sunnan við Reykjavík. Ég fór þangað stundum í vist á sumrin, aðallega þegar mamma hafði verið mikið veik. Ég heyrði um börn sem fóru í sveit þar sem voru fjöll með hvítum rjómaís á toppnum, víðir, langir dalir með fugl- um og fjólum. Bæir með skítalykt úr fjósum og víðáttubrjáluðum hund- um. Ég fór í sveit í Hafnarfjörðinn þar sem Bessi bróðir bjó með Tótu konunni sinni og tveimur börnum. Tóta var góð mamma. Stundum þeg- ar hún horfði á mig fannst mér hún fara pínulítið hjá sér. Svo faðmaði hún mig að sér. Stundum var eins og hún gengi mér í móðurstað. Með henni fann ég fyrir því að eiga ein- hvers konar mömmu. Hún var mamman sem ég vildi alltaf eignast. Það sem ég lærði sem barn varðandi hreinlæti og umhirðu lærði ég af henni. Þegar ég varð eldri skildi ég ekki af hverju hún lét mig alltaf fara aftur til mömmu. „Burt með þig og helvítis krógann“ Tuttugu og fjögur börn fæddust sama daginn á Landspítalanum í ágúst 1967. Það var svo sem ekkert óvenjulegt nema fyrir mæðurnar sem margar voru að upplifa stærstu stund lífs síns. Sumir pabbarnir líka þótt þá hafi ekki verið til siðs að þeir væru viðstaddir fæðinguna. Guðlaug og Margrét voru að eign- ast fyrstu börn sín. Fyrir Guðlaugu var þetta líka síðasta fæðingin. Það vissi hún ekki þá, þótt hún hefði efa- semdir um að samband hennar við barnsföðurinn mundi ganga. Á stof- unni þar sem Guðlaug og Margrét lágu eftir barnsburðinn voru þrjú rúm. Þær voru báðar uppgefnar, þrútnar en glaðar. Fæðingin hjá Guðlaugu hafði verið mjög erfið. Ljósmóðirin hafði meira að segja sagt við hana, þar sem hún lá út- glennt með þjáningu í hverjum and- litsdrætti að hún yrði að búa sig und- ir það að barnið fæddist andvana vegna súrefnisskorts. Guðlaugu var mjög brugðið en hún var ákveðin í að fæða heilbrigt barn og það gekk eft- ir. Hún kunni ljósmóðurinni litlar þakkir eftir á. Hjá Margréti hafði allt gengið bet- ur þangað til hún fékk dóttur sína í fangið og ætlaði að gefa henni mjólk. Þar sem Guðlaug lá við hliðina á henni með litla heilbrigða soninn sem drakk af áfergju og malaði utan í brjósti móður sinnar eins og kett- lingur, heyrði hún að Margrét byrj- aði að kjökra í hálfum hljóðum. Hún leit á Guðlaugu með tárin í augunum og strauk dótturinni um kollinn. Sú litla byrjaði að gráta hástöfum yfir matarleysinu og starfsstúlka kom inn, skilningsrík á svip. „Þetta kemur allt saman Margrét mín, ekki hafa neinar áhyggjur.“ Hún fór með barnið aftur inn á vöggudeild. Í þá daga var það und- antekning að nýbakaðar mæður fengju að hafa þau nýfæddu hjá sér lengur en brjóstagjöfinni nam. Litlu missköllóttu, ósjálfbjarga krílin voru höfð hvert við hliðina á öðru í vögg- um með númerum á og þar öskruðu þau hvert í kapp við annað á mæður sínar, en á glugga fyrir framan þau voru feður og systkini með krampa- kennda tilburði, haldin þeirri rang- hugmynd að börnin tækju eftir þeim. „Meira helvítis ástandið og á ég að þurfa að hanga með þessum tveimur á stofu?“ Konu á fertugsaldri var rúllað inn og komið fyrir í þriðja rúminu. „Á hvað eruð þið að glápa?“ Guðlaug og Margrét litu snöggt undan. Þarna var herbergisfélagi þeirra næstu fimm dagana kominn. Hún var með mikið svart hár og það var engu líkara en hún hefði reytt það, því hárið stóð allt út í loftið, klístrað og kleprað. Hún lá dágóða stund og horfði á hvítan vegginn andspænis rúminu. Það var lítil áhersla lögð á að gera fæðingar- deildina huggulega á sjöunda ára- tugnum. Grænu og hvítu frystihús- litirnir þóttu henta vel næstmikil- vægustu framleiðslugrein landsins á eftir fiskinum. Guðlaug gerði enga tilraun til að nálgast nýju konuna, sem hefði get- að verið móðir hennar og Margrétar eftir útlitinu að dæma, en Margrét Undir köldu tungli Karólína elst upp hjá geðsjúkri móður sinni sem beitir dóttur sína bæði líkamlegu og andlegu ofbeldi er skilur eftir sig djúp sár. Í þessari frásögn Sigursteins Mássonar er saga ungrar konu, sem kýs að segja sögu sína undir dulnefni, rakin og athyglinni beint að veruleika sem er flestum landsmönnum framandi. „Ég stend og horfi út um gluggann. Út um rimlagardínurnar sem ég loka aldrei. Þegar ég var lítil sá ég aldrei út úr húsinu. Gluggatjöldin voru alltaf dregin fyrir. Þannig vildi mamma hafa það.“

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.