Morgunblaðið - 24.11.2002, Side 24

Morgunblaðið - 24.11.2002, Side 24
24 SUNNUDAGUR 24. NÓVEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ Draumur sem varð að martröð Þeir eru komnir á fullt íbissnesinn, Kristján Ein-arsson er auðvitað boss-inn og það fer honum vel,með allt sitt sjálfsöryggi og uppátækjasemina; þeir eru að skipuleggja götur og grafa fyrir vatni og holræsum og svo eru húsin teiknuð og grunnar teknir og það er byrjað að byggja, og nú geta kaup- endur farið að koma. En allt er þetta miklu dýrara en margur hugði, það er kannski ekki svo auðvelt að vera með lítið einyrkjafyrirtæki í þessum stóra harða heimi, peningarnir bull- ast og tætast út, lítið kemur inn, allt of lítið … Fer heimilisfaðirinn þá að koma oftar drukkinn heim, svo fullur að börnin verða að hjálpa honum úr skónum? Já, trúlega, en samt er enn allt með kyrrum kjörum í þeirra ver- öld, það er skólarútan og góða veðrið og leikirnir heima í götunni og Com- bat eða drive-in-bíó á kvöldin. Einar stóri bróðir er líka orðinn fimmtán og kominn með bílpróf, allt er þetta ánægjulegt og gott. Og það er komin skjaldbaka í húsið, hið indælasta kvikindi sem bláeygur kötturinn þef- ar stundum af og hnerrar svo. Ofbeldi og hótanir En það er eitthvað skrýtið í gangi, að minnsta kosti svona eftir á að hyggja. Tvisvar eða þrisvar fer Kristján einn út að keyra um helgar með yngri börnin sín, Pétur, Krist- ján og jafnvel Ellen litlu, það á að fara á strönd eða dýragarð eða eitt- hvað, en fyrst þarf Mr. Einarsson „bara að stoppa hér á einum stað“, það er krá í litlu og lágreistu húsi við sólbakaða götu, – og mikil eru við- brigðin að koma þangað inn úr allri þessari sunnudagsbirtu … En það venst og þetta er ekki sem verst, þarna er dauf gola frá viftuspaða sem snýst í loftinu og þarna lyktar allt af gamalgrónum tób- aksreyk og bjór og það er djúkbox sem suðar í lágum hljóðum og þarna er líka eitthvert leik- tæki, jafnvel hægt að græða peninga með því að setja smámynt í rauf, og börnin fá fulla lúku svo þau uni sér við spilið á meðan pabbi situr á afar löngu og grafalvarlegu hljóð- skrafi við einhverja ókunna menn hjá bar- borðinu. Hann þarf auðvitað að útvega peninga svo framkvæmdirnar hjá nýja fyrirtækinu sigli ekki í strand, kannski er hann far- inn að semja eitt- hvað við mafíuna, og eitt kvöldið kemur hann heim afar illa til reika, ekki vegna þess að hann sé fullur, heldur var honum ekið heim að húsinu í ókunnum bíl sem hafði ekkert fyrir því að stoppa, heldur henti heimilisföðurnum út á gangstéttina fyrir framan húsið á sæmilegri ferð. Og einhverjar hót- anir fylgdu með, því að næstu daga var lögregluvörður í húsinu; þarna stóðu verðir með alvæpni frammi í forstofunni og depluðu varla auga þótt börnin kæmu eða færu. Rússneski gítarinn Eftir að faðir KK týnist í Víetnam neyðist móðir hans, Sigríður Söbech, að selja allt sem hún á og flytja með börnin sín fimm til Íslands. Sigríður settist fyrst að í Keflavík en var komin til Reykjavíkur þegar ellefti afmælisdagur Kristjáns nálgaðist. Þau voru með lítinn plötuspilara, og ef þeim bræðrum áskotnuðust peningar var óðara fjárfest í plötum, Bítlarnir og Rolling Stones sköpuðu það sem skemmtilegast var og göf- ugast í heiminum; mest voru keyptar tveggja laga plötur og þær snerust óstöðvandi á fóninum allar þær stundir sem bræðrunum gáfust þar heima. Það hlaut að vera mikil sæla og hamingja að geta spilað og sungið á þennan hátt fyrir fólk, og þótt Kristján væri bara tíu ára átti hann sér eina risastóra hugsjón í lífinu, og það var að eignast gítar. Ellefti afmælisdagurinn nálgaðist, í mars 1967, og væntanlegt afmæl- isbarn fékk veður af því að það væri verið að gera Pétur stóra bróður út með peninga til að kaupa gjöf handa drengnum. Hann var svo spenntur að hann fór út til að sitja fyrir bróð- urnum, elta, sjá hvert hann færi, hvað hann keypti. En stóri bróðir var enginn aukvisi, hann ætlaði ekki að láta spæja um sig, og hvarf Krist- jáni sjónum niðri við Óðinstorg. Skammt frá versluninni Ístorg sem seldi sovéskar vörur, þar á meðal gít- ara. Og mikil var hamingja drengs- ins þegar hann fékk þennan rússneska gítar í afmælisgjöf. Hann kunni reyndar ekkert, en til að byrja með var nú ekki einu sinni hægt að láta gítarinn hljóma, þótt það væri bara lagleysa, án þess augun fylltust af gleðitárum. Svo var líka hægt að fikta, færa puttana eftir gít- arhálsinum og við það breyttist hljómurinn, eitthvað var hann að komast á sporið með þennan töfrum slungna galdur … Blús í Frakklandi KK er orðinn rúmlega þrítugur og er nú heimilislaus á þvælingi sem farandsöngvari um Evrópu. Í slag- togi við þýskan vin sinn er hann kominn til Frakklands í vetr- arhörkum árið 1987. Þeir komu síðla kvölds til Avignon og snemma næsta dags voru þeir komnir út í göngugötu í miðbænum – og svo skemmtu þeir þar af innlifun allan daginn. En um kvöldið var bara einn skitinn franki í gítartöskunni. Og þá var þeim hætt að lítast á blik- una. Prófuðu nokkra staði daginn eftir, torg og gatnamót sem að öllu jöfnu áttu að vera fengsæl, en enginn gaf þeim gaum, – nema kannski löggan sem stundum var á vakki ein- hversstaðar nálægt; svona skeggj- aðir förumenn með hljóðfæraglamur og trúðslæti voru greinilega taldir dálítið varasamir. Þeir tóku saman sitt hafurtask og fóru að ganga um, skima eftir vænlegri stöðum og komu í háskólahverfið, fundu stúd- entagarð og hugsuðu: „Fjandinn hafi það, hérna verður okkur þó ekki út- hýst.“ En á leið upp tröppurnar mættu þeir mönnum sem ráku upp stór augu og sögðu strax með sveifl- um vísifingra: „Nono! Þið farið ekki hingað inn!“ Og listamennirnir sneyptust á braut. Þeir ræddu málin í bílnum og komust að sameiginlegri niðurstöðu um að Frakkland, það væri sann- kallað skítaland. Og fólkið þar smekklaust og vanþakklátt og hrokafullt. Og þeir breyttu þeirri áætlun að halda til strandar en ákváðu þess í stað að snúa bíl sínum í norðausturátt og halda til Sviss; þar hlyti að búa skárra fólk en þess- ir frönsku montrassar. Í hjarta sínu voru þeir kannski ekki sann- færðir, rámaði trúlega í að Svisslendingar væru fyrst og fremst þekktir fyrir reglufestu og ósveigj- anleika, þjóð úrsmiða og banka- gjaldkera, en þeir kæfðu allar efa- semdarhugmyndir í fæðingu, þær voru ekki einu sinni ræddar, stefndu bara hraðbyri á landamærin, vildu komast út úr Frakklandi hið fyrsta. Erjur á landamærum Þeir höfðu kannski reiknað með að Frakkarnir yrðu bara fegnir að losna við þá, en frönsku landamæraverðirnir voru samt ekki aldeilis á þeim buxunum að láta þá sleppa auðveldlega á braut; þeir skipuðu böskurunum að aka bílnum afsíðis og svo hófst nákvæm leit, allt var grand- skoðað og þeir yfirheyrðir í hastarlegum tón, og nú kom sér vel að þeir voru búnir að hreinsa úr bílnum allt á borð við óæskileg kannabisefni; Mick vissi að það var góður siður að gera slíkt áð- ur en haldið væri yfir landamæri hvar sem þau voru, og frönsku tollþjónarnir fundu svosem ekkert athugavert. Á endanum tilkynntu þeir önuglega að böskararnir mættu halda áfram för sinni, en þá var Kristján orðinn svo leiður og fúll að um það bil sem þeir voru að aka á brott skrúfaði hann niður rúðu og rétti Fransmönnum fingur og sagði: „Viva la France, fuck you!“ En þannig leiðindapillur kunnu landamæraverðirnir ekki að meta, stoppuðu bílinn umsvifalaust á ný og þreifuðu eftir kylfum og skamm- byssum og Mick þurfti að beita öllum sínum leikhæfileikum, tungumála- kunnáttu og sjarma til að afstýra því að þeim yrði hent í gæsluvarðhald. Þá áttu þeir eftir að aka inn í Sviss og það voru framlágir og niðurlægðir ungir menn sem óku sínum benskálfi að hliðum svissnesku tollaranna, gátu eins átt von á sömu meðhöndlun eða verri. En sem betur fer voru samlandar Vilhjálms Tell hinir ljúf- ustu og elskulegustu: „Haldiði bara áfram strákar mínir, velkomnir.“ Jæja, þeir voru orðnir skítblankir og svangir eftir þessa herfilegu Frakklandsheimsókn. Þeir óku fyrst inn í borgina Biel, voru dálítinn tíma að safna kjarki til að stoppa og finna sér vænlegan stað til að spila, sáu svo stórt veitingahús og mönnuðu sig upp í að labba inn. Skeggjaðir og síðhærðir og allir dúðaðir. Gengu að barborðinu og spurðu: „Getum við fengið að tala við eig- andann?“ Stúlka sem var að láta bjór leka í könnu fyrir innan diskinn benti á af- herbergi: „Eigandinn situr þarna fyrir innan og er að spila á spil.“ Og þarna sátu nokkrir menn við borð í reykfylltu herbergi, og sá sem leit upp var krúnurakaður náungi í hvítri skyrtu og með dökk axlabönd, gullhring í eyra, allur hinn glæpa- mannslegasti. „Ert þú eigandinn?“ „Og þó svo væri? Hvað er ykkur á höndum?“ „Ja, við vorum svona að spá í hvort við mættum kannski spila hérna á pöbbinum þínum?“ Hann lagði frá sér spilin. Setti þumla undir axlaböndin og hallaði sér aftur á stólnum. Allir steinþögn- uðu. Loks tók eigandinn til máls. „Í fyrsta lagi, þá er þetta ekki pöbb, heldur veitingahús. Og í öðru lagi: Veriði velkomnir, fáið ykkur að borða og drekka og spiliði svo fyrir okkur.“ Þeir voru komnir til Sviss … Bókarkafli Tónlistarmaðurinn Kristján Kristjánsson, betur þekktur sem KK, er mörgum Íslendingum að góðu kunnur. Honum skaut skyndilega upp á stjörnuhimininn á níunda áratugnum og birtist þá sem fullmótaður tónlistarmaður sem spilaði tónlist sem fólk af öllu tagi féll fyrir. Fæstir vissu hins vegar að þar var á ferðinni maður með ótrúlega reynslu að baki og einstaka sögu. Hér er gripið niður í frásögn Einars Kárasonar af ævi KK. KK fæddist árið 1956 í Ameríku sem banda- rískur ríkisborgari, sonur alíslenskra for- eldra. Faðir hans, Kristján Einarsson, naut velgengni sem byggingaverkfræðingur í San Francisco og fjölskyldan bjó við góð kjör. En nokkrum árum síðar eru blikur á lofti. Þegar veru- leikinn gefur skáldskapnum ekkert eftir Kommi, KK og Þorleifur á æfingu. Þorleifur og Krist- ján með gítara á Núpi ásamt skólafélaganum Krumma. Í Zürich; ferðafélagarnir Mick M. og Kristján stoltir eftir stórhreingern- ingar í bílnum. KK – þangað sem vindurinn blæs eftir Einar Kárason kemur út hjá Almenna bókafélaginu. Bókin er 240 bls. að lengd, prýdd fjölda mynda, en að auki fylgir fjögurra laga geisladiskur bók- inni. Foreldrar KK, Kristján Ingi og Sigríður Ágústa, á Copacabana-klúbbnum í New York árið 1948 að hlusta á Nat King Cole.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.