Morgunblaðið - 24.09.2002, Side 26
LISTIR
26 ÞRIÐJUDAGUR 24. SEPTEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ
AÐRIR tónleikar UNM-hátíðar-
viku fóru fram í Salnum, bæjarprýði
hins hlustandi Kópavogsbúa. Aðsókn
var trauðla minni en í Iðnó kvöldið
áður, en náði þó ekki að fylla þrefalt
stærra húsið.
Á umbrotaárum 20. aldar komu
fram ný viðhorf um markmið tónlist-
ar. Hún átti ekki lengur að vera eink-
um til hugarhægðar og hreystingar,
heldur einnig spegla hranalegri hlið-
ar tilverunnar. Margir módernistar
settu hið síðara á oddinn, til illbæt-
anlegs tjóns fyrir samband almennra
hlustenda og höfunda. Að ekki sé tal-
að um hinn undirliggjandi strúktúr,
þar sem tónlistin varð að ofhugsaðri
„cerebral“ heilamúsík. Í listinni, sem
að áliti Mozarts ætti að höfða jafnt til
höfuðs, heyrnar og hjarta, varð heil-
inn einn eftir. Og meginástæður þess
arna voru þrjár: tilkoma tónlistarhá-
skóla, sérhæfðra flytjenda og opin-
berra styrkja. Lokaðrar hringrásar,
þar sem listin, frekar en að þróast
hægt og eðlilega, var látin taka
stökkbreytingum. Ekki ósvipað og í
líffræðirannsóknarstofum síðari ára
þar sem búnar eru til sjálflýsandi
kanínur. Í slíku ferli mætir hinn
óbreytti hlustandi vitanlega algjör-
um afgangi. Tilraunirnar eru jú á
framfæri hins opinbera.
Þessi sjúkdómsgreining kann að
vera einhliða og ósanngjörn þegar á
heildina er litið. En hún endurspegl-
ar engu að síður útbreidd viðhorf
tónlistarunnenda í dag, sem eftir
hálfrar aldar linnulausa tilrauna-
starfsemi hafa löngu misst þolin-
mæðina gagnvart einangraða fram-
tíðarskröltinu úr klaustrum ný-
skólaspekinnar. Alltjent kom sú
hugsun fljótlega upp í undirrituðum
á ofangreindum tónleikum, því mið-
að við vænlegu fyrstu UNM-uppá-
komuna í Iðnó á mánudag urðu
þriðjudagstónleikarnir honum mikil
vonbrigði. Það tíðkast ekki að púa
norðan Alpafjalla, enda voru undir-
tektir prýðilegar og jafnvel bravóað.
En ef svara á fyrir eigin hönd, þá
langaði mann stundum að fylgja for-
dæmi litla snáðans í ævintýrinu sem
kunni sig ekki og kallaði upphátt:
„Hann er ekki í neinu!“ Eða einfald-
lega troða töppum í eyrun. Báðar
langanir hafa að vísu stundum bært
á sér áður, en sjaldan eins ómót-
stæðilega og í þetta sinn.
Þetta var ekki stjórnanda og flytj-
endum að kenna. Bernharður Wilk-
insson stýrði skýrt og mynduglega,
og flutningur Caput-sveitarinnar,
sem hefur iðulega áður kippt hálf-
slöppu verki í upphæðir, var í góðu
samræmi við háan staðal hópsins.
Fyrrgreind vonbrigði verða alfarið
skrifuð á höfundana, sem áttu sér
helzt til vorkunnar að vera ungir og
flestir enn við nám. Látum vera að
lítt mótuð tónskáld noti tækifærið til
að hlaupa af sér hornin í því skjólinu,
enda ekki nema eðlilegt. Öllu verri
var sú tilfinning manns hvað sköp-
unarþráin virtist hamin frekar en
örvuð af dauðri hönd elítískrar tízku
og miðstýringu kennara, enda
hljómaði „módernismi“ meirihluta
verkanna – þótt fráleitt skorti krass-
andi uppátæki – undarlega gamal-
dags. Eins og dagblaðsforsíða frá í
fyrra, eða nánar tiltekið sem erind-
islaus vindhögg úr sér gengins fram-
úrstefnuakademisma.
E.t.v. hafa sumar skýringar höf-
unda í tónleikaskrá stuðlað að því.
Ein þeirra var torskilin huglæg
bollalegging, önnur tilvitnun í senn
úreltar kenningar T.W. Adornos, og
gerðu báðar líklega meiri skaða en
gagn. Hið óþarflega langa „Praes-
ens“ (um fjórtán mínútur) fyrir 14
manna hljómsveit eftir Danann Sim-
on Steen-Andersen (f. 1976) var
dæmigert effektaverk út í gegn og
bar, kannski að meðtöldum Saxófón-
konsert Steingríms Rohloffs í lokin,
hvað sterkastan keim af áðurtöldum
framúrstefnuakademisma. Þó hefði
því e.t.v. mátt bjarga fyrir horn frá
sjónarmiði hlustenda með óvæginni
grisjun.
„Voices to Voices – Lip to Lip“
(um 7 mín.) fyrir tólf spilara var í
raun ekki marktækt framlag hins
norska Lars Petter Hagen (f. 1975),
þar eð Caput hefði, að manni skildist
af vandheyranlegri kynningu tón-
skáldsins, fengið rangar nótur send-
ar frá forlaginu, nefnilega uppkasts-
skissu en ekki fullgert verkið.
Skissan reyndist samt alláheyrileg
og ber því aðeins að harma þessa
óvæntu handvömm.
„Things you see are yet to come“
(um 9 mín.) fyrir einleikstúbu og raf-
hljóð eftir Svíann Mattias Svensson
(f. 1971) var ljósasti punktur tón-
leikanna. Þó síður framan af, þar
sem hljóðfærið, að meðtöldu fótas-
tappi og meðsöng flytjandans, lét
eins og E-pilluær útgáfa af Tobba
trúð. Í seinni hluta, eftir að tónband-
ið (eða geisladiskurinn) bættist við
með rafhljóðum og konkretupptök-
um af túbunni og ýmsu klingi og
fuglatísti, var aftur á móti slegið á
skáldlegri strengi með áhrifamiklu
andstæðusamspili á milli útmarka
há- og lágtíðnisviða.
Eftir hlé kom fyrst verk fyrir
blandaðan oktett, „Verewigter Duft
ist Paradox“ (9½’) eftir Norðmann-
inn Knut Olaf Sunde, og fannst
hvorki stafur um höfund né verk í
skránni. Áhöfnin – píanó, tvö slag-
verk, gítar, harpa og selesta auk
flautu og sellós – réð miklu um
hljómsvip verksins sem skiptist á
milli dropaklingjandi sveimhuga
astralplans annars vegar og svarr-
andi stálsmiðju hins vegar, ekki sízt
fyrir atgangshart slagverkið. Líkt og
„Praesens“ var það gegnsýrt effekt-
um í sífelldri röð rísandi og hnígandi
styrk-„linsa“ og var nánast fyrir-
varalaust lokið, hangandi í lausu
lofti.
Síðasta og jafnframt ágengasta
verk kvöldsins (og er þá mikið sagt)
var Saxófónkonsert hins þýzk-ís-
lenzka Steingríms Rohloff, m.a. fyrr-
um nemanda franska spektralistans
Gérards Griseys. Ólíkt hefðbundn-
um einleikskonsertum var einleikar-
inn hér varla einu sinni fremstur
meðal jafningja, heldur hurfu ýmist
niðurkæfðu eða tvíhljóma tuðhljóðin
úr altsax Rolf-Eriks Nystrøms að
mestu í mergðinni. Þótt effektar
væru sízt ómældari en í fyrri verkum
dagskrár var fjölbreytni í áferð samt
töluverð, en því miður lengst af á of
smágerðum skala þannig að heildar-
áhrifin koðnuðu smám saman niður í
allt of kunnuglegan gráan graut.
Eini samtengjandi formþáttur sem
undirritaður náði að greina við
fyrstu heyrn var tónlaust loftkennt
soghljóð sem hólfaði verkið af í
nokkra innbyrðis keimlíka þætti.
Tónsmíðinni var tekið með kostum
og kynjum, og kom það undirrituð-
um satt að segja mest á óvart.
Ríkarður Ö. Pálsson
Hjartalausir höfuðtónarTÓNLISTSalurinn
Simon Steen-Andersen: Praesens. Lars
Petter Hagen: Voices to Voices – Lip to
Lip. Mattias Svensson: Things you see
are yet to come. Knut Olaf Sunde: Vere-
wigter Duft ist Paradox. Steingrímur
Rohloff: Saxófónkonsert. Mattias Jo-
hansson túba, Rolf-Erik Nystrøm alt-
saxófónn og CAPUT-kammersveitin.
Stjórnandi: Bernharður Wilkinson. Þriðju-
daginn 3. september kl. 20:30.
UNG NORDISK MUSIK
ÁRIÐ 1998 tóku gildi lög um list-
skreytingar opinberra nýbygginga
þar sem segir í 1. grein að verja
skuli 1% af heildarbyggingarkostn-
aði byggingarinnar til listskreyt-
ingar. Einnig segir í 3. grein að fé
á fjárlögum skuli veitt ár hvert í
listskreytingasjóð til listskreytinga
opinberra bygginga sem þegar eru
fullbyggðar við gildistöku laganna.
Í ár var framlag til listskreytinga-
sjóðs ríkisins 8 milljónir króna.
Samkeppni Landsbókasafnsins
er sú fimmta sem haldin er í ár.
Hinar voru fyrir Borgarholtsskóla,
Landsvirkjun, Orkuveituna og Al-
þingishúsið. Í öllum tilfellum var
farið eftir samkeppnisreglum SÍM
(Samband íslenskra myndlistar-
manna). Tvö form eru á slíkum
keppnum. Þ.e. almenn samkeppni
og lokuð samkeppni. Í lokaðri
keppni er hópur listamanna nefnd-
ur af forvalsnefnd SÍM til að gera
tillögur að listskreytingu. Fjöldi
þátttakenda fer eftir umfangi sam-
keppninnar, og fá þeir greiddar
um 200.000 – 250.000 hver fyrir til-
lögur sínar. Dómnefnd skipuð af
fulltrúum frá SÍM og útboðsaðilum
velur svo eina eða fleiri tillögur til
útfærslu. Fá sigurvegararnir
greidda verðlaunafjárhæð með
hliðsjón af umfangi og eðli við-
fangsefnisins. Helstu kostirnir við
slíka samkeppni eru þeir að fag-
mennska er höfð í fyrirrúmi og all-
ir fá greitt fyrir vinnu sína. Ókost-
irnir eru að fámennur hópur
myndlistarmanna kann að einoka
markaðinn svo nýir listamenn
komast síður að. Einnig er sam-
keppnisformið mjög kostnaðar-
samt, en fyrir utan listamennina
þarf að greiða forvalsnefnd, dóm-
nefnd, ritara og trúnaðarmanni
laun fyrir störf sín ásamt þóknun
til SÍM sem miðast við 10% af
verðlaunafé. Í lokaðri samkeppni
um staðbundið listaverk fyrir nýja
byggingu þjónustuskála við Al-
þingishúsið voru tillögur Hafdísar
Helgadóttur og Ólafar Nordal
valdar til útfærslu af 4 keppend-
um. Kostnaðurinn við keppnina var
meiri en búist var við og til þess að
standast kostnaðaráætlun var
ákveðið að listaverk Ólafar Nordal
yrði minna en vilji listakonunnar
var í upphafi. Fyrir lokaða sam-
keppni um listskreytingu við
Hrauneyjafossstöð hjá Landsvirkj-
un spreyttu 6 listamenn sig á til-
lögum. Tvær urðu fyrir valinu,
„Tíðni“ eftir Finnboga Pétursson
og „Móðir jörð“ eftir Gjörninga-
klúbbinn. Orkuveitan greiddi 9
listamönnum fyrir hugmyndavinnu
á listaverkum fyrir höfuðstöðvar
sínar. Fjórar urðu fyrir valinu,
„Kristall“ eftir Hrein Friðfinnsson,
„Lyftuverk“ eftir Þór Vigfússon,
„Uppspretta“ eftir Svövu Björns-
dóttur og „Hringur“ eftir Finn-
boga Pétursson.
Almenn samkeppni er opin öll-
um. Hún er auglýst í fjölmiðlum
þannig að útboðsaðilar óska eftir
tillögum að listskreytingu. Tillög-
urnar eru sendar undir dulnefni og
þegar dómnefnd hefur valið sig-
urverkið opna þeir umslag þar sem
greinir frekar frá höfundi þess.
Kostirnir við slíka samkeppni eru
að þeir sem ekki hafa fengið að
spreyta sig í lokaðri samkeppni
hafa þá tækifæri til að sanna sig.
Að auki er keppnin ekki eins
kostnaðarsöm. Ókostirnir eru þeir
að myndlistarmenn sem taka þátt
fá ekki greitt fyrir vinnu sína, en
ásamt hugmyndavinnu er mikið til-
stand í því að gera kostnaðaráætl-
un fyrir efni og uppsetningu á
listaverki. Ekkert eftirlit er með
fagmennsku þátttakenda og af 58
tillögum undir dulnefni getur verið
að fáar þeirra séu eftir metnaðar-
fulla fagmenn.
Almenn samkeppni um útilista-
verk við Borgarholtsskóla var
haldin í vor og var tillaga Gjörn-
ingaklúbbsins, „Dýrmæti“, valin til
útfærslu. Voru innsendar tillögur
til sýnis í skólanum ásamt grein-
argerð dómnefndar um hvert verk.
Hvort tillögur fyrir Landsbóka-
safnið hafa verið lakari en fyrir
Borgarholtsskóla veit almenningur
ekki þar sem þær eru ekki til sýnis
í Þjóðarbókhlöðunni. Þarf Lands-
bókasafn nú að efna til nýrrar
samkeppni, eflaust lokaðrar, vilji
það halda settu marki um list-
skreytingu, en þar sem ekki er um
nýbyggingu að ræða er safnið ekki
bundið 1. lagagrein, heldur styrkir
listskreytingasjóður ríkisins safnið
að gerð listskreytingar líkt og
Borgarholtsskóla.
Nokkuð hefur verið deilt meðal
myndlistarmanna um ágæti sam-
keppnisformanna tveggja, þ. á m. á
síðasta aðalfundi SÍM. Þykja bæði
formin ófullkomin þótt meiri
ósætti séu um almenna samkeppn-
isformið. Til að allir séu sáttir þarf
samkeppni að bjóða upp á gott eft-
irlit með fagmennsku þar sem
flestum er gefið tækifæri á að
spreyta sig á tillögum gegn
greiðslu en kostnaði samt haldið
niðri. Hvernig það er hægt er auð-
vitað spurning sem ósvarað er.
Hið ófullkomna form
Yfirlýsing fimm manna
dómnefndar sem fór
yfir tillögur í sam-
keppni vegna list-
skreytingar fyrir
Landsbókasafn Íslands
hefur vakið athygli á
síðustu dögum. Hafn-
aði nefndin einróma
öllum 58 innsendum til-
lögum um staðbundið
listaverk við byggingu
Þjóðarbókhlöðunnar.
Jón B.K. Ransu fjallar
um málið. Morgunblaðið/ÁsdísÓlöf Nordal og Hafdís Helgadóttir taka við verðlaunum eftir að hafa sigrað samkeppni um listskreytingu í ný-
byggingu við Alþingishúsið. Með þeim á myndinni eru Sigurður Einarsson og Halldór Blöndal.
Höfundur er listamaður og gagnrýnandi.
EINI ljósi puntkurinn í þessari
gamanmynd er leikarinn Mathew
Perry, sem býr yfir óendanlegum
hæfileikum til þess að spinna og
vera fyndinn án þess að hafa neitt
fyrir því. Leikarinn sá, sem flestir
þekkja úr gamanþáttunum Vinum,
hefur hins vegar ratað í einstak-
lega vont samsafn kvikmynda. Svo
virðist sem framleiðendur mynd-
anna sem honum er boðið að leika
í treysti á það, að nærvera Perrys
í viðkomandi mynd nægi til að hala
inn slatta af áhorfendum og er því
lítil áhersla lögð á að kvikmynd-
irnar séu áhugaverðar sem slíkar.
„Serving Sara“ er skýrt dæmi um
svona vinnubrögð, þar er Perry
fenginn til að leika aðalhlutverkið í
hundslappri gamanmynd og
breska „beibinu“ Elizabeth Hurley
skellt með í pakkann. Framvindan
er lögfræðitengd flétta þar sem
lögmaðurinn Perry fer í kapp við
starfsbróður sinn um að birta rík-
um nautgripabónda í Texas skiln-
aðarstefnu. Hefur eiginkonan Sara
(Hureley) lofað honum stóran
hluta skilnaðarágóðans nái hann
að verða á undan öðrum lögfræð-
ingi sem vill verða fyrri til að birta
Söru stefnuna. Þessi gamanflétta
er síðan spiluð út í fremur slöppu
handriti, þar sem lokaatriðið nær
miklu hámarki í heimskulegheit-
um. En athyglinni heldur áhorf-
andinn þó út í gegn, þökk sé
Matthew Perry sem gerir sitt
besta miðað við aðstæður.
Þetta er því kvikmynd hugsuð
fyrir ákveðnar tegundir áhorfenda:
Þá sem fara að sjá myndina til að
sjá Matthew Perry, þá sem fara til
að sjá Elizabeth Hurley í létt-
klæddu hlutverki sínu, áhorfendur
sem fara til að sjá báðar stjörn-
urnar og að lokum þá sem fara í
bíó einfaldlega til þess að sjá eitt-
hvað litríkt hreyfast á tjaldinu.
Perry
í vanda
KVIKMYNDIR
Sambíóin Kringlunni, Álfabakka
og Akureyri
Leikstjóri: Reginald Hudlin. Aðal-
hlutverk: Matthew Perry, Elizabeth Hur-
ely, Vincent Pastore. 98 mín. Bandaríkin.
Paramount Pictures, 2002.
SERVING SARA / AÐ BIRTA SÖRU
Heiða Jóhannsdóttir