Morgunblaðið - 15.09.2003, Síða 23
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 15. SEPTEMBER 2003 23
Það voru mikil for-
réttindi að fá að kynn-
ast Hárlaugi. Ég man
þegar ég kom fyrst í Hlíðartún fyrir
rúmum átján árum sem kærasta
Guðmundar, sonar hans. Mikið þótti
mér Hárlaugur, eða Laugi eins og
hann var kallaður, vera glæsilegur
maður: Hávaxinn, kíminn, með
þykkt dökkt hár enda kallaði ég
hann oft „sjarmörinn“. Þegar ég
kynntist honum betur sá ég að hann
hafði líka einstaklega gott hjartalag.
Þau hjónin Laugi og Rúna tóku
mér strax opnum örmum og gáfu
mér skilyrðislausa ást og hlýju og
það var alveg einstakt að sækja þau
heim. Okkur Lauga fannst það vel
við hæfi að ég hársnyrtirinn ætti
tengdapabba með þessu fína nafni
Hárlaugur.
Laugi var hreykinn af börnum sín-
um og barnabörnum og fylgdist
hann vel með því hvað þau voru að
gera í lífinu og alltaf gátu þau leitað
til hans. Pálmar Örn, sonur okkar
Gumma, fékk aldeilis að njóta góð-
mennsku afa síns, hann var í sveit-
inni hjá honum og Rúnu á sumrin og
lærði mörg handtökin hjá afa sínum.
Þeir félagarnir brölluðu margt sam-
an og stundum var vafamál hver
væri að ala hvern upp. Þegar Pálmar
var yngri fannst honum ekki við hæfi
að afi notaði vasahníf við matarborð-
ið þegar gesti bar að garði og faldi
því hnífinn fyrir afa sínum en Laugi
notaði yfirleitt vasahnífinn heimavið
og hann hafði gaman af að rifja þessa
sögu upp.
Laugi hafði góðan húmor og oft
var stutt í glensið, mörgum fleygum
setningum frá honum eigum við hin
eftir að halda á lofti. Það er skrýtið
að koma í Hlíðartún og sjá hann ekki
að störfum því aldrei man ég eftir
honum sitja auðum höndum. Í hey-
skapnum var kappið mikið hjá hon-
um og þá sagði hann ósjaldan við
okkur sem áttum það til að tala að-
eins of mikið: „Látið hendurnar
ganga eins og munninn.“
Lífið heldur áfram og við sem sitj-
um hér eftir með tómleikatilfinningu
í hjartanu getum yljað okkur við
góðar minningar um „sjarmörinn“
okkar sem ég sé fyrir mér ganga inn
um gullna hliðið með sinn trygg-
lynda Stubba sér við hlið.
Elsku Rúna mín, ég bið góðan Guð
um að passa þig og styrkja okkur öll
í sorg okkar því að missirinn er mik-
ill.
Þín tengdadóttir,
Hrafnhildur Magnúsdóttir.
Við munum hann í túninu heima.
Dálítið óþolinmóður ef óunnin verk
lágu fyrir. Röskur til verka, snyrti-
menni fram í fingurgóma. Ekki allra,
en tryggur þeim sem hann á annað
borð hleypti að sér. Hressandi nær-
vera, spaug á vör, viðkvæmur undir
skelinni. Bar með sér sérstakan tals-
máta frá Hverfinu austan við fljót,
þar sem hann ólst upp. Var sólginn í
hrossaket með þverhandarþykku
spiklagi. Reykti rosalega áður en
læknarnir bönnuðu honum það.
Mátti ekkert aumt sjá.
Við þökkum Lauga samfylgdina
um tún og fjöll, í roki, rigningu, logni
og bjartviðri.
Allir á Austurhlíðarbæjunum.
Þegar eitt fegursta sumar kveður
og fyrsta haustlægðin teygir sig til
landsins kveður Hárlaugur bóndi,
vinur okkar og granni, og heldur á
vit almættisins, á hlaðinu við bæinn
HÁRLAUGUR
INGVARSSON
✝ Hárlaugur Ingv-arsson fæddist í
Halakoti (nú Hvítár-
bakka) í Biskups-
tungum 14. júní
1928. Hann lést á
heimili sínu Hlíðar-
túni í Biskupstung-
um 1. sept. síðastlið-
inn og var útför hans
gerð frá Skálholts-
kirkju 10. septem-
ber.
sem hann ungur byggði
ásamt eiginkonu sinni
fyrir tæpri hálfri öld.
Hann hafði þá fastnað
sér elstu dóttur
hjónanna í Austurhlíð,
Guðmundar og Elínar,
sem þar bjuggu við
rausn um þrjátíu ára
skeið.
Foreldrar Guðmund-
ar, móðuramma og
langafi höfðu öll búið
þar frá árinu 1836 þeg-
ar Magnús Jónsson
flutti frá Bræðratungu
að Austurhlíð.
Hárlaug bar samt ekki langt að, en
hann var einn af ellefu systkinum frá
Hvítárbakka í Bræðratunguhverfi.
Öll þau systkini voru söngfólk gott
eins og foreldrar þeirra og tekið var
eftir þessum myndarlega hópi á
mannamótum því lengi hefur það
tíðkast hér í sveit að taka lagið við
hin ýmsu tækifæri og munu okkar
fyrstu kynni hafa verið við slíkar að-
stæður á ungmennafélagsfundum.
Laugi og Rúna eins og við ná-
grannarnir kölluðum þau giftu sig
18. júní 1955 ásamt þremur bræðr-
um Lauga og tveimur systrum
Rúnu. Er slíkt mjög fátítt, að þrír
bræður gangi að eiga þrjár systur
einn og sama daginn.
Fyrst um sinn voru þeir Kristinn
bróðir Lauga og Sigríður systir
Rúnu í sambýli við foreldra þeirra
systra í Austurhlíð. En árið 1958
ákváðu þau Laugi og Rúna að byggja
sér nýbýli úr Austurhlíð, þau byggðu
bæinn sinn vestan við Austurhlíð-
arbæinn og kölluðu hann Hlíðartún
og fengu land einkum fyrir neðan og
vestan.
Á árunum 1950–60 stofnuðu tólf
ung hjón hér í sveit nýbýli. Mikil
uppsveifla var í landbúnaðinum sem
var að vakna af þyrnirósarsvefni eft-
ir niðurskurð og útrýmingu mæði-
veikinnar. Sáu menn hilla undir
bjartari framtíð um fjárbúskap enda
margar góðar fjárjarðir í Biskups-
tungum. Hárlaugur tók til óspilltra
málanna að byggja upp sitt mynd-
arlega bú, rækta stórt tún og byggja
yfir fólk og fénað.
Hann var hamhleypa til allra
verka, verkhraður og unni sér ekki
hvíldar fyrr en sá fyrir verklok. Oft
mun svefntíminn hafa orðið stuttur
því margt þurfti að gera, annað kom
líka til að hann var bóngóður með af-
brigðum og ávallt tibúinn að rétta
nágrönnum og vinum hjálparhönd.
Á þessum áratug var mikil upp-
bygging um allar sveitir og Laugi lá
þá ekki á liði sínu, var ávallt fyrstur
mættur, hvort sem var smala-
mennska eða steypuvinna hjá grönn-
um og hans fjölmörgu vinum. Hann
vann einnig út á við með búskapnum,
bæði hjá sláturfélaginu og í gróður-
húsavinnu. Þá var hann um langt
árabil við löggæslustörf um helgar.
Öllum þótti gott að vinna með
Lauga, lét hann ekki halla á sig við
nokkur störf.
Seinna á ævinni var Laugi sund-
laugarvörður í Reykholti við miklar
vinsældir ungra sem aldinna, náði
hann einkar góðum tökum á skóla-
börnum, sem héldu tryggð við hann
þótt þau flyttu burt í önnur byggð-
arlög.
Sambýli Lauga og Rúnu við systk-
ini sín í Austurhlíð og börn þeirra
hefur alla tíð verið til fyrirmyndar og
held ég að ekki væri hægt að komast
þar lengra með gagnkvæmri virð-
ingu og tillitssemi. Svo var einnig
með hjónin í Dalsmynni, Linda og
Rúnu sem nú eru bæði látin, við
hjónin í Úthlíð áttum því láni að
fagna að sú mikla vinátta foreldra
okkar Rúnu gekk í arf til okkar og
það stóð ekki upp á Lauga, oft hitt-
umst við og fórum á milli bæja þótt
ekki væri erindið annað en að hittast
og fá kaffibolla er málefni líðandi
stundar voru rædd.
Margar ferðir fórum við líka sam-
an um sveitir landsins; var Laugi
skemmtilegur ferðafélagi og hafði
vakandi auga með hvernig bændur í
öðrum héruðum stóðu að verki.
Þegar Laugi varð fimmtugur fór-
um við nokkrir vinir hans með hon-
um í skemmtiferð til Vestmanna-
eyja, einhver í hópnum orti þá:
Hárlaugur í Hlíðartúni,
höldur góði sanni,
fimmtugur á ferjunni,
fögnum heiðursmanni.
Já, heiðursmaður var hann og
heiðarlegur, hann mátti ekkert aumt
sjá og eins og áður sagði var hann
mjög barngóður.
Hann átti þeirri gæfu að fagna að
eignast fjögur börn sem öll hafa
haldið á lofti merki hinna heiðvirðu
foreldra sinna. Seinna komu tengda-
börn og barnabörnin sem öllum var
tekið opnum örmum.
Laugi varð fyrir því áfalli að veikj-
ast af alvarlegum hjartasjúkdómi
fyrir nær 20 árum. Hann fór til
London í aðgerð og fékk allgóðan
bata þótt aldrei yrði hann samur
maður eftir en átti þó allmörg ár með
ástvinum sínum.
Laugi leit oft inn en stoppaði stutt,
hraði hans og árvekni dreif hann
áfram, kannski beið hans einhver
heima eða eitthvað var ógert sem
koma skyldi í verk.
Líf og saga Hárlaugs er saga ís-
lenska bóndans sem gekk út að sá,
hann sá korn sitt falla í góðan jarð-
veg og uppskeran var sú hamingja
sem bóndinn sér í gripum sínum,
jörð sinni og fjölskyldu allri.
Við fjölskyldan öll í Úthlíð þökk-
um þessum góða granna samfylgd-
ina. Við vottum eiginkonu og ástvin-
um öllum okkar dýpstu samúð um
leið og við biðjum þeim blessunar
guðs.
Ágústa og Björn.
„Komdu sæll, ég heiti Hárlaugur,
það er ekki víst að þú munir það.“
Þannig hljómaði fyrsta setning
þessa sérstæða manns í mín eyru
fyrir um 16 árum.
Laugi var með orðheppnari mönn-
um og alltaf fljótur til svars ef á
reyndi. Og víst er að oft reyndi á
þennan hæfileika í samskiptum okk-
ar.
Morgunkaffi í Hlíðartúni hjá þeim
Rúnu og Lauga hefur verið fastur
liður hjá okkur hjónunum þegar við
höfum dvalið í sumarbústað okkar
fyrir ofan bæinn á undanförnum ár-
um. Þar voru málin rædd, slegið á
létta strengi og farið yfir (veður)
horfur næstu daga. Rúna passaði að
allir stæðu mettir upp frá borðum og
hennar svellþykku flatkökur með
heimatilbúnu kæfunni gleymast ekki
þeim er eitt sinn smakkar. Hnyttin
tilsvör, yfirburðadugnaður og áreið-
anleiki voru sterkustu einkenni
Lauga og eru mannkostir hans þó
hvergi nærri taldir. Þekkt er saga
frá hans yngri árum er hann var
staddur á einu af frægum bingóum
Tungnamanna og fékk gólftusku í
sinn hlut. Hárlaugur fór upp á svið í
Aratungu til að veita verðlaununum
viðtöku og varð þá að orði: „Þangað
sækir fé sem fé er fyrir.“
Hárlaugur reyndist Ólöfu konu
minni vel þegar hún sem barn var
vetrarlangt hjá þeim Rúnu. Hennar
orð fara hér á eftir:
Laugi var barngóður og reyndist
mér sem besti faðir þennan tíma sem
ég dvaldist í Hlíðartúni. Ég var vak-
in á hverjum morgni með hafragraut
og spældu eggi og öruggt var að
skólabíllinn þurfti aldrei að bíða í
Hlíðartúni – hann passaði vandlega
upp á það.
Þegar ég lít til baka minnist ég
þess aldrei að Laugi hafi gert miklar
kröfur til mín eins og gjarnt er um
duglegt fólk. En kröfur hans til sjálfs
sín þóttu mér óhóflegar á stundum.
Laugi var í okkar huga einskonar
tákn þeirrar kynslóðar sem lagði
grunninn að því þjóðfélagi sem við
þekkjum í dag. Sístritandi frá
morgni til kvölds, aldrei kvartað,
engar kröfur á aðra og tilfinningar
ekki bornar á torg.
Í síðasta skipti sem ég hitti Lauga
kom ég ein að sækja kjöt í frysti-
kistuna til þeirra hjóna. Þá tók hann
á móti mér og sagði: „Sæl Ollý mín,
ertu ein? Ég hélt þú værir skilin við
kallinn. Nú, maður veit aldrei.“
Þannig var hann, maður vissi aldrei
hvað honum dytti í hug að segja
næst.
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama;
en orðstír
deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.
(Úr Hávamálum.)
Það er með söknuð í hjarta en
hafsjó af góðum minningum sem við
kveðjum vin okkar, Hárlaug Ingv-
arsson. Megi hann hvíla í Guðs friði.
Við biðjum þess að góður Guð veiti
Rúnu og öðrum aðstandendum styrk
í þeirra djúpu sorg.
Grétar og Ólöf.
Allt er í heiminum hverfult og ekk-
ert eilíft undir sólinni. Þessar stað-
reyndir lífsins leita á við fráfall okk-
ar góða granna Hárlaugs í
Hlíðartúni. Í hvert sinn sem komið
var í Tungurnar var allt svo tryggt á
sínum stað, Högnhöfðinn, Miðfellið,
Bjarnarfellið og svo Hárlaugur og
Rúna í Hlíðartúni en nú er skarð fyr-
ir skildi. Hárlaugur er horfinn af
sjónarsviðinu og eftir sitjum við með
sáran söknuð en sárabótin er hlýjar
og góðar minningar um sannan og
góðan vin. Þótt lengi hafi verið ljóst
að hver nýr dagur gæti verið sá síð-
asti í lífi hans bregður manni við. Það
er skrýtin tilfinning að geta ekki
lengur beðið Hárlaug að færa fyrir
sig randbeitargirðinguna eða líta eft-
ir hryssunum sem komnar voru að
köstun eða önnur smáviðvik sem
hann var svo fús að inna af hendi
þegar til hans var leitað. Það var líka
notaleg og góð tilfinning að fá þetta
hlýja og vinalega viðmót þeirra
hjóna þegar komið var við í Hlíðar-
túni hvort sem um var að ræða erindi
eða erindisleysu.
Að hitta Hárlaug og eiga við hann
tal var sannarlega gefandi. Hann var
vel með á nótunum á flestum sviðum,
alltaf jákvæður og skemmtilegur og
húmorinn og gáskinn aldrei langt
undan. Það var skemmtilegt og upp-
byggjandi að standa út á hlaði í Hlíð-
artúni og hlæja að spaugilegum hlið-
um lífs og tilveru með Hárlaugi. Að
spá í hesta og hrossarækt, heyskap-
inn eða bústörfin almennt. Hann var
vandur að virðingu sinni, nærgætinn
og sannarlega mannbætandi að fá
tækifæri á samleið með slíkum
öðlingi þótt stuttur tími væri.
Vísast munu Högnhöfði, Miðfell
og Bjarnarfell verða þarna áfram um
sinn þótt vinur vor Hárlaugur sé
horfinn á braut. Við sendum Rúnu
ásamt börnum og barnabörnum
hlýjar samúðarkveðjur.
Snorri, Jóhanna, Valdimar
og Brynhildur.
Þá fann ég, hvað jörðin er fögur og mild
þá fann ég, að sólin er moldinni skyld,
fannst guð hafa letrað sín lög og sinn dóm
með logandi geislum á strá og blóm.
Allt bergði af loftsins blikandi skál.
Allt blessaði lífið af hjarta og sál.
Jafnvel moldin fékk mál.
(Davíð Stefánsson.)
Hann Laugi í Hlíðartúni er til
moldar borinn í dag, farinn yfir móð-
una miklu til ljóssins, sem skín svo
skært handan við hina jarðnesku til-
veru.
Það var öllum sem þekktu Hár-
laug Ingvarsson harmafregn þegar
það fréttist að hann varð bráðkvadd-
ur við heimili sitt, á miðjum annadegi
hans, hinn 1. sept. sl. Um árabil hafði
hann átt við heilsubrest að stríða, en
það hamlaði honum ekki við að
stunda búskap sinn af sömu eljusemi
og snyrtimennsku sem fyrr, þegar
heilsan var góð og bústofninn stærri.
Eflaust hefði hann sjálfur kosið að
mega ljúka vegferð sinni hér með
þessum hætti, beint úr ástfólgnu
starfi bóndans á jörð sinni.
Fyrir okkur, sem bjuggum hvert
sumar í túnfætinum á Hlíðartúni,
var ómetanlegt að eiga þau hjónin að
nágrönnum og fylgast morgunvisst
með Lauga og hverskonar mausi
hans við óendanleg búsýslustörfin.
Óteljandi morgna var setið saman
yfir morgunkaffinu og rætt um
landsins gagn og nauðsynjar.
Bændasamfélagið með Hlíðinni í
Biskupstungum er vinsamlegt og
sérstakt og samheldnin einstök.
Hárlaugur í Hlíðartúni var einn
hlekkurinn í þeirri sterku keðju er
bindur sveitungana svo þétt saman.
Vinsemd, skilningur og alúð gagn-
vart sumargestum hinna fjölmennu
sumarhúsabyggða í Tungunum gerir
fólk þar vinmargt, langt út yfir sveit-
unga- og ættarbönd.
Ekki er ofmælt að segja að þeir
unglingar sem dvöldu sumarlangt og
oft mörg sumur á heimili þeirra
Rúnu og Lauga hafi flutt með sér
ómetanlegar og ljúfar minningar frá
þeirri dvöl og bundist heimilinu og
hinum látna órjúfanlegum böndum.
Við hjónin og fjölskylda okkar
vottum Rúnu og ástvinum hins látna
okkar innilegustu samúð.
Eygló og Sigurður.
Hárlaugur mágur minn varð bráð-
kvaddur við bústörf nærri heimili
sínu í Hlíðartúni í Biskupstungum
mánudaginn 1. september sl. Leiðir
okkar Hárlaugs lágu fyrst saman
þegar við vorum ungir að árum og
tókum þátt í íþróttaæfingum á veg-
um Umf. Biskupstungna, í Vatns-
dalnum við Krók og einnig á túninu
við Ásakot en á þeim árum var móð-
urbróðir minn Guðmundur, Mummi,
á Galtalæk formaður ungmenna-
félagsins.
Mikill fjöldi ungmenna var þá á
flestum bæjum í Tungunum og við
sumardvalarkrakkar að sunnan
fengum líka að vera með.
Sumardvöl mín í æsku hjá afa og
ömmu á Galtalæk og svo síðar tengd-
ist mjög hinum fjölmenna barnahópi
og fjölskyldunni á Hvítárbakka og í
þeim hópi reyndist líka vera konu-
efni mitt sem síðar varð.
Þá lágu leiðir okkar Hárlaugs
saman í Íþróttaskóla Sigurðar
Greipssonar í Haukadal veturinn
1946–1947 ásam fjölda annarra
ungra uppvaxandi drengja úr Tung-
unum. Okkur Hárlaugi varð vel til
vina enda þá að verða ljóst að hverju
stefndi með tengdir okkar. Félagslíf-
ið í Íþróttaskólanum í Haukadal
þennan vetur var mjög öflugt og er
mér alltaf minnisstætt vegna hins
mikla sönglífs okkar skólafélaganna
þar sem fremstur í flokki fór vinur
okkar og skólafélagi Sigurður Er-
lendsson á Vatnsleysu.
Ungir að árum staðfestum við
Hárlaugur ráðahag okkar og hófum
búskap en hann kvæntist Guðrúnu
Guðmundsdóttur frá Austurhlíð í
Biskupstungum og hófu þau fyrst
búskap í Austurhlíð í sambýli við for-
eldra Guðrúnar 1954 en 1958 höfðu
þau byggt myndarlegt nýbýli úr
landi Austurhlíðar, Hlíðartún, þar
sem þau hafa búið síðan.
Í þessum fáu minningar- og
kveðjuorðum okkar Hildar viljum
við þakka þeim Hárlaugi, Guðrúnu
og börnum þeirra tryggð og vinskap
í okkar garð. Hárlaugur var einstak-
lega ljúfur og góður drengur, glað-
legur í vinahópi og bráðskemmtileg-
ur. Uppbyggingin í Hlíðartúni og
búskapurinn þar í gegnum árin vitna
um dugnað bóndans, húsfreyjunnar
og barna þeirra. Hárlaugur gerði
ekki mjög víðreist um ævina, borinn
og barnfættur Tungnamaður og bjó
þar. Tungnamenn sjá því á bak ein-
um af máttarstólpum byggðarinnar
sem lifði þar tímana tvenna í upp-
byggingu og framförum og átti sjálf-
ur stóran þátt í því að treysta ábúð-
ina í þessari fögru sveit og mannlíf
allt.
Við Hildur og fjölskyldur okkar
kveðjum nú góðan dreng með sökn-
uði og færum um leið Guðrúnu og að-
standendum öllum í báðum fjöl-
skyldum innilegar samúðarkveðjur
við hið snögga fráfall Hárlaugs Ingv-
arssonar.
Blessuð sé minning hans.
Hafsteinn Þorvaldsson.
Lýs, milda ljós, í gegnum þennan geim,
mig glepur sýn,
því nú er nótt, og harla langt er heim.
Ó, hjálpin mín,
styð þú minn fót; þótt fetin nái skammt,
ég feginn verð, ef áfram miðar samt.
(Matthías Jochumsson.)
Þetta sálmvers söng ungur bóndi
yfir lélegum prímusgarmi í Einifells-
kofanum fyrir rúmum fjörutíu árum.
Stelpuskotta sem hlýddi á gleymir
aldrei hversu fegin hún varð þegar
SJÁ NÆSTU SÍÐU