Morgunblaðið - 17.08.2003, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - 17.08.2003, Blaðsíða 4
4 B SUNNUDAGUR 17. ÁGÚST 2003 MORGUNBLAÐIÐ MIKIL er gæfa þessfólks sem tekst aðsnúa óláni sínu upp ísitt mesta lán – umþetta er ég að hugsa meðan ég hlusta á Ronald D. Davis tala um Davis-kerfið sem hann fann upp gegn lesblindu og þróaði síðan ásamt ýmsum sérfræðingum. Það kom ekki til af góðu að hann hóf þetta starf, það var neyðin sem knúði hann til þess. „Læknunum leist þannig á mig í frumbernsku að ég væri alvarlega einhverfur. Slík börn voru þá kölluð „Kanners-börn“ eftir dr. Leo Kanner sem fyrstu greindi einhverfu upp úr 1940. Læknar sögðu móður minni að ég væri ekki líklegur til þess að geta lært neitt sem ekki væri hægt að kenna simpansa, heldur ekki að tala og einnig að ég myndi ekki verða gamall, Kanners-börn yrðu sjaldnast eldri en 30 ára,“ segir Ron Davis. „Ég var mjög einkennilegt barn, þoldi m.a. svo illa snertingu að móðir mín gat varla haldið á mér. Fjöl- skylda mín lærði að það þýddi ekkert að snerta mig, þá öskraði ég tímunum saman. Þegar ég fæddist 8. ágúst 1942 bjuggu foreldrar mínir í Salt Lake City í Utah en faðir minn var þá kom- inn í herþjónustu. Þegar hann kom heim komst hann að því, sér til furðu, að hann ætti þriggja ára vangefinn son. Undrun hans snerist þó fljótlega upp í skömm og síðan hatur. Hann skammaðist sín fyrir að vera faðir slíks drengs og skammaðist sín líka fyrir að skammast sín fyrir mig. Fað- ir minn var vélvirki, hann varð síðar verkstjóri á sínum vinnustað og enn síðar varð hann deildarstjóri þar. Hann var af mormónaættum en ég varð ekki mormóni, þótt nærri lægi, vegna þess að móðir mín var ekki mormóni. Hún var af þýskumælandi foreldrum og það var töluð jafnt enska og þýska á heimilinu, en ég lærði hvorugt málið. Ég lærði ekki að tala í setningum fyrr en ég var 17 ára,“ segir Ron. Átti erfiða æsku Mig setur hljóða nokkra stund. „Hvernig æsku áttir þú þá,“ segi ég. „Erfiða, nema hvað mamma var minn góði engill. Þegar ég komst á skólaaldur tók hún alveg fyrir að ég yrði settur á stofnun eins og skóla- yfirvöld lögðu til og faðir minn vildi endilega. „Hann er kannski seinn en hann á rétt á skólagöngu og þið verðið að taka hann,“ sagði mamma við skólayfirvöldin og við það sat. Ég fór í skóla þar sem við bjuggum, í litlu þorpi um 60 til 80 kílómetra frá Salt Lake City, en skemmtileg var sú skólavist ekki. Ég var látinn vera í einu horninu og snúa andlitinu inn í hornið og hafa vasklút á höfðinu, sennilega til þess að ég hreyfði mig síður eða hlypist á brott. Ef klúturinn datt þá var mér refsað með barsmíð- um. Ég var svo sem ekki óvanur refs- ingum. Faðir minn var mjög refsi- glaður við mig. Hann barði mig jafn- vel mörgum sinnum á dag, enda varð mér margt á sem ástæða þótti til að refsa börnum fyrir í mínu umhverfi, raunar var ég heppinn – hefði ég fæðst 50 árum fyrr hefði ég verið bor- inn út. Ég lenti í miklum útistöðum því ég þoldi ekki minnstu snertingu þá ærð- ist ég, sló og beit jafnvel frá mér. Þeg- ar ég sló eða beit önnur börn eða gerði eitthvað annað af mér þá barði pabbi mig. Ég beinbrotnaði iðulega við þessar refsingar allar, þegar ég var skoðaður síðar komu í ljós 36 gömul og gróin beinbrot. Ég var líka oft með glóðarauga og það blæddi úr eyrunum á mér eftir höfuðhögg. Vegna þessarar refsinga allra hataði ég föður minn og hann mig sem fyrr sagði. Fyrsta tilfinningin sem ég man var hatur. En þrátt fyrir allt þetta var fram- ferði föður míns ekki ólöglegt, heldur það sem tíðkaðist á þessum tíma á þessum stað. Honum bar að aga mig fyrir brot og þetta var uppeldisað- ferðin. Bræður mína hirti hann líka – en miklum mun sjaldnar en mig og vægar, enda voru þeir ekki einhverfir. Man ekki eftir fyrstu níu árum ævinnar Ég er miðjubarn, á tvo bræður, eldri og yngri, þeir voru báðir látnir líta eftir mér og voru verulega þreytt- ir á mér. Ég finn stundum til sektar þegar ég hitti þá og hugsa til þeirra erfiðleika sem það er fjölskyldu að hafa slíkan einstakling sem ég var innan sinna vébanda. Vegna þess hvernig ég var fékk ég fátt eitt af því sem þeir fengu, svo sem armbandsúr og vasahníf. Mér þótt þetta mjög leitt og reyndi að búa mér til þessa hluti úr leir eða leðju, en þeir duttu fljótt í sundur. Ég tók einu sinni vasahníf bróður míns og skar í vísifingur minn, svo illa að bróðir minn hljóp til mömmu og sagði að ég hefði skorið fingurinn af mér. Vegna þessa fékk ég ekki leyfi til að stunda listgreinar eins og útskurð eða teikningu. Mér var ekki trúað fyrir verkfærunum. Raunar á ég ekki margar endur- minningar frá æsku minni. Fyrstu níu árunum man ég ekkert eftir en frá níu ára til 12 ára á ég fáein minningaleift- ur. Ég fór ekki að muna samfellt eftir mér fyrr en eftir 12 ára aldur. Níu til 12 ára tók ég út þroska sem venjuleg börn taka út frá fæðingu til tveggja ára. Á árunum 12 til 15 ára tók ég svo aftur út þroska tveggja til fjögurra ára barna og þannig gekk það. Ég vissi t.d. ekki að fólk gæti log- ið fyrr en ég var tvítugur. Enginn veit af hverju ég var svona, enginn læknir hefur enn getað skýrt það fyrir mér. Ég stundaði og studdi um tíma rann- sóknir á einhverfu og tel að mínar rannsóknir séu miklu lengra á veg komnar en aðrar rannsóknir á því efni. Þetta starf lagði ég á hilluna þeg- ar Davis-lesblindu kerfið komst á skrið hjá mér en hef hug á að taka það upp síðar. Ég var forríkur á þeim tíma sem ég byrjaði á þessum rann- sóknum og sem betur fer skiluðu þær árangri áður en ég varð uppiskroppa með fé. Ég veit að mamma reyndi mikið til þess að fá mig til að þekkja stafina þegar ég var lítill, hún kunni þýskan söng um stafina og reyndi víst nær daglega um tíma að fá mig til að læra að syngja hann, en það gekk ekki. Ég lærði að mynda nokkur hljóð en ég gat ekki talað neitt fyrr en um 12 ára aldur og ekki talað í setningum fyrr en ég varð 17 ára gamall, þegar mér var kennt það. Það var heldur ekki mikið reynt til þess að hjálpa mér í skólanum. Það var gengið út frá því að ég væri van- gefinn. Ég fór ekki í raunverulegt greind- arpróf fyrr en ég var 17 ára og þá kom í ljós að ég hafði háa greindar- vísitölu, 137 stig (meðalgreindur mað- ur hefur greindarvísitöluna 100 til 110, simpansar hafa greindarvísitöl- una 60). Við þessa niðurstöðu gerðu menn sér grein fyrir að þeim hefðu orðið á mistök og var ég settur í sér- stakan skóla þar sem reynt var að kenna mér að tala. Þú verður að tala sjálfur Það var kona sem kenndi mér að tala, mér finnst hún hafa með því bjargað lífi mínu. Ég strauk þó úr tal- kennslunni tvisvar, mér fannst hún svo erfið. Í fyrra skiptið var ég burtu í mánuð en kom til baka, af því mig langaði svo innilega að læra að tala. Í seinna skiptið strauk ég þegar ég átti að tala við sjálfan mig fyrir framan spegil. Það þótti mér afar erfitt við- fangsefni og stökk út. Talkennarinn reyndi þá að stoppa mig svo ég ýtti við henni og hún datt, meiddist á handlegg og var með hann í fatla þeg- ar ég kom aftur – þá skammaðist ég mín sárlega. Þessi kona sagði við mig það sem skipti sköpum fyrir mig. Hún sagði: „Ég get kennt þér hvernig á að fara að, en þú verður sjálfur að tala. Ég get ekki talað fyrir þig.“ Þegar ég loks áttaði mig hvað gera skyldi þá var ég aðeins tvo daga að komast upp á lagið með að tala í setningum. Svo talaði ég og talaði og þurfti ekki að- stoð frá talkennaranum framar. Eigi að síður er öll hugsun mín ennþá í myndum en ekki í talmáli. Ef ég á í vandræðum eða þarf að leysa úr málum þá fer ég afsíðis og tala og tala við sjálfan mig upphátt, ég get ekki hugsað í orðum þegjandi. Á árabilinu frá 17 ára til 27 ára tók ég milli 200 og 300 greindarpróf og fékk hátt á þeim – mishátt þó, það er nefnilega hægt að læra á greindar- próf og einnig fer árangurinn svolítið eftir því hvernig maður er fyrir kall- aður. Hefur sérgáfu á sviði stærðfræði og tónlistar Frá því ég man fyrst eftir mér hafði ég sterklega á tilfinningunni að ég væri öðruvísi en annað fólk, ég hugsaði sem fyrr sagði eingöngu í myndum en ekki orðum. Ég hafði hins vegar sérgáfu hvað snertir tölur og einnig tónlist. Stærðfræði er í mín- um augum yndislegust af öllu, svo einföld og falleg. Ég var dæmi um einhverfan einstakling með „snilli- gáfu“. Ég varð sjálfmenntaður verkfræð- ingur og fékk leyfi til að starfa sem slíkur án þess að hafa nokkurn tím- ann farið í háskóla. Ef ég hefði átt að læra verkfræði í háskóla þá væri ég þar enn. Ég veitti forstöðu mörgum verkfræðideildum ýmissa opinberra stofnana á sviði hernaðartækni. Þegar ég lærði að tala í setningum 17 ára var jafnframt reynt að kenna mér að lesa en það reynist þá lífsins ómögulegt. Þegar þarna var komið sögu hafði ég fengið þá hugmynd um sjálfan mig að ég væri ekki raunveru- leg manneskja, heldur eitthvað ómerkilegra, en ég tók meðvitaða ákvörðun um að látast vera eðlilegur, gera mitt besta í þeim efnum. Það var æðsta ósk mín þá; að vera eðlilegur. Með þessu fyrsta greindarprófi fór ég úr því að vera minna, upp í það að vera meira, en venjulegur maður, frá því að vera örviti upp í það að vera gæddur afburðagreind. Ég er þó hinn sami í raun, ég er einfaldrar gerðar, hugsa einfaldar hugsanir – hef að vísu stálminni sem hefur þó látið undan síga með aldr- inum. Þegar ég var 18 ára og mér hafði ekki tekist að læra að lesa sögðu læknar mér að ég hefði verið tekinn með töngum í fæðingu og sá hluti heilans sem stjórnar lestri hefði skað- ast. Þessu var auðvelt að trúa þar sem ég hafði lagt hart að mér við lestr- arnámið en án árangurs. Ég lærði ekki að lesa fyrr en ég var orðinn 37 ára gamall. Fyrst gekk það nám sem fyrr ekki neitt en svo fór ég að þróa með mér aðferð sem í dag er Davis- kerfið, þ.e. að móta tákn fyrir stafi og tengja táknið við þá. Ég var afskap- lega lengi að lesa þegar ég loks komst upp á lagið við það – fékk oft höf- uðverk og þurfti að hætta, en tók svo til aftur. Það sem venjuleg manneskja les á innan við fimm mínútum las ég á klukkutíma. Fyrsta bókin sem ég las var Art of War og það tók mig 12 ár að lesa hana og ég varð fyrir miklum vonbrigðum, mér þótti hún ekki skemmtileg. Næstu bók las ég á einu ári, hún var skemmileg enda var þetta vís- indaskáldsaga, þá lét ég mig hafa að lesa þrátt fyrir höfuðverkinn. Það var mér mikill léttir að vera loksins orðinn læs, því það var mér af- skaplega erfitt að vera ólæs þótt ég hefði eigi að síður getað unnið fyrir mér á ýmsan hátt. Eftir að ég fann upp Davis-kerfið hef ég getað lesið eina bók á dag. Ég losnaði líka við minnimáttarkenndina þegar ég lærði að lesa. Eftir að ég varð læs hefur mér fundist ég eins og annað fólk. Ég átti það til að hætta að tala við vini mína ef mig grunaði að þeim fyndist ég eitthvað öðruvísi en fólk er flest. Þetta geri ég ekki lengur og það er líka löngu að baki að ég þoli ekki að vera snertur. Nú get ég faðm- að fólk að mér. Verkfræðin er runnin mér í merg og bein Áður en ég varð „snillingur“ vann ég ýmis verkamannastörf, m.a. við járnbrautir og sem námuverkamað- ur. Það var gaman, þar fékk ég að sprengja dínamítsprengjur – ég sem ekki fékk einu sinni að eiga vasahníf á mínum yngri árum. En eftir að ég var úrskurðaður með sérgáfu þá fékk ég störf sem verkfræðingur, mikill skortur var á þeim á þessum tíma. Þeir sem höfðu hæfileika og þekkingu fengu opinbert leyfi til að starfa sem slíkir. Ég gat lært þetta fag af teikn- ingum, ef allt var lagt myndrænt fyrir mig þá var þetta ekkert mál. Mér er verkfræðin runnin í merg og bein. Ég varð fljótt vellríkur af verkfræðistörf- um. Sonur Rons lærði að lesa 3 ára af sjálfum sér Ég gifti mig kornungur fyrstu kon- unni minni en það hjónaband var gert ógilt fyrir tilstuðlan foreldra hennar. Nokkru síðar gifti ég mig aftur, afar vel greindri konu sem varð síðar framkvæmdastjóri tryggingarfélags. Með henni átti ég tvo syni. Annar þeirra er með væga lesblindu. Hinn lærði að lesa þriggja ára gamall af sjálfum sér. Hann lá á gólfinu og las fyrir litla bróður sinn teiknimynda- sögur úr dagblaði. Konan mín bað mig að sækja myndavél til þess að mynda þessi litlu krútt. Svo rann upp fyrir henni að drengurinn væri að lesa, hún trúði þessu varla og fór að láta hann lesa framan á dagblaðið. Orðið sem hann staldraði við og sagð- ist ekki skilja var „economic“. Þetta var hápunktur gleðinnar í uppeldi drengjanna hjá konunni minni en hjá mér varð þetta algjör martröð. Ég var ekki sjálfur orðinn læs þegar þetta var og konan mín vissi það ekki. Mamma var minn góði engill Einhverfa og lesblinda mótuðu æsku og upp- vaxtarár Ron Davis verkfræðings, sem er höfundar Davis-kerfisins gegn lesblindu. Hann segir hér Guðrúnu Guðlaugsdóttur frá lífi sínu og barátt- unni við að læra að tala og lesa og verða „eðlileg- ur“ maður, eins og hann orðar það. Morgunblaðið/Arnaldur Ron Davis með leirtákn, námstæki lesblindra.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.