Morgunblaðið - 29.10.2002, Qupperneq 15
SUÐURNES
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 29. OKTÓBER 2002 15
LEIKFÉLAG Keflavíkur fær
460 þúsund króna styrk
vegna leikstjóralauna. Er það
hæsti styrkurinn sem menn-
ingar- og safnaráð Reykja-
nesbæjar samþykkti á fundi
sínum fyrir skömmu.
Menningar- og safnaráð
fékk fjölda umsókna um
styrki. Þeir styrkir sem ráðið
ákvað að veita verða afhentir
á fundi nefndarinnar 12. nóv-
ember næstkomandi um leið
og tilkynnt verður hverjir fá
menningarverðlaun Reykja-
nesbæjar.
Karlakór Keflavíkur og
Kvennakór Suðurnesja fá 200
þúsund króna styrk hvor kór
vegna hefðbundins kóra-
starfs. Félag myndlistar-
manna fær sömuleiðis 200
þúsund, vegna námskeiða-
halds.
Sturlaugur Jón Björnsson
og Ingi Garðar fá styrk að
fjárhæð 100 þúsund vegna
tónleikaferða. Sossa Björns-
dóttir fær sömu fjárhæð
vegna sýningarhalds. Konráð
K. Björgólfsson fær 60 þús-
und króna styrk vegna útgáfu
á geisladiski og Gísli B.
Gunnarsson fær 20 þúsund
vegna sýningarhalds.
Leik-
félagið
fær hæsta
styrkinn
Reykjanesbær
EINSTAKLINGAR eru að byggja
upp fjölþætta lista- og menningar-
miðstöð í Sandgerði. Miðstöðin
verður í gamla kaupfélagshúsinu
sem er í kjarna bæjarins.
„Þetta er gamall draumur sem
rættist þegar við komum auga á
þetta hús,“ segir Marta Eiríks-
dóttir, leiklistarkennari Fjöl-
brautaskóla Suðurnesja, um
ástæðu þess að hún og maður
hennar, Friðrik Þór Friðriksson
rafvirki, ákváðu að setja upp lista-
og menningarmiðstöðina. Marta
segir að húsið hafi staðið autt í ár
þegar þau festu kaup á því í þess-
um tilgangi. Það hafi hins vegar
verið illa farið og mikill tími farið í
að gera við það. Búið er að mála
gamla kaupfélagshúsið að utan, í
skrautlegum litum svo það fer ekki
fram hjá vegfarendum.
Þau hyggjast hefja starfrækslu
miðstöðvarinnar í janúar næstkom-
andi. Marta segir að ýmis starfsemi
verði á vegum hennar. Þar verði
haldin leiklistarnámskeið, dans-
námskeið, söngkennsla, leikfimi og
jóga. Starfsemin er í mótun en
hugmyndirnar ganga út á að þar
verði fjölbreytt líkams- og sál-
arrækt.
Starfseminni er ætlað að ná til
allra aldurshópa, allt frá ungum
börnum til eldri borgara, til Sand-
gerðinga og annarra Suðurnesja-
manna. Þá verður boðið upp á
helgarnámskeið með erlendum og
innlendum gestafyrirlesurum og
þau eru hugsuð fyrir alla lands-
menn. Hafa Marta og Friðrik Þór
tekið upp samvinnu við eigendur
sumarhúsabyggðarinnar á Þór-
oddsstöðum við Sandgerði um að
taka við þátttakendum í gistingu,
fólki sem ekki getur ekið til síns
heima að kvöldi eða vill frekar
gista á staðnum.
„Tilgangurinn er að fá fólk til að
slökkva á sjónvarpinu og tölvunni
og taka þátt í að skapa eitthvað
skemmtilegt í kringum sig. Og um
leið er þetta forvarnarstarf fyrir
börn og unglinga. Það er hægt að
gera svo margt til að lífga upp á
tilveruna,“ segir Marta.
Þess má geta að Sandgerðisbær
mun að öllum líkindum styðja við
uppbygginguna með því að kaupa
og setja upp hljómtæki í húsið.
Samþykkt hefur verið í bæjarráði
að leggja tillögu þessa efnis fyrir
bæjarstjórn. Fyrirhugað er að gera
samstarfssamning við eigendur
miðstöðvarinnar. Með þessu vill
bærinn meðal annars koma að
nokkru til móts við þarfir ung-
linga, 16 ára og eldri, í þjálfun
framkomu og sjálfsstyrkingu hvers
konar, eins og það er orðað.
Hægt að gera svo margt
til að lífga upp á tilveruna
Gamla kaupfélagshúsið hefur fengið litríka andlitslyftingu.
Morgunblaðið/Reynir Sveinsson
Friðrik Þór Friðriksson og
Marta Eiríksdóttir.
Sandgerði
SIGRÍÐUR Snæbjörnsdóttir telur
að staðsetning í útjaðri höfuðborg-
arsvæðisins skapi Heilbrigð-
isstofnun Suðurnesja ýmsa mögu-
leika sem hún hefur hug á að nýta.
Sigríður tekur við starfi fram-
kvæmdastjóra stofnunarinnar 1.
desember næstkomandi.
Sigríður tók við starfi fram-
kvæmdastjóra Heyrnar- og tal-
meinastöðvar Íslands fyrir rúmu
ári og segir að starfið þar hafi ver-
ið mjög spennandi. Þar hafi verið
mörg óleyst mál en unnið hafi verið
að uppbyggingu innra starfs stofn-
unarinnar. „Ég tel mig skila af mér
tiltölulega góðu búi. Reksturinn
hefur snúist við, öll mál komin á
hreint og búið að marka stefnuna
til framtíðar,“ segir Sigríður.
Hún segist hafa verið í sumarfríi
þegar auglýsing birtist um stöðu
framkvæmdastjóra Heilbrigð-
isstofnunar Suðurnesja. „Það var
eitthvað við hana sem snart mig,
mér fannst þetta spennandi verk-
efni að takast á við og eftir að hafa
hugsað málið ákvað ég að sækja
um,“ segir Sigríður.
Hún hefur lengi starfað sem
stjórnandi á hjúkrunarsviði á stóru
sjúkrahúsunum, meðal annars sem
hjúkrunarforstjóri á Borgarspít-
alanum og Sjúkrahúsi Reykjavíkur.
Segir Sigríður að þótt núverandi
starf sé áhugavert hafi hún gjarn-
an viljað vera í nánari tengslum við
sjúklinga en þar sé unnt og talið að
þekking sín og reynsla gæti nýst
vel í stöðu framkvæmdastjóra Heil-
brigðisstofnunar Suðurnesja.
Hún segir of snemmt að ræða
mikið nýjar áherslur í rekstri
stofnunarinnar eða breytingar.
Hún horfir þó til staðsetningar
stofnunarinnar í nágrenni höf-
uðborgarsvæðisins og segist telja
að það skapi henni sóknarfæri í
heilbrigðisþjónustunni. Heilbrigð-
isstofnunin rekur sjúkrahús í
Keflavík, hjúkrunarheimili í
Grindavík og heilsugæslustöðvar á
báðum stöðum. Sigríður segist hafa
áhuga á að taka þátt í að auka sam-
vinnu heilsugæslustöðvarinnar og
sjúkrahússins og að það gæti orðið
fyrirmynd fyrir aðra. Sjálfsagt sé
að nýta sér fyrirkomulag sem vel
hafi reynst á sambærilegum stofn-
unum erlendis.
Heilbrigðisstofnunin hefur átt
við fjárhagsörðugleika að etja. Sig-
ríður segist ekki hafa sett sig inn í
þau mál en segir að allar heilbrigð-
isstofnanir búi við vissa fjárhags-
erfiðleika og lýsir þeirri skoðun
sinni að þeir fari væntanlega ekki
batnandi. Hún segir nauðsynlegt
að forgangsraða í heilbrigðisþjón-
ustunni og það sé hægt að gera.
„Ég efast ekki um að það þarf að
fara í ýmsar skipulagsbreytingar á
þessari stofnun. Ég er ekki óvön
því að vinna að þeim. Við þannig
vinnu koma oft upp ný sjónarhorn
og svo er spurningin hvort ekki
komi upp nýir tekjuöflunarmögu-
leikar.“
Sigríður Snæbjörnsdóttir horfir
bjartsýn til samstarfs við starfsfólk
Heilbrigðisstofnunarinnar enda
segist hún vera teymismanneskja
og njóta þess að starfa með góðu
fólki. „Heilbrigðisþjónustan grund-
vallast á fólkinu sem við hana vinn-
ur. Ef vel er stutt við bakið á því
fær maður það vel launað til baka,“
segir hún.
Sigríður Snæbjörnsdóttir tekur við starfi framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunar
Staðsetningin
skapar sóknarfæri
Keflavík
Morgunblaðið/Golli