Morgunblaðið - 24.03.2002, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - 24.03.2002, Blaðsíða 4
4 B SUNNUDAGUR 24. MARS 2002 MORGUNBLAÐIÐ EINN daginn fyrir ekkilöngu sat blaðamaðurMorgunblaðsins og gæddisér á lostætri súpu ogbrauði í veitingastofu Þjóðmenningarhússins. Til þess að næra andann sótti hann sér blaðið Dagskrána af borði þar í grenndinni. Á fremstu síðu blaðsins gat að líta frétt þar sem sagði í fyrirsögn að „peningarnir væru fundnir“. Við nán- ari lestur kom í ljós að umræddir peningar hefðu fundist vegna draum- speki Kjartans Björnssonar, rakara á Selfossi, en þeir týndust á þorrablóti þar á staðnum hinn 26. janúar sl. Ekki er að orðlengja það að fyrr en varði var blaðamaður kominn út að bökkum Ölfusár og tekinn að ræða við Kjartan um þessa atburði og ým- islegt fleira – því Kjartan er maður sem hefur mörg járn í eldinum en lætur sér ekki nægja að dreyma fyrir daglátum og klippa Selfyssinga og Sunnlendinga. „Hvað peningafundinn snertir þá má rekja upphaf þess máls til þess að ég fór á glæsilega og gleðiríka sam- komu sem haldin var í íþróttahúsinu á Þorlákshöfn. Ég ákvað samstundis að svona þorrablót skyldum við halda á Selfossi. Í gamla daga voru haldin almenningsþorrablót í Selfossbíói en það hefur legið niðri um nokkuð lang- an tíma. Ég sagði: „bæjarbraginn upp á Selfossi“. Og ákvað að stuðla að myndarlegu þorrablóti í íþróttahús- inu á Selfossi, sem fram að þessu hef- ur aðeins mátt nota undir íþrótta- samkomur. Með tilliti til að þorrablót eru haldin í íþróttahúsum í bæjum hér í nágrenninu var þessi hugmynd samþykkt. Ég vildi að skemmtikraft- ar væru heimafólk og það tókst. Séra Gunnar Björnsson var veislustjóri og fórst það glæsilega úr hendi. Hljóm- sveitin Karma sá um tónlistina undir forystu Labba í Glóru. Um 350 manns komu í matinn og margt fólk kom að máltíðinni lokinni. Ég stjórnaði samkomunni og hélt ut- an um peningamálin. Ég var svo á vappi og tæmdi úr kössum í miðasölu og þar sem seldir voru drykkir og fleira. Í þessu skyni bar ég á mér pen- ingapung sem mér var sérstaklega gefinn í bankanum hér til þess arna. Þegar ég var búinn að gera þetta tvívegis fór ég síðustu hringferðina um klukkan þrjú og tæmdi í peninga- punginn þá peninga sem eftir voru. Ég fór þessu næst með peningapung- inn á leynistað. Rétt á eftir ákvað ég að fara með peningana til húsvarð- arins sem ætlaði geyma þá fyrir mig í læstum peningakassa. Þegar ég kom í eldhúsið hafði húsvörðurinn þá brugðið sér frá. Ég fékk mér kaffi- sopa í eldhúsinu en þá var farið að kalla á mig og reka á eftir mér að koma fólkinu út. Án þess að hugsa um hvað ég væri að gera stakk ég pen- ingapungnum í einn eldhússkápinn. Þegar ég hafði sinnt verkefnunum fór ég að hugsa um peningapunginn og fór að sækja hann á leynistaðinn. En þá var hann ekki þar – sem ekki var von. Ég var búin að gleyma að ég hafði sett peningapunginn í eldhús- skápinn, mundi bara eftir að ég hefði fengið mér þar kaffi. Sumir hafa haft við orð að ég hafi verið svona fullur, en það var öðru nær. Ég hafði að vísu fengið mér nokkra bjóra en af þeim varð ég aðeins góðglaður. Þegar peningapungurinn var ekki á leynistaðnum hjá barnum kallaði ég til lögregluna því ég hélt að pungnum hefði verið stolið. Lögreglan leitaði og yfirheyrði fólk án nokkurs árang- urs. Ég fór svo dapur í bragði heim og peningarnir fundust ekki. Aðfara- nótt sunnudags helgina á eftir dreymdi mig hins vegar húsvarðar- eldhúsið og þegar ég var að vakna fannst mér ég vera að grufla eitthvað í eldhússkápnum undir vaskinum. Þegar ég skutlaði svo syni mínum upp í íþróttahús á sunnudeginum kom ég að máli við húsvörðinn og spurði hvort ég mætti fara aðeins í eldhúsið hjá honum. Það var auðsótt mál. Ég gáði svo í skápinn undir vaskinum en fann ekkert. Ég varð auðvitað fyrir vonbrigðum en fór með það. Um kvöldið hringdi húsvörður- inn hins vegar til mín og hafði þá fundið punginn smekkfullan af pen- ingum í skáp fyrir ofan vaskinn, en þar hafði ég ekki gáð. Þar með fund- ust þær 321 þúsund kr. sem týndar höfðu verið og ég gat borgað ógreidda reikninga vegna þorrablóts- ins og þurfti ekkert lán að taka. Einnig keypti ég myndarlegan blómvönd handa Gunnari húsverði og kyssti hann jafnframt eins lengi og ég mátti – mér er óhætt að segja að ég hafi aldrei kysst karlmann jafn hressilega um dagana. “ Þriðji ættliður rakara Blaðamaður spyr hvort Kjartan eigi vanda til að vera svo berdreym- inn? „Ja – ætli ég verði ekki að kannast við að mig dreymir stundum undir morgun ýmsa menn og það bregst varla að sá sem er í draumnum í það og það skiptið kemur í rakarastólinn hjá mér þann daginn,“ svarar Kjart- an. En hversu lengi hefur hann klippt Selfyssinga og Sunnlendinga? „Í nær tuttugu ár, “ svarar hann að bragði. „Ég er þriðji ættliður rakara hér á Selfossi. Afi minn var Gísli Sig- urðsson, rakari og eftirherma frá Króki í Ölfusi. Hann fór til Reykja- víkur að læra hjá Sigurði Ólafssyni sem hafði rakarastofu í Eimskipa- félagshúsinu. Afi klippti þar í fjölda- mörg ár og síðan út um allt land, auk þess sem hann skemmti og „fékk sér í aðra tána“,“ segir Kjartan og brosir. „En árið 1948 kölluðu heimahag- arnir á hann. Ekki fór hann þó einn heim á leið, með honum var kona hans og amma mín, Rannveig Sigur- björnsdóttir, sem hann fann á Norð- firði. Þau eignuðust tvo syni, Björn föður minn og Gylfa Þ. Gíslason. Afi veiktist 1968 þegar jólaannirn- ar voru framundan. Hann kallaði þá föður minn að koma og klippa. Hann hafði hins vegar ekki lært neitt til þeirra hluta svo afi varð að kenna honum í fljótheitum helstu hand- brögðin. Pabbi klippti svo fyrir jólin og allt árið undir stjórn afa en árið 1970 dó afi og þá tók pabbi við stof- unni. Hann lærði rakaraiðn hér í Iðn- skólanum. Árið 1981 fór ég að læra og kom inn í dæmið. Við pabbi rekum saman rakarastofu Björns og Kjart- ans í Miðgarði, beint á móti Kaup- félaginu.“ Þeir feðgar Björn og Kjartan hafa tekið til hendinni í skemmtibransan- um líkt og afinn á sinni tíð. Björn var í hljómsveitinni Mánum frá Selfossi sem gerði garðinn frægan og Kjartan var í hljómsveitinni Lótus sem einnig lék á böllum fyrir austan fjall og víðar og í Þjórsárdal í mörg ár um versl- unarmannahelgar og á hvítasunnu. Hann er einnig félagi í Karlakór Sel- foss. „Það er einstakur félagsskapur. Það er eins og maður eigi þarna 45 bræður. Ég syng tenór eins og sá gamli. Afi og Jóhann Konráðsson, faðir Krist- jáns Jóhannssonar, voru náskyldir svo tenórröddin liggur líklega í ætt- inni,“ segir Kjartan. „Við höfum allir verið gleðinnar menn, afi, pabbi og ég – en afi hefur þó vinninginn á hjónabandsvett- vangnum, hann var þrígiftur en við pabbi höfum bara farið í gegnum þetta einu sinni,“ bætir hann við og hlær. „Ég var raunar getinn í nokkr- um flýti, mamma mín Hólmfríður Kjartansdóttir, afskaplega hrein og bein manneskja, var þá sextán ára og pabbi sautján ára – og ég náði í mína konu Ásdísi Hrönn Viðarsdóttur árið 1984, þá var ég 19 ára og hún heldur yngri. Við eigum saman þrjú mann- vænleg börn. Við erum enn gift en búum ekki saman eins og er. Heimurinn er fall- valtur og það kemur ýmislegt upp á langri hjónabandsleið, við erum núna að „vinna í okkar málum“, eins og sagt er. Einn stofnenda Arsenalklúbbsins Ásdís er mikil íþróttagarpur, það voru svo fáar stelpur á Stokkseyri í gamla daga að hún varð að slást við strákahópinn og æfa fótbolta og nú er hún þjálfari í fótbolta og umsjónar- maður félagsmiðstöðvanna á Selfossi, auk þess að skúra í Sólvallaskóla og vera nemi við Háskóla Íslands. Fótbolti og íþróttir eru sameigin- legt áhugamál okkar Ásdísar. Ég var í fótbolta hér áður en hef síðari árin verið þjálfari og knattspyrnudómari – og í ár hef ég verið formaður Arsen- alklúbbsins á Íslandi í 20 ár. Ég stofnaði þennan klúbb ásamt félaga mínum Hilmari Hólmgeirssyni. Klúbburinn hafði frá upphafi þrjú markmið, að reyna að útvega mönn- um Arsenalvörur, gefa út fréttablað um Arsenal og standa fyrir ferðum á leiki Arsenal í Englandi og víðar. Ég er búinn að fara út og horfa á 42 leiki með Arsenal,“ segir Kjartan og sýnir mér um leið umrætt fréttablað, en aðdáendaklúbburinn gefur út þrjú til fjögur slík á ári. „Við höfum farið tvær til þrjár ferðir á ári og ég er jafnan fararstjóri í þessum ferðum. Ásdís konan mín hefur verið mér mikil hjálparhella í þessu starfi. Ég hef eignast vini og kunningja um allt land í gegnum aðdáendaklúbb Arsenal. Í klúbbnum eru 1.505 félagar, þar af á annað hundrað konur og þær halda ekki síð- ur með Arsenal en karlarnir.“ Blaðamaður vill vita hvað sé svona merkilegt við Arsenal. „Albert Guðmundsson var í Arsen- al á sínum tíma og hann gerði þetta enska lið talsvert frægt á Íslandi. Amma mín, Katrín Aðalbjörnsdóttir, ólst upp í nágrenni við Albert og bar jafnan mikla virðingu fyrir honum. Amma lét mig snemma vita af því að Valur væri gott félag og Arsenal einnig – og að Sjálfstæðisflokkurinn væri góður flokkur. Árið 1968 fór pabbi svo með mig á leik, þar sem íslenska landsliðið keppti við Arsenal á Laugardalsvelli. Ég hef síðan haldið með Arsenal, en pabbi hélt lengi vel ekki með því liði – hann gerir það hins vegar í dag. Ég hef aldrei haldið aðalfund félagsins en nú er ég á því að tuttugu ára kjör- tímabili mínu í þessu starfi sé að ljúka,“ segir Kjartan. Hann segist hins vegar engin áform hafa upp um að hætta sem um- sjónarmaður Kvöldsiglingar hjá Út- varpi Suðurlands. Í þeim þætti hafi hann nú þegar átt 150 til 160, en þátt- urinn er sendur út í samstarfi Út- varps Suðurlands og RÚV. Blaðamaður spyr með nokkurri lotningu hvenær Kjartan hafi eigin- lega tíma til að að stunda þetta allt. „Ég er kannski ekki alveg eins og fólk er flest og ég er alls ekki galla- laus,“ svarar hann hæversklega. „Líklega er ég eilítið ofvirkur – en vonandi vel virkur líka. Ég er alinn upp við mikinn íþróttaáhuga, pabbi var formaður knattspyrnudeildarinn- ar í fjölmörg ár – fótboltinn er mitt aðaláhugamál, fyrir utan sönginn og pólitíkina.“ Blaðamaður sperrir eyrun. Pólitík- in? Ertu líka í pólitík? „Já,“ svarar Kjartan af sömu hæverskunni sem fyrr. „Við pabbi er- um báðir sjálfstæðismenn og ég vil trúa því að Gísli afi hafi verið það líka. Hann fékk að vísu það orð að hann væri krati, hann fór gjarnan á alþýðu- flokksfundi og settist á fremsta bekk, í grennd við Gylfa Þ. Gíslason for- mann flokksins. Ég vil meina að hann hafi gert þetta af því hann þurfti að koma syni sínum og föðurbróður mín- um Gylfa Þ. Gíslasyni til náms á Laugarvatn í íþróttaskólann – sem hafðist. Ég gef mér að þetta hafi ver- ið svona,“ segir Kjartan og hlær. Þess má geta að Björn Gíslason, faðir Kjartans, hefur átt sæti í bæj- arstjórn á Selfossi í 12 ár og sjálfur hefur Kjartan tekið þátt í nokkrum prófkjörum til Alþingis og á sæti á lista sjálfstæðismanna í Suðurlands- kjördæmi sem þriðji varamaður, auk þess sem hann er formaður Sjálf- stæðisfélagsins Óðins á Selfossi. En skyldi Kjartan ræða um pólitík við viðskiptavini sína? „Við klippum fólk úr öllum flokk- um og þeir eru hættir að koma sem ekki vilja ræða við mig,“ svarar Kjartan. „Rakarar eru í þeirri stöðu að þeir þurfa að vera „diplomatískir“, – ég er það kannski ekki nóg. Ég hef mína skoðun og læt hana flakka. Mönnum hefur óneitanlega stundum fundist ég beittur. Við rakarar ræðum svo sem margt fleira en pólitík, – svo semveðrið, heimsmálin og íþróttirnar. En ég kæri mig ekki um að ræða um per- sónuleg einkamál manna. Sumir við- skiptavinir reyna að leiða talið að slíku. Þegar ég var að byrja gerði ég smávægileg mistök í þessum efnum og fékk það í bakið fljótlega – sú reynsla hefur dugað mér.“ Blaðamaður spyr hvort flest frétt- næmt í þorpinu rati ekki inn í rakara- stofu Björns og Kjartans? „Jú, vissulega fréttum við margt hér, því er ekki að neita. - Annars er gaman að heyra þig kalla Selfoss þorp,“ segir Kjartan. „Sannleikurinn er auðvitað sá að Selfoss er bær. Sel- fosshreppur varð til út úr Sandvík- urhreppi árið 1947 og bæjarréttindi fékk Selfoss 1978. Enn frekari sam- eining varð fyrir nokkrum árum, en ég hef lítinn áhuga á því máli, ég er Selfyssingur og held mig við það.“ Líklega er ég eilítið ofvirkur Sumir hafa meira umleikis en aðrir. Kjartan Björnsson, rak- ari á Selfossi, segir hér Guðrúnu Guðlaugsdóttur frá starfi sínu og áhugamálum í bland við berdreymi og fleira. Síðasta klippingin á gömlu Rakarastofunni. Hér er Mannsi í Bæ fórnarlambið. Ljósmynd/Helgi Valberg Kjartan Björnsson á sviðinu í íþróttahúsinu á Selfossi þorrablótskvöldið góða. Kjartan er formaður og annar stofnenda Arsenalklúbbsins og hefur ósjaldan gert sér ferð út til að horfa á leiki liðsins.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.