Morgunblaðið - 23.11.2003, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - 23.11.2003, Blaðsíða 12
12 | 23.11.2003 G uð lokaði sig af í einkavinnustofu sinni heima í Svítunni og ætlaði að skapa nýjan mann til að setja á Jörðina. Hann kom sér vel fyrir í djúpum hægindastól og smellti fingrum vinstri handar. Útkoman var fremur veiklulegur maður á sextugsaldri (fatlaður leikari) með visinn fótlegg sem lést áður en fyrsti sólarhringur hans var liðinn. Næsta tilraun fór enn verr. Guð sá það strax sjálfur, hann hafði skapað samkyn- hneigðan mann (David Spade). Samkynhneigt mannkyn var í sjálfu sér athyglisverð hugmynd en varð að bíða betri tíma.’’ (úr Herra Alheimur). Það er yndislega brjáluð bók, um eilífðina, amen. Kápan er einsog hulstur á spólu á næstu vídeóleigu, þekktir og óþekktir leikarar í öllum hlutverkum, og þá meina ég öllum hlutverkum. Þú hlýtur að vera dauðuppgefinn eftir alla þessa sköpun Hallgrímur? Núna er maður eiginlega orðinn of þreyttur til að hafa skoðun á bókinni. Manni er jafnvel orðið sama um það þegar prófarkalesararnir vilja fara að breyta sam- kvæmt Orðabókinni. Það er auðvitað hættulegt ástand en góð tilfinning engu að síður. Þá veit maður að maður hefur lagt allt í þetta. Þetta er heldur engin smávegis stórmyndabók. Marlon Brandó sjálfur er Guð. Það hefur sjálfsagt enginn annar komið til greina í það hlutverk? Nei. Hann hefur rétta útlitið og er ennþá stærsta stjarnan í bransanum og svo eiga menn líka svo erfitt með að ná í hann og fá hann til að gera eitthvað fyr- ir sig. Hann bænheyrir menn ekki svo glatt, fremur en Guð. Að setja hann í hlutverk Skaparans var lykillinn að bókinni. Persónan er meira og minna skrifuð út frá honum. Og það er einnig svo um margar aðrar persónur bókar- innar, að þær eru byggðar á leikurun- um sem leika þær. Aðstoðarmaður Guðs er leikinn af Woody Allen og maður þurfti í raun lítið að gera annað en að hlusta á hann; hvað myndi Allen segja í þessum og hinum aðstæðunum. Svo er það konan frá Kvennaplánet- unni, Rox. Hún er leikin af Júlíu Ro- berts og er í raun skrifuð undir áhrifum af hennar leikstíl. Sömu sögu er að segja um Salman Rushdie, Mike Tyson og Arsene Wenger og fleiri sem einnig leika bitastæð hlutverk í sögunni. Ég mæli eindregið með þessari aðferð við að skapa persónur; höfundurinn þarf ekki annað en að setja nafn leikarans í sviga aftan við nafn persónunnar og þá veit lesandinn nákvæmlega hvernig hún lítur út; hann sér hana alveg fyrir sér. Í upphafi átti þetta að vera stutt gam- ansaga um Guð, en svo óx hún og breyttist og varð kannski alvarlegri en ég ætlaði. Ég var búinn að ganga með fyrstu setninguna í maganum í nokkur ár og hlakkaði satt að segja mikið til að fá loks tíma til að setja hana á skjáinn. En þegar til kom var þó heilmikið átak að skrifa hana: „Guð (Marlon Brando) var í símanum“. Þetta hljómaði bara svo einkennilega. Ég þurfti að bíða fram yfir hádegi áður en næsta lína kom, en smám saman varð til heill heimur út frá þessari einu setningu, svona eins og heil siðmenning verður til úr einu frjókorni. Ég lagði út frá hugmynd- inni um að þetta yrði heimsendir séður með augum Guðs, skrifaður í galsafengnum stíl, svona „Biblían eins og ef Eminem myndi endurskrifa hana“. Á tímabili hét bókin svo „Guðspjallamaðurinn Grim“ og ég leit á hana sem einskonar „Aldamóta- skaup“, þar sem Biblían er notuð sem gríngjafi, en núna veit ég satt að segja ekki hvað þetta er. En ertu að skopast svo mikið að Biblíunni? Mér finnst þetta líka vera bók um hvernig hægt er að öðlast trú á nýjan leik. Í sögu Yann Martel, Sagan af Pi, er fjallað um hvernig hægt er að finna Guð og ef maður finnur hann ekki, eftir mán- aða vist með tígrisdýri í litlum björgunarbáti, eða eftir ferðina til helvítis í bókinni þinni, þá er maður svo gott sem dauður. Það er vonandi hægt að finna marga fleti á þessari sögu. Maður er víst búinn að lifa nógu lengi til þess að vita að maður veit lítið annað en það að eitthvað er yfir okkur. Menn hafa kallað það Guð og gert honum heimili í himnaríki. Það er auðvit- að ákaflega loðin hugmynd. Mjög skeggjuð hugmynd. Í raun er ótrúlegt að við séum enn að burðast með þá klisju að Guð sé búsettur fyrir ofan skýin, við sem fljúgum þann mjúka veg sex sinnum ári. Mér fannst alveg kominn tími á að flytja Guð í nýtt húsnæði og innrétta handa honum sæmilega nútímalegt himnaríki, gera englana að tenglum, endurholdgunarkenninguna að endurholdgunarkerfi, og segja hreinlega frá hlutunum eins og þeir eru í raun og veru. Það hefur til dæmis lengi verið lenska hér á Jörðinni að láta eins og við Jarðarmenn séum einu þegnar Drottins. Þetta er auðvitað af og frá og svo óralangt frá veruleikanum. Í himnaríki eru fulltrúar 714 mannkynja sem Guð skapaði í árdaga. Mér fannst þetta endilega verða að koma fram. Í sögunni vildi ég líka sýna hversu smá við í raun erum, í hinu stóra samhengi. Ég vildi segja söguna frá sjónarhóli Guðs. Þegar hann horfir á Jörðina úr sinni miklu fjarlægð eru mennirnir ekki mikið stærri en maurar. Þess vegna kallar hann Jarðarmanninn alltaf Jarðmaurinn. Guð heldur einskonar hirð af fólki, þeim sem á einhvern hátt hafa komist á spjöld mannskynssögunnar, þannig að það eru ekki bara stórleikarar í þessari bók, heldur flestöll stórmenni sögunnar líka. Já. Allar persónur bókarinnar eru framliðnar, fyrir utan Guð náttúrlega, sem sumir vilja þó telja til þess hóps. Ég virðist vera í einhverskonar eftirlífsfasa þessi ár- in; hef bara skrifað um látið fólk að undanförnu. Fyrst kom leikritið Skáldanótt, síð- an Höfundur Íslands og nú þetta. Öll þessi verk gerast meira og minna fyrir hand- an. En næsta bók mun örugglega gerast hér og nú. Þetta er vissulega poppuð hugmynd, poppuð bók. Helsta tog- streitan í þessu verki var að finna rétta jafnvægið. Sagan er skrifuð eins og hún væri Hollywood-stórmynd þar sem klisjan gengur út á það að einn maður reynir að bjarga plánetunni frá aleyð- ingu. En um leið og maður gantast með Hollywood blundar auðvitað í því viss aðdáun líka. Ég nota þessar stjörnur til að skrifa um stjörnurnar. Einvíð írónía er alltaf leiðinleg, rétt eins og einhliða pólitískur áróður. Og gríninu verður að fylgja alvara. Listaverk eiga helst að vera á mörgum plönum og geta vísað í margar áttir. Já takk, bókin vísar í mjög margar áttir, hún minnir á Infernó Dantes, síð- ustu myndina í Matrix flokknum, og margt margt fleira. Það er líka eitthvað íslenskt við hana, kannski afþví að Guð minnir svolítið á lífsleiðan ís- lenskan framsóknarmann? Mig langaði að skrifa bók sem hefði ekkert með Ísland að gera. En þegar upp er staðið hefði kannski enginn get- að skrifað þessa bók nema Íslendingur. Því í þessu „samfélagi hnattanna“ er mannkynið í raun gert að Íslendingum. Jörðin er ein smæsta plánetan í Alheiminum og íbúar hennar ekki ýkja margir mið- að við stóru hnettina Pengar, Lucas og Dolby. En þetta mannkyn er samt stolt og kröftugt, og vílar ekki fyrir sér að berjast gegn Guði ef því er að skipta. Það þykist geta allt, svona rétt eins og við Íslendingar. Ef menn vilja svo finna eitthvað meira ís- lenskt í þessu þá væri það kannski helst í lýsingunni á Helvíti sem minnir óneit- anlega á Halló Akureyri. Það finnst mörgum að þú skrifir alltof langar bækur Hallgrímur, laglegar í stíl, skemmtilegar og allt það, en óþarflega langar. Herra Alheimur er aðeins tæpar þrjúhundruð síður. Þetta er næstum smásaga? Ég hef lengi fengið að heyra að þetta sé alltaf of langt hjá mér. Það er helsta gagn- rýnin sem ég fæ. Og maður reynir alltaf að læra af aðfinnslunum og vondu dóm- unum. Maður er alltaf að reyna að bæta sig. Mig langaði til að sýna að ég gæti líka skrifað svona týpíska íslenska jólabók, en það virðist vera mikil krafa hér að fólk nái að klára bækurnar á jólanótt svo það geti tjáð sig um þær í boðinu daginn eftir. Ég veit ekki hvort mér hefur tekist þetta. Nú, svo er ekkert að því að skrifa langar bækur? Alls ekki. Þetta er náttúrlega visst úthaldsleysi og aumingjaskapur í Íslendingum að geta ekki skrifað langar bækur. Allt yfir 180 síðum telst vera of langt. Og svo þykj- umst við vera hin mikla sagna- og lestrarþjóð. Í Bandaríkjunum er skrifað mikið af doðröntum og þykir sjálfsagt enda bókmenntalíf þar náttúrlega miklu öflugra en hér. Svo er verðlagningin líka annað spursmál. Hér er enginn verðmunur hafður á fimm hundruð síðna bók sem tók þrjú ár að skrifa og hundrað blaðsíðum sem voru skrif- aðar á þremur vikum. Um síðustu jól var ég til dæmis 18 mínútur að lesa smásagna- safn Davíðs Oddssonar. Sú bók kostaði fjögur þúsund krónur. Það gerir mínútugjald

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.