Morgunblaðið - 23.11.2003, Page 16

Morgunblaðið - 23.11.2003, Page 16
16 | 23.11.2003 Pétur sagðist hafa komið nokkrum sinnum til Íslands eftir 1960 en þá hélt hann héð- an til Bandaríkjanna til að fara í háskóla. Kvikmyndaleikur Péturs hófst fyrir tilviljun þegar hann keppti í tugþraut á Norð- urlandameistaramótinu í Kaupmannahöfn 1955. Þar kynntist hann bandarískum íþróttamanni sem vann hjá Twentieth Century Fox og héldu þeir kunningsskapnum áfram. Skömmu eftir að Pétur flutti til Kaliforníu var kvikmyndafélagið að leita að leikurum í kvikmyndina Leyndardómar Snæfellsjökuls og var Pétur boðaður í prufu fyrir tilstilli ameríska vinarins. Höfðu menn í huga að hann léki leiðsögumann í myndinni, Hans Belker. „Ég fór þrisvar sinnum í prufu áður en ég fékk hlutverkið og þurfti ég þá að vera ber að ofan,“ rifjar hann upp í símanum. Þeir sem muna eftir Pétri segja að hann hafi verið afar myndarlegur, ljóshærður og líkamsvöxturinn stæltur. Pétur segir tökur myndarinnar, Leyndardómar Snæfellsjökuls, hafa gengið vel. „Mér líkaði vel við fólkið sem ég vann með. Og eftir að kvikmyndin var tekin til sýn- inga kom ég fram í nokkrum sjónvarpsþáttum til að kynna hana. Einnig fór ég í fleiri prufumyndatökur hjá Twentieth Century Fox sem bauð mér sjö ára samning.“ Pétur segir samninginn ekki hafa verið viðunandi, auk þess hafi hann ekki haft gaman af athyglinni sem hann fékk sem kvikmyndaleikari. „Mig langaði frekar til að fá að reyna mig hinum megin við kvikmyndavélarnar, til dæmis sem framleiðandi,“ segir hann. Peter Ronson lék ekki í fleiri kvikmyndum heldur snéri hann sér að námi í við- skiptum og skapandi skrifum. Að því loknu fór hann að vinna við tryggingar og síðar starfaði hann hjá sjóði sem fjárfestir í fasteignum, þar sem hann er sinn eigin herra. Hann vinnur við þá starfsemi enn. „Annars er ég sestur í helgan stein að hluta til og eyði drjúgum tíma í að leika golf, enda er ég í góðu líkamlegu ástandi, “ segir hann þegar hann er spurður hvað hann hafi nú einkum fyrir stafni. Hann segir varla líða þann dag að hann hugsi ekki til Íslands. „Mér líkar vel við landa mína en þoli ekki veðráttuna,“ staðhæfir hann og hlær. Um einkahagi sína segir hann stoltur: „Ég er giftur yndislegri konu af norskum ættum og við eigum tvo uppkomna syni. Annar lýkur sérnámi í krabbameinslækningum næsta vor og hinn er að ljúka grunnnámi í læknisfræði. Ég er mikill fjölskyldumaður og nýt þess að vera með mínum nánustu.“ Sirrý Geirs var fyrsta leikkonan til að banka upp á í Hollywood, en fullu nafni heitir hún Sigríður Geirsdóttir. Ferill hennar hófst þegar hún var kjörin fegursta stúlka Ís- lands í fegurðarsamkeppni í Tívolí árið 1959. Ári síðar tók hún þátt í keppninni „Miss International“ á Langasandi og varð nr. 3 í þeirri keppni. Sá árangur opnaði henni dyr í Hollywood og starfaði hún þar sem leikkona í sjónvarpsþáttum og kvik- myndum í þrjú ár. Rétt eftir að fegurðarkeppninni lauk barst Sirrý tilboð frá MCA, Musical Corporation of America, um að fá umboðsmann. Einn af fyrstu sjónvarps- þáttunum sem hún kom fram í heitir „Bachelor Father“ og fjallar um piparsvein sem tekur systurdóttur sína að sér. Með aðalhlutverkið fór John Forsythe, en hann varð síðar frægur fyrir leik sinn í „Dynasty“-þáttunum. Einnig lék hún franska au-pair- stúlku í þáttaröðinni „Beverly Hillbillies“ árið 1962. Beverly Hillbillies var valinn vinsælasti þáttur ársins í Bandaríkjunum þetta sama ár. Hún kom fram í þáttunum um Dr. Kildaire sem voru afar vinsælir og mörgum fleiri sjónvarpsþáttum. Þá lék hún í gamanþættinum „Truth and Consequences“. Sirrý segir að sér hafi þótt skemmtilegast að koma fram í þáttunum Beverly Hill- billies. „Þetta voru grínþættir og vann ég lengst við gerð þeirra eða í nokkra mánuði. Það voru margir um hituna þegar verið var að velja leikara í þættina. Ég fékk hlut- verkið í gegnum umboðsmenn mína.“ Leiðin lá einnig inn í heim kvikmyndanna en þá var hún búin að taka sér leikaranafnið Sirry Steffen. Hún komst strax inn í leik- arafélagið Screen Actors Guild, og fyrsta kvikmyndahlutverk hennar var hlutverk hjúkrunarfræðings Hitlers í samnefndri mynd. Richard Basehart fór með aðalhlut- verkið. Næst bauðst henni hlutverk í myndinni, „The Crawling Hand“, þar sem hún lék sænskan skiptinema í Kaliforníu og var þetta aðalkvenhlutverkið í myndinni og eina aðalhlutverkið sem hún fór með í kvikmyndum en hún lék á móti Rod Lauren. Þar á eftir fékk hún smáhlutverk í gamanmyndinni „Bedtime Story“. Með aðal- hlutverk í þeirri mynd fóru David Niven og Marlon Brando. Einnig kom hún fram í þáttum sem Groucho Marx stýrði og í þætti Arts Linkletters. Í þeim síðarnefnda söng hún franskt lag en hún hafði verið í söngnámi hjá George Griffith, þekktum söngkennara í Hollywood. Hún var einnig í kvöldnámi í leiklistarskóla í Hollywood hjá Jack Apland. „Ég kunni vel við mig í heimi kvikmyndanna. Fólkið sem tilheyrði honum var skemmtilegt og yfirleitt ágætis fólk. Ég var 22 ára þegar ég kom til Hollywood. Þá var ég búin að ferðast um alla Evrópu með foreldrum mínum, hafði m.a. verið í skóla í Sviss þannig að ég var nokkuð veraldarvön. Tekjurnar sem ég hafði voru ágætar og hlutverkin hefðu orðið fleiri ef ég hefði verið innfædd. Ég tók þátt í samkvæmislífinu, fór oftast út með umboðsmanni mínum, bæði í leikhús og á frumsýningar á kvik- myndum. Ég kynntist mörgu frægu fólki eins og Melinu Mercouri og manni hennar Jules Dassin, sem gerði hina frægu kvikmynd „Never on Sunday“. Næstu ár á eftir bjó Sirrý í New York og starfaði mest við gerð sjónvarpsauglýsinga. „Eftir haustið 1966 var ég með annan fótinn hér heima. Veturinn 1967 starfaði ég við tískusýningar í Acapulco í Mexíkó. Flutti síðan til Kaliforníu aftur þangað til ég fór til Austurlanda fjær, Taílands, Singapúr, Hong Kong og Filippseyja. Á þessum stöðum kom ég fram í sjónvarpsþáttum, á skemmtunum á þekktum hótelum sem söngvari og í sjónvarps- auglýsingum. Síðan lá leiðin til Indlands og þaðan í kringum hnöttinn.“ Eftir að Sirrý flutti til Ís- lands, stundaði hún nám við HÍ og lauk BA-prófi í ensku og sænsku og starfaði um skeið sem framhaldsskólakennari. Anna Björns fór að leika í kvikmyndum í Hollywood eftir að hafa starfaði sem fyr- irsæta í Evrópu. Aðdragandinn var sá að Eileen Ford, sem rak eina þekktustu um- boðsskrifstofu fyrirsætna í heiminum, bauð henni að koma til New York og vinna fyrir sig. Árið 1977 fór Anna í vikufrí til Los Angeles. Notaði hún tímann þar til að fara á fund Ninu Blanchard sem var einskonar Eileen Ford vesturstrandarinnar. Blanchard útvegaði henni vinnu sem varð til þess að vikufríið hennar varð að átján ára búsetu í Kaliforníu. Öðru hvoru vann hún einnig í New York hjá frú Ford. Sem fyrirsæta starfaði Anna einkum við gerð leikinna sjónvarpsauglýsinga. Reyndi það á leikhæfileikana svo hún ákvað að nema leiklist. Hún segir að í LA sé völ á stór- kostlegri kennslu í leiklist en hún lærði hjá mörgum góðum leiklistarkennurum eins og Stellu Adler og Uta Hagen, fyrir utan að sækja dans- og söngkennslu. Til gamans má geta þess að Anna var í tímum hjá Joan Darling með leikaranum Jon Voight. Árið 1979 var ákveðið að gera framhald af kvikmyndinni „American Graffiti“ í leikstjórn George Lucas. Myndin hafði notið mikilla vinsælda og verið stökkpallur margra leikara eins og Harrisons Fords. Í handriti þeirrar myndar var að finna hlutverk stúlku af skandinavískum uppruna sem var eitt af aðalhlutverkunum. Anna fór í viðtal og fékk hlutverkið en mótleikari hennar var Paul LeMat. Anna var ekki komin með græna kortið en fékk leyfi hjá yfirvöldum til að leika hlutverk íslensku stúlkunnar vegna þess að enginn bandarískur leikari gat tekið það að sér, því persónan í kvikmyndinni talaði eingöngu íslensku. Þótt Anna fengi tilboð um kvikmynda- og sjónvarpsleik í kjölfarið þá segist hún ekki hafa getað tekið þeim vegna þess að hún hafði einungis atvinnuleyfi sem fyr- irsæta. Fannst henni það miður því boltinn var tekinn að rúlla. Það bætti úr skák að Anna hafði mikið að gera sem fyrirsæta. Hún fékk einkasamning við fyrirtækin Vidal Sassoon og Noxema um að koma fram í auglýsingum þeirra. Þegar hún svo loks fékk græna kortið þrem árum síðar fór hún að vinna í sjónvarpi og kvikmyndum. Eins og oft verður hlutskipti erlendra leikara segist hún einkum hafa fengið hlutverk „útlendinga“ eins og Þjóðverja eða Skandinava, þótt hún væri næstum alveg laus við allan hreim. „Ég var iðulega gestaleikari og nokkrum sinnum gestastjarna þar sem ég lék þá eitt aðalhlutverkið í þáttunum. Ég lék m.a. tvisvar á móti Pierce Brosnan sem lék aðalhlutverkið í þáttunum „Remington Steele“ og lék líka á móti honum í nokkrum auglýsingum. Anna segir að það hafi verið skemmtilegt að fá tækifæri til að leika í sjónvarps- auglýsingum hjá færum leikstjórum eins Tony Scott sem gerði „Top Gun“ og Adrian Lyne sem gerði „Fatal Attraction“. Anna lék líka eitt aðalhlutverkið á móti Malcolm McDowell í mynd sem heitir „Get Crazy“ og er grínmynd um tónlistar- iðnaðinn. Hún lék í fleiri kvikmyndum og varð númer tvö í lokaúrtaki fyrir þekktar kvikmyndir eins og „Wit- ness“ og „Splash“. „Það hefði óneit- anlega verið skemmtilegt að fá tæki- færi til að leika á móti Harrison Ford og Tom Hanks. En það var aldrei aðalmarkmið mitt í lífinu að vinna sem leikari í kvikmyndum. Þrátt fyrir það var þetta skemmti- legur bónus og ég er sátt við þessa ævintýralegu reynslu,“ segir hún. „Þegar ég var búin að lifa og starfa sem fyrirsæta og leikkona í yfir tíu ár, sem er í raun mjög langur tími í þessari atvinnugrein, var ég farin að missa áhugann. Ég var komin yfir þrítugt og farið að langa til að gera eitthvað annað. Enda miðast bæði fyrirsætustörf og kven- hlutverk í kvikmyndum að mestu leyti við ungt fólk. Það skemmtilega við þetta starf er hvað það er tilbreytingarríkt auk þess sem það er afar ánægjulegt að vinna með hæfileikaríku fólki, en þetta er tvímælalaust hörkuvinna. Í Los Angeles fékk ég áhuga á kvikmyndagerð og gerði tvær heimildarmyndir á ár- unum 1980–1987. Önnur myndin heitir Ást og stríð og fjallar um íslenskar konur sem áttu í sambandi við erlenda hermenn. Hin heitir Brasilíufararnir og segir sögu Ís- lendinga sem fóru til Brasilíu en báðar voru myndirnar sýndar hér í sjónvarpi. Undanfarin tíu ár hefur Anna rekið Yogastöð Vesturbæjar og síðastliðið vor út- skrifaðist hún frá Listaháskóla Íslands sem grafískur hönnuður. Bjarni Björnsson ALLT FRÁ TÍMUM ÞÖGLU MYND RIFJAÐUR ER UPP FERILL NOKK Pétur RögnvaldssonJóhann Pétursson

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.