Morgunblaðið - 17.08.2003, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - 17.08.2003, Blaðsíða 12
12 B SUNNUDAGUR 17. ÁGÚST 2003 MORGUNBLAÐIÐ Þetta var bara þak þegar ég flutti hingað, en nú er þetta íbúð. Samt á ég bara afnotaréttinn, seg- ir hann daufur. Harkan fer vaxandi Á jarðhæðinni rekur hann Café Oasen og helstu viðskiptavinirnir eru sölumennirnir við Pusherstreet. Í hillunni yfir afgreiðsluborðinu er morgunkorn og írskt viskí. En kaffið er vin- sælast. Jes segist óttast um framtíð Kristjaníu. Samningaviðræður séu í gangi við varnar- málaráðuneytið og niðurstöðu sé að vænta á næsta ári. Á sama tíma fari harkan vaxandi sem lögreglan beiti; hingað til hafi hún þó að mestu verið fyrir utan hliðið í Prinsessugötu, þar sem leitað sé á gangandi vegfarendum og bílar stöðvaðir. Einu sinni til tvisvar í mánuði geri lögreglan áhlaup inn fyrir hliðið. – Þá ryðjast inn tugir lögreglumanna; sölu- mennirnir hlaupa niður götuna og skilja allt eft- ir. Hættan er aldrei meiri í Kristjaníu heldur en þegar lögreglan ryðst inn, því þá getur komið til átaka. Oft eru saklausar manneskjur hand- teknar. En alla jafna er Kristjanía mjög örugg- ur staður og næstum engir þjófnaðir. Ef ein- hver dirfist að stela í Pusherstreet, segir hann grafalvarlegur. Bamm, Bamm, hann er barinn, jafnvel klæddur úr fötunum og öllu rænt af hon- um, og svo er honum kastað út um hliðið. Gömul saga og ný Jes segist ekki trúa því að íbúar Kristjaníu verði reknir þaðan og aðspurður hversu lengi hann ætli að búa þar, svarar hann: – Til æviloka. Þetta svar verður að teljast nokkur bjartsýni. Þótt hann lýsi þessari skoðun sinni hefur lengi staðið styr um sjálftöku hóps utangarðsfólks og hippa á gömlu herbúðunum við Prinsessugötu, sem hófst árið 1971. Þó að íbúunum hafi tekist að koma skikki á þetta þúsund manna samfélag með því að kjósa „borgarstjórn“ og koma á fót lágmarks þjónustu, s.s. barnaheimilum og vöggustofu, matvörubúð, grænmetisbúð, bað- húsi, heilsuhúsi, verkstæði og mörgu fleira, þá eru margir ósáttir við tilvist fríríkisins. Þau sjónarmið hafa m.a. verið uppi að það verði að framfylgja lögum hér eins og annars staðar í Danmörku og stöðva hasssölu í Pusher- street. Þá er Kristjanía risastórt landsvæði, gróðursælt og fallegt, í hjarta Kaupmannahafn- ar og margir hafa viljað finna betri not fyrir það en að gefa það „fáeinum“ hippum. Til dæmis er bent á að þetta sé eitt verðmætasta byggingar- land í Danmörku. Ríkisstjórnin hefur markað þá stefnu að Kristjanía eigi að verða hluti af Kristjánshöfn og til afnota fyrir alla Kaup- mannahafnarbúa. Aðgerðir á næsta leiti Fram kom í dönskum fjölmiðlum fyrir skemmstu að lögreglan fyrirhugar meiriháttar aðgerðir í Kristjaníu og hyggst uppræta sölu fíkniefna í eitt skipti fyrir öll. Aðgerðirnar eru sagðar verða umfangsmiklar og að fjölmennt lögreglulið eigi eftir að taka þátt í þeim. Ráð- gert er að slá hring um svæðið umleikis Pusher- street þegar af aðgerðunum verður, enda búist við því að nokkur fjöldi mótmælenda og óróa- seggja mæti á staðinn til að mótmæla. Lög- reglan hefur ekki gefið upp hvenær ráðist verði í aðgerðirnar, einungis að þær séu á næsta leiti. Þessar aðgerðir gætu orðið reiðarslag fyrir Kristjaníu. Ekki vegna þess að Kristjaníubúar séu svo háðir hassverslun, heldur vegna þess að fjölmargir ferðamenn leggja leið sína í Kristj- aníu fyrst og fremst til að skoða þessa alræmdu götu, – Pusherstreet. Aðdráttaraflið verður minna ef þar verða aðeins tugir lögreglumanna, gráir fyrir járnum. Kristjanía hefur verið annar fjölsóttasti ferðamannastaður í Danmörku á eft- ir tívolíinu. Verksmiðjur, verslanirnar og lista- smiðjur reiða sig á aðsókn ferðamanna. Ef hass- salan verður upprætt gæti það því haft víðtækari afleiðingar fyrir þetta litla samfélag, en blasir við í fyrstu. Vilja byggja húsin sjálf Víst er að margir Danir standa með Kristjan- íubúum. Í símakönnunum og kosningum meðal Kaupmannahafnarbúa hefur Kristjanía jafnan fengið stuðning rúms meirihluta. Margvísleg rök liggja að baki því. Sumir vilja halda hasssöl- unni á afmörkuðu svæði. Kaupmannahafnar- búar, einkum í hverfunum í grennd við Kristj- aníu, meta þessa útivistarperlu mikils, enda yndislegir göngustígar meðfram vatninu og húsin hvert öðru skrautlegra. Margir Kristjan- íubúar ala nefnilega með sér þann sérkennilega draum að reisa sitt hús sjálfir, spýtu fyrir spýtu, jafnvel fólk sem aldrei hefur neglt nagla í spýtu. Sumir Kaupmannahafnarbúar óttast að ráðist verði í stórtækar byggingarframkvæmdir á þessu græna svæði, sem myndi rýra gildi þess. Og ef til vill er ein helsta ástæðan fyrir stuðn- ingi Dana við Kristjaníu sú að þeim líður eins og þeir séu pínulítið frjálslyndari en nágrannaþjóð- irnar af einni saman tilvist Kristjaníu. Vaktmenn við inngangsleiðir Nú skipuleggur lögreglan innreið sína í Kristjaníu og nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar smíðar framtíðarskipulag svæðisins, reyndar í samráði við Kristjaníubúa, þar sem ákveðið verður hvaða hús fái að standa og hver verði rif- in. Á sama tíma er unnið að skipulagningu stuðningshátíðar fyrir Kristjaníu og mótmæla- fundum gegn áætlunum ríkisstjórnarinnar. Ef- laust verður því mikið um herlegheit í Kristjan- íu 30. ágúst. Einnig eru undirskriftasafnanir í gangi til stuðnings fríríkinu. Hasssalan heldur áfram. Sölubásar standa í röðum í Pusherstreet með hassútstillingar. Hassið fyrir allra augum. Vaktmenn sitjandi á reiðhjólum gæta allra helstu leiða að Pusher- street. Ekki ólíkt því sem tíðkaðist í gömlu her- búðunum. Þeir eru með símann í hendinni og fingurinn á takkanum. En jafnframt reiðubúnir að stíga hjólfákinn í skyndingu ef lögreglan hef- ur innreið sína. Hvarvetna eru skilti sem banna Morgunblaðið/Pétur Blöndal Krakkar í galsafullum leik við einn af leikskólunum í Kristjaníu. Póstkassi Kristjaníubúa, sem nota sín eigin frí- merki ef pósturinn fer ekki út fyrir svæðið. ÞAU eru ófá kaffihúsin við Strikið og allt um kring. Fólk sötrar kaffi; svelgir það í sig ef það er að flýta sér. Það verður að fá kaffið sitt. En Bergur Thorberg finnur önnur not fyrir kaffið. Hann notar kaffi í myndir sem hann selur á kvöldin á Strikinu; dregur upp skissur af mann- lífinu með lekandi útlínum og Eydís Ólafsdóttir, kona hans, málar í myndirnar. Myndir úr kaffi – Ég hef málað í 25 ár, jafnvel lengur, segir hann. Fyrsta kaffimyndin varð til fyrir 15 árum. Ég teikna á hverjum degi. Eins og píanóleik- arinn sem æfir sig á tónstiganum. Svo gerðist það að ég hellti kaffi á borðið og heillaðist af litabrigðunum. Ég blandaði því saman við akr- ýlolíu og prófaði að láta það leka. Þannig hafa myndirnar þróast. Fólk hefur alltaf hrifist af kaffimyndunum, en ég hef gert lítið af þeim. Þetta eru fyrstu vinnuformin í nokkur ár; það var eitthvað eftir og ég ákvað að klára það. Mér líkar vel að vinna í seríum, yfirgefa þær og byrja á þeirri næstu. Bergur er ekki í Kaupmannahöfn í fyrsta skipti. Hann var nefnilega einn af fyrstu íbúum Kristjaníu. Einn alfyrstu í Kristjaníu Bergur flutti þangað eftir að hafa lokið stúdentsprófi árið 1971 og bjó þar í tæpt ár. – Ég fór utan með félögunum og fljótlega barst okkur sú fregn að við gætum búið í Kaupmannahöfn og þyrftum ekkert að greiða fyrir það. Þetta var voðalega skemmtilegur tími. Maður hjálpaði sér sjálfur og lifði pínulítið á listinni. Það var ekki eins og við segðum okk- ur til sveitar. Það var mikið pælt í tónlist. Og reykt hass. Ég held við höfum svo sem ekki beðið skaða af því – við komumst út úr því flestir. En við drukkum aldrei brennivín eða vorum til vandræða. Svo fór ég heim til Íslands um vorið og þekki lítið til Kristjaníu eftir það. – Samfélagið var impróvíserað, en við tók- um það alvarlega. Við vildum spjara okkur. Kristjanía var tímanna tákn. Þar gætum við lif- að í miklu betra samlyndi við náttúruna. Það skipti ekki máli hvernig við værum klædd. Við vildum brjóta niður múra. Snýst ekki listin um það – að trufla aðeins? Samfélagið gengur eins og smurð vél; við verðum vélgeng ef við stöldrum ekki aðeins við annað veifið og fáum fram nýjar hliðar á tilverunni. Innblástur í listinni Til að byrja með bjó hann í litlu húsi með kamínu og eldiviði, varð sér úti um ódýran fisk og borðaði kartöflur, sem uxu víða villtar í Kristjaníu. Fljótlega settist hann að í Ljónahús- inu. – Ég bjó þar í nokkra mánuði og það var góður tími. Þarna giltu ákveðnar húsreglur. Við sem komum þarna fyrst áttum miðhæðina al- veg og réðum herbergjaskipan. Annars vorum við sem fjölskylda og húshaldið nálægt komm- únulífi, sameiginleg eldamennska, hjálpast að, brallað. Þar var gestkvæmt og mikið af Íslend- ingum og útlendingum. Oft voru gestirnir inspírerandi, amerískir þjóðlagadansarar og annað listafólk. Kynnin við þá voru mér dýr- mæt, því þau færðu mér meira þor og kjark sem listamanni. – Stunduðuð þið frjálsar ástir? – Það er ein goðsögnin og alveg furðuleg. Það bar ekkert á því. Vantaði alveg. Ég lifði nánast hreinlífi. Það voru engar frjálsar ástir eða hipparómantík. Maður lokaði bara aug- unum og hlustaði á Janis Joplin. Ef til vill var ég í raun fyrir utan þessa veröld, því ég var að skapa mína eigin. Ég var alltaf að spyrja um sjálfan mig – svo hætti ég því og skildi að það kom af sjálfu sér. Ég tilheyrði ekki því himin og jarðar gleymda fólki, sem hlustaði á sýrupopp og tók LSD. Þá var ég búinn að yfirgefa stað- inn. Jákvæður í garð Kristjaníu Og lífið var ekki tekið alltof alvarlega, sem sést á því hvernig Bergur fékk viðurnefnið Hesturinn. – Það kom þannig til að í göngutúr heyrðum ég og Karl Júlíusson vinur minn færeyskan kór syngja. Mér fannst það svo hugljúft og fínt að ég fór að herma eftir hesti. – Viltu varðveita Kristjaníu? – Mér finnst ágætt að lofa þeim að leika sér í þessu, segir hann. Ég er jákvæður í garð Kristjaníu. Nú hefur verið ákveðið að stöðva hasssöluna í Kristjaníu, en á sama tíma hef ég heyrt að reynsla Hollendinga sé sú að frjáls hasssala leiði til fækkunar glæpa á öllum svið- um og að neytendur sterkra efna séu færri og ekki eins ungir. Þessi stranga pólitík sem nú á að taka upp í Danmörku hefur verið rekin í Ósló og Stokkhólmi og ömurlegt að horfa upp á það. Á næsta ári heldur Bergur sýningu í Lissab- on í Portúgal á kaffimyndum á stórum strigum og segir að kaffimyndirnar hafi fallið vel í kramið þar í landi. Tilgangurinn með dvölinni í Kaupmannahöfn sé að vinna upp í sýninguna. Og líka að njóta þess að selja kaffimyndir í mannhafinu á Strikinu. – Í svarta hafinu. Tókum samfélagið alvarlega Bergur Thorberg á kaffihúsi í Fjólustræti.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.