Morgunblaðið - 06.04.2002, Page 41
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 6. APRÍL 2002 41
Hin seinni ár, þegar amma var
komin á Heilbrigðisstofnunina á
Sauðárkróki, hófst annar kafli í lífi
hennar, núna hafði amma ekki leng-
ur sveitina sína. Hún varð að láta sér
nægja að horfa út um gluggann á
herberginu sínu, til Blönduhlíðar-
fjallanna, sem voru henni svo kær.
Amma var skýr í hugsun næstum
fram á það síðasta og spurði hún mig
ávallt um börnin mín og hvað ég væri
að starfa þegar ég hitti hana. Skrýtið
verður að fara norður og geta ekki
hitt hana framar.
Elsku amma mín, þú hefur lagt að
baki langa leið, en nú ertu komin á
leiðarenda.
Afi tekur á móti þér og þið getið
haldið áfram þar sem frá var horfið.
Njóttu hvíldar í faðmi Drottins,
elsku amma. Ljúfar endurminningar
um þig lifa í huga okkar.
Líney Óladóttir og fjölskylda.
Það var sárt að fá þær fréttir að
amma væri búin að kveðja þó svo að
vitað hafi verið að hverju stefndi. Þó
svo að aldursárin hafi verið orðin
nokkuð mörg áttaði maður sig ekki
alltaf á því. Hún var allt fram á síð-
asta dag tiltölulega hraust og vel ern.
Við systkinin urðum þeirrar gæfu
aðnjótandi að hafa hana ömmu okkur
til halds og trausts á uppvaxtarár-
unum og var hún órjúfanlegur hluti
af öllu okkar lífi. Fyrstu minningarn-
ar eru af jólaboðunum sem haldin
voru í Sólheimagerði þar sem eldað-
ur var dýrindis matur og sparistellið
sett á borð. Einnig dvöldumst við í
sveitinni hjá henni og Jóhanni
frænda á sumrin og er óhætt að
segja að oft hafi verið handagangur í
öskjunni. Hún var dugleg að kenna
okkur, leiðbeina og ala upp í betri
siðum. Við búum að því enn í dag og
miðlum nú til barna okkar.
Amma var stolt af sínu fólki og
lagði mikið upp úr því að við mennt-
uðum okkur. Ekki skipti öllu hvað við
gerðum, svo lengi sem við stefndum
að einhverju. Ætíð gat maður treyst
því að hún segði manni það sem
henni fannst. Spáði hún mikið í það
hvernig maður var tilhafður og
hvernig maður bar sig og var ekkert
að skafa utan af því ef henni mislík-
aði. Hún var hrein og bein á allan
hátt.
Þegar við minnumst ömmu okkar
kemur hún fram í hugann sem ein-
staklega glæsileg kona sem alltaf var
vel til höfð og klædd við hæfi. Það er
sérstaklega minnisstætt hve gaman
hún hafði af því að fá sér nýja peysu
og alltaf virtist hún geta fundið réttu
hálsfestina við hverja og eina. Hún
var með einstaklega fallegt hvítt hár
sem jók enn á glæsileika hennar og
alltaf bar hún sig vel, var dama fram í
fingurgóma.
Það er erfitt að kveðja manneskju
sem hefur fylgt okkur alla ævi en nú
er hún komin til hans afa, sem hún
hefur þurft að vera án í svo langan
tíma. Við erum þakklát fyrir að hafa
haft hana svona lengi hjá okkur og
þótt söknuðurinn sé mikill er þakk-
lætið okkur efst í huga fyrir að hafa
átt svona einstaka konu fyrir ömmu.
Elsku amma, við kveðjum þig með
söknuði og biðjum góðan guð að
geyma þig. Minningin um góða
ömmu mun aldrei gleymast. Hvíl í
friði.
Gísli Óskar Konráðsson,
Ása Dóra Konráðsdóttir.
Það hefur verið fjársjóður að eiga
hana ömmu til þessa dags. Hún var
alla tíð trú sínum uppruna og rætur
hennar í íslenskri bændamenningu
högguðust ekki hvað sem á gekk í
tæknibyltingu síðustu 50 ára. Hún
var níu ára frostaveturinn mikla
1918, upplifði ris og fall Þýskalands
nasismanns og mundi þessa tíma
jafn vel og hrun Berlínarmúrsins
rúmri hálfri öld síðar. Um þessa at-
burði og um þessa tíma talaði hún
með sama jafnaðargeðinu. Það var
eins og hún væri viss um að ef him-
intunglin á annað borð snerust þá
yrði aftur vor í dal með sauðburði og
heyskap og tilveran krydduð með sil-
ungi úr vötnunum og því óþarfi að
hafa of miklar áhyggjur af einhverj-
um voðaatburðum í útlöndum. Það
hefur verið fjársjóður að eiga að og
fá innsýn í gildismat þeirra sem
fæddust í byrjun síðustu aldar og
hafa átt ömmu sem tók þátt í að ala
mig upp að nokkru leyti og reyndi að
móta í anda þessara liðnu tíma. Fyrir
það verð ég ævinlega þakklátur.
Það sem ég kunni alltaf best við
við hana ömmu var hvað hún leyfði
sér að vera hún sjálf. Mislíkaði henni
eitthvað var hún ófeimin að láta vita
af því þótt alltaf væri stutt í hárfínan
húmorinn. Vissulega er slíkt tvíeggj-
að vopn og mörgum sjálfsagt stund-
um sárnað. Ég hef þó alltaf kunnað
slíkri hreinskilni vel og oft hló ég
dátt að gömlu konunni þegar hún var
að segja sínar skoðanir á mönnum og
málefnum. Hún hélt heimili í Sól-
heimagerði fram undir nírætt og var
alltaf stjórnandi, skipandi og mót-
andi sitt nánasta umhverfi.
Ég mun sakna hennar ömmu, ekki
síst vegna nálgunar hennar á mál-
efnum líðandi stundar, nálgunar sem
mótaðist af aðstæðum og straumum
löngu liðinna tíma, tíma sem gerðu
okkur að því sem við erum í dag. Þótt
Ingibjargar langömmu nyti við þar
til ég var um fermingu voru aðrir áar
mínir fallnir frá þegar ég byrjaði að
muna eftir mér. Ég hef því aðeins átt
eina ömmu sem hefur þurft að koma í
stað hinnar ömmunnar og afanna
beggja. Það er því með söknuði sem
ég kveð hana ömmu og fyrir mér er
tilveran mun fátækari en áður.
Friðrik Hansen Guðmundsson.
Lífsleið hvers og eins er hlutur
sem enginn getur vitað fyrir hve löng
verði né heldur hvenær hún muni
taka enda. Þannig er það með okkur
öll og þannig var það með ömmu okk-
ar sem lést 24. mars sl.
Hún lést á 94. aldursári. Að baki
voru tímar þar sem allt þjóðfélagið
hafði gjörbreyst og sá maður það oft
á ömmu að hún var undrandi á þeim
stakkaskiptum sem orðið höfðu á
þjóðfélaginu. Okkar fyrstu minning-
ar um ömmu ná aftur til þess tíma
þegar við komum pínulitlir í heim-
sókn í Sólheimagerði með pabba og
mömmu. Þá urðu ætíð miklir fagn-
aðarfundir og var amma alltaf glöð
að fá okkur í heimsókn. Þegar við
urðum fimm til sex ára gamlir fórum
við að verða reglubundið í sveit yfir
sumarið í Sólheimagerði hjá ömmu
og Jóhanni frænda okkar og urðu ár-
in ansi mörg eða alveg upp að 18. ári.
Því varð amma mjög stór þáttur í lífi
okkar og uppeldi og voru þau mörg
vandamálin sem amma leysti fyrir
okkur og hafði alltaf velferð okkar að
leiðarljósi. Í Sólheimagerði var alltaf
mikið um gestakomur og mikið um
að menn væru í fæði hjá henni vegna
vinnu við búið. Því varð vinnudag-
urinn oft mjög langur, og alltaf stóð
amma á fullu í eldhúsinu eða störfum
tengdum heimilinu. Hún lagði okkur
lífsreglurnar og kenndi okkur ýmsa
hluti sem nú í dag hafa komið sér vel
og talaði oft um mikilvægi góðrar
menntunar. Amma var mjög reglu-
föst kona og með sínar skoðanir á
hlutunum en hún tók alltaf vel hinum
ýmsu hrekkjum sem við gerðum
henni. Stundum svaraði hún þeim til
baka, í óþökk sumra. Þegar árin fóru
að færast yfir fór heilsu ömmu að
hraka og síðustu árin var hún á Heil-
brigðisstofnun Sauðárkróks þar sem
hún lést.
Við þessi leiðarlok viljum við
þakka ömmu fyrir öll árin og allar
góðu stundinar sem við áttum með
henni og geymum nú í minningu okk-
ar. Hennar verður sárt saknað og
aldrei þakkað nóg.
Við biðjum góðan Guð að gæta
hennar. Blessuð sé minning hennar.
Allar stundir okkar hér
er mér ljúft að muna.
Fyllstu þakkir flyt ég þér
fyrir samveruna.
Davíð og Elvar Konráðssynir.
Mér þótti þetta óendanlega leið-
inlegt með langömmu mína. Mamma
hringdi í mig þegar ég var í Rhonda
en náði svo ekkert í mig en ég las
skilaboðin hennar og þetta setti mik-
inn skugga á daginn.
Ég vildi óska að ég gæti verið við
jarðarförina því mér þótti mjög vænt
um langömmu og myndi langa til að
segja bless í seinasta skipti. Ég held
að sveitin verði ekki sú sama þegar
hún er þar ekki lengur. Mér fannst
nógu skrýtið að koma við í Sólheima-
gerði þegar hún var ekki þar en þá
fór maður samt alltaf í heimsókn til
hennar á spítalann þannig að ég sá
hana alltaf þegar ég kom í Skaga-
fjörðinn. Minning mín um hana mun
alltaf vera bundin við gamla konu
sem gaf mér konfektmola og reyndi
að troða í mig „ekta“ kúamjólk sem
ég, borgarbarnið, gat alls ekki hugs-
að mér að drekka. Mér fannst alltaf
gaman að koma við í Sólheimagerði
og ég á sterkar æskuminningar frá
þeim stað. T.d. þar sem langamma
situr úti í garði í sólskininu og prjón-
ar lopasokka á mig og Óla. Ég vildi
að ég gæti verið heima núna og tekið
þátt í öllu sem þessu viðkemur en ég
verð að láta mér nægja að hugsa til
ykkar.
Sigrún Björk, Spáni.
Ég vil minnast ömmu minnar,
Nikólínu Jóhannsdóttur.
Ég fór í sveitina til ömmu á hverju
sumri fram til 16 ára aldurs. Þar ólst
ég því upp að hluta til, í skagfirskri
sveit.
Hjá ömmu lærði ég margt og urð-
um við góðir vinir.
Ég mun sakna þessa góða vinar,
hennar ömmu.
Gísli H. Guðmundsson.
Elskuleg tengda-amma mín er lát-
in. Ég minnist hennar sem „hefðar-
konu“ þessi ríflega tuttugu ár sem ég
hef haft kynni af henni. Margt hafði
ég heyrt um hana og sveitina í Sól-
heimagerði hjá Friðriki áður en ég
hitti hana. Í minni fyrstu ferð í Sól-
heimagerði sumarið 1979 var hún
fyrir sunnan svo ég hitti hana ekki í
sínu rétta umhverfi fyrr en seinna.
En eftir það lá leið okkar mörgum
sinnum í sveitina til ömmu og Jó-
hanns frænda, börnunum til ómældr-
ar gleði og ánægju. Ekki stóð á að fá
góðan mat þegar við komum, þarna
var hún og sá um heimilið fyrir þau
Jóhann son sinn og nutu allir gest-
risni þeirra hvenær sem komið var.
Ekki voru allir eins heppnir og hún
Nikólína með heilsuna því hraust var
hún fram á síðustu ár. Það eru ekki
nema fjögur ár síðan hún fór frá Sól-
heimagerði inn á Heilbrigðisstofnun
Sauðárkróks og fannst henni það erf-
itt hlutskipti. Þegar við Friðrik
bjuggum í Kaupmannahöfn fyrir
tuttugu árum kom hún í heimsókn til
okkar, sem var mjög skemmtilegt.
Að fara með henni að skoða fallega
blómum skrýdda garða í góðu veðri
var einkar ánægjulegt og gaf hún
manni aðra sýn á slíka staði, hún var
mikill fagurkeri. Já, eða bara ganga
Strikið og líta í búðir, eiginlega var
sama hvað gert var, allt varð áhuga-
vert. Heimskona var hún í eðli sínu
að mér finnst enda heimsótti hún
barnabörnin og okkur maka þeirra
erlendis þegar færi gafst og meðan
heilsan leyfði.
Henni fannst ekkert liggja á því að
verða langamma, en í skírnarveislu
elsta langömmubarnsins, hans Hall-
dórs Gíslasonar, hallaði hún sér að
mér og hvíslaði: „Nú þegar komið er
eitt skiptir ekki máli þó að þau verði
fleiri úr þessu.“ Skrítin tilviljun að
við áttum svo næsta langömmubarn,
hana Sigrúnu Björk.
Í fyrstu heimsókn hennar Nikó-
línu á heimili okkar Friðriks á Bald-
ursgötunni skrifaði hún nafn sitt
óstytt í gestabókina og var þá haft á
orði að ekki væri hún vön að skrifa
Nikólína heldur Lína. Svaraði hún að
það vendist nú með aldrinum og hún
væri nú bara farin að kunna því bet-
ur en áður. Eftir því sem mér skildist
vildi hún ekki að skírt yrði eftir sér,
„þessu erfiða nafni“, en það var samt
notað í annarri mynd. Yfirleitt
ávarpaði ég hana fullu nafni og
fannst annað skrítið, ég vissi aldrei
og fæ aldrei að vita hvort henni líkaði
það eða ekki, en hún svaraði alltaf
þegar ég ávarpaði hana. Mér fannst
það ekki passa að ég segði Lína við
hana, það gerðu bara þeir sem höfðu
þekkt hana miklu lengur en ég. Börn
okkar Friðriks þekktu hana bara
sem langömmu Nikólínu. Í mínum
huga var hún bæði sátt við að heita
Nikólína og vera langamma.
Alltaf hafði hún áhuga á útliti sínu
hvað varðaði fatnað og hár og man ég
hve ég undraðist það að kona, komin
á meira en fullorðinsár, hefði gaman
af því að prjóna sér peysur, sauma á
sig dragtir, kjóla og fleira. Mætti
þetta verða fleiri konum til eftir-
breytni eftir að efri árum er náð og
vonandi að ég standi mig eins vel og
hún í því. Einnig heklaði hún dúka og
saumaði út, en fyrir um sjö árum
sagðist hún ekki nenna að gera neina
handavinnu nema sokka og vettlinga
ef einhver vildi nota. Öll eiga börnin
okkar dýrmætar minningar úr sveit-
inni og það að hafa aðgang að sveit
og öllu sem henni tilheyrir er meira
en mörg börn eiga kost á.
Þar sem ég er lærð í hárgreiðslu-
faginu naut ég þeirra forréttinda að
hitta hana þegar hún kom í bæinn og
áttum við þá spjallstund saman á
meðan permanentið var sett í, svo
klipping og þá hárlagningin í lokin.
Þá urðu samverustundir okkar jafn-
vel ein dagstund og leiddist mér það
ekki. Fáar konur var og er hægt að
gleðja meira með slíkri þjónustu en
hana. Það kom yfir hana þessi
ánægjusvipur öll þessi skipti sem við
„áttum í hári saman“ og ekki
skemmdi það að snyrta augabrúnirn-
ar í leiðinni.
Hún var alltaf „langflottust“ í
tauinu þegar hún kom í veislur í fjöl-
skyldunni, þá uppáklædd í íslenskan
upphlut eða peysuföt, en hvort
tveggja átti hún og bar með sóma og
glæsibrag svo eftir var tekið í okkar
veislum, að minnsta kosti af minni
fjölskyldu og vinum okkar. Það má
segja að hún hafi verið mér fyrir-
mynd í því að vera í upphlut við há-
tíðleg tækifæri sem hvatti mig til að
koma mér upp slíkum búningi þar
sem ég átti skrautið sem til þurfti,
sem ég og gerði, og veitti það mér
mikla ánægju að vera með henni í
veislu þannig klædd. Þegar hún
heimsótti okkur í upphlutnum síðast
var það við fermingu dóttur okkar,
en fljótlega eftir það leyfði heilsan
ekki lengur svona langferðir suður
og má því segja að í síðustu minn-
ingum okkar fólks sé hún þessi
myndarlega kona í upphlut og „lang-
flottust í tauinu“. Í minningu hennar
mun ég klæðast búningnum og
heiðra hana á þann hátt og fylgja
henni þannig uppábúin síðasta spöl-
inn. Þökk sé henni fyrir allt og allt.
Ingibjörg Óladóttir.
Deyr fé,
deyja frændr,
deyr sjálfr it sama,
en orðstírr
deyr aldregi
hveim er sér góðan getr.
(Hávamál.)
Elsku langamma, þakka þér fyrir
allar okkar góðu samverustundir.
Nú ertu loksins komin til langafa.
Guð veri með þér.
Þín langömmubörn,
Halldór, Harpa Þöll og
Hákon Freyr Gíslabörn.
Ég vona að þér líði betur. Ég skal
aldrei gleyma þér og tímunum sem
við vorum saman. Guð skal passa þig
þangað til þú fæðist aftur.
Hún langamma var mjög góð og
reyndi að hjálpa öðrum eins mikið og
hún gat.
Einu sinni þá gaf hún mömmu
minni hálsmen sem langamma átti.
Ég elskaði hana og ég elska hana
ennþá. Í nafni Guðs föður, sonar og
heilags anda, Amen.
Frá elsku barnabarnabarninu
þínu.
Þórdís Magnadóttir.
Minningar frá bernsku- og æsku-
árum eru dýrmætur fjársjóður sem
gott er að leita í. Minningar mínar
frá þessum árum tengjast mjög
heimilinu í Sólheimagerði.
Því er mér bæði ljúft og skylt að
setja á blað kveðjuorð til húsfreyj-
unnar þar, Nikólínu Jóhannsdóttur,
eða Línu, en það nafn notaði hún
jafnan. Lína var mikil myndarkona
og yfir henni var reisn. Hún fór í
Kvennaskólann á Blönduósi og mun
sú dvöl hafa nýst henni vel. Lína var
mikil hannyrðakona og bar fagurt
heimili hennar því glöggt vitni. Einn-
ig lék hvers kyns saumaskapur í
höndum hennar og m.a. saumaði hún
íslenska búninginn.
Gísli og Lína hófu búskap í Sól-
heimnagerði árið 1934 eða 5. Jörðin
var lítil og kostarýr en þau breyttu
henni í góðbýli, bæði hvað snerti
ræktun og húsakost.
Gísli í Sólheimagerði var kennari
og síðar skólastjóri við barnaskóla
Akrahrepps í 32 ár. Hann var ein-
stakur kennari, mannvinur og gleði-
gjafi.
Í tæpa tvo áratugi var skólinn til
húsa í Sólheimagerði að hluta til en
þá var farskóli. Ekki fer hjá því að
skólahaldið hefur verið álag á heim-
ilið.
Eitt sinn spurði ég Línu hvort hún
hefði aldrei verið þreytt á að hafa
skólann á heimilinu öll þessi ár.
„Nei,“ sagði hún, „þetta var bara góð
tilbreyting.“ Aldrei var amast við
okkur, þvert á móti. Ekki gleymast
„litlu jólin“ uppi í stofunni hennar
sem okkur skólakrökkunum voru
haldin.
Þar stóð jólatréð svo fagurlega
skreytt að það fangaði barnsaugun.
Lesnar voru jólasögur, farið í leiki,
gengið í kringum jólatréð og svo
bauð Lína til veislu. Stundum voru
sett upp leikrit og þá tók Lína okkur
upp til sín og hjálpaði til með bún-
ingana. Einnig man ég hana sitja hjá
okkur í skriftartímum þegar Gísli
þurfti að bregða sér frá. Hún var svo
fallega klædd og var með handavinn-
una sína.
Já, litli sveitaskólinn var menning-
arstofnun. Störf þeirra, Línu og
Gísla frænda míns, mörkuðu þar
djúp spor sem enn hafa ekki máðst
út.
Á milli bæjannna Sólheimagerðis
og Uppsala greru aldrei götur.
Þangað gengum við systkinin í
skóla, þar átti ég leikfélaga og jafn-
öldru og segja má að þar hafi verið
mitt annað heimili því auk skólans
var mikill samgangur milli bæjanna,
bæði frændsemi og vinátta.
Það dró ský fyrir sólu er Gísli lést í
ársbyrjun 1960, fyrir aldur fram,
tæplega 60 ára. Pabbi sagði m.a. í
minningu frænda síns: „Það var að
öllum jafnaði hátt til lofts og vítt til
veggja í huga hans og í kringum
hann líka.
Hann bar fjörið og birtuna með
sér fram á ævikvöldið.“
En lífið heldur áfram. Lína hélt
sinni reisn. Hún stóð fyrir heimilinu
með Jóhanni, syni þeirra, sem þá
hafði tekið við búinu.
Þegar Lína var 68 ára fór hún í
sína fyrstu utanlandsferð, þá til Ed-
inborgar, að heimsækja hjónin Sig-
rúnu dóttur sína og Guðmund sem
þar dvöldu.
Og ferðirnar til útlanda urðu fleiri,
bæði til Svíþjóðar og Danmerkur.
Á áttræðisafmælinu var hún í
Trier í Þýskalandi með börnum sín-
um og tvær ferðir fór hún til Þýska-
lands eftir það. Lína naut þessara
ferðalaga.
Hún var heilsuhraust og í raun
glæsileg eldri kona.
Með húsmóðurstörfunum lagði
hún mikla rækt við hannyrðir og
saumaskap, keypti ýmiss konar
hannyrðablöð og tímarit, bæði ís-
lensk og erlend og gat þannig sinnt
sínum áhugamálum.
Það var henni þung raun er að því
kom að hún, vegna sjúkleika, þurfti
að fara á Sjúkrahúsið á Sauðárkróki
sumarið 1998, þá 89 ára að aldri. Hún
hafði þá séð um heimili sitt í Sól-
heimagerði í 64 ár, þó með aðstoð síð-
ustu árin, en aldrei fyrr þurft á
sjúkrahúsvist að halda.
Ég er þakklát fyrir þær stundir er
við áttum saman á sjúkrahúsinu.
Þar var gott að heimsækja hana.
Við rifjuðum upp ýmislegt frá liðnum
dögum. Stundum varð augnaráðið
fjarrænt er hún horfði til Blönduhlíð-
arfjallanna sem blöstu við út um
gluggann hennar og hún sá fram í
sveitina sína.
Nú er langri og farsælli göngu lok-
ið. Ég kveð Línu með virðingu og
þökk.
Aðstandendum votta ég mína
dýpstu samúð og þakka fyrir að eiga
minningarnar um heimilið í Sól-
heimagerði.
Helga Bjarnadóttir frá
Uppsölum.